Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Minn maður

Kimi Raikkönen hjá Ferrari segist ætla að leggja allt í sölurnar til að vinna brasilíska kappaksturinn eftir hálfan mánuð og vonast til að hampa þar heimsmeistaratitli ökuþóra þar.  Hann segist engu hafa að tapa en allt að vinna.

Hann vann í dag og mun örugglega vinna næst, því þetta er minn maður.


mbl.is Räikkönen ætlar sér sigur og titil í Sao Paulo
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alonso

 

Fernando Alonso fylltist bræði eftir tímatökurnar í Sjanghæ og var svo gramur stjórnendum McLaren, að hann sparkaði niður hurð í skrifstofu félagsins við brautina.  Þá skemmdi hann keppnishjálm sinn er hann fleygði honum í reiði sinni í bílskúrsgólfið.  Alonso þótti ekki eðlilegt að hann skyldi vera hálfri sekúndu á eftir liðsfélaga sínum Lewis Hamilton með hringinn.  Hann fullyrti að keppnisáætlun sín hefði verið samin án samráðs við sig.  Í framhaldi af þessu fylltust spænskir fjölmiðlar af samsæriskenningum og töldu að fiktað hefði hefði verið við loftþrýsting og lofthita á dekkjunum á bíl Alonso.  Hann mun hafa afskrifað heimsmeistaratitilinn í kjölfar tímatöku, þar sem hann lenti í fjórða sæti en Hamilton í því fyrsta.  Þetta breytti þó ekki því að Alonso varð að lokum annar í mark en Hamilton, féll úr keppni fyrir mistök stjórnenda McLaren-liðsins og eigin akstursmistaka.

Ég held að þessi maður ætti að hætta þátttöku í þessum keppnum ef hann kennir öllum öðrum um sín eigin mistök.  Þessi framkoma er til skammar og ætti McLaren að reka hann strax.


mbl.is Alonso reiddist stjórunum og sparkaði niður hurð í skrifstofu McLaren
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Reykjanesbær

 

Hópslagsmál brutust út á Tjarnargötu í Reykjanesbæ, rétt við Hafnargötu, klukkan 5 í morgun.  Lögreglumenn fóru á staðinn og lentu þar í átökum við fjölda fólks.  Veist var að lögreglumönnum með spörkum og höggum og þurfti lögreglumenn að beita táragasi til að leysa upp slagsmálin.  Að sögn lögreglu slasaðist enginn alvarlega en nokkrir þurftu að leita til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, vegna minni háttar áverka.

Engin frekari skýring hefur verið gefinn á öllum þessum látum, en það er að verða fastur liður í fréttum um hverja helgi að einhver læti og slagsmál verði í miðbæ Reykjanesbæjar.  Hvort þetta sé vegna þess að fólk vilji líkjast Reykjavík, veit ég ekki, en greinilegt er að þegar fólk hagar sér svona er það kolruglað og vitlaust en af hverju það verður svona er svo önnur saga.  Þetta er hlutur sem ekki á að líða og ber að stoppa sem fyrst með öllum tiltækum ráðum.


mbl.is Táragasi beitt til að leysa upp slagsmál í Reykjanesbæ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kann að slamma

 

Sextán mánaða sonur Gwen Stefani kann að "slamma".  Stefani segir að Kingstone sonur hennar og Galvin Rossdale gítarleikara Bush, hafi erft tónlistarhæfileika foreldra sinna.

Ég segi nú bara "Aumingja barnið" .


mbl.is Sonurinn slammar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bagdad

 

Að minnsta kost níu létust í þremur sprengjuárásum í Bagdad í Írak í morgun, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu.  Í tveimur árásum var bílsprengjum beint að lögreglu og herliði Bandaríkjamanna en í hvorugt skiptið tókst ætlunarverk tilræðismannanna heldur féllu óbreyttir borgarar í árásunum.

Segið svo að Bush hafi ekki rétt fyrir sér að þarna býr ekkert nema kolruglaðir múslimir sem hugsa ekkert um neitt nema að drepa fólk og þetta voru nú ekki nema níu borgarar sem sagðir voru saklausir.  En getur það verið rétt því Bush með Guð almáttugan sér við hlið, telur fólk þarna sekt þar til sakleysið hefur verið sannað.  Það er líka algert aukaatriði í dag því þetta fólk er dautt og það lifnar ekki við aftur og enginn skortur er á brjáluðu fólki þarna, því ekki getur verið að sjálfur Bush segi ósatt eða hvað?


mbl.is Níu óbreyttir borgarar féllu í sprengjutilræðum í Bagdad
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vildi heldur drukkna sofandi

Veturinn 1998 vorum ég og sonur minn að róa á bát okkar Sigurbjörg Þorstein BA-165 sem var 38 tonna eikarbátur smíðaður 1948.  Báturinn var því orðin 50 ára gamall og vorum við að róa með línu frá Bíldudal og rérum oftast með 36 til 40 bala.  Þar sem ég var nýkominn úr aðgerð á fæti og var með fótinn í gifsi og gat þar af leiðandi ekki unnið á dekki og höfðum við feðgar þá verkaskiptingu að ég var skráður skipstjóri en hann vélstjóri og auk okkar var á bátnum með okkur ungur maður frá Bíldudal sem átti að verða vélstjóri.  Í einum róðrinum í janúar þegar við vorum að leggja línuna byrjaði að flauta viðvörun um sjó í vélarúmi, ég kallaði strax á son minn sem flýtti sér niður í vélarúm og kom upp aftur og sagði mér að það væri kominn svo mikill sjór í bátinn að við yrðum að hætta að leggja við næsta tengsli en þá yrðum við búnir að leggja 24 bala.  Þegar þar að kom, var settur belgur á endann og sonur minn fór aftur niður í vélarúm og þar sem veður var nokkuð gott NA 5-6 vindstig snéri ég bátnum og lensuðum undan vindinum á hægri ferð svo betra væri að athafna sig við að laga þetta og hinn væntanlegi vélstjóri fór líka til að aðstoða en kom fljótlega upp aftur og sagði við mig að við yrðum að fara strax í land því báturinn væri að sökkva.  Þar sem sonur minn var í raun hinn rétti skipstjóri sagði ég við drenginn að það væri enginn hætta á ferðum og rétt að sjá til hvort ekki tækist að lensa bátinn.  Þannig útbúnaður var í vélarúminu að lítil lensidæla var tengd við aðalvélina og gekk hún alltaf þegar aðalvélin var í gangi og ef enginn sjór var til að lensa var leitt inn á dæluna slef til að hún gengi aldrei þurr, auk þess var stór varadæla en reimin á henni var slitin og engin varareim til um borð en það sem sonur minn var að gera var að loka botnlokanum sem var fyrir dælu sem dældi sjó á dekk og aftengja hana og í stað þess að hún dældi frábotnlokanum  ætlaði  hann að láta hana dæla úr vélarúminu.   Þegar hinn væntanlegi vélstjóri sá að ekki yrði farið í land æddi hann að talstöðinni og sagðist ætla að senda út neyðarkall en ég stoppaði hann og sagði honum að hér sendi enginn út neyðarkall nema skipstjóri og við þyrftum ekki neina aðstoð því ef ekki tækist að þurrka bátinn værum við með tvo björgunarbáta um borð.  Vinurinn brást reiður við og sagðist ekki taka þátt í þessari vitleysu lengur og sagðist ætla að fara að sofa og rauk síðan fram í lúkar.  Svo fór að lokum að sonur minn kallar og biður mig að kveikja á spúldælunni og fór þá stax að dælast sjórinn úr bátnum og þegar þetta var komið klárt kom sonur minn upp úr vélarúminu og spurði um hinn væntanlega vélstjóra.  Ég sagði honum þá að hann hefði farið í koju því hann hefði talið öruggt að báturinn væri að sökkva og fór sonur minn þá að skellihlæja og sagði "Vill hann heldur drukkna sofandi."  Var bátnum snúið við og við sigldum að belgnum þar sem við höfðum hætt að leggja og ákváðum að leggja 10 bala í viðbót og gerðum það bara tveir, því ekki vildum við vekja hinn sofandi mann, sem væri sennilega að dreyma að hann væri dauður.  Þar sem stór hluti af línunni var búinn að fá nokkuð langa legu, var farið í endann þar sem við höfðum byrjað um morguninn og ætluðum að fara að draga.  Ég fór þá fram í lúkar og vakti þann sem var sofandi og þegar hann vaknar og kemur úr kojunni, spyr hann mig hvort við séum að verða komnir í land.  Nei,nei sagði ég við erum við fyrstu baujuna sem við lögðum í morgun og við hefðum einnig lagt 10 bala í viðbót svo það væru 34 balar sem við þyrftum að draga og hann skyldi drífa sig á dekk.  Hann stillti sér upp fyrir framan mig og steytti hnefann framan í mig og öskraði af bræði;  "Þið eruð snarbrjálaðir feðgarnir"   Síðan var byrjað að draga og gekk það allt vel en við vorum frekar seint í landi og lönduðum um 5-6 tonnum af góðum fiski.  Eftir löndun fór hin látni maður heim en við feðgar  gerðum við hina sjálfvirku lensidælu og allt var klárt í næsta róður sem var ákveðið að fara í kl:04 næsta morgun og þá mætti hinn látni maður sem enn virtist á lífi en sagði fátt þegar við sigldum úr höfn á Bíldudal.

Örugglega góð bók

 

Nú er verið að leggja lokahönd á ævisögu Guðna Ágústssonar, formanns Framsóknarflokksins, sem kemur út hjá Veröld í byrjun nóvember.  Höfundur bókarinnar er Sigmundur Ernir Rúnarsson.  Þetta verður örugglega skemmtileg bók enda Guðni með skemmtilegri mönnum þótt hann sé framsóknarmaður.  Þarna mun örugglega margt forvitnilegt koma í ljós og sennilega er aðeins einn maður sem núna kvíðir útkomu þessarar bókar, en það er Halldór Ásgrímsson.


mbl.is Ævisaga Guðna Ágústssonar gefin út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öryrkjar

Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands fagnar yfirlýstri stefnu stjórnvalda um umbætur í velferðarkerfinu, þar sem áhersla skal lögð á einföldun almannatryggingakerfisins, einstaklingsmiðaða, þjónustu, aukna endurhæfingu og virka samfélagslega þátttöku fatlaðra, þetta kemur fram í ályktun sem þar var samþykkt nú fyrir stundu.

Ég ætla nú að bíða með mín fagnaðarlæti þar til eitthvað af þessu verður framkvæmt.  Því þótt ég hafi ekki verið fatlaður öryrki nema í 4 ár hafa oft á því tímabil komið loforð stjórnvalda um að bæta okkar kjör.  En því miður hefur oft farið svo að þegar á að fara að framkvæma hlutina, hafa þetta ekkert verið nema innantóm orð og lítið sem ekkert hefur batnað.  En vonandi tekst þessari stjórn betur til en þeim sem áður voru við völd.  Það litla sem núverandi stjórn hefur gert, er að leyfa þeim sem eru orðnir 70 ára og hafa til þess heilsu að hafa atvinnutekjur án þess að bætur skerðist, en eins og ég sagði áður er óskandi að meira komist í framkvæmd.  Það er líka talsverður munur á núverandi ríkisstjórn og var þegar þeir Davíð og Halldór voru nánast eins og einræðisherrar, að nú má hinn óbreytti þingmaður hafa sína eigin skoðun á hverju máli þótt sá hinn sami sé stjórnarsinni, en það mátti ekki áður.  Þrátt fyrir að þingmenn sverji eið að fylgja ávalt sinni skoðun og sannfæringu.


mbl.is ÖBÍ fagnar stefnu stjórnvalda um umbætur í velferðarkerfinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flateyri

Það er alltaf gaman að sjá af og til jákvæðar fréttir af landsbyggðinni og ein slík var í gær, þegar sagt var frá því að hið nýja fyrirtæki á Flateyri, Eyraroddi ehf. væri farið af stað með fiskvinnslu á Flateyri og væru starfsmenn þess orðnir milli 30-40 manns.  Það er full ástæða til að óska Flateyringum til hamingju með þetta og vonandi ganga rekstraráætlanir eigenda þessa fyrirtækis eftir.  Það þarf mikinn kjark og hugrekki að fara af stað með nýja fiskvinnslu í því umhverfi sem er í dag í sjávarútvegi og lýsi ég aðdáun minni á þessum mönnum.

Ekki er í dag auðvelt fyrir nýja aðila að komast inn í þessa atvinnugrein nema þeir hafi yfir að ráða gífurlegum fjármunum.  Því nú er svo komið að hvert kíló af aflaheimildum í þorsk er selt á um 4.000 krónur og leiguverð fyrir sama kíló er nú um 200-220 krónur og fer hækkandi í báðum tilfellum, en fyrir ári var verðið komið í um 2.000-3.000 krónur og leiguverð 150-200 krónur á sömu tegund og þá þótti flestum nóg um.  En auðvitað verður verðið að hækka og ósköp einfalt að gera það.  Því stór útgerðafyrirtæki gera þetta þannig A selur B 500 tonn af þorski á kr. 3.000,- síðan selur B sama magn til C á kr. 3.500 sem aftur selur til A á kr. 4.000 og þá er komið markaðsverð á þorskkílóið kr. 4.000 þar sem nógu margar sölur hafa farið fram og eru skráðar hjá Fiskistofu og við hverja sölu hefur verðið alltaf hækkað, þótt raunverulegir peningar hafi aldrei skipt um hendur og er þetta líka gert með aðrar tegundir,sami leikur er svo endurtekinn til að mynda leiguverð á hverri fisktegund.  Þetta er flestum útgerðarfélögum nauðsynlegt því aflaheimildir eru veð fyrir þeirra lánum og nú þegar þorskkvótinn, sem vegur þyngst í verðmætum, hefur verið skertur um rúm 30% er eina leiði að búa til hærri viðmiðunarverð svo verðmæti aflaheimilda geti staðið sem veð fyrir þeim lánum sem hann hefur verið veðsettur fyrir.  Þetta er orðið þvílíkt rugl og vitleysa að óskiljanlegt er með öllu að þetta arfavitlausa kvótakerfi skuli ekki vera lagt niður.  Það er illgresi í okkar þjóðfélagi.


REI

Það er með ólíkindum hvernig þetta nýja fyrirtæki fer af stað.  Ekkert nema spilling og svínarí eru fyrstu skref þessa nýja fyrirtækis, verið er að selja útvöldum aðilum hlutabréf í fyrirtækinu á undirverði og t.d. Bjarni Ármannsson, stjórnarformaður félagsins keypti hlutabréf fyrir tveimur vikum fyrir 500 milljónir og mun nú þegar hafa hagnast á þessum viðskiptum sínu um 500 milljónir eða um tæpar fjórar milljónir á dag, auk þess sem Bjarni hefur verið ráðinn í hlutastarf hjá REI fyrir 750 þúsund á mánuði.  Bjarni er ekki einn vinningshafi í þessu nýja Lottói Orkuveitu Reykjavíkur heldur hafa nokkrir útvaldir vinningshafar verið valdir til að fá slíka vinninga en hinn almenni starfsmaður sem einnig má taka þátt í þessu, fær ekki að kaupa fyrir nema 100-200 þús. og meira að segja að hinn nýji forstjóri REI, Guðmundur Þóroddsson, sem áður stýrði OR, en skiptir nú um skrifstofu í sama húsi, fær sérstakan starfslokasamning hjá OR sem bætast við laun hans hjá REI.  Hver skyldi nú þurfa að greiða að lokum fyrir alla þessa vitleysu?  Svarið er einfalt, því það er Reykjavíkurborg eða réttara sagt íbúar Reykjavíkur.  Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóri sem vill láta kalla sig; "Gamli góði Villi"  og í hverju er hann svona góður? Er hann svona góður við stjórn borgarinnar eða við íbúa hennar?  Nei ekki er það svarið, því að á sama tíma og Reykjavíkurborg er að ausa út peningum til útvaldra gæðinga, getur borgin ekki einu sinni rekið leikskóla borgarinnar af viti.  Gamli góði Villi það er kominn í hin mestu vandræði með sinn borgarstjórnarflokk þar sem undir niðri kraumar óánægjan með þessar gjörðir.  Nú hefur einn borgarfulltrúi tjáð sig opinberlega um málið  en það er Júlíus Vífill Ingvarsson og var hann að gagnrýna þetta mál, en þar sem þetta væri búið og gert væri lítið hægt að gera annað en vera því samþykkur og taldi hann að borgarstjórnarflokkur D-lista væri þessu allur í raun bæði samþykkir og á móti þessu.  Þetta er eitthvað alveg nýtt í pólitík að geta bæði verið samþykkir en samt á móti.  Ekki er nú sjálfstæð skoðun ríkjandi hjá borgarfulltrúum D-listans í Reykjavík, því þeir munu hafa farið nánast skrýðandi á fjórum fótum til Geirs H. Haarde formanns flokksins og Þorgerðar Gunnarsdóttur varaformanns, til að fá að vita hvaða skoðun þeir ættu að hafa á þessu máli og Salómonsdómurinn hljóðaði svona; "Samþykkja en vera samt á móti."  Ja, miklir menn erum við Hrólfur minn, eins og maðurinn sagði.  Nú er þetta mál farið að teygja anga sína í ríkisstjórn og Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra sagði í fréttum í gær;Að þótt hann fagnaði þessu nýja útrásarverkefni OR væri framkvæmdin fyrir neðan allar hellur og skemmdi á vissan hátt fyrir annars mjög góðu verkefni."   Hann sagði að nú yrði að setja lög strax til að hindra að erlendir aðilar eignuðust orkuauðlindir Íslands, en eins og staðan er í dag væri allt galopið hvað það varðar.  Nú mætti halda að þetta mál væri einkamál Reykjavíkurborgar, en svo er ekki því þetta snertir íbúa Hafnarfjarðar og íbúa hér á Suðurnesjum í sambandi við Hitaveitu Suðurnesja.  Ég held að þeir fóstbræður Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Björn Ingi Hrafnsson, ættu að sjá sóma sinn að segja báðir af sér og viðurkenna þar með sína ábyrgð, ef þeir gera það ekki er nokkuð ljóst að í næstu kosningum mun núverandi meirihluti falla, því íbúar borgarinnar láta nú ekki bjóða sér hvað sem er.  Ég ætla hér að lokum að benda á mjög góða grein sem Kristinn H. Gunnarsson alþm. hefur skrifað um þetta mál á heimasíðu sinn kristinn.is og nefnist "Fallið mikla eftir veginum breiða"

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jakob Falur Kristinsson
Jakob Falur Kristinsson

Ég er fyrrverandi vélstjóri og útgerðarmaður en er nú 75% öryrki eftir slys á sjó 2003. Bjó lengst af á Bíldudal en flutti til Sandgerðis haustið 2005.  En er nú aftur fluttur á Bíldudal.  Að svo miklu leyti sem myndir á síðunni eru eftir Mats Wibe Lund, þá liggur fyrir tímabundið samþykki hans um birtingu hjá mér og þakka ég honum sérstaklega fyrir.  Mats á að sjálfsögðu hönundaréttin að öllum sínum myndum.  Vilja menn sjá fleiri myndir þá vísast á www.mats.is  Ég  var flokksbundinn í Frjálslynda flokknum og hef starfað þar, en sagði mig úr flokknum 24. apríl og gekk í Samfylkinguna.  Föðurætt mín er úr Arnarfirði og móðurættin frá Jökulfjörðum og Hornströndum og í báðum tilfellum, langt aftur í aldir.  Er ég því ekta Vestfirðingur.

Undir fyrirsögninni Færsluflokkar er flokkur sem heitir Vefurinn og ef smellt er á hann opnast síður þar sem ég er að skrifa ýmsar frásagnir.  Einnig er undir liðnum spaugilegt smá grín ofl. 

Ég leyfi öllum að skrifa athugasemdir við mín skrif.   En af gefnu tilefni hef ég ákveðið að þeir sem ekki kunna sér hófs í athugasemdum og nýta þær til persónulegra árása á mig og mína persónu, með allskonar skömmum og svívirðingum, mun ég hér eftir loka á slíka aðila.  Einnig mun ég henda út nafnlausum athugasemdum.  Því ég einn ber ábyrgð á því sem skrifað er á mína síðu.

jakobkr@internet.is     

GSM: 823-2954

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband