Ríkisútvarpið ohf.

Nú eru miklir erfiðleikar hjá hinu nýja fyrirtæki og ekkert nema niðurskurður og sparnaður framundan.  En ansi þykir mér útvarstjórinn taka einkennilega á þessum málum og finnur ekkert athugavert við hvernig hann hefur stýrt þessu fyrirtæki.  Erfiðleikarnir eru öllum öðrum að kenna en honum sjálfum. Hann ásakar menntamálaráðherra, Þorgerði Katrínu fyrir að vilja ekki leyfa hækkun á afnotagjöldum um 30% og segir að ríkisvaldið hafi ekki staðið við loforð sín um aukna fjármuni til RÚV og nú verði að fækka um 20 stöðugildi hjá fyrirtækinu og auðvitað var ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur og þar á ég við að fyrstu uppsagnirnar eru hjá Svæðisútvarpi RÚV á Ísafirði, Akureyri og Egilsstöðum.  Það var ekki verið að hugsa um sparnað þegar RÚV yfirbauð einkareknu sjónvarpstöðvarnar um sýningar frá heimsmeistaramótinu í knattspyrnu en það mun hafa kostað RÚV yfir 100 milljónir.  Einnig hef ég heyrt að þátturinn "Silfur Egils" kosti RÚV um 100 milljónir á ári.  Sjálfur ekur Páll Magnússon um á 10 milljóna króna jeppa og bensínkostnaður í samræmi við það.  Ég er viss um að ef þessi jeppi hefði verið seldur hefði sparast meiri peningar en uppsagnirnar út á landi gera.  Enda er það stór spurning til hvers þarf útvarpsstjórinn að aka um á svona dýrum bíl til að komast á milli húsa í Reykjavík.  Sú breyting að RÚV var gert að hlutafélagi þýðir það að það þarf að aðlaga reksturinn að tekjum en ekki eyða fyrst og væla svo í menntamálaráðherra um meiri peninga til að borga bruðlið.  Ef Páll Magnússon ræður ekki við að reka þetta fyrirtæki þá á hann að sjálfsögðu að segja upp sínu starfi.  RÚV hefur forskot á aðrar sjónvarpsstöðvar með því að það er skylduáskrift að þessu fyrirtæki í formi afnotagjalda og allir sem eiga sjónvarps- eða útvarpstæki eru neyddir til að greiða burt séð frá því hvort þeir hafi möguleika á að ná útsendingum eða ekki.  Í öll þau ár sem ég gerði út báta og togara voru sjónvarpstæki um borð í skipunum og voru nær eingöngu notuð til að horfa á videospólur því víða náðist útsendingar RÚV ekki, en samt varð að greiða þetta afnotagjald.  Og af því ég er að skrifa hér um afnotagjöld RÚV dettur mér í hug atburður sem skeði vestur á Bíldudal þegar ég bjó þar.

Á tímabili var slík harka í að innheimta afnotagjöld fyrir RÚV að ráðnir voru menn til að aka um landið og leita að því hvort einhver væri með sjónvarp, sem ekki væri greitt af.  Þessir menn komu á Bíldudal eins og á aðra staði.  Þá bjuggu þar öldruð hjón sem hétu Málfríður og Gestur og var Gestur bróðir Gísla á Uppsölum og samkvæmt þeirra hugarfari taldi Gestur að sjónvarp væri hinn mesti skaðvaldur og keypti því aldrei slíkt tæki.  Eftirlitsmennirnir komu að húsi þeirra hjóna og kom Málfríður til dyra.  Þeir spurðu eftir Gesti og aumingja konan stundi upp að hann væri nú ekki lengur hér.  "Nú hvar getum við fundið hann sögðu þeir."  Hann er í kirkjugarðinum svaraði konan og án þess að hún gæti útskýrt málið betur voru mennirnir komnir inní bílinn og brunuðu í átt að kirkjugarðinum.  Þegar þangað var komið var þar við vinnu Jón Kr.Ólafsson söngvari, sem er einstaklega orðheppinn maður.  Þeir spurðu Jón, hvort Gestur Gíslason væri ekki staddur í þessum garði, því þeir þyrftu að tala við hann um afnotagjöld af sjónvarpi.  Jón var snöggur uppá lagði og sagði "hann er þarna" og benti á ákveðinn stað í garðinum "en ég er hræddur um að hann sé upptekinn og veiti ekki viðtöl".   Mennirnir fóru á þann stað sem Jón hafði bent á og þar var legsteinn, sem á stóð Gestur Gíslason fæddur þann??? og dáinn þann ???.  Mennirnir urðu talsvert vandræðalegir og á leið sinn út úr garðinum gengu þeir framhjá Jóni Kr. aftur og þá gat Jón ekki stillt sig og sagði "Jæja borgaði karlinn ekki?"  Nei hann er dáinn sögðu þeir.  "Ja hérna nú er ég aldeilis steinhissa" sagði Jón Kr.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jakob Falur Kristinsson
Jakob Falur Kristinsson

Ég er fyrrverandi vélstjóri og útgerðarmaður en er nú 75% öryrki eftir slys á sjó 2003. Bjó lengst af á Bíldudal en flutti til Sandgerðis haustið 2005.  En er nú aftur fluttur á Bíldudal.  Að svo miklu leyti sem myndir á síðunni eru eftir Mats Wibe Lund, þá liggur fyrir tímabundið samþykki hans um birtingu hjá mér og þakka ég honum sérstaklega fyrir.  Mats á að sjálfsögðu hönundaréttin að öllum sínum myndum.  Vilja menn sjá fleiri myndir þá vísast á www.mats.is  Ég  var flokksbundinn í Frjálslynda flokknum og hef starfað þar, en sagði mig úr flokknum 24. apríl og gekk í Samfylkinguna.  Föðurætt mín er úr Arnarfirði og móðurættin frá Jökulfjörðum og Hornströndum og í báðum tilfellum, langt aftur í aldir.  Er ég því ekta Vestfirðingur.

Undir fyrirsögninni Færsluflokkar er flokkur sem heitir Vefurinn og ef smellt er á hann opnast síður þar sem ég er að skrifa ýmsar frásagnir.  Einnig er undir liðnum spaugilegt smá grín ofl. 

Ég leyfi öllum að skrifa athugasemdir við mín skrif.   En af gefnu tilefni hef ég ákveðið að þeir sem ekki kunna sér hófs í athugasemdum og nýta þær til persónulegra árása á mig og mína persónu, með allskonar skömmum og svívirðingum, mun ég hér eftir loka á slíka aðila.  Einnig mun ég henda út nafnlausum athugasemdum.  Því ég einn ber ábyrgð á því sem skrifað er á mína síðu.

jakobkr@internet.is     

GSM: 823-2954

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband