Umdeild Biblía

Það eru nú meiri lætin vegna útkomu hinnar nýju Biblíu.

Hvað varðar hina nýju biblíu og þýðingu hennar vil ég bara segja það, að ég hefði aldrei trúað því að til væru jafn margir bókstafstrúarmenn á Íslandi og nú virðist vera að koma í ljós.  Í Kastljósþætti fyrir stuttu ræddu þeir um þessa nýju biblíu, Geir Waage, sóknarprestur í Reykholti og Hjörtur Magni Jóhannsson, fríkirkjuprestur.  Geir fann allt að þessari nýju biblíu og fullyrt að þetta væri í raun ekki þýðing, heldur væri um breytta Biblíu að ræða, horfið væri á mörgum stöðum frá hinum upprunalega frumtexta, sem á sínum tíma hefði verið höggvin í stein og ekki mætti breyta, en Hjörtur Magni var á þeirri skoðun að nú væri búið að færa margt til hins betra og auðveldara væri fyrir venjulegt fólk að lesa hana og skilja.  Ég er ekki mjög biblíufróður maður en hef eigi að síður mínar skoðanir og trú og hef nú þegar keypt mér þessa nýju biblíu.  Ég hef löngum vitað að séra Geir Waage væri alger sérvitringur, fordómafullur og löngu þekktur sem slíkur innan kirkjunnar og varð þess vegna ekki mjög hissa á hans skoðun sem fram komu í Kastljósþættinum.  En allt í einu bætist Geir liðsauki úr óvæntri átt og það frá manni sem ég hef talið vera fremur víðsýnan, en þar á ég við Illuga Jökulsson, rithöfund og blaðamann, en hann skrifar grein í blaðið 24 Stundir í gær sem hann kallar "Að breyta bók"  Í þessari grein er Illugi nánast að taka undir hvert orð Geirs Waage og veltir þar upp mörgum spurningum og svarar þeim síðan sjálfur.  Ekki skil ég hvað Illuga gengur til með þessum skrifum sínu og spyr vilja þeir félagar Geir Waage og Illugi að allt sé óbreytt og að við guðþjónustur í dag notuðu prestar ekki Biblíuna heldur frumtextann sem höggvin var í stein á sínum tíma og færi þá allar guðþjónustur fram á frummáli Biblíunnar, sem eru hebreska og gríska eða til einföldunar að notast við hina latnesku þýðingu frá árinu 400 og hafa þá allar Guðþjónustur á latínu?  Ætli Geir Waage yrði ekki fljótt þreyttur ef hann yrði að burðast með grjót við hverja guðþjónustu, því það verður hann að gera ef ekki má nota annað en frumtextann sem höggvin var í stein á sínum tíma.  Hvað varðar Illuga þá segir hann í inngangsorðum í sinni grein að hann hafi ekki komist til að skoða hina nýju útgáfu af Biblíunni af neinu viti en svo hrifinn virðist hann af málflutningi Geirs Waage að hann telur sig fullfæran um að gagnrýna þetta nýja verk.  Ég held að Illugi ætti að skoða þessa nýju Biblíu áður en hann skrifar meira um hana, ég er hræddur um að Illugi væri ekki ánægður að fá dóma á sín eigin ritstörf frá einhverjum sem aldrei hefði lesið hans  verk, aðeins heyrt einhverja vera að tala um þau. 

Síðasta útgáfan af biblíunni kom út 1912 og var þá mjög umdeild og af sumum kölluð "Heiðna biblían."  Að þessu sinni eru hinar svokölluðu apókrýfu bækur hafðar með en þær hafa ekki birts í íslenskum biblíuþýðingum frá því árið 1859.  Apókrúfu bækurnar urðu flestar til á síðustu tveimur öldum fyrir Krists burð og eru náskyldar yngri ritum Gamla testamentisins.  Elst íslensku biblíutextar, sem þekktir eru, eru varveittar í handritum frá 12. öld og segja má að frá þeim tíma hafi að mestu ríkt óslitin hefð í íslensku biblíumáli.

Nýja testamentið í þýðingu Odds Gottskáldssonar kom út í apríl 1540.  Þetta er elsta bók prentuð á íslensku sem hefur varðveist.  Biblían öll kom fyrst út í íslenskri þýðingu árið 1584.  Hún er kennd við Guðbrand Þorláksson, biskup á Hólum, og er eitt mesta afrek í bókaútgáfu á Íslandi.  Hún var 17. prentun Biblíunnar í öllum heiminum, talið eftir þjóðtungum.  Árið 1728 kom önnur þýðing Biblíunnar sem Steinn biskup Jónsson annaðist.  Það varð ekki fyrr en með 5. útgáfunni árið 1813 sem Biblían varð almenningseign á Íslandi.  Allar útgáfurnar voru byggðar á útgáfu Guðbrands og Steins þótt ýmsar breytingar væru gerðar.

Með stofnun Hins íslenska biblíufélags 10. júlí 1815 urðu straumhvörf í útgáfu Biblíunnar á íslensku.  Hvatamaður að stofnun félagsins var skoskur maður, Ebenezer Hendriksson.  Með tilkomu Hins íslenska biblíufélags var farið að vinna að nýrri þýðingu Biblíunnar úr frummálunum, hebresku og grísku.  Hún kom út árið 1841 og var prentuð í Viðey.  Styttri tími leið þar til fjórða þýðing biblíunnar kom út árið 1866, prentuð í Lundúnum.  Árið 1908 gaf Biblíufélagið út nýja heildarþýðingu sem, vegna gagnrýni sem hún fékk, var endurbætt um 1912.  Þetta er sú Biblía sem notuð hefur verið fram til þessa dags, þó með þeirri breytingu að í útgáfunni frá 1981 birtist ný þýðing á guðspjöllunum og Postulasögunni, auk þess sem smávægilegar breytingar voru gerðar á öðrum ritum.

Í nokkrar aldir var Biblía Vesturlanda fyrst og fremst latneska Biblían.  Guðþjónustur fóru fram á latínu og lesið var úr Biblíunni á latínu.  Um 400 gekk Híerónímus frá endurskoðun gömlu latnesku þýðinganna með hliðsjón af frumtextanum.  Þýðing hans er enn notuð í rómversk-kaþólsku kirkjunni og þekkt undir nafninu Vúlgata.  Siðarbótarmaðurinn Marteinn Lúther þýddi Nýja testamentið úr frummálinu á þýsku 1522 og Gamla testamentið nokkru síðar.  Um 1600 hafði Biblían verið þýdd á fjölmörg tungumál í Evrópu og víðar.  Það má teljast þrekvirki að íslensk Biblía skyldi koma út á prenti aðeins um fimmtíu árum eftir að Lúther þýddi Biblíuna á þýsku.  Áhrif 16. aldar þýðinganna gætti í síðari biblíuþýðingum íslenskum og þeirra sér enn merki í nýju þýðingunni.

Biblían hefur algjöra sérstöðu í heimi bókmenntanna.  Engin bók hefur náð meiri útbreiðslu en hún og haft víðtæk áhrif á trú, sögu og menningu fjölmargra þjóða víða um heim.  Biblían er trúarbók um tveggja milljarða manna.  Skáld og rithöfundar, myndlistarmenn og tónlistarmenn, hafa sótt til hennar hugmyndir og túlkað boðskap hennar með list sinni og gera enn í dag.  Íslendingar og íslensk menning er þar engin undantekning.

Biblían er eitt rit í þeirri merkingu að hún er oftast bundin í eina bók milli tveggja spjalda.  Hinsvegar eru í henni mörg sjálfstæð rit sem hafa orðið til á löngum tíma af margvíslegu tilefni.  Á grísku merkir orðið BIBLÍA sama og BÆKUR.  Á latínu varð þetta síðan eintöluorð og þaðan höfum við orðið BIBLÍA sem merkir BÓK.  Yngsta rit Biblíunnar var skrifað um 100 e.Kr. og elstu ljóðin eru talin 1200-1300 árum eldri.  Biblían skiptist í tvo hluta, Gamla testamentið (ásamt apókrýfu bókunum) og Nýja testamentið.  Orðið testament merkir sáttmáli og mætti því kalla þessa tvo hluta Gamla sáttmála og Nýja sáttmála.

Gamla testamentið er safn helgirita Gyðinga.  Það var einnig heilög ritning Jesú og hinna fyrstu kristnu manna og er hluti af heilagri ritningu kirkjunnar á okkar dögum.  Nýja testamentið er safn rita sem kristin kirkja hefur bætt við helgisafn Gyðinga.  Saman mynda bæði testamentin helgiritasafn kristinna manna.

Geir Waage segist ekki ætla að nota þessa nýju útgáfu af Biblíunni við sitt helgihald heldur nota hina eldri sem hlýtur að vera sú sem var gefin út 1912 og kölluð "Heiðna Biblían".  Miðað við það sem ég hef ritað hér að ofan hafa margir komið að þýðingu Biblíunnar í gegnum aldirnar og hver gefur Geir Waage og Illuga Jökulssyni, þann rétt að geta fullyrt hver er hinn eini og sanni texti í hinu mesta helgiriti kristinna manna?  Ég sem kristinn maður tel mig hafa fullt leyfi til að ákveða sjálfur hvaða útgáfu af Biblíunni, ég kýs að lesa og þarf hvorki leiðbeiningar frá mínum gamla skólabróður séra Geir Waage eða Illuga Jökulssyni.  Þeir geta glímt við það erfiða verkefni að túlka texta sem höggvin var í stein á sínum tíma, mín vegna.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Sæll.

Áður en þú segir of mikið um hvað sé rétt og hvað rangt í því sem sr. Geir Waage fullyrti í Kastljósþættinum, þá ættirðu kannski að kynna þér það sem Jón Valur Jensson guðfræðingur og þýðandi gömlu tungumálanna segir í bloggi sínu um þetta á slóðinni : 

http://jonvalurjensson.blog.is/blog/jonvalurjensson/entry/342362/

Eitt er að þýða það sem texti þýðir, annað er að taka sér skáldaleyfi og segja annað en frumtexti gefur til kynna. Ég held að ef þessi þýðing hefði verið verkefni í menntaskóla á þýðingu texta, þá hefðu þessir menn ekki fengið háa einkunn.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 28.10.2007 kl. 14:03

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Það er mikill styrr um þýðingu biblíunnar.  Svo er að vita hver eftirmálinn verður. Hvort menn fara að hafa hver sína útgáfuna, eftir því hvað honum finnst.  En mér skilst að Gunnar í Krossinum ætli að halda sig við gömlu þýðinguna.  Tók þetta ekki annars 20 ár ?

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 28.10.2007 kl. 14:53

3 Smámynd: Jakob Falur Kristinsson

Ég get sagt þér predikari, að ég er fullfær um að mynda mér skoðanir án þess að fá leiðbeiningar frá Jóni Val.  Af þeim manni og öllu hans bulli og miðaldarhugsanahætti fékk ég miklu meira en nóg í ritdeilu um fóstureyðingar á síðunni hjá Höllu Rut á sínum tíma.

Gunnar í Krossinum er nú einn sérvitringurinn í viðbót, Ásthildur, sem allt þykist vita.  Það er rétt hjá þér að þessi nýja þýðing tók 20 ár, þannig að þetta var unnið eins vel og hægt var og tekinn allur sá tími sem þurfti.

Jakob Falur Kristinsson, 28.10.2007 kl. 18:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jakob Falur Kristinsson
Jakob Falur Kristinsson

Ég er fyrrverandi vélstjóri og útgerðarmaður en er nú 75% öryrki eftir slys á sjó 2003. Bjó lengst af á Bíldudal en flutti til Sandgerðis haustið 2005.  En er nú aftur fluttur á Bíldudal.  Að svo miklu leyti sem myndir á síðunni eru eftir Mats Wibe Lund, þá liggur fyrir tímabundið samþykki hans um birtingu hjá mér og þakka ég honum sérstaklega fyrir.  Mats á að sjálfsögðu hönundaréttin að öllum sínum myndum.  Vilja menn sjá fleiri myndir þá vísast á www.mats.is  Ég  var flokksbundinn í Frjálslynda flokknum og hef starfað þar, en sagði mig úr flokknum 24. apríl og gekk í Samfylkinguna.  Föðurætt mín er úr Arnarfirði og móðurættin frá Jökulfjörðum og Hornströndum og í báðum tilfellum, langt aftur í aldir.  Er ég því ekta Vestfirðingur.

Undir fyrirsögninni Færsluflokkar er flokkur sem heitir Vefurinn og ef smellt er á hann opnast síður þar sem ég er að skrifa ýmsar frásagnir.  Einnig er undir liðnum spaugilegt smá grín ofl. 

Ég leyfi öllum að skrifa athugasemdir við mín skrif.   En af gefnu tilefni hef ég ákveðið að þeir sem ekki kunna sér hófs í athugasemdum og nýta þær til persónulegra árása á mig og mína persónu, með allskonar skömmum og svívirðingum, mun ég hér eftir loka á slíka aðila.  Einnig mun ég henda út nafnlausum athugasemdum.  Því ég einn ber ábyrgð á því sem skrifað er á mína síðu.

jakobkr@internet.is     

GSM: 823-2954

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband