Jósafat Arngrímsson

 Jósafat Arngrímsson. Jósafat Arngrímsson varð bráðkvaddur á heimili sínu í Dublin á Írlandi þann 13. júlí síðastliðinn. Hann var fæddur á Mýrum 12. maí árið 1933.

 

Þá er hinn merki maður Jósafat Arngrímsson látinn og blessuð sé minning hans.  Ég þekkti aldrei Jósafat en Það eru til margar sögur um þennan mann sem væri efni í heila bók, bæði satt og logið en ég kann bara lítið af þeim og læt það koma hér á eftir.  Eins og ég sagði þá þekkti ég manninn ekkert svo vel gæti verið að sumt af því sem ég skrifa hér á eftir sé ekki rétt og bið ég ættingja afsökunar á því.  Jósafat var einn af okkar bissnesmönnum sem skildi eftir sig spor hvar sem hann kom við sögu.  Slíkir menn eru að verða fá séðir í dag og margt af því sem hann gerði og var ásakaður fyrir telst löglegt í dag og er stundað af hvítlibba-drengjum með háskólapróf.  Jósafat var umsvifamikill í atvinnurekstri á Suðurnesjum á meðan hann bjó í Keflavík.  Ég held að hann hafi stofnað verslunina Stapafell sem enn er til.

Það fyrsta sem ég heyrði um þennan mann að hann lenti í vandræðum með eitt fyrirtæki sem hann rak og það fyrirtæki sá um þrif ofl. fyrir ameríska herinn á Vellinum.  Hjá þessu fyrirtæki störfuðu fjöldi manna enda verkefnið stórt.  Eitt árið fóru að koma kvartanir til Skattstjóra um að verið væri að leggja skatta á látna menn.  Þegar það mál var rannsakað kom í ljós að hjá þessu hreingerningarfyrirtæki Jósafats var fjöldi látinna mann á launaskrá og herinn borgaði Jósafat fyrir þá eins og aðra.  Mig minnir að þessu hafi lokið með sátt og Jósafat greiddi skattinum en var auðvitað ekkert að leiðrétta það við herinn enda var allt þrifið sem herinn hafði óskað eftir.

Þegar Jósafat var að hefja sinn atvinnurekstur var oft skortur á lánsfé og til að getað alltaf staðið í skilum með laun, fékk hann góða hugmynd og framkvæmdi hana.  Á þessum árum voru ekki til neinar tölvur og ekkert samstarf banka og sjóða og Reykjanesbrautin ekki komin var það því talsvert ferðalag að fara á milli Keflavíkur og Reykjavíkur.  Þá var einnig mjög algengt að símsenda peninga á milli staða um allt land.  Það sem Jósafat gerði var að hann fór á föstudagsmorgnum til Reykjavíkur og þar á pósthús og skrifaði gúmmítékka á tékkareikning sem hann hafði stofnað  einhverstaðar langt frá Keflavík mig minnir að hafi verið norður á Akureyri, sem dugðu fyrir laununum og símsendi til Keflavíkur og ók síðan til baka og fór á pósthúsið í Keflavík og fékk peningana útborgaða og greiddi sínu fólki launin.  Á þessum árum voru allar ávísanir frá sparisjóðum landsins sendir í Seðlabankann sem síðan sendi þá í viðkomandi sparisjóð og ef ekki var til innistæða sendi viðkomandi sparisjóður útgefanda tékkans bréf og tilkynnti að viðkomandi upphæð yrði að greiða fyrir ákveðinn tíma.  Það gátu liðið vikur þar til Jósafat fékk greiðsluáskorun frá sparisjóðnum.  Póstsamgöngurnar voru nú ekki betri þá.  Alltaf passaði Jósafat að eiga peninga sem hann gat símsent í viðkomandi sparisjóð svo ekki hlutust af þessu nein vandræði fyrir hann.  En eins og oft vill verða gerast menn full gráðugir og þar kom að þessi tékkahringur sprakk með látum.  Í framhaldi var gengið að Jósafat og missti hann allt sem hann átti og varð gjaldþrota.  En hann gafst ekki upp heldur flutti til Dublin á Írlandi og hóf að stunda þar ýmis fasteignaviðskipti og efnaðist vel.  Var hann vinsæll meðal sinna viðskiptavina enda maðurinn prúðmenni hið mesta og kom vel fyrir.  Viðskiptavit virtist vera manninum meðfætt.

Um 1980 geisaði borgarastyrjöld í Nígeríu og var stofnað ríkið Biafra og um leið lokaðaðist okkar mikilvægasti markaður fyrir skreiðarafurðir.  Nígería er auðugt land af olíulindum og áður en þessi viðskipti hættu voru Nígeríu menn að greiða hærra verð fyrir skreiðina pr. kg. en fékkst fyrir kílóið af þorski í neytendapakkningum í Bandaríkjunum.  Ég tók þátt í þessu skreiðarævintýri á Bíldudal á sínum tíma og hagnaðurinn af skreiðinni var ævintýralegur.  Hátt verð og kostnaður í lámarki.  En Það voru einmitt héruðin í Biafra sem borðuðu mest af skreið.  En nú var markaðurinn lokaður en þó tókst að selja skreið með því að múta stjórnmála- og embættismönnum í Nígeríu, ég man t.d. eftir að íslenska ríkið aðstoðaði útflytjendur á skreið með greiðslur á mútum og varði til þess nokkur hundruð milljónum.  Múturnar fóru fram í gegnum sendiráð okkar í London.  Þarna sá Jósafat ákveðið viðskiptafæri og kom sér upp góðum samböndum í Nígeríu og seldi skreið meðal annars frá Íslandi.  Norðmenn voru líka í sömu vandræðum og Íslendingar og sátu uppi með mikið magn af skreið, sem ekki seldist og þeir fréttu af Jósafat og höfðu samband við hann og seldi hann fyrir þá talsvert en Norðmennirnir ætluðu að plata Jósafat og sögðu alltaf að greiðslurnar fyrir mútur yrðu greiddar seinna.  Þetta var nærri því búið að rústa fjárhag Jósafats og hann hugsaði Norðmönnum þegjandi þörfina.

Nú hafði Jósafat samband við hina Norsku aðila og bauð þeim að selja fyrir þá alla skreið sem til væri í Noregi en fyrst þyrfti hann að fá afhent nokkur hundruð milljónir í dollurum í mútugreiðslur og bað þá að hitta sig í London.  Norsk yfirvöld höfðu af þessu nokkrar áhyggjur, því það var eins hjá þeim og á Íslandi að ríkið fjármagnaði mútugreiðslurnar.  En eftir mikinn þrýsting frá norskum bönkum sem áttu veð í skreiðinni var þetta samþykkt og þar sem um var að ræða mikla peninga sem átti að afhenda Jósafat voru menn úr utanríkisþjónustu Noregs sendir með seljendum á fund Jósafats.  Jósafat undirbjó þetta vel og setti nánast upp leikrit.  Í Englandi eru fjöldi herragarða sem menn hafa fengið í arf en ekki haft efni á að búa þar eða halda þeim við.  Nú leigði Jósafat einn slíkan og einnig nokkra leikara og leigði sér herbergi á einu dýrasta hóteli sem hann fann í London mútaði dyravörðum og þjónum og útskýrði fyrir þeim þeirra hlutverk.  Síðan beið hann á sínu herbergi eftir sendinefndinni frá Noregi.  Þegar þeir höfðu síðan samband sagði Jósafat þeim að koma á hótelið og spyrja eftir sér og þá kæmi hann niður í lobbýið og ræddi við þá.  Þegar Norðmennirnir koma síðan að hótelinu opnar prúðbúinn dyravörður bifreiðina og þeir spyrja eftir Mr. Arngrímsson og er þá hringt í Jósafat og skömmu seinna kom hann prúðbúinn eins og aðalsmaður og þjónar og dyraverðir hneigðu sig allir fyrir þessum tigna gesti.  Jósafat sagði þeim norsku að það væri siður á Íslandi að þegar menn væru að gera stóra samninga að bjóða mönnum heim og nú ætlaði hann að gera það og bað dyravörðinn að kalla á sinn bílstjóra og biðja hann að koma því ekki vildi hann fara í bílnum sem þeir norsku höfðu komið með, sem var bara venjulegur leigubíll.  Eftir smá stund kemur þessi stærðar limmósía með einkennisklæddum bílstjóra og dyraverðirnir opnuðu bílinn og Jósafat og þeir norsku fóru inn í bílinn.  Jósafat sagði við bílstjórann að hann þyrfti að skreppa aðeins heim og var þá ekið út á flugvöll og þar beið þyrla og einkennisklæddur flugmaður.  Norðmenn tóku efir því að þyrlan var merkt á báðum hliðum Mr. Arngrímsson og hugsuðu með sér að maðurinn hlyti að vera moldríkur.  Síðan var flogið í smástund og lent við þennan líka flotta herragarð, þar tók á móti þeim hópur af þjónum (allt leikarar) sem hneigði sig í bak og fyrir og flestir sögðu Welkome home Mr. Arngrímsson Jósafat bað flugmanninn að koma aftur eftir  3-4 tíma.  Síðan var gengið aðeins til hliðar og þar beið heilt veisluborð og kampavínflöskur í röðum og þjónar á fleygi ferð.  Þegar gestirnir höfðu borðað, sagði Jósafat hvort væri ekki rétt að snúa sér að viðskipunum og smellti fingrum og um leið kom þjónustuliðið og fjarlægði allt og á skömmum tíma var veisluborðið orðið að fundarborði.  Norðmennirnir voru búnir að innbyrða talsvert magn af kampavíni og koníaki af dýrustu gerð og nú treystu þeir Jósafat 100%.  Jósafat dró upp úr skjalatösku sinni sölusamning á allri norskri skreið en áður en hann afhenti þeim samninginn eftir undirskrift þá vildi hann fá peningana fyrir mútunum og fékk þá afhent skjalatösku með nokkrum milljónum dollara.  Hann sagði þeim að útvega stórt flutningaskip til að flytja alla skreiðina til Nígeríu og hann myndi láta þá vita hvenær skipið ætti að fara af stað.  Síðan kom þyrlan og aftur var flogið til London og Jósafat fór á sitt hótel en Norðmennirnir á flugvöllinn til að fara heim og voru nú heldur betur ánægðir að málin væru leyst.  Daginn eftir fór Jósafat til Duflin og þeir Norsku voru komnir heim og biðu eftir símtali um hvenær ætti að senda skreiðina.  En það símtal kom aldrei, ef þessi fjárhæð sem Jósafat fékk væri metinn á verðlagi í dag, væri óhætt að tala um nokkra milljarða.  Nú var Jósafat orðinn moldríkur maður og hóf aftur fasteignaviðskipti.

Næst sem ég frétti af Jósafat var að hann hafði keypt sér flutningaskip og sem skipstjóra fékk hann bróður sinn sem verið hafði prestur í Hrísey.  Skipið sigldi til Kólumbíu og var sagt að þar ætti að lesta kaffi ofl. en þegar skipið kom aftur til Englands var það galtómt og voru þeir bræður settir í varðhald því talið var að um smygl á fíkniefnum væri að ræða en það var sama hvað mikið var leitað og skipið nánast rifið í sundur að ekkert fannst.  Voru þeir bræður þá látnir lausir og fór bróðirinn til Noregs en Jósafat fór í mál við ensk yfirvöld vegna skemmda á skipinu og vann það og fékk talsverðar bætur.  En enn er ekki upplýst hversvegna skipið sigldi til Kólumbíu tómt og aftur til Englands tómt.  Það leyndarmál tóku þeir bræður með sér í gröfina.

Eins og ég segi í inngangi að þessari grein þekkti ég manninn ekkert og hitti hann aldrei þetta er bara byggt að viðtölum og sögum sem ég hef heyrt og sumt í þessu kann að vera ósatt, en í mínum huga var Jósafat Arngrímsson stórhuga og kjarkmikill í viðskiptum og nýtti sér aðstæður hverju sinni og ekki dettur mér í hug að ásaka hann um eitt né neitt.  Íslenskt viðskiptalíf í dag er ekki mjög frábrugðið viðskiptum Jósafats nema að nú eru svona viðskiptahættir löglegir. 


mbl.is Jósafat Arngrímsson látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jakob Falur Kristinsson
Jakob Falur Kristinsson

Ég er fyrrverandi vélstjóri og útgerðarmaður en er nú 75% öryrki eftir slys á sjó 2003. Bjó lengst af á Bíldudal en flutti til Sandgerðis haustið 2005.  En er nú aftur fluttur á Bíldudal.  Að svo miklu leyti sem myndir á síðunni eru eftir Mats Wibe Lund, þá liggur fyrir tímabundið samþykki hans um birtingu hjá mér og þakka ég honum sérstaklega fyrir.  Mats á að sjálfsögðu hönundaréttin að öllum sínum myndum.  Vilja menn sjá fleiri myndir þá vísast á www.mats.is  Ég  var flokksbundinn í Frjálslynda flokknum og hef starfað þar, en sagði mig úr flokknum 24. apríl og gekk í Samfylkinguna.  Föðurætt mín er úr Arnarfirði og móðurættin frá Jökulfjörðum og Hornströndum og í báðum tilfellum, langt aftur í aldir.  Er ég því ekta Vestfirðingur.

Undir fyrirsögninni Færsluflokkar er flokkur sem heitir Vefurinn og ef smellt er á hann opnast síður þar sem ég er að skrifa ýmsar frásagnir.  Einnig er undir liðnum spaugilegt smá grín ofl. 

Ég leyfi öllum að skrifa athugasemdir við mín skrif.   En af gefnu tilefni hef ég ákveðið að þeir sem ekki kunna sér hófs í athugasemdum og nýta þær til persónulegra árása á mig og mína persónu, með allskonar skömmum og svívirðingum, mun ég hér eftir loka á slíka aðila.  Einnig mun ég henda út nafnlausum athugasemdum.  Því ég einn ber ábyrgð á því sem skrifað er á mína síðu.

jakobkr@internet.is     

GSM: 823-2954

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband