Íbúðakaup

Margt fólk á aldrinum 30-39 ára, og ungt fjölskyldufólk, hefur reynt að kaupa sér húsnæði í fyrsta sinn en orðið að hætta við, og meirihluti þeirra sem vilja kaupa sitt fyrsta húsnæði býst við að lenda í greiðsluerfiðleikum. Þetta er meðal þess sem fram kemur í niðurstöðum könnunar sem gerð var fyrir félagsmálaráðuneytið.

Þetta kemur ekkert á óvart því allar þessar vaxtahækkanir hljóta að hafa þessar afleiðingar.  En hinsvegar má heldur ekki horfa fram hjá því að í dag eru kröfur hjá fólki orðnar svo miklar að engum dettur í hug að flytja í nýja íbúð nema allt sé fullbúið og bíði nýjustu tegundum af heimilistækjum og lóðir séu fullfrágengnar og jafnvel að öll húsgögn séu keypt ný í íbúðinna.  Þetta af leiðir til þess  að íbúðir er auðvitað miklu dýrari en ef fólk væri ekki svona kröfuhart.  Það  halda margir að hér áður fyrr hafi þetta allt verið svo mikið léttara en það er mikill misskilningur.

Ég t.d. byggði mér einbýlishús um 135 fm.+ 35 fm. bílskúr á Bíldudal á sínum tíma og þá var nú lánaumhverfið ekkert glæsilegt.  Lánsfjárhæð var föst krónutala frá Húsnæðismálastofnun sem var forveri Íbúðalánasjóðs.  Þá þurfti að byrja á að fá lánsloforð sem maður fór síðan með í sinn viðskiptabanka og fékk víxillán útá þetta lánsloforð og þessari víxlasúpu varð síðan að framlengja þar til húsið var fokhelt en þá greiddi Húsnæðisstofnun 50% af lánsloforðinu en hin 50% áttu síðan að koma þegar húsið taldist vera íbúðarhæft.  Ég byrjaði á þessari framkvæmd haustið 1973 og til að hafa einhverja peninga í byrjun seldi ég nýlega bíl sem ég átti.   Þegar ég var búinn að fá lóð og teikningar var hafist handa og grafið fyrir grunninum og fyrir það þurfti ég að sjálfsögðu að greiða.  Þá kom að kaupum á mótatimbri og steypustyrktarjárni og gat ég greitt það.   Allan mótauppslátt fyrir grunninum og járnabindingu vann ég sjálfur með föður mínum og fékk frænda minn til að vera skráðan sem byggingarmeistara.  Þegar kom að því að steypa undirstöður þurfti að kaupa steypu og þá varð ég að taka fyrsta víxilinn.  Síðan kom að því að fylla grunnin með grús og gat ég samið við kunningja minn sem átti vörubíl með krana til að gera það fyrir mig fyrir lítinn pening,  þá unnum við feðgar við alla járnabindingu og einangrun undir gólfplötu auk þess að leggja skolplagnir og smíða mót fyrir væntanlegar vatnslagnir sem vera áttu í gólfinu og síðan var steypt gólfplatan og enn bættist við víxill.  Þar sem langt var liðið á haustið þótti ekki ráðlegt að gera meira fyrir veturinn.  Um vorið samdi ég við byggingarvertaka um að slá upp fyrir öllum veggjum og koma fyrir gluggum hurðraðamótum og  þaksperrum og bættist nú hraustlega við víxlasúpuna.  Í lok sumars 1974 var húsið loksins uppsteypt.  Allt mótatimbrið höfðum við hjónin unnið við að naglhreinsa og hreinsa steypuleifar af og unnum við við þetta á kvöldin og um helgar, því ætlunin var að nýta það í þakklæðningu.  Þá tókum við feðgar til við að klæða þakið og síða þurfti að kaupa þakjárn og rennur og var tekinn einn víxill í viðbót.  Öllum gluggum var lokað með byggingarplasti og útihurð smíðuð úr mótatimbri.  Nú taldist húsið vera orðið fokhelt og var þá afgreitt 50% af væntanlegu láni sem fór til að greiða víxlana en allri þeirri súpu varð að framlengja reglulega með tilheyandi kostnaði.  Þar sem nú var hægt að hita upp húsið var veturinn nú nýttur til að vinna inn í húsinu.  Við feðgar ásamt móðurbróður eiginkonu minnar slógum nú upp fyrir milliveggjum og hlóðum þá og lögðum einnig allar vatnslagnir.  Allt efni sem þurfti að nota við þær framkvæmdir voru greiddar með því að byrja aftur í víxillánunum auk þess sem ættingjar lánuðu mér peninga. Einnig fékk ég rafvirkja til að leggja allar röralagnir sem átti síðan að draga raflagnir í.  Faðir minn og móðurbróðir konunnar einöngruðu nú allt loftið og klæddu þau síðan með plötum nema stofuna þar var bar haft plast undir einangruninni, þar sem að ætlunin var að hafa lofthæð þar mun hærri en í hinum herbergjunum.  Um vorið  keypti ég nú allt glerið sem þurfti í gluggana og settu þeir það í , en ekki var sett gler í lausafögin í gluggunum, heldur var þar settur krossviður., til að spara.  Allt þetta varð að fjármagna með víxillánum.  Vorið 1975 fékk ég múrara til að múra húsið allt að utan og innan og leggja í gólf, að því loknu kom rafvirkinn aftur og dró í allar raflagnir, gekk frá rafmagnstöflu og tengdi alla ofna, en húsið var hitað upp með rafmagni.  Þá var loksins komið að því að hægt var farið að mála og unnum við hjónin við það nær öll kvöld og allar helgar og fengum einnig aðstoð frá ættingjum og vinum.  Allt var málað í sama lit sem átti fyrst og fremst að þjóna þeim tilgangi að rykbinda gólf og veggi, ekki var hugað að því að mála utanhúss.  Við þrír sem höfðum mest unnið við húsið smíðuðum nú bráðabirgðar eldhúsinnréttingu og tengdum klósett, baðkar og vaska og var nú víxlasúpan orðin ansi stór og miklir peningar fóru í að framlengja þeim alltaf.  Í september 1975 fluttum við svo inn í nýja húsið og þá fékkst afgreitt seinni hluti lánsins og fór það allt til greiðslu á víxlum og dugði ekki til og urðum við að taka lán hjá lífeyrissjóðum til að klára að gera þá alla upp.  Þar sem ekki voru neinar innihurðir komnar þá saumaði konan mín hengi fyrir hverja dyr, sem síðan var fest upp með gardínugormum og sama var gert við skápa í eldhúsinnréttingunni.  Þegar við fluttum inn var ástandið á húsinu þannig:

Ekkert var á gólfum nema málning, öll ljós voru svokölluð rússnesk ljós, sem er aðeins perustæði með ljósaperu í, eldhúsinnrétting var fremur fátækleg, eldavélin var gömul sem einhver hafði gefið okkur, útihurðin var gömul hurð sem við fengum úr húsi sem hafði verið rifið, ekki var nein útihurð á þvottahúsinu aðeins lokað með krossviði, engar innihurðir og allt var þetta í þessum sama stíl.  Eftir að við höfðum flutt inn í húsið tók ég saman allan þann kostnað sem ég hafði þurft að greiða og kom þá í ljós að húsnæðislánið hafði dugað fyrir um 60% af þeirri upphæð en 40% var lánsfé frá ættingjum og jafnvel gjafir og skammtímaskuldir í banka, þó var samt eftir að ljúka um 30% af húsinu og var ekki reiknað inn í þá tölu öll sú vinna sem ekki þurfti að greiða fyrir.  Næstu 10 til 15 árin unnum við síðan að því að klára það sem eftir var eftir efnum og aðstæðum því allt reyndum við að vinna sjálf, við keyptum nýja eldhúsinnréttingu, flísalögðum baðherbergið, ég klæddi allt loftið í stofunni með panel og lagði parket á nær öll gólf, nýjar útihurðir voru keyptar, einnig keyptum við fljótlega innihurðir og var þá keypt það sem var ódýrast eða svokallaðar fulningarhurðir og þegar við keyptum þær voru þær ómálaðar en við lökkuðum þær sjálf.  Ég smíðaði stóran og mikinn sólpall við vesturenda húsins og síðan var þar sett svalahurð og hægt að ganga úr stofunni út á pallinn.  Við máluðum fljótlega sjálf húsið allt að utan og fengum okkur gler í lausafögin í gluggunum.  Þegar allt var komið og búið að ganga frá lóð hafði þetta verkefni okkar hjóna tekið nær 20 ár.  Þannig að þegar allt var búið hefur húsnæðislánið sennilega ekki verið meira en 10-15% af öllum byggingarkostnaði.  Það er rétt að taka það fram að auðvitaði hjálpaði okkur mikið hin mikla verðbólga sem stöðugt lækkaði lánin sem við höfðum tekið en þá ber einnig að líta á að þar sem húsið var á Bíldudal hækkaði það ekkert í samræmi við verðbólguna eins og víða skeði.

Nú hugsa kannski margir að það sé miklu auðveldara að byggja út á landi því lóðarverð sé lágt og er það rétt hvað lóðarverðið varðar en á móti kemur allur flutningskostnaður á efni og ekki er stokkið út í næstu byggingarvöruverslun ef eitthvað vantar.  Allt varð að panta frá Reykjavík, eins er rétt að taka það fram að ég varð að fá rafvirkjann frá Patreksfirði og múrarana frá Flateyri og kosta ferðir þeirra og uppihald á staðnum.  Þannig að ef allt er tekið með í reikninginn er munurinn kannski ekki svo mikill.  Á sama tíma og ég var að byggja þetta hús var bróðir minn að byggja raðhús í Reykjavík og ég held að ekki hafi verið mikill verðmunur á okkar byggingum.  Hins vegar þegar missti ég mitt hús vegna gjaldþrots minnar útgerðar árið 2001 og skömmu síðar var það selt af Landsbankanum fyrir 6-7 milljónir en hús bróður míns er örugglega metið vel yfir 30 milljónir.  Ef ég hefði á sínum tíma valið þá leið sem flestir gera í dag og samið við vertaka að byggja mitt hús eftir þeim teikningum sem ég hafði og afhenda mér síðan fullbúið að utan sem innan þá hefði sú upphæð verið svo há að ég hefði ekki látið mér detta það í hug að ráðast í slíka framkvæmd og var ég nú í mjög tekjuháu starfi.  Það hefði ekki skipt neinu máli hvort lánshlutfall hefði verið 80% eða 100% og hvort vextir hefðu verið 4,15% eða rúm 6%.  Það hefði verið jafn vonlaust dæmi hvernig sem á það hefði verið litið.

Það hefur alltaf verið mikið basl og þrotlaus vinna að koma sér upp þaki yfir höfuðið á Íslandi, það er ekkert að byrja í dag.  Ég sá í sjónvarpinu viðtal við unga konu sem sagðist vera að leita sér að íbúð og hún hefði haft til viðmiðunar að íbúðin mætti kosta 25 milljónir en nú eftir vaxta hækkun yrði hún að lækka sig og leita að íbúð sem kostaði ekki meira en 20 milljónir.  Er þetta svo gríðarleg fórn hjá þessari konu miðað við það sem ég hef rakið hér á undan?  Ég held ekki.


mbl.is Margir hafa orðið að hætta við íbúðakaup
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jakob Falur Kristinsson
Jakob Falur Kristinsson

Ég er fyrrverandi vélstjóri og útgerðarmaður en er nú 75% öryrki eftir slys á sjó 2003. Bjó lengst af á Bíldudal en flutti til Sandgerðis haustið 2005.  En er nú aftur fluttur á Bíldudal.  Að svo miklu leyti sem myndir á síðunni eru eftir Mats Wibe Lund, þá liggur fyrir tímabundið samþykki hans um birtingu hjá mér og þakka ég honum sérstaklega fyrir.  Mats á að sjálfsögðu hönundaréttin að öllum sínum myndum.  Vilja menn sjá fleiri myndir þá vísast á www.mats.is  Ég  var flokksbundinn í Frjálslynda flokknum og hef starfað þar, en sagði mig úr flokknum 24. apríl og gekk í Samfylkinguna.  Föðurætt mín er úr Arnarfirði og móðurættin frá Jökulfjörðum og Hornströndum og í báðum tilfellum, langt aftur í aldir.  Er ég því ekta Vestfirðingur.

Undir fyrirsögninni Færsluflokkar er flokkur sem heitir Vefurinn og ef smellt er á hann opnast síður þar sem ég er að skrifa ýmsar frásagnir.  Einnig er undir liðnum spaugilegt smá grín ofl. 

Ég leyfi öllum að skrifa athugasemdir við mín skrif.   En af gefnu tilefni hef ég ákveðið að þeir sem ekki kunna sér hófs í athugasemdum og nýta þær til persónulegra árása á mig og mína persónu, með allskonar skömmum og svívirðingum, mun ég hér eftir loka á slíka aðila.  Einnig mun ég henda út nafnlausum athugasemdum.  Því ég einn ber ábyrgð á því sem skrifað er á mína síðu.

jakobkr@internet.is     

GSM: 823-2954

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband