Kominn heim

Ég ætla að biðja ykkur kæru bloggvinir mínir og aðra sem lesa þessa síðu hjá mér afsökunar á færslu sem ég setti inn um Davíð Oddsson.  Þetta var bara í gríni gert og ég vona að sem flestir hafi beðið eftir myndbandinu, sem aldrei kom og mun aldrei koma, því það er ekki til.  Þetta var síðasta færslan sem ég skrifaði í Sandgerði, sem ég hef nú kvatt fyrir fullt og allt.

Ég var búinn að biðja konu í Sandgerði að aðstoða mig við að pakka niður, en hún komst aldrei vegna þess að hún fékk ekki barnapössun.  Því varð ég að basla við þetta einn með eina hendi virka og kláraði að pakka niður öllu mínu dóti, sem ég réði við.  En að skrúfa í sundur og taka saman borð, hillur, stóla og tölvubúnaðinn gat ég ekki og varð það að bíða eftir syni mínum.

Á Sunnudaginn 3. október kom sonur minn til Reykjavíkur og ég leigði stóran sendiferðabíl til að flytja mína búslóð.  Bílinn var ekki svo dýr hann kostaði kr: 15.000,- á sólahring og leigði ég hann í tvo sólahringa.  Við fórum strax suður í Sandgerði og byrjuðum að lesta bílinn og ætluðum við að aka síðan alla leið vestur.  Konan sem ætlaði að hjálpa mér við að pakka niður kom og bróðir hennar og vorum við um 3-4 klukkutíma að fylla bílinn.  Eins var troðið eins og hægt var í minn bíl, síðan var öllu lokað og við ætluðum að fara af stað en þá kom í ljós að sendiferðabíllinn var alltof þungur.  Fjaðurgormarnir voru nær lagstir saman og því ekkert vit að aka alla leið á Bíldudal með bílinn svona þungan.  Ég hringdi í bílaleiguna og sagði hvernig komið væri og var mér þá boðið að fá stærri bíl morguninn eftir Kl: 08,00.  Sonur minn gat fengið að gista hjá fólk sem hann er tengdur í Garði en ég fékk gistingu á farfuglaheimili í Njarðvík. Morguninn eftir fórum við á bílaleiguna og ætluðum að skipta um bíl, en þá kom í ljós að stærri bíllinn var á sléttum sumardekkjum. en hinn var á nýjum vetrardekkjum.  Þá var ekkert um annað að ræða en létta bílinn og fórum við á Flytjanda og settum þar á 3 bretti, sem síðan áttu að fara með flutningabíl vestur.Þetta létti bílinn mikið og var nú allt í lagi að fara af stað.  Ég ákvað að við skyldum taka ferjuna Baldur yfir Breiðafjörð, því þá gætum við ekið á bundnu slitlagi alla leiðina.  Við fórum úr Reykjavík um klukkan 13,oo og vorum komnir í Stykkishólm um kl: 14,30.  Vegurinn var nær auður alla leið, smá snjór á Hálfdán, sem er síðasta heiðin á leiðinni til Bíldudals og komum við þangað um kl: 19,oo.  Þegar við komum til Bíldudals var ég svo þreyttur að ég komst varla út úr bílnum.  Þá var eftir að bera allt dótið inn og enga aðstoð að fá.  Þá náði sonur minn í börnin sín 4 og síðan kom einn maður og bauð okkur aðstoð og gekk nokkuð vel að losa báða bílana.  En þá var dótið komið inn í íbúðina og eftir að ganga frá öllu.  En samt var sett upp eitt rúm svo ég gæti sofið í íbúðinni.  Á þriðjudagsmorgun kom kunningi minn fljúgandi hingað vestur og ók sendiferðabílnum til baka og kostaði það mig um 30 þúsund.  Ég hef síðustu daga verið að basla við þetta einn.  En í gær kom sonur minn og hans börn og gekk þá vel að skrúfa allt saman, einnig kom tölvumaður og gekk frá tölvunni, tengdi símann og sjónvarpið.  Eftir hádegi í dag ætlar sonur minn að koma aftur og klára það sem eftir er.  En ég verð örugglega næstu daga að ganga endanlega frá öllu og ætla að vona að ég þurfi ekki að flytja aftur á næstunni.  Þetta er allt svo erfitt þegar maður er svona lamaður og þreytist fljótt.

En eitt furðulegt kom þó í ljós í sambandi við Búmenn, sem ég keypti búseturéttinn af í Sandgerði í desember 2005.  Þá greiddi ég fyrir búseturéttinn tæpar1,1 milljón og þá var greiðsla á mánuði rúm 50 þúsund og var hvoru tveggja bundið við lánskjaravísitölu og í lokin voru mánaðargjöldin komin í rúm 90 þúsund.  Höfðu sem sagt hækkað um 80% og ég taldi því að minn eignarhluti myndi hækka um sömu prósentu.  Nei málið var ekki svona einfalt minn hluti hækkaði um 20% og var því 1,3 milljón og uppgjörið yrði eftir 6 mánuði, einnig töldu þau að mála þyrfti alla íbúðina og smá för í gólfdúk eftir stóla yrði að laga líka.  Ekkert tillit var tekið til þess að ég hafði verið þarna í tæp 4 ár og því hlaut að fylgja eðlilegt slit á ýmsu.  Þannig að ég fæ minni ávöxtun að þeim peningum sem ég lagði í þessa íbúð í byrjun en ef þeir hefðu verið inná bankabók.  Bæði minn hluti og Búmanna voru bundnar við sömu vísitölu, tel ég því þetta vera ein verstu kostir sem eru í boði á húsnæðismarkaði á Íslandi og fólk ætti að varast að eiga viðskipti við svona glæpafyrirtæki. Þá er leigumarkaðurinn mun betri kostur.  Ég tel augljóst að Búmenn hafi lækkað minn hlut í samræmi við lækkandi fasteignaverð, en ég varð að greiða þeim að fullu hækkun á lánskjaravísitölunni.  Íbúðin sem ég leigi núna er mjög svipuð að stærð og hin var og hér greiði ég um 50 þúsund í leigu á mánuði og fæ tæpar 20 þúsund í húsaleigubætur á mánuði.  Þannig að þótt rafmagn sé dýrra hér þá er þetta mun ódýrara fyrir mig.  Ég mun á næstunni setja hér inn myndir bæði af húsnæðinu og ýmsu hér á  Bíldudal.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Velkomin á Bíldudal er ekki bara fínt að vera komin vestur? Það hefur gengið á ýmsu hjá þér við flutninginn. Þetta er heilmikið mál fyrir fullfríska þannig að ég skil vel að þú hafir verið orðin uppgefin. Það er örugglega ódýrara að leigja út á landi en rafmagnið er óheyrilega dýrt þar sem þarf að kynda með rafmagnsofnum.

P.S. Ég beið og beið eftir myndbandinu.

Jónína Þorbjörg Gunnarsdóttir 10.10.2009 kl. 12:44

2 Smámynd: Jakob Falur Kristinsson

Jú það er svo sannarlega gott að vera kominn hingað aftur.  Þótt rafmagnið sé dýrt þá vegur ódýr húsaleiga það vel upp.

Myndbandið var nú bara grín og hefur vonandi ekki móðgað neinn.

Jakob Falur Kristinsson, 10.10.2009 kl. 14:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jakob Falur Kristinsson
Jakob Falur Kristinsson

Ég er fyrrverandi vélstjóri og útgerðarmaður en er nú 75% öryrki eftir slys á sjó 2003. Bjó lengst af á Bíldudal en flutti til Sandgerðis haustið 2005.  En er nú aftur fluttur á Bíldudal.  Að svo miklu leyti sem myndir á síðunni eru eftir Mats Wibe Lund, þá liggur fyrir tímabundið samþykki hans um birtingu hjá mér og þakka ég honum sérstaklega fyrir.  Mats á að sjálfsögðu hönundaréttin að öllum sínum myndum.  Vilja menn sjá fleiri myndir þá vísast á www.mats.is  Ég  var flokksbundinn í Frjálslynda flokknum og hef starfað þar, en sagði mig úr flokknum 24. apríl og gekk í Samfylkinguna.  Föðurætt mín er úr Arnarfirði og móðurættin frá Jökulfjörðum og Hornströndum og í báðum tilfellum, langt aftur í aldir.  Er ég því ekta Vestfirðingur.

Undir fyrirsögninni Færsluflokkar er flokkur sem heitir Vefurinn og ef smellt er á hann opnast síður þar sem ég er að skrifa ýmsar frásagnir.  Einnig er undir liðnum spaugilegt smá grín ofl. 

Ég leyfi öllum að skrifa athugasemdir við mín skrif.   En af gefnu tilefni hef ég ákveðið að þeir sem ekki kunna sér hófs í athugasemdum og nýta þær til persónulegra árása á mig og mína persónu, með allskonar skömmum og svívirðingum, mun ég hér eftir loka á slíka aðila.  Einnig mun ég henda út nafnlausum athugasemdum.  Því ég einn ber ábyrgð á því sem skrifað er á mína síðu.

jakobkr@internet.is     

GSM: 823-2954

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband