Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Viðhorf til fatlaðra

Ég er fatlaður öryrki eftir alvarlegt slys á sjó, þótt mín fötlun hafi að mörgu leyti lagast eftir þrotlausa endurhæfingu á Reykjalundi.  Ég kom þangað í byrjun september 2003 bundinn í hjólastór og var nánast algerlega lamaður á vinstri hlið og gekk þaðan út á mínum eigin fótum um miðjan desember sama ár.  Meðan ég var bundinn í hjólastólnum kom upp sú staða að ég þyrfti að kaupa mér föt, því ég gat ekki notað buxur eða skyrtur ef það var eitthvað sem þurfti að hneppa.  Eldri dóttir mín sem er hjúkrunarfræðingur og bjó þá í Hafnarfirði kom og bauðst til að fara með mig í verslun og var ákveðið að fara í Hagkaup í Kringlunni þar sem hún taldi að auðvelt væri að fara þar um með hjólastólinn og fórum við þangað.  Það var ekki mikið mál að komast í verslunina, en þegar inn var komið tók hryllingurinn við.  Þar sem við vorum að leita að fötum fórum við auðvitað í fatadeildina og þar var svo þröngt á milli fatarekkanna að að meðan við fórum þar í gegn lamdist stöðugt hin og þessi föt í andlitið á mér og loksins komum við þar að sem föt sem ég hafði áhuga á voru og þar stoppuðum við.  Ekki sáum við neinn afgreiðslumann og biðum og biðum, sem endaði með því að dóttir mín gafst upp og sagðist ætla að fara og ná í einhvern til að aðstoða okkur.  Hún kom svo fljótt aftur og sagði mér að það væri afgreiðslumaður á leiðinni og kom hann skömmu síðar og sagði strax að við værum ekki á réttum stað því föt fyrir konur væru þarna og benti  í átt að kvennadeildinni.  Hún sagðist ekki vera að hugsa um nein fatakaup heldur væri það maðurinn sem sæti í hjólastólnum. Hannnnnn svaraði afgreiðslumaðurinn og varð eitt stórt spurningarmerki í framan og gekk síðan í burtu og var ekki að leyna því hve fáránlegt honum fannst að fatlaður maður þyrfti að nota föt.  Dóttir mín reiddist heiftarlega og öskraði á eftir þessum manni “Hverslags andskotans þjónusta er í þessari helvítis verslun.” Tók sig síðan til og náði í tröppu til að geta náð í föt sem voru upp í hillu og tók til við að sýna mér og þar sem ég var öruggur um stærð fundum við fljótt fötin sem ég var ánægður með og þá var eftir að fara að kassanum og borga því hvorugt okkar hafði áhuga á að dvelja þarna lengur þótt vissulega hefði ég haft áhuga á að skoða fleira og hefði sennilega verslað meira ef ekki hefði komið til þessi dónaskapur.  Þegar við loksins komum að kassanum lét dóttir mín fötin á afgreiðsluborðið og var henni strax bent á að þetta væru föt á karlmann en ekki konu, ég sá að reiðin sauð í dóttur minni sem tilkynnti þeim sem var að afgreiða á kassanum, að þetta væru þau föt sem verið væri að versla og hvort nokkur leið væri að fá að borga þau og rétti manninum mitt debetkort og þegar hún var síðan beðinn að kvitta sagði hún, það er hann og benti á mig sem þarf að kvitta.  Þar sem afgreiðsluborðið var nokkuð hátt sá ég ekki sitjandi í stólnum, afgreiðslumanninn en nú hallaði hann sér fram og leit niður til mín og sagði nú er það hannnnnnn sem er að kaupa fötin, rétti mér kortið og þann snepil sem ég þurfti að kvitta á sem ég með aðstoð dóttur minnar náði að kvitta á.  Þá var sagt takk fyrir viðskiptin, en dóttir mín stoppaði og horfði lengi reiðilega á afgreiðslumanninn og svo kom að því að hann spurði hva er eitthvað?  Hún svaraði nei,nei, ég var bara að velta fyrir mér hvort hér væru eingöngu vitleysingar við vinnu.  Það skal tekið fram að eftir að ég fór að ganga á ný hef ég aldrei farið inní þessa verslun og mun aldrei gera.

Sameining REI og GGE

Fátt hefur vakið upp jafn miklar deilur í Reykjavík og þessi sameining REI og GGR undir merkjum REI og virðist þessi sameining hafa komið flest öllum borgarfulltrúum í Rvík. á óvart og í Morgunblaðinu í gær er skýrt frá að harkalegar deilur hafi orðið í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins og er þar fullyrt að þetta mál eigi eftir að hafa alvarlegar afleiðingar sem ekki er skýrt nánar.  Það eina sem eining var í þeirra röðum um, var að tjá sig ekki opinberlega um þetta mál að sinni og leyfa rykinu að setjast svolítið eins og það var orðað.  En nokkrir voru fúsir til að tjá sig í skjóli nafnleyndar og sagði einn borgarfulltrúi D-lista;  "Þetta er fyrst og fremst hugmyndafræðileg deila.  Ég hef alltaf verið ósammála því ákvæði í lögum um OR að fyrirtækið skuli stunda nýsköpunarþróun.  Mjög hafi skort á að fulltrúar D-listans fengju upplýsingar um stefnumótun OR varðandi samrunann".  Annar sagði; "Þetta gæti þess vegna verið nýtt risarækjueldi, þar sem ég veit ekki hver framtíðarstefnan er og ekki heldur hver ætlunin er að losa borgina út úr þessu þegar þörf krefur."  Það verður fróðlegt að fylgjast með því hvernig þetta mál þróast og hvernig gamli góði Villi kemst frá þessu en hann er einn af stjórnarmönnum OR en mjög harðar deilur munu hafa verið á áðurnefndum fundi borgarfulltrúa D-listans.  Guðmundur Þóroddsson forstjóri hins nýja félags var í viðtali í hádeginu á Stöð 2 og sagði þar að OR hefði lagt í þetta nýja félag 4 milljarða í peningum og það væri sú áhætta sem borgin tæki og tók skýrt fram að borgin gæti aldrei tapað meiri peningum en þetta, þó allt færi á versta veg.  En 4 milljarðar eru nú nokkuð væn upphæð svo vissulega er OR að taka þarna talsverða áhættu og hélt ég að það væri ekki hlutverk Reykjavíkurborgar að vera í áhætturekstri a.m.k. var það skoðun Davíðs Oddssonar þegar hann var borgarstjóri og seldi/gaf Bæjarútgerðina á sínum tíma og notaði þá slík rök.  Hitt þótti mér öllu alvarlega sem kom fram hjá Guðmundi að þetta nýja fyrirtæki eignaðist við samrunan meirihlutann í  Orkuveitu Suðurnesja og þar yrði gert eins og hjá OR að sá hluti sem væri samkeppnisþátturinn yrði skilin frá og OR og OS ættu þann hluta áfram en REI ætti að sjálfsögðu virkjanirnar og þegar hann var beðinn að útskýra betur hvað það væri í raun sem yrði áfram í eigu OR og OS, var svarið að það væru t.d. allar lagnir í jörðu og í lofti frá virkjunum til notenda.  En hvaða gagn er af því að eiga aðeins rör í jörðu og raflínur í lofti ef orkan sjálf er í eigu annarra aðila sem geta þá alltaf ráðið verðinu.  Einnig hefur komið fram að fyrirhugað er að setja hið nýja félag á hlutabréfamarkað og eins og lögin eru nú, þá er ekkert sem getur hindrað að sterkir erlendir aðilar hreinlega gleypi þetta nýja félag.  Enda varla tilviljun að Bjarni Ármannsson stórnarformaður hins nýja félags og Hannes Smárason forstjóri FL Croup sem er stór hluthafi, ætla að kynna þessa sameiningu á fundi með fjárfestum í London í dag.  Björn Ingi Hrafnsson er auðvitað mjög ánægður með þessa sameiningu, enda fær hann að vera þar í stjórn fyrir aðeins 350 þúsund á mánuði og kosningastjóri Björns frá síðustu kosningum hefur verið ráðinn hjá þessu nýja fyrirtæki og hefur þar starfstitilinn "Skemmtanastjóri" og fær víst nokkuð góð laun fyrir.  Ég held að með þessu nýja fyrirtæki séu margir komnir út á hálan ís, en vonandi fer þetta allt vel.  Það var líka fróðlegt að hlusta á viðtöl við Svandísi Svavarsdóttur borgarfulltrúa VG sem að vanda flutti mál sitt á ákveðin hátt og setti fram sína gagnrýni vel rökstudda.  Einnig var rætt við fulltrúa Samfylkingarinnar í stjórn OR en sú kona var stórhneyksluð á hvernig hefði verið staðið að þessu öllu saman, en samt greiddi hún atkvæði með þessari sameiningu og var í hinum mestu vandræðum að útskýra að hún væri bæði með og á móti þessu.

Árleg martröð aldraðra og öryrkja

Nú hefur Tryggingastofnun ríkisins endurskoða bætur til þessa fólks fyrir árið 2006 og kemur nú í ljós að aðeins 18% fengu rétt greitt í fyrra.  40% fengu ofgreitt, 42% fengu vangreitt.  Eru því nú hátt í 20.000 bótaþegar í skuld við TR vegna síðasta árs og munu þeir fá bréf í næstu viku þar sem þeim er tilkynnt hvað þeir skulda mikið og óskað eftir endurgreiðslu strax.  Hversvegna í ósköpunum þarf þetta að koma upp á hverju ári?  Nú þegar allt er orðið tölvutengt ætti að vera auðvelt hjá TR að fylgjast með ef einhver bótaþegi hefur framið þann glæp að stunda eitthverja vinnu á hverjum tíma.  Það má auðveldlega sjá við skil á staðgreiðslu fyrir hverja kennitölu og tengja þetta sama svo TR fengi strax að vita ef einhver er í vinnu sem hann hefur ekki gefið rétt upp og er það oftast vegna þess að viðkomandi er ekki nægjanlega kunnugur í þessum frumskógi laga um TR.  Ég er ekki að ásaka starfsfólk TR því allir þeir starfsmenn hjá TR sem ég hef þurft að leita til, hafa tekið mér vel og leyst úr mínum vandamálum.  Starfsfólk TR ber ekki ábyrgð á þessum málum og að ætla að ásaka það er eins og að hengja bakara fyrir smið, heldur er ábyrgðin hjá stjórnvöldum sem setja lög og reglur um þessa stofnun.  Síðan ég varð öryrki og fór að fá bætur, hef ég á hverju ári lent í því að vera í skuld sem alltaf hefur verið vegna þess að ég hef misskilið hver minn réttur væri.  Þegar ég hef síðan komið til TR og látið vita að ég gæti ekki endurgreitt, þá hefur mér verið mjög vel tekið hjá starfsfólki TR sem hefur boðið mér að endurgreiða mánaðarlega ákveðna upphæð sem ég hef treyst mér til.  Og vona ég að mótökurnar hjá starfsfólki TR verði jafngóðar núna þegar ég þarf að fara á þeirra fund.  Mín mistök í fyrra voru þau að komið var fram í fyrrahaust stjórnarfrumvarp um að öryrkjar mættu hafa kr. 300 þúsund í tekjur á ári án þess að bætur skertust.  Þar sem þetta var stjórnarfrumvarp taldi ég nokkuð öruggt að það yrði samþykkt og yrði að lögum og gekk það allt eftir og ég fór í vinnu hjá ákveðnu fyrirtæki og gætti þess að hætta áður en ég var kominn í 300 þúsund, en mín mistök voru þau, að ég tók það sem svo að lögin giltu fyrir tekjur ársins 2006 en í meðförum þingsins var gildistímanum breytt úr 1.7. 2006 í 1.7. 2007 og á ég nú von á bréfi frá TR með upplýsingum um þessa skuld mína og vona ég að ég fái sama skilning hjá starfsfólki TR og áður.

Bakkafjörður

Það var átakanlegt að horfa á það í fréttum á Stöð 2 í gærkvöldi, þegar verið var að selja á nauðungaruppboði allar eignir fiskvinnslunnar Gunnólfstinds ehf. á Bakkafirði en aðaleigandi þess var sá ágæti maður Kristinn Pétursson og eiginkona hans.  Ekki var látið nægja að bjóða upp allar eignir fiskverkunarinnar, heldur voru líka seldar á þessu nauðungaruppboði allar eignir þeirra hjóna, þar á meðal þeirra heimili.  Byggðastofnun mun hafa eignast flestar þessar eignir og maður hlýtur að spyrja hvort ekki hefði nú mátt sleppa þeirra heimili því nógu sárt hlýtur það að vera, að horfa á fiskverkunina fara á uppboð eftir að hafa varið mörgum árum af sinni starfævi í að byggja upp?  Nei allt var boðið upp og Kristinn Pétursson og hans fjölskylda stendur eftir algerlega eignalaus.   Þarna birtist okkur núverandi kvóta kerfi í sinni réttu mynd og þar sem Kristinn Pétursson hefur á undaförnum árum gagnrýnt það kerfi með mjög sterkum rökum, þá læðist að manni sá grunur að mafía sú er stendur dyggan vörð um þetta kerfi, hafi þrýst á að reyna að þagga niður í þessum manni.  En Kristinn Pétursson er kraftmikill maður og í viðtali við hann sem fylgdi fréttinni sagði Kristinn; "Það er ekki spurning hvernig maður fellur, heldur hvernig maður stendur upp aftur."  Ég er viss um að Kristinn á eftir að standa upp aftur og þá sterkari maður en áður.  Þessi fiskvinnsla hans á Bakkafirði mun hafa verið mjög vönduð og vel búinn tækjum og þar störfuðu 35 manns á sínum tíma, sem ekki er lítið í litlu þorpi, en vinnsla hefur legið niðri í um eitt ár og á þeim tíma mun íbúum Bakkafjarðar hafa fækkað um 40%.  Mér þótti líka fróðlegt að heyra svör hjá einum íbúa Bakkafjarðar en hann sagði;  Það er út af fyrir sig viss léttir að þetta uppboð er búið að fara fram og nú er bara að vona að einhver vilji nýta sér þetta tækifæri og byrja rekstur í þessari fiskvinnslu."  Þetta svar kom mér að sumu leiti ekki á óvart, því ég hef kynnst því af eigin raun þegar ég rak á sínum tíma hraðfrystihús á Bíldudal, að alltaf er stutt í öfundina hjá mörgum og oft skeður það á þessum litlu stöðum, þar sem návígið er svo mikið og allt neikvætt tal íbúa um forustumenn í atvinnurekstri á það til að rata inn í banka og fleiri staði.  Að minnsta kosti varð það mínu fyrirtæki að falli á sínum tíma, öfund og neikvætt tal íbúa varð svo mikill að það náði loks inn í viðskiptabanka fyrirtækisins sem gekk þá fram og slátraði því fyrirtæki á mjög ósmekklegan hátt.  Það getur sennilega orðið rétt hjá þessum manni á Bakkafirði sem ég var að vitna í að einhver sýni því áhuga að hefja þarna rekstur á ný og fær þá þessar eignir á silfurfati hjá Byggðastofnun, því nóg er til af ævintýramönnum á Íslandi, sem alltaf eru tilbúnir að stökkva á slíka hluti ef þeir sjá að þar kunni að vera möguleikar á að næla sér í einhverja peninga og stinga í eigin vasa.  Það hefur t.d. skeð á Bíldudal og frá því ég var þar með rekstur hafa 6-7 aðilar á um 15 árum reynt við rekstur þar.  Alltaf þegar nýr aðili hefur komið hefur Byggðastofnun opnað sína sjóði og dælt út peningum, sem eru í dag nokkur hundruð milljónir ef ekki milljarður, en mig vantaði 20 milljónir til að halda áfram og hafði ég þó yfir að ráða um 3000 tonnum af aflakvóta.  En nú er frystihúsið á Bíldudal í eigu Byggðastofnunar og enginn rekstur í gangi og þó að einhver vildi hefja þar rekstur er búið að selja í burtu mikið af vélum og tækjum, auk þess er enginn kvóti eftir á staðnum.  Þótt nýr aðili komi og vilji hefja rekstur á Bakkafirði er ég hræddur um að svipað fari eins og á Bíldudal, Því hver er hæfari til að reka þarna fiskvinnslu en Kristinn Pétursson, sem hefur byggt þetta upp af miklum myndarskap og með hag Bakkafjarðar að leiðarljósi.  Þessi atburður segir okkur enn og aftur hvað það er nauðsynlegt að, skilja að vinnslu og veiðar og allur fiskur fari á fiskmarkað hér á landi, hvort sem hann á að fara til vinnslu hér á landi eða vera sendur út óunnin í gámum.  Þá fyrst kemur fram eðlileg verðmyndun á fiskinn.  Eins og þetta er núna er svo lítill hluti sem fer á fiskmarkað að hin stóru fyrirtæki geta leikið sér að því, að stýra verðmyndum á fiskmarkaði með því að kaupa þar hátt ef hætta er á verlækkun og ef hætta er á verðhækkun setja þeir talsvert mikið magn inná markaðinn.  Miðað við óbreytt ástand er fiskvinnsla án útgerðar dauðadæmd, þrátt fyrir að mörg þessara fyrirtækja hafa verið með bestu afkomu íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja árum saman.  Það sem nú hefur skeð á Bakkafirði er aðeins toppurinn á ísjakanum, við eigum eftir að fá reglulega slíkar fréttir á næstu mánuðum sérstaklega af landsbyggðinni sem virðist vera búið að ákveða að leggja niður og flytja á fólk hreppaflutningum á höfuðborgarsvæðið.

Stóriðja Bíldudals

Þetta fyrirbæti sem kallast Kalkþörungaverksmiðjan á Bíldudal er stöðugt að taka á sig nýjar myndir.  Þessi verksmiðja var vígð við hátíðlega athöfn laugardaginn 28 apríl 2007 og Þá flutti Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra ræðu, sem ég er hræddur um að í dag myndi hann kjósa, að hafa aldrei haldið slíka ræðu.

 

Landfylling Þetta er öll sú landfylling og hafnargerð sem búið er að gera vegna þessarar verksmiðju.

Hér kemur svo ræða Einars K. Guðfinnssonar:

 

Kalkþörungaverksmiðjan vígð30. apríl 2007
Þegar verðmæti verða til

Vígsla Þörungaverksmiðjunnar á Bíldudal sl. laugardag var hátíðleg og markaði upphaf að nýjum og betri tímum. Ég fékk þann heiður að flytja ávarp við opnunina og klippa á borða til þess að marka upphaf þessarar verksmiðjustarfsemi.
Verksmiðjan verður vinnustaður amk. tíu manna og mun hafa mikil og jákvæð áhrif á samfélagið allt á sunnanverðum Vestfjörðum. Með endurreisn fiskvinnslunnar á Bíldudal, undir kröftugri forystu fyrirtækjanna Odda á Patreksfirði og Þórsbergs á Tálknafirði, sem nú er í burðarliðnum, mun ennfremur setja mikinn mikinn afl í samfélagið á Bíldudal sem hefur mátt ganga í gegn um erfiðleika á umliðnum árum. Það var táknrænt að fyrstu fiskunum var rennt i gegn um flökunarvélarnar í fiskvinnslunni á Bíldudal daginn áður en að Kalkþörungaverksmiðjan var formlega opnuð.

Það eru liðin sjö ár frá því að atburðarrásin hófst. Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða seti sig í samband við Les Auchincloss og hans menn sem störfuðu meðal annars á þessu sviði. Samstarfsaðili þeirra hér á landi er fyrirtækið Björgun undir forystu Sigurðar Helgasonar. Að öllu var farið með gát og yfirvegun. Rannsóknir voru framkvæmdar í Arnarfirði og fengu til þess styrk af fjárlögum. Hið írska fyrirtæki skoðaði málið með augum hins alþjóðlega fjárfesta með þekkingu á þessu sviði. Stundum litu hlutirnir vel út, en stundum illa. En áfram miðaði. Og svo kom svarið að lokum. Við viljum fara í verkefnið. Þá létti okkur mörgum.

Síðan hafa staðið yfir miklar framkvæmdir. Upp er komið stórmyndarlegt verksmiðjuhús á hafnarbakkanum, búið að ráða mannskapinn og vélarnar hafa verið ræstar.
Stjórnvöld komu að verkinu með myndarskap. Undir forystu Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra var afráðið að ríkið kostaði að mestu, en í samvinnu við sveitarfélagið, hafnargarðinn á Bíldudal, sem var forsenda versmiðjurekstrarins. Sú framkvæmd mun og nýtast annarri starfsemi á svæðinu.

Í rauninni er hér að gerast stórkostlegur hlutur. Kalkþörungarnir hafa legið ósnertir á hafsbotni; einskonar hugsanleg auðlind. Að eiginlegri auðlind urðu kalkþörungarnir ekki fyrr en þeim var breytt í verðmæti, að frumkvæði heimamanna, með þátttöku aðila sem höfðu til að bera þekkingu, fjármuni, athafnasemi og tök á markaðnum. Þar með breyttust kalkþörungarnir í verðmæti.

Þess munu njóta allir starfsmenn fyrirtækisins, eigendur þess, samfélagið á sunnanverðum Vestfjörðum og í raun íslenska þjóðin. Ábatinn skilar sér í verðmætri vinnu, tekjum og útflutningsverðmætum. Það hefur svo verið eftirtektarvert að forráðamenn fyrirtækisins hafa lagt áherslu á að verða strax virkir þátttakendur í samfélaginu, með margs konar stuðningi við samfélagsleg verkefni, menningaratburði og þess háttar. Þannig verður verksmiðjan og atvinnureksturinn strax velkominn hluti af því umhverfi þar sem hún starfar.

Laugardagurinn, 28. apríl var góður dagur í atvinnusögunni. Til hamingju með þann dag.

Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra

Það verður að segjast eins og er að saga þessarar verksmiðju hefur frá upphafi verið ein hörmungarsaga.  Það tókst að gangsetja hana og framleiða nokkur kíló fyrir vígsluna svo gestir fengju að skoða hvað átti að framleiða í verksmiðjunni og skömmu síðar var rætt við forstjóra þessa fyrirtækis í fréttum Guðmund Magnússon og sagði hann nú væri heldur betur bjart fram undan.  Og þegar hann var spurður um hvort allar þessar tafir hefðu ekki kostað mikið og yrðu baggi á rekstrinum, sagði hann það vera smámuni eina með tilliti til þess sem framtíðin bæri í skauti sér.  Nú yrði horft til framtíðar en ekki fortíðar, það þýddi ekkert að vera að horfa bara á fisk, þetta yrði Stóriðja Bíldudals.  Síðan eru liðnir rúmir 5 mánuðir og ekki enn hefur þessi verksmiðja tekið til starfa, nema hvað það varðar að kalþörungi er dælt í stórum stíl upp úr Arnarfirði og síðan koma skip reglulega og flytja hráefnið til vinnslu á Írlandi.  Öll þau stóru orð og bjartsýni sem kemur fram í ræðu Einars K. Guðfinnssonar hafa ekki ræst á Bíldudal heldu orðir til mikillar atvinnusköpunar í öðru landi, Írlandi.  Starfsmenn eru aðeins 5 og ekkert bendir til þess að þeim muni fjölga á næstunni.  Þetta fyrirtæki hefur fengið allan þann stuðning sem hægt hefur verið að veita því og samt er ástandið svona.  Það hefur verið notað sem afsökun að hráefnið úr Arnarfirði væri mun erfiðara til vinnslu en reiknað hafði verið með sem gengur þvert á allar þær rannsóknir og kannanir sem gerðar voru áður en byrjað var að framkvæma eitt né neitt, og það gengur víst bara nokkuð vel að vinna þetta sama hráefni í Írlandi.    Ætli að skýringin á þessu sé ekki  sú, að þótt reist hafi verið nýtt og glæsilegt verksmiðjuhús var það fyllt af gömlu og hálfónýtu drasli, sem bilar stöðugt.  Hvar er nú hin bjarta framtíð sem blasa átti við íbúum Bíldudals?.  Ég hlýt því að spyrja hvað á að leyfa þessari andskotans vitleysu að halda lengi áfram?  Af því ráðherrann nefndi í ræðu sinni að á sama tíma og þessi verksmiðja var vígð hóf Oddi hf. á Patreksfirði vinnslu í frystihúsi staðarins, sem er í eigu Byggðastofnunar.  en sú vinnsla hætti nokkrum dögum síðar.   Og hver ætli ástæðan hafi verið hjá Odda hf.?  Hún var einfaldlega sú að þeim var lofað ef þeir færu af stað með vinnslu á Bíldudal, þá ætluðu stjórnvöld að útvega þeirri vinnslu 300 tonna byggðakvóta, sem ekki er kominn enn þann dag í dag.  Oddi hf. hefur fyrir sitt leyti staðið að fullu við sína hlið á þessum samningi og er enn að greiða þeim 15 starfsmönnum sem voru þarna við störf, laun vikulega samkvæmt kjarasamningi.  En afhverju hafa stjórnvöld ekki staðið við sitt?  Nú er því kennt um að málið hafi stoppað vegna þess að Jón Sigurðsson fv. iðnaðarráðherra sem jafnframt fór með byggðamál, hafi ekki verið búinn að skrifa undir einhverja pappíra áður en hann lét af störfum.  Þetta er ansi ódýr afsökun því þótt Jón Sigurðsson hafi hætt sem iðnaðarráðherra, þá er iðnaðarráðuneytið enn til og nýr maður kominn þar við stjórn og ég ætla rétt að vona að hann kunni að skrifa ekki síður en Jón Sigurðsson.  Ætli skýringin sé ekki frekar sú skoðun Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, utanríkisráðherra en hún sagði í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra;  "Mín skoðun er sú að byggðastefna eigi að snúast um 3 aðalatriði sem eru, menntun, samgöngur og fjarskipti."  Þetta mun ekki hjálpa Bíldudal mikið, nema að betri fjarskipti auðvelda forstjóra Kalkþörungaverksmiðjunnar, að hafa betra samband við Írland svo hann geti alltaf verið tilbúinn með hráefni þegar það vantar þangað.  Það eina sem stjórnvöld hafa gert til stuðnings Bíldudal er að þau veittu styrk til að koma upp "Skrímslasafni" og er það útaf fyrir sig hið besta mál, en ekki lifa íbúarnir á Bíldudal af því að skoða skrímslasafn þó þeir kunni nú margt.  Það er grátlegt að á sama tíma og margir íbúar Bíldudals ganga um atvinnulausir skuli vera dælt upp úr Arnarfirði þúsundum tonna af ákveðinni auðlind sem þeir áttu að njóta og sent til Írlands án þess að ein einasta króna sé greidd fyrir.  Einnig mun Arnarfjörðurinn vera fullur af ýsu og verð íbúarnir að horfa á það á hverju kvöldi að smábátar koma drekkhlaðnir af ýsu í höfn á Bíldudal og landa aflanum í flutningabíla til vinnslu annars staðar.  Ég ætla ekki að gera lítið úr þeim atriðum sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir telur vera þau þýðingarmestu í byggðamálum, en ein og sér eru þau lítils virði.  Fólk borðar ekki símtæki eða ljósleiðara, eða fallegar ræður ráðherra.  það sem vantar er atvinna og aftur atvinna.  Ég ætla að vona að Ingibjörg viti hvað það orð þýðir.  Hinsvegar tel ég að bæjarstjórn Vesturbyggðar verði að skoða eitthvað betur hvað er að ske í hinni dularfullu Kalkþörungaverksmiðju sem ætti kannski best heima á hinu nýja skrýmslasafni.

Hafnfirðingar í gíslingu

Ég hélt nú fyrst þegar ég sá þessa fyrirsögn að Garðbæingar hefðu tekið Björn Bjarnason á orðinu um einkarekin fangelsi og hefðu handtekið alla Hafnfirðinga á einu bretti.  En svo er víst ekki þegar fréttin er lesin.

Bæjarstjóri Hafnarfjarðar, Lúðvík Geirsson. segir Hafnfirðinga vera í gíslingu Garðabæjar.  "Við lítum svo á að við séum í ákveðinni gíslingu.  Á 1 km kafla í landi Garðabæjar á gamla Hafnarfjarðarveginum, frá Engidal að Vífilstaðavegi, eru þrjár umferðarstýringar.  Þarna myndast stífla á morgnana og síðdegis þegar menn fara í og úr vinnu.  Við höfum ítrekað boðið bæjaryfirvöldum í Garðabæ teikningar af hringtorgum okkar sem hafa leyst úr umferðarhnútum hér."

Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, segir hringtorg vel koma til greina á gatnamótum Vífilstaðarvegar og Hafnarfjarðarvegar þar sem biðin sé.  Gunnar vísar því alfarið á bug á hafnfirðingar séu í gíslingu Garðbæinga.  "Við getum alveg eins verið í gíslingu því þegar við erum að fara út á flugvöll endar Reykjanesbrautin í bílskúr í Hafnarfirði."

Hvað er eiginlega að ske á milli þessara nágranna, þessir bæjarstjórar haga sér eins og börn að leik í sandkassa.  Eru bæjarstjórarnir ekki með réttu ráði og hvað á þessi andskotans vitleysa að þýða?  Hvað er eiginlega að Gunnari Einarssyni, bæjarstjóra í Garðabæ?  hann segi að vel komi til greina að leysa þetta vandamál með hringtorgi eins og Lúðvík Geirsson er að benda á.  En hvers vegna er það ekki gert?  Er ástæðan sú að tillagan kom frá Hafnarfirði?  Ekki veit ég hvaða leið Gunnar Einarsson ekur út á flugvöll ef hann endar alltaf í bílskúr í Hafnarfirði.  Um hvað er maðurinn að tala?  Ég ek oft leiðina frá Reykjavík til Sandgerðis og hef nú aldrei lent í því að enda í bílskúr í Hafnarfirði.  Ef Gunnar bæjarstjóri er ekki betur að sér í því að rata þá leið sem hann ætlar að fara er ekki von á góðu.  Hann óttast kannski hringtorg vegna þess að hann kæmist aldrei út úr því aftur og æki bara hring eftir hring.  Hvað varðar Reykjanesbrautina er það þjóðvegur í þéttbýli og öll lagning hans er í höndum ríkisins en ekki Hafnarfjarðarbæjar.  Ég held að þið báðir bæjarstjórar ættuð að leita að því hvort einhver skynsemi er til í ykkar höfðum og leysa þetta mál á þann hátt að sómi sé að.  Það sem þið eruð núna að gera er til skammar og þið ættuð báðir að skammast ykkar fyrir að haga ykkur eins og algerir bjánar.  En kannski eruð þið einmitt bjánar?


mbl.is Erum í gíslingu Garðbæinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yfirdráttur

Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar um endurskoðun ríkisreiknings 2006 kemur fram að alls voru tólf stofnanir í A-hluta ríkisins með samtals 221 milljóna króna yfirdrátt á bankareikningi í árslok 2006.  Ríkisendurskoðun bendir á að samkvæmt reglum fjármálaráðuneytisins um láns- og reikningsviðskipti ríkisstofnana í A-hluta ríkissjóðs sé ríkisstofnunum óheimilt að fjármagna rekstur sinn með yfirdrætti á bankareikningi.  Í gildi eru lög sem kallast fjárreiðulög nr. 88/1997 og samkvæmt þeim er þetta brot á þeim lögum og ættu því forstöðumenn þessara 12 stofnana sem létu það viðgangast að svona frjálslega var farið með bankareikninga, að sæta ábyrgð á þessari gúmmítékkaútgáfu.  Samkvæmt fjárreiðulögum ber hverri stofnun ríkisins og lendir í vandræðum með að greiða sína reikninga, að leita til fjármálaráðherra sem aftur leitar heimildar hjá fjárlaganefnd Alþingis eða í fjáraukalögum þegar Alþingi starfar og þá á fjármálaráðherra að veita viðkomandi stofnun skammtímalán úr ríkissjóði til að leysa vandann.  Þarna virðist því að lög hafi verið brotin og ætti því að láta viðkomandi aðila sæta ábyrgð á sínum gjörðum, en við þessum brotum getur legið fangelsisdómur.  Ég held að það sé kominn tími til að forstöðumenn stofnana ríkisins beri fulla ábyrgð á sínum störfum, eins og starfsfólk á hinum almenna vinnumarkaði verður að gera.  Þetta virðist vera alltof laust í böndunum og þeir starfsmenn ríkisins sem haga sér svona eiga skilyrðislaust að verða reknir og dæmdir samkvæmt þeim lögum sem um þá gilda.  Svona andskotans vitleysu á ekki að lýða, að gefa út gúmmítékka fyrir 221 milljón og allt á að vera í lagi.
mbl.is Tólf ríkisstofnanir með samtals 221 milljónar yfirdrátt í lok síðasta árs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fangelsi hf.

Nú er Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra að tala um að ekkert sé óeðlilegt að þeirri spurningu sé velt fyrir sér, hvort stofna eigi með samningi til samstarfs við einkaaðila um byggingu og jafnvel rekstur fangelsa.  Björn hefur að sjálfsögðu fullan rétt til að velta upp svona spurningum og mörgu fleiru sama hve vitlaust það er, en hvort að nokkur sé sammála Birni er svo annað mál.  Ég hef talið að fangelsi væri staður til þess að láta fólk taka út refsidóma og úr þeirri vist ættu að koma hæfari einstaklingar til að lifa og starfa í okkar þjóðfélagi.  Ef þessi rekstur yrði settur í hendur einkaaðila er ég nokkuð viss um. að þeir aðilar sem slíkt tækju að sér litu á þetta eins og hvern annan rekstur sem yrði að skila hagnaði og er ég hræddur um að slík fangelsi breyttust fljótt í þrælabúðir.  Öllum kostnaði yrði haldið í lámarki og fangar látnir vinna fulla vinnu nánast kauplausir.  Þetta yrðu fyrirtæki sem jafnvel leigðu út starfsfólk.  Í þessu sambandi dettur mér í hug að á þeim tíma sem ég var að reka hraðfrystihús vestur á Bíldudal og náði samningi við Franska ríkið um að selja þeim fiskafurðir og þegar ég fékk í hendur hvernig framleiðslan ætti að vera, kom í ljós að engar kröfur voru gerðar um gæði varðandi þessa framleiðslu og mátti nota nánast hvað sem var og mátti fiskurinn vera fullur af ormum og beinum.  Því var þetta fljótunnin framleiðsla og verðið var bara nokkuð gott og nota mátti allra ódýrustu umbúðir sem völ var á.  Var þetta því mjög hagkvæm framleiðsla þar sem í hana fór allt það sem ekki var hæft á aðra markaði.  Ég fór að forvitnast um hvað þessir frönsku aðilar gerðu við þetta, því þeir greiddu vel fyrir og tóku við öllu því magni sem hægt var að framleiða um leið og það var búið að fylla hvern frystigám.  Þá kom í ljós að þetta var notað sem fæða fyrir fanga í frönskum fangelsum, því ekki gátu fangarnir verið að kvarta yfir matnum, annað hvort var það þetta eða ekki neitt.  Ætli hliðstæð dæmi komi ekki fljótlega upp í einkareknum fangelsum á Íslandi, því vitað er að á Íslandi er hent miklu magni af matvælum þegar komið er fram yfir síðasta skráðan söludag og þarna væri kominn markaður fyrir það sem að öllu jöfnu endar í ruslinu og er eytt.  Þetta er sú ein vitlausasta hugmynd sem komið hefur frá Birni Bjarnasyni og hafa þær margar verið skrýtnar.  Má þá ekki alveg eins hugsa sér að einkavæða dómskerfið, Hæstarétt og jafnvel dómsmálaráðuneytið.  Það er ekkert vitlausara en þetta.
mbl.is Spurning hvort einkaaðilar eigi að koma að rekstri fangelsa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kvótakerfið

Það er ekki margt sem bendir til að núverandi stjórnvöld ætli að gera neinar breytingar á kvótakerfinu sem oft er verið að fullyrða að sé það besta í heimi.  Gallar þess séu svo litlir á móti öllum kostunum þess.  Á heimasíðu LÍÚ er sérstakur liður þar sem tekin eru fyrir öll sú gagnrýni sem hefur komið fram á kvótakerfið og á að sannfæra lesendur um ágæti þess og hvað öll gagnrýni sé nú vitlaus.  Ekki ætla ég að fara að telja hér upp allt það sem þarna stendur, því mér er alveg sama hvaða rökleysu LÍÚ-menn setja á sína heimasíðu það er þeirra mál og þótt félagar í LÍÚ þurfi að láta mata sig á því hvaða skoðun þeir eigi að hafa á það ekki við um mig.   Mér nægir alveg að nota mína eigin skynsemi, sem kannski er ekki mikil til að mynda mér mína eigin skoðun á þessu kvótakerfi og ætla að byrja á byrjuninni.  Fyrstu lög um stjórn fiskveiða voru sett 1984 og áttu þá að vera skammtíma aðgerð, sem einkum var hugsuð til verndar þorskstofninum,  síðan hafa verið gerðar ótal breytingar og nú síðast með lögum nr. 116 sem tóku gildi í ágúst 2006.  Það má segja að með lögunum nr. 38/1990 hafi núverandi kvótakerfi verið fest varanlega í sessi en þá tók gildi hið svokallaða frjálsa framsal á veiðiheimildum og í framhaldi af því var þeim sem höfðu yfir aflaheimildum að ráða veitt leyfi til að nota sér þau, sem veð fyrir lántökum og hófst nú af fullum krafti allt braskið með kvótann sem sumir vilja kalla hagræðingu.  Á þeim rúmu 20 árum frá því þetta kerfi byrjaði hefur stöðugt verið fjölgað þeim tegundum sem þetta kerfi nær til og jafnvel höfum við kvótasett veiðar á alþjóðlegum hafssvæðum.  Má þar nefna rækjuveiðar á Flæmska hattinum, veiðar úr norsk-íslensku síldinni og úthafsveiðar á karfa.  Í gengum allar þær lagabreytingar sem hafa verið gerðar í þessi rúmu 20 ár hafa alltaf 1.og 2. greinar verið óbreyttar en þær eru:

1.gr.

Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar.  Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu.  Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum mynda ekki eignarétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.

2.gr.

Til nytjastofna samkvæmt lögum þessum teljast sjávardýr svo og sjávargróður, sem nytjuð eru í íslenskri landhelgi og sérlög gilda ekki um.  Til fiskveiðilandhelgi Íslands telst hafssvæðið frá fjöruborði að ytri mörkum efnahagslögsögu Íslands, eins og hún er skilgreind í lögum nr. 41  1. júní 1979 um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn.


Margir eru orðnir svo ruglaðir varðandi þessi lög að meira að segja að einstaka þingmenn og fulltrúar frá Háskóla Íslands hafa haldið því fram opinberlega að tilgangur laganna hafi aldrei haft neitt með verndun fisks, búsetuþróun eða atvinnu, að gera.  Þau hafi verið sett eingöngu til að hægt væri að hagræða í sjávarútveginum.  En ég spyr var ekki hægt að hagræða í sjávarútvegi fyrir daga kvótakerfisins ?  Hver bannaði það ? Ég veit ekki um einn einasta útgerðarmann sem var að gera út fleiri skip en hann taldi sig þurfa, það var enginn að gera út og veiða fisk af því það væri svo gaman.  Nei ástæðan fyrir þeirri hagræðingu sem átt hefur sér stað er einfaldlega sú, að þegar handhöfum veiðiheimilda var heimilt að fénýta það sem þeir ekki áttu, fór hið alræmda kvótabrask á fulla ferð.  Um leið og menn sáu gróðravon urðu margir til að nýta sér það og fóru út úr sjávarútveginum og margir með einhverja milljarða í vasanum og var þá ekkið mikið spurt um hag þeirra sem bjuggu víða um land og höfðu með sinni vinnu skapað mörgum útgerðarmanninum sinn kvóta.  En hefur hagræðing undanfarin ár verið eingöngu í sjávarútvegi ? Nei auðvitað ekki, það hefur átt sér mikil hagræðing og sameining fyrirtækja í mörgum öðrum atvinnugreinum, t.d. hjá bankastofnunum, í verslun og þjónustu.  Ekki hefur þurft kvótakerfi þar og er því allt tal um hagræðingu og sameiningu í sjávarútvegi sé kvótakerfinu að þakka, bara bull og kjaftæði til að reyna að breiða yfir öll mistökin og vitleysuna.  Hvað blasir nú við í dag eftir rúm 20 ár í tilraunastarfsemi ?  Það er ekki bjart yfir, þorskstofnin að hruni komin og útgefin þorskvóti sá minnsti frá því þessi vitleysa hófst.  Á síðasta fiskveiðiári náðist ekki að veiða útgefnar aflaheimildir og munu um 50 þúsund tonn hafa verið óveidd 31. ágúst, hluti af þessu hefur verið færður á milli ára en annað fellur ónýtt niður.  Þetta á við um tegundir eins og Ýsu, Ufsa, Úthafsrækju og nokkrar kolategundir, til hvers er verið að hafa aflakvóta á þeim tegundum sem við náum ekki að veiða?  Hvaða hagsmuni er verið að verja?  Þetta eru friðunaraðgerðir sem ég ekki skil, því á meðan ekki er veitt af öðrum tegundum eins og fiskifræðingar ráðleggja, þeim mun erfiðara verður að byggja upp þorskstofninn, því allar fisktegundir eru í harðri baráttu um fæðuna í hafinu.  Hvernig ætlum við að byggja upp þorskstofninn á sama tíma og allt stefnir í að veiðar á loðnu verði stórauknar og með því minnkar fæðan í hafinu.  Nú er í einu og öllu farið eftir ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunnar varðandi kvótaúthlutun fyrir fiskveiðiárið 2007/2008 og hvað ætla menn að gera á fiskveiðiárinu 2008/2009 ef þá kemur tillaga um meiri niðurskurð á þorskkvóta.  Ætlum við að halda þessari vitleysu kannski áfram næstu 20 ár líka?  Er ekki kominn tími til að láta heilbrigða skynsemi ráða og skoða hlutina upp á nýtt og leggja niður þetta kvótakerfi og reyna allt aðra hluti.  Það er sama til hvaða ráða við munum grípa, að allt er betra en núverandi vitleysa.  Eða ætlum við kannski að eyða hátt í 50 árum í að útrýma þorskstofninum við Ísland endanlega?  

 


Stefnuræða forsætisráðherra

Þá er komið að því að Geir H. Haarde flytur stefnuræðu sína í kvöld og verður umræðunni, sem stendur í tvær klukkustundir, útvarpað og sjónvarpað í Ríkisútvarpinu.   Ræðumenn auk Geirs verða:

Sjálfstæðisflokkur:  Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Samfylkingin:  Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Ásta R. Jóhannesdóttir og Kristján Möller, samgönguráðherra og formaður þingflokks Siglfirðinga.

Vinstri hreyfingin Grænt framboð:Steingrímur J. Sigfússon, Álfheiður Ingvadóttir og Kolbrún Halldórsdóttir.

Framsóknarflokkur:  Guðni Ágústsson, Valgerður Sverrisdóttir og Bjarni Harðarson.

Frjálslyndi flokkurinn:  Guðjón A. Kristjánsson, Jón Magnússon og Grétar Mar Jónsson.

Þótt ég hafi gaman af að fylgjast með störfum Alþingis er þetta eitt af því leiðinlegasta sem nokkur maður getur hlustað á og ég skil ekki að Ríkisútvarpið skuli eyðileggja nær heila kvölddagskrá sjónvarpsins fyrir svona helvítis kjaftæði.  Ég er sem betur fer með Stöð 2 og get því horft á hana á meðan þessi vitleysa gengur yfir.  Þetta er alltaf eins á hverju ári.  Ekkert nýtt kemur fram hjá forsætisráðherra sem ekki er nú þegar í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.  Allir stjórnarþingmenn munu að vanda lofsyngja ræðu Geirs og stjórnarandstaðan gagnrýnir og gagnrýnir.  Sem sagt tilgangslaust rugl sem ekki hefur nokkra þýðingu.  Svo er Sturla Böðvarsson að tala um að auka þurfi traust almennings á störfum Alþingis.  Ekki mun svona hundleiðinlegt leikrit á hverju ári auka traust eða virðingu Alþingis.


mbl.is Stefnuræða forsætisráðherra flutt í kvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jakob Falur Kristinsson
Jakob Falur Kristinsson

Ég er fyrrverandi vélstjóri og útgerðarmaður en er nú 75% öryrki eftir slys á sjó 2003. Bjó lengst af á Bíldudal en flutti til Sandgerðis haustið 2005.  En er nú aftur fluttur á Bíldudal.  Að svo miklu leyti sem myndir á síðunni eru eftir Mats Wibe Lund, þá liggur fyrir tímabundið samþykki hans um birtingu hjá mér og þakka ég honum sérstaklega fyrir.  Mats á að sjálfsögðu hönundaréttin að öllum sínum myndum.  Vilja menn sjá fleiri myndir þá vísast á www.mats.is  Ég  var flokksbundinn í Frjálslynda flokknum og hef starfað þar, en sagði mig úr flokknum 24. apríl og gekk í Samfylkinguna.  Föðurætt mín er úr Arnarfirði og móðurættin frá Jökulfjörðum og Hornströndum og í báðum tilfellum, langt aftur í aldir.  Er ég því ekta Vestfirðingur.

Undir fyrirsögninni Færsluflokkar er flokkur sem heitir Vefurinn og ef smellt er á hann opnast síður þar sem ég er að skrifa ýmsar frásagnir.  Einnig er undir liðnum spaugilegt smá grín ofl. 

Ég leyfi öllum að skrifa athugasemdir við mín skrif.   En af gefnu tilefni hef ég ákveðið að þeir sem ekki kunna sér hófs í athugasemdum og nýta þær til persónulegra árása á mig og mína persónu, með allskonar skömmum og svívirðingum, mun ég hér eftir loka á slíka aðila.  Einnig mun ég henda út nafnlausum athugasemdum.  Því ég einn ber ábyrgð á því sem skrifað er á mína síðu.

jakobkr@internet.is     

GSM: 823-2954

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband