Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Alþingi

 

Nú eru 12 af 63 þingmönnum á Alþingi sem tengjast Siglufirði á einhvern hátt.  Nokkrir eru fæddir þar, foreldrar sumra eru þaðan eða afar, ömmur eða makar.  Þetta eru 19,04% allra þingmanna en íbúar Siglufjarðar eru 0,4% þjóðarinnar. 5 eru í Sjálfstæðisflokki, 3 eru í Framsóknarflokki, 2 eru í Samfylkingunni og 2 eru í Vinstri Grænum.  Af þessum hópi eru 3 ráðherrar og Kristján Möller segir að í raun sé þetta þriðji stæðsti þingflokkurinn.  Það vaknar nú spurning hvort þetta sé ekki brot á jafnræðisreglu Stjórnarskrárinnar?  En svo er víst ekki, en Siglfirðingar geta verið ánægðir með sinn hlut á þingi, en hvort það gagnast þeim eitthvað efast ég um.  Þó er nokkuð ljóst að þegar hinir miklu hreppaflutningar sem senn fara af stað, þá verður valdamikil móttökunefnd sem getur tekið á móti Siglfirðingum þegar þeir neyðast til að flytja til Reykjavíkur.


mbl.is Siglfirðingar fjölmennir á Alþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjónvörp

 

Það munað ekki um það.  Aðeins 103 tommu sjónvörp á krónur átta milljónir og til að átta sig betur á stærðinni eru 103 tommur rúmir 2,5 metrar.   Ég verð að eignast svona tæki.  Ef ég hætti að reykja, sem er eini munaðurinn sem ég get leyft mér þá væri ég ekki nema 50-60 ár að safna fyrir svona sjónvarpstæki. En einu vankantarnir á því eru, að þá væri ég orðinn 107-117 ára gamall og næsta víst, að ég væri löngu dauður svo það gengur víst ekki upp hjá mér.  Því kýs ég heldur að panta bara mynd af svona tæki og láta stækka hana í rétta stærð og líma á stofuvegginn hjá mér og halda áfram að horfa á mitt gamla sjónvarp og fá mér að reykja af og til.  Auðvitað myndi ég segja öllum sem kæmu í heimsókn að ég væri bara með myndina á veggnum á meðan ég væri að bíða eftir tækinu.  Það kemur fram í fréttinni að Hellisheiðarvirkjun hafi keypt eitt svona sjónvarp og prýðir það sýningarsal virkjunarinnar en ekki er sagt frá hver keypti hitt tækið en tvö munu nú vera seld.


mbl.is Tvö 103 tommu sjónvörp seld á átta milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenska krónan

Enn er þessi blessuð íslenska króna að styrkjast og lækka þar með tekjur íslensks sjávarútvegs sem þessa dagana er að glíma við stórkostlegt tekjutap vegna skerðingar á þorskkvóta.  Það virðist að hinn íslenski Seðlabanki með Davíð Oddsson í forustu geti ekki á nokkurn hátt haft áhrif á krónuna nema að styrkja hana enn frekar með mjög háum stýrivöxtum og ef marka má umræður manna í atvinnulífinu telja þeir að raungengi krónunnar sé a.m.k. 15% of hátt.  Við erum algerlega búnir að missa þetta úr okkar höndum, íslendingar.  Heldur eru það erlendir spákaupmenn sem með útgáfu á svokölluðum Jöklabréfum sem ráða þessu algerlega og hirða hér gríðarlegar tekjur vegna hinna háu vaxta.

Ég held að þar sem Seðlabanki Íslands er algerlega máttlaus í stjórn efnahagsmála væri hreinlegast að leggja hann niður eins og Davíð lét gera við ákveðna stofnun á þeim tíma þegar hann var forsætisráðherra.  Við getum ekki haldið svona áfram.  Það hlýtur að vera hægt að finna annað starf fyrir Davíð Oddsson sem kostar þjóðfélagið miklu minna.  Það væri jafnvel hægt að borga honum vel fyrir það eitt að gera ekki neitt.


mbl.is Gengi krónunnar styrktist um 0,21% í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkissjóður

Samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2008 er gert ráð fyrir 30,8 milljarða tekjuafgangi að sögn fjármálaráðherra.  Þótt þetta sé nokkuð góð upphæð og ánægjulegt að ríkissjóður skuli vera með tekjuafgang en ekki halla, telst þetta þó aðeins smáaurar ef miðað er við afkomutölur bankanna. Baugur hf. er líka að gera það nokkuð gott í Bretlandi og í fréttum í gær var sagt frá því að ein af verslunarkeðjum Baugs þar í landi hefði skilað svo góðri afkomu að stjórnendur Baugs sáu ástæða til að verðlauna hinn breska forstjóra.  Ég hélt fyrst að þessi verðlaun yrðu einhver bónus í launum, en svo var ekki.  Baugur hf. ákvað að endurnýja einkaflugvél forstjórans, sem var víst einhver lítil og ómerkileg flugvél sem hinn venjulegi borgari a.m.k. á íslandi verður að sætta sig við ef hann hefur þá á annað borð ráð á að eignast flugvél eða hlut í flugvél til einkanota.  Þeir Baugsmenn gáfu forstjóranum nýja einkaþotu, sem kostaði aðeins þrjá milljarða, takk.  En hvað um það ríkissjóður stendur vel og myndi ég nú þiggja að aðeins yrðu bætt kjör okkar öryrkja um einhverjar krónur svo maður geti látið sig dreyma áhyggjulaust um nýja einkaþotu, þótt sá draumur rætist auðvitað aldrei. 
mbl.is Fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir 30,8 milljarða tekjuafgangi 2008
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sundabraut

Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu fyrir næsta ár er gert ráð fyrir að 1530 milljóna króna framlagi, sem fyrirhugað var til Sundabrautar á næst ári, verði frestað.

Ég segi nú bara er ekki allt í lagi með þessa menn sem þessu ráða.  Þegar á sama tíma er verið að skipuleggja mestu hreppaflutninga Íslandssögunnar með því að flytja 20 þúsund manns af landsbyggðinni á höfuðborgarsvæðið.  Hvernig á aumingja fólkið að komast inná svæðið?  Verður það að koma sjóleiðina? Eða jafnvel gangandi?  Hvers konar andskotans vitleysa er þetta allt að verða.

Ég spyr að lokum er þetta allt í lagi Sturla, forseti ?


mbl.is Ekki gert ráð fyrir framkvæmdum við Sundabraut á næsta ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næturfundir

Nú hefur Sturla Böðvarsson forset Alþingis boðað breytingar á skipulagi þingsins við setningu þess í dag og sagði m.a. að næturfundir ættu ekki að þekkjast á Alþingi.  Þá sagði Sturla nauðsynlegt að draga úr löngum ræðum á þinginu en jafnframt ættu þingmenn að geta efnt til pólitískra umræðna um aðkallandi mál með litlum fyrirvara.  Bæta mætti núverandi fyrirkomulag á slíkum umræðum.  Hægt væri að hafa þær í upphafi þingfunda og þar geti þingmenn átt orðastað við fleiri en ráðherra svo sem formenn þingnefnda.   Þá sagði Sturla að stefnt væri að lengri starfstíma þingsins, fjölga nefnda- og kjördæmadögum.  Sturla sagði að nú á tímum væru gerðar miklar kröfur til þingmanna og ráðherra um þátttöku í stjórnmálastarfi utan vettvangs þingsins.  Þá hefði breytt kjördæmaskipan haft í för með sér breytingar á störfum þingmanna og kröfur hefðu aukist um að þingmenn sinni kjördæmi sínu og kjósendum.  Einnig væri alþjóðlegt samstarf þingsins og þingmanna stöðugt mikilvægari þáttur í starfi þeirra.  Sturla sagðist hafa rætt hugsanlegar breytingar á starfsháttum þingsins við formenn þingflokka.  Hann nefndi að styrkja þyrfti starf nefnda þingsins og auka eftirlitshlutverk þeirra og sagði að til greina kæmi að ráða sérstaka starfsmenn sem ynnu fyrir minnihluta þingnefndar.  Þá kæmi einnig til greina, að opna ákveðna nefndarfundi fyrir fjölmiðlum.  Sturla sagði mikilvægt fyrir stjórnarandstöðu sem og stjórnarþingmenn að Alþingi ávinni sér traust.  Þáttur í því að lagasetning sé vel undirbúin og þingmenn komi til umræðna vel undirbúnir.

Eftir að ég las þessa frétt datt mér fyrst í hug að Sturla, sem væri að boða þessar breytingar væri nýliði á Alþingi, en svo er nú aldeilis ekki.  Ég er einn af þeim sem fylgist mikið með störfum Alþingis og mér hefur virst að þessir næturfundir komi oftast til vegna þess að ríkisstjórnin er að leggja fram stór og umdeild mál á síðustu stundu og ætlast til að þau séu keyrð í gegnum þingið með forgangshraða.  Þetta á við um þann tíma sem er rétt fyrir jólaleyfi eða rétt fyrir þinglok á hverjum tíma.  En að ætla að draga úr löngum ræðum þingmanna og segja um leið; "Að jafnframt ættu þingmenn að geta efnt til pólitískra umræðna um aðkallandi mál með litlum fyrirvara." er hlutur sem ég ekki skil hvernig getur farið saman.  En að auka eftirlitshlutverk þingnefnda og opna ákveðna nefndarfundi fyrir fjölmiðlum er fagnaðarefni  og hefði komið sér vel þegar Sturla var ráðherra og má þar nefna Grímseyjarferjuna sem dæmi.  Hvað varðar traust Alþingis, þá er það nú alltaf svo að erfitt er að vinna traust sem hefur glatast.  Sturla nefnir að til greina komi að ráða sérstaka starfsmenn til að vinna fyrir minnihluta í nefndum þingsins og væri það til mikilla bóta.  Hann ræðir einnig um þá miklu breytingu sem hefur orðið á störfum þingmanna og nefnir að þingið ætti að starfa lengur á hverju ári og er ég sammála honum í því.  Hinsvegar tel ég að ef nú á að breyta starfsháttum Alþingis ætti það að gera almennilega.  Í því sambandi teldi ég rétt að ráðherrar sætu ekki á þingi á sama tíma og þeir eru í ráðherraembætti og kölluðu inn varamenn á meðan.   Einnig eins og einu sinni var rætt um að hver þingmaður ætti rétt á að ráða sér sérstakan aðstoðarmann, þar sem starf þingmanna hefur breyst svo mikið eins og Sturla bendir á.  Hvað varðar að lagasetning sé vel undirbúin og þingmenn komi til umræðu vel undirbúnir, þá hefur mér ekki virst þingmenn sem taka þátt í umræðum um hin ýmsu mál ekki vera illa undirbúnir, en aftur á móti hafa mörg stjórnarfrumvörp ekki verið vel undirbúin og þó nokkur dæmi að nýsamþykkt lög verða nánast ónothæf vegna þess að þau eru ekki nægjanlega skýr og oft plástrar á galla sem hafa komið upp vegna eldri laga.  Um frumvörp frá stjórnarandstöðu þarf varla að ræða, því hvort þau eru vel eða illa undirbúinn eru þau nánast aldrei samþykkt og væri nær að huga örlítið að þeim málum þegar rætt er um virðingu Alþingis.  Dæmi um vandræðalög sem sett hafa verið eru hin nýju Vatnalög sem nú er reynt af öllum mætti af sitjandi ríkisstjórn að koma í veg fyrir að þau taki gildi.  Þanni að það er að mörgu öðru að hyggja en, Næturfundum á Alþingi. 


mbl.is Næturfundir ættu ekki að þekkjast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðskiptaráðherra

Í þættinum Örlagadagurinn, sem sýndur var á Stöð 2 í gærkvöldi var rætt við hinn nýja viðskiptaráðherra Björgvin G. Sigurðsson og í þættinum var hann að lýsa því hvernig hans vinnuvika væri í hinu nýja starfi og hvað gaman væri í vinnunni við að leysa hin margvíslegu mál og geta nú hrint í framkvæmd öllu því góða sem hann taldi að bráðnauðsynlegt væri að gera til að gott væri að búa á Íslandi,  Björgvin taldi upp mörg góð mál sem leysa þyrfti sem allra fyrst og lýsti því af miklum ákafa hvað þetta yrði allt skemmtilegt og gott.  Ég var sammála svo til öllu sem Björgvin taldi upp að þyrfti að laga og vona sannarlega að hann og hans flokkur taki á öllum þessum málum og ekki ætti það að tefja fyrir að þetta eru allt svo skemmtileg mál að leysa.  Ég fékk stundum á tilfinninguna að verið væri að ræða við barn sem er umvafið jólapökkum og veit ekki á hverju skal byrja fyrst, því allt er jafn spennandi og skemmtilegt.

Nú er bara eitt sem Björgvin G. Sigurðsson á eftir, en það er;                                                         

"Að láta verkin tala."


Nýr frændi

Samkvæmt þessari frétt millilenti Bill Clinton fyrrum Bandaríkjaforseti á Íslandi í morgun á leið sinni til Færeyja en þangað kom hann um hádegi í dag.  Clinton mun flytja ræðu á ráðstefnu í Færeyjum í dag, en við komuna þangað sagði Clinton að hann hefði alltaf fundið til skyldleika með Færeyingum, þar sem hann væri af írskum ættum og fyrstu landnámsmenn á eyjunum hefðu verið Írar.

Það gefur auga leið að ef Clinton er skyldur Færeyingum af þessari ástæðu þá hlýtur hann að líta á íslendinga sömu augum.  Því margir af okkar landnámsmönnum munu hafa haft viðkomu á Írlandi og tekið með sér til Íslands margar írskar konur og menn.  Nú getur allt rauðhært fólk á Íslandi farið að tala um Clinton frænda.  Því miður er ég ekki einn í þeim hópi og verð að láta mér nægja þá frændur sem ég átti fyrir og á því ekki von á neinum boðum í Hvíta húsið ef eiginkona Clintons verður næsti forseti Bandaríkjanna, en rauðhærða fólkið getur aftur á móti vonað að fá slík boð þegar Clinton hjónin halda stór fjölskyldumót.  Af því að Lúðvík Gissurarson hefur með málaferlum getað fengið það sannað að hann sé sonur Hermanns Jónassonar, ætti Steingrímur Hermannsson kannski að athuga hvort hann sé ekki mjög skyldur Clinton, því Steingrímur er jú rauðhærður ekki satt?


mbl.is Bill Clinton segist finna til skyldleika með Færeyingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mánaðarmót

Nú eru komin einu sinni enn ný mánaðarmót sem er skelfilegur dagur í lífi okkar öryrkjanna, eins og ég hef áður bent á.  Nú fáum við greiddar okkar bætur og við tekur hið mikla púsluspil að skipuleggja fjármálin næsta mánuð.  Við eru enn á ný mynnt á hversu bág okkar kjör eru.   Þar sem ég er með heimabanka og þar koma fram allir þeir reikningar sem greiða þarf og við hvern reikning sem ég greiði sé ég um leið hvað inneignin á mínum reikningi lækkar stöðugt.  Þetta er eitt allsherjar taugastríð og hikandi smelli ég á að greiða reikning og loka síðan augunum áður en ég þori að sjá hver stað reikningsins er.  Þótt þetta hafi verið mitt hlutskipti í 4 ár get ég aldrei vanist þessu, því alltaf er útkoman eins, þegar ég er búinn að greiða það sem ekki er hægt að komast hjá að greiða eru alltaf eftir á mínum reikningi nokkur þúsund.  Þetta er í sjálfu sér ekkert skrýtið því Tryggingastofnun passar vandlega að engi öryrki hafi meiri tekjur en rúmar 125 þúsund á mánuði og af því er síðan dreginn einhver skattur, því skattleysismörk eru 90 þúsund.  Okkur eru líka allar bjargir bannaðar, við getu ekki tekið að okkur neina vinnu því ekki megum við hafa hærri tekjur en 25 þúsund á mánuði og af þessum 25 þúsundum er síðan tekinn fullur skattur+lsj.+félagsgjald og er þá eftir innan við 10 þúsund sem varla dugar fyrir kostnaði við að koma sér til og frá vinnu.  Svo þessi leið er tilgangslaus og er þá ekki annað eftir en að standa í biðröðum hjá hinum ýmsu hjálparsamtökum sem gefa fátæku fólki mat, fatnað ofl.  Það er furðulegt að í okkar þjóðfélagi þar sem allt er fljótandi í peningum og íslendingar líta ekki við störfum sem gefa minni tekjur en 200-300 þúsund á mánuði og meira segja í ákveðinni veislu hjá einum af okkar stóru bönkum kostaði bara vínið með matnum álíka upphæð og mínar ráðstöfunartekjur eru á mánuði.  Hagstofa Íslands gefur síðan út að lámarks framfærsla einstaklings sé 150 þúsund á mánuði.  Ég er ekki enn farinn að opna minn heimabanka í dag til að leysa þetta mánaðarlega púsluspil öryrkjans.  Ég er enn að safna kjarki til þess.

« Fyrri síða

Höfundur

Jakob Falur Kristinsson
Jakob Falur Kristinsson

Ég er fyrrverandi vélstjóri og útgerðarmaður en er nú 75% öryrki eftir slys á sjó 2003. Bjó lengst af á Bíldudal en flutti til Sandgerðis haustið 2005.  En er nú aftur fluttur á Bíldudal.  Að svo miklu leyti sem myndir á síðunni eru eftir Mats Wibe Lund, þá liggur fyrir tímabundið samþykki hans um birtingu hjá mér og þakka ég honum sérstaklega fyrir.  Mats á að sjálfsögðu hönundaréttin að öllum sínum myndum.  Vilja menn sjá fleiri myndir þá vísast á www.mats.is  Ég  var flokksbundinn í Frjálslynda flokknum og hef starfað þar, en sagði mig úr flokknum 24. apríl og gekk í Samfylkinguna.  Föðurætt mín er úr Arnarfirði og móðurættin frá Jökulfjörðum og Hornströndum og í báðum tilfellum, langt aftur í aldir.  Er ég því ekta Vestfirðingur.

Undir fyrirsögninni Færsluflokkar er flokkur sem heitir Vefurinn og ef smellt er á hann opnast síður þar sem ég er að skrifa ýmsar frásagnir.  Einnig er undir liðnum spaugilegt smá grín ofl. 

Ég leyfi öllum að skrifa athugasemdir við mín skrif.   En af gefnu tilefni hef ég ákveðið að þeir sem ekki kunna sér hófs í athugasemdum og nýta þær til persónulegra árása á mig og mína persónu, með allskonar skömmum og svívirðingum, mun ég hér eftir loka á slíka aðila.  Einnig mun ég henda út nafnlausum athugasemdum.  Því ég einn ber ábyrgð á því sem skrifað er á mína síðu.

jakobkr@internet.is     

GSM: 823-2954

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband