Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Þorskkvótinn

Nú berast þau tíðindi að útkoman úr togararalli Hafró hafi verið mjög léleg varðandi þorskinn þrátt fyrir mokveiði af þorski nánast um allt land í flest veiðarfæri, og væntanlegar séu fréttir um a.m.k. 20% niðurskurð á þorskkvóta næsta fiskveiðiár.  Mun eiga að skýra frá þessu í júní, því ekki vilji sjávarútvegsráðherra ganga til kosninga með þetta á herðunum.  Er nú ekki kominn tími til að staldra aðeins við og hugsa um hvað erum við að gera.  Er það þetta sem við viljum fá út úr besta fiskveiðistjórnunarkerfi í heimi.  Ætlum við að halda áfram af fullum krafti að veiða ætið frá fiskinum þar á ég við loðnu og síldveiðar.  En hingað til hefur ekki mátt finnast ein smá loðnutorfa í lok vertíðar án þess að í ofboði væri gefinn út viðbótarkvóti í loðnu og nú er fullyrt af Hafró að hin mikla þorskveiði skýrist m.a. af því að þorskurinn sé svo mikið á grunnslóðinni vegna þess að þar hafi loðnan gengið og loðnuskipin ekki náð að veiða hana.  Ef Hafró hefur rétt fyrir sér og svona lítið er af þorski í sjónum og stofninn á hraðri niðurleið skipta loðnuveiðarnar sjálfsagt engu máli, því með sömu aðferðafræði verður enginn þorskur til eftir nokkur ár og augljóst að enginn fiskur = þarf ekkert æti.  Eigum við nú ekki að leyfa mönnum sem hafa vit á þessum málum að koma með vitrænar tillögur og fara eftir þeim.  Á ég þar við menn eins og Jón Kristjánsson, Magnús Þór Hafsteinsson, Kristinn Pétursson reynda skipstjóra ofl.  Í síðasta tbl. Fiskifrétta er fróðlegt vital við Magnús Kr. Guðmundsson á Tálknafirði sem nú er 77 ára gamall, fæddur 1930 og þar segir:  Magnús var landsfrægur aflamaður og starfaði sem skipstjóri fram yfir 1990.  Hann þótti hafa einstaka hæfileika til að sjá fyrir um göngur fiska og eitt sinn var sagt um Magnús að hann hlyti að geta hugsað eins og þorskurinn Slík var hæfni hans til veiða.  Magnús segir síðan í viðtalinu:

Vandamálið á Íslandi er það að of margt fólk er illa uppalið þrátt fyrir mikla menntun.  Í anda sínum er þetta unga fólkið duglegt en það er latara þegar kemur að verki.  Að mínu mati eru ansi fáir sem ná því að þroskast almennilega og verða dugandi manneskjur í dag.  Lífsgæði Íslands eru mikil og þeir sem alast upp við góðæri verða oft linir.  Íslendingar hafa alltaf verið frjálshyggjumenn og vanir að standa á eigin fótum.  Náttúran er hörð og meðan lífsbaráttan var það líka sá hún um uppeldið.  Í mínum huga eru Íslendingar að þynnast út og það eina sem gæti bjargað þjóðinni er að fá mótlæti sem kæmi frá náttúrunni segir Magnús Kr. Guðmundsson að lokum.  Er þetta ekki einmitt það sem er að ske hjá Hafró, liðið er að þynnast út og situr í sínum fílabeinsturni og leikur sér með reiknilíkön  sín.  Ekki voru þetta starfskilyrði sem þeir Bjarni Sæmundsson, Árni Friðriksson og Jakob Jakobsson unnu við, enda árangurinn þá og nú gerólíkur.  Bjarni Sæmundsson sagði einhvern tíma að bestu skilyrði fyrir endurnýjun þorsksins væru opin dekk gömlu síðutogaranna því að í aðgerð þar blönduðust saman hrogn og svil.  Ekki veit ég hvernig rollubókhald Binna í Vinnslustöðinni í Eyjum kemur til með að líta út fyrir næsta ár nema Atli Gíslason VG hafi kennt honum eitthvað nýtt en Atli hefur heimsótt Vinnslustöðina eins og hann útskýrði fyrir þjóðinni í sjónvarpinu sl. sunnudag og var hans eina framlag í umræðu um sjávarútvegsmál.    


Nasistavæl á Stöðvarfirði

Ég var að lesa á bloggsíðu Sigurjóns Þórðarssonar hvernig ákveðinn maður lét á Stöðvarfirði þegar Sigurjón var að undirbúa fund þar.  Björgvin Valur mun hann víst heita og vera barnaskólakennari á staðnum.  Ég þekki manninn ekkert sem betur fer, en ég las í einni athugasemd á síðunni að ekkert væri athugavert við framkomu mannsins þótt hann ætti að vera fyrirmynd barnanna sem kennari.  Því hann hefði ekki verið í vinnunni þegar hann gerði sig að algeru fífli.  Barnaskólakennari er ætíð fyrirmynd barnanna bæði utan sem innan skólans.  Ekki trúi ég því að forustu Samfylkingarinnar líki svona framkoma, ef þeim líkar þetta vel eru þau farin að velta sér upp úr sama skítnum og þessi maður.  Það er tvennt ólíkt að vera ekki sammála og koma því á framfæri eða vera svo fátækur af málefnum að menn þurfi að grípa til þess að láta svona.  Frá Frjálslynda Flokknum hefur aldrei komið neitt sem gæti gefið tilefni til að kalla okkur rasista eða nasista.  Og leggja öðrum orð í munn sem þeir hafa aldrei sagt er framkoma á lægsta plani og verði Samfylkingunni að góðu að eiga svona fulltrúa á Stöðvarfirði og ég votta Stöðfirðingum samúð mína að þurfa að láta svona vitleysing kenna og taka þátt í uppeldi barnanna á staðnum.  Það sagði eitt sinn gamall bóndi vestur í Arnarfirði sem hafði gaman af því að segja sögur "Það er saklaust að ýkja aðeins en lygi upp frá rótum væri óþverraskapur".

Við Björgvin Val vil ég aðeins segja þetta: "Þínir valkostir eru tveir"  Biðjast afsökunnar á þessu eða fara lóðrétt til andskotans, þar gætir þú kannski hitt skoðanabræður þína.


Enn syndir Jón

Nær því á hverju kvöldi fáum við að sjá Jón Sigurðsson formann Framsóknar synda af fullum kraft og texti rennur yfir skjáinn "Vinnum áfram.  Ekkert stopp."  Ég hef verið að velta fyrir mér af hverju maðurinn er að æfa allt þetta sund, er hann að fara að taka þátt í einhverri keppni.  Eina sem mér dettur í hug að hann sé að æfa sig til að getað synt til Kaupmannahafnar eftir kosningarnar í maí þar sem nokkuð ljóst er að hann nær ekki kjöri inn á Alþingi og skrifta fyrir Halldóri Ásgrímssyni Guðföður kvótakerfisins og fá syndaaflausn.  Ekki veit ég í hvaða sundlaug maðurinn er að æfa sig en ekki sjást fleiri í lauginni en Jón.  Þetta er kannski einhver einkavinavædd sundlaug sem er einungis fyrir framsóknarmenn og gæti það útskýrt hvað fáir eru í lauginni. 

Frjálslyndi Flokkurinn

Það heyrðist rætt um nokkru fyrir síðasta landsfund að Sverrir Hermannsson ætti Frjálslynda Flokkinn þ.e. nafnið og gæti þar með bannað okkur flokksmönnum að nota nafnið.  Var t.d. Grétar Mar ofl. tilbúnir með tillögu að nýju nafni en til þess þurfti nú ekki að koma því Sverrir er ekki svo heimskur að honum dytti í hug að reyna að hindra notkun á nafninu enda óvíst að hann hefði getað það.  Við skulum ekki gleyma því að það var ekki Sverrir sem kom flokknum inn á Alþingi á sínum tíma, heldur Guðjón Arnar Kristjánsson með sínu mikla persónufylgi og dróg Sverrir með sér.  Það var því Guðjón en ekki Sverrir sem gerði flokkinn að alvöru stjórnmálaflokki, enda bætti flokkurinn við sig þingmönnum í næstu kosningum á eftir og ekki var Sverrir einn af þeim.  Eftir landsfundinn var ég talsvert efins um að rétt hefði verið að fella Margréti Sverrisdóttur í varaformannskjöri, vitandi það að um leið myndi hún segja sig úr flokknum.  En eftir að hafa heyrt yfirlýsingu hennar um að þótt hún hefði unnið, hefði hún samt  skilið við flokkinn, þá áttaði ég mig á hvað konan var að hugsa um allan tímann.  Hún hafði í raun engan áhuga á að verða varaformaður heldur ætlaði hún sér formennsku en lagði ekki í þann slag á móti Guðjóni Arnari á þessum landsfundi.  Við höfum nú á að skipa mjög sterkri forustusveit í flokknum sem vinnur vel saman.  Grasrót flokksins hefur alla tíð verið sterkust á Vestfjörðum vegna hinnar sterku stöðu Guðjóns og enn sterkari er hún í dag þegar Kristinn H. Gunnarsson hefur gengið til liðs við flokkinn en hann á einnig mikið persónufylgi og er ég viss um að þeir félagar Guðjón og Kristinn fara báðir inn á þing í næstu kosningum.  Magnús Þór og Sigurjón standa alltaf vel fyrir sínu. 

Ef allir vinna vel fyrir næstu kosningum spái ég því að Frjálslyndi Flokkurinn verði með a.m.k. 6 til 7 þingmenn og verða sá flokkur sem í raun fellir núverandi ríkisstjórn, en það mun kosta baráttu og enginn má bregðast því að vinna vel fyrir flokkinn.


Furðulegt fyrirbæri

Sjálfstæðisflokkurinn er furðulegt fyrirbæri.  Þeir sem kjósa þennan flokk gera það alltaf, aftur og aftur, sama hvað flokkurinn lemur mikið á þeim.  Hjá sumum er þetta eins og trúarbrögð og nánast guðlast að kjósa annað.   Ég er öryrki og veit því vel hver staða okkar í þjóðfélaginu er, en við getum hvorki lifað eða dáið af okkar bótum.  Ég var hér áður með mjög góðar tekjur og oft í hópi þeirra sem greiddu mestu skatta á Vestfjörðum.  Ekki nóg með að okkar bætur séu lágar heldur er megnið af lífeyrissjóði mínum af mér tekinn í formi skatta og skerðingar.  Ég á góða vinkonu sem einnig er öryrki og við ræðum oft hvað við erum illa sett, en hún kýs alltaf Sjálfstæðisflokkinn og vill ekkert á það hlusta þegar ég er að reyna að útskýra fyrir henni að ein af ástæðum þess hvað við búum við slæm kjör væri sú að þetta kjósi hún alltaf yfir sig.  Nei hún kennir Tryggingastofnun um.  Um síðustu áramót gengu í gildi ný lög sem heimiluðu okkur að hafa tekjur án þess að bætur skertust kr. 25 þúsund á mánuði ekki mátti þetta þó vera tekjur úr lífeyrissjóði, aðeins atvinnutekjur.   Ég veit ekki hvar maður á að fá slíka vinnu, annað hvort getur maður fengið 50% eða 100% starf.  Nú er forsætisráðherra reyndar að boða breytingar á þessu sem eigi að taka gildi um næstu áramót og það furðulega er að þá á að miða við 70 ára aldur en eins og allir vita eru öryrkjar á öllum aldri.  Það er auðvelt að lofa inn í framtíðina verandi óviss um hvort nokkurn tíma þurfi að standa við þetta.

Nú benda skoðanakannanir til að núverandi ríkisstjórn haldi velli og geta þeir þá þakkað það, þessu kosningabrölti Margrétar Sverrisdóttur og félaga hennar og sama á við Baráttusamtök aldraðra og öryrkja.  Yrðu það hörmuleg tíðindi og lítið annað að gera en flytja úr landi.  Ísland þolir ekki eitt kjörtímabil í viðbót með þessa stjórn og verða nú allir að leggjast á árarnar og fella stjórnina.  Ef aldraðir og öryrkjar ætla að standa við sitt framboð verður útkoman aðeins sú að hjálpa stjórninni að halda völdum.  Til hvers að standa í þessu brölti af hverju kjósið þið ekki bara Sjálfstæðisflokinn beint og milliliðalaust svo hann geti haldið áfram að lemja á okkur.  Ég vil að lokum benda ykkur á að Frjálslyndi Flokkurinn er sá flokkur sem best er treystandi til að bæta okkar kjör.


Vestfjarðarskýrslan

Ég heyrði í Svæðisútvarpi Vestfjarða viðtal við Halldór Halldórsson bæjarstjóra á Ísafirði, þar sem hann er að fagna því að ríkisstjórnin hafi samþykkt tillögur nefndar sem skipuð var 15. mars 2007 og var ætlað að fjalla um leiðir til að efla atvinnulíf á Vestfjörðum m.a. gera tillögur um flutning starfa frá höfuðborgarsvæðinu til Vestfjarða.  Halldór talaði um eins og eitthvað nýtt væri á ferðinni sem tæki á raunverulegum vanda Vestfjarða en hann var einn nefndarmanna. Ég varð mér úti um eintak af þessari skýrslu sem hægt er að nálgast á vefnum strandir.is og tók mig til að lesa þetta merkilega plagg.  Ég varð fyrir miklum vonbrigðum eftir þennan lestur, ég veit ekki hvað ég er búinn að lesa margar svipaðar skýrslur í gegnum árin flestar frá Byggðastofnun og fleiri aðilum sem flestar hafa þjónað þeim tilgangi einum að fullnægja ruslafötunni.  Í skýrsluni er gerðar 37 tillögur um 80 ný störf og kostnaður yrði rúmar 500 milljónir þegar þær væru að fullu komnar til framkvæmda sem tæki nokkur ár.  Í skýrslunni komur fram að íbúum á Vestfjörðum hefur fækkað um tæplega 1200 manns á sl. 10 árum. úr 8.634 árið1997 í 7.470 árið 2006.  og reiknað má með einhverri fækkun 2007 þannig að Vestfirðingar verða sennilega um 7.000 í árslok 2007.  Ég er ekki hissa þótt bæjarstjórinn sé ánægður því gert er ráð fyrir að flest þessara starfa verði á Ísafirði, 7 til 8 á Patreksfirði um 4 á Hólmavík og 4-5 í Bolungarvík en um 65 störf á Ísafirði. 

Ísafjörður verður aldrei neinn alvöru byggðakjarni Vestfjarða þótt jarðgöng komi á milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar sem ganga undir nafninu "Eyðibýlagöngin" á sunnanverðum Vestfjörðum.  Það hafa margir deilt um hverjir stóðu sig best á stjórnmálafundi á Ísafirði fyrir skömmu, en hinn stórkostlegi karakter Halldór Hermannsson skrifar góða grein í Bæjarins besta á Ísafirði sem  hann nefnir Svört föt og hvít og vona ég að Halldór fyrirgefi mér þótt ég láti greinina koma fram hér, en hún er svo góð að sem flestir verða að sjá hana á prenti:

Svört föt og hvít

Þann 16. apríl sl. stóð RÚV fyrir stjórnmálaumræðu í íþróttarhúsi Ísafjarðar.  Voru þar mættir fulltrúar hinna ýmsu stjórnmálaflokka.  Þetta var klukkutíma Kastljósþáttur.  Fjöldi fólks mætti til fundarins. Tekin voru fyrir sjávarútvegs- og samgöngumál.  Efalaust má deila um hverjir hafi staðið sig best í umræðunum.  Ég held samt að fæstum hafi dulist að þar var þáttur sjávarútvegráðherra sýnu lakastur.  Enda hafði hann vondan málstað að verja, sem eru sjávarútvegsmálin hér á Vestfjörðum.

Það er ömurlegt að heyra þennan ráðherra sem búinn er að vera þingmaður Vestfirðinga í fjölda ára vera að færa málin gegn betri vitund í einhvern glansbúning, þegar hann talar um sjávarútvegsmál. Hann telur upp á að það hafi verið stefna hans og ríkisstjórnarinnar að berjast fyrir því að nota sjávarútveginn til þess að treysta sjávarbyggðirnar í landinu.  Þessi sami ráðherra sigldi til Noregs á sl. ári og taldi Norðmönnum, frændum vorum, trú um það að hér á Íslandi verið að framkvæma framúrskarandi fiskveiðistefnu sem væri að færa bæði bæjum og landsbyggð miklar framfarir og björg í bú.  Hann minntist hinsvegar lítið á þann draugagang sem í þessum framkvæmdum lægi.

Einar Kristinn er einkar laginn við að færa hluti úr svörtum búningum í hvíta.  Kannski lærist slíkur málflutningur í stjórnmálafræðinni sem hann mun vera útlærður í.  Eftir að Einar gerðist sjávarútvegsráðherra, þá hefur þessi hæfileiki hans færst mjög í aukana, enda vinfengi hans og LÍÚ manna talið mjög náið í seinni tíð.  Fari svo að Einar haldi embætti sínu eftir kosningar, þá ætti hann að huga vel að hugmyndum Íslandshreyfingarinnar að leyfa bátum undi 6 brúttótonnum að fiska frjálst með tvær handfærarúllur yfir sumarmánuðina.  Það væri til þess að rétta svolitla sáttarhönd.

Þetta skrifar Halldór Hermannsson 20.4. sl. en hann hefur lifað og hrærst í sjávarútvegi nánast alla sína tíð og þekkja fáir þessa atvinnugrein betur en hann.  Ég get af heilum hug tekið undir nánast hvert orð í grein hans og örugglega margir fleiri.

 


Lítil saga af sjónum

Fyrir nokkrum árum vorum við feðgar að gera út 100 tonna bát frá Bíldudal en bátinn áttum við saman.  Sonur minn var skipstjóri og ég yfirvélstjóri og gerðum við út á togveiðar.  Við höfðum landað morguninn áður og fórum þá lítilsháttar fram yfir okkar veiðiheimildir í nokkrum tegundum.  Við vorum búnir að leigja til okkar meiri kvóta en staðfestingu vantaði samt frá Fiskistofu um að búið væri að skrá kvótann á bátinn.   Við vorum komnir á miðin um kl.06 og áður en við hófum veiðar kom skeyti frá Fiskistofu í gegnum Loftskeytastöðina á Ísafirði um að báturinn yrði sviftur veiðileyfi nema kvótastaðan yrði lagfærð.  Höfðum við þá strax samband við þann sem við leigðum kvótann af og fengum það staðfest að hann hefði skilað inn til Fiskistofu síðdegis deginum áður eyðublaði þar sem óskað var eftir að ákveðinn kvóti yrði færður á okkar bát.  Ákváðum við þá að hætt við að hefja veiðar þar til skrifstofa Fiskistofu yrði opnuð kl.09 svo hægt væri að kanna hvort eitthvað hefði farið úrskeiðis varðandi varðandi þessa millifærslu á kvótanum og létum reka á meðan við biðum.  Ég sat í brúnni og um leið og klukkan var orðin 09 hringdi ég í þann mann sem sá um millifærslur á kvóta og spurði hvort kvótastaða okkar væri ekki komin í lag.  Hann svaraði því til að hún yrði í lagi eftir smá stund eyðublaðið um millifærslu á kvótanum hefði ekki komið til sín fyrr en að vinnudegi var að ljúka og hann því ákveðið að geyma það til morguns.  Ég var orðinn talsvert reiður og spurði, hversvegna okkur hefði verið sent áðurnefnt skeyti þegar hann væri með á borðinu hjá sér eyðublað sem aðeins ætti eftir að skrá til að hlutirnir yrðu í lagi.  Hann tilkynnti mér að hann sæi ekkert um að senda út þessi skeyti ég yrði að tala við lögfræðing Fiskistofu um það.  Ég reyndi að ná sambandi við lögfræðinginn en var þá sagt að hann myndi ekki mæta fyrr en kl. 10 og bað ég þá um að tekin yrðu skilaboð til hans að hringja strax í mig um leið og hann mætti og urðum við því að láta reka í klukkutíma í viðbót.   Um kl.10,30 hringir hann með valdsmannshroka og ég fer að ræða um þetta skeyti og sagði hann mér þá að hann hefði látið senda skeytið rétt áður en hann hætti vinnu deginum áður.  Ég sagði honum þá frá því að búið væri að laga þessa hluti og hvort hann gæti ekki talað við þann sem sæi um millifærslur á kvóta og fengið það staðfest og fékk þau svör að hann hefði nóg að gera og væri enginn sendill fyrir mig.   En er ég ekki einn af þeim sem borgar þér launin þín svaraði ég á móti.  Ekki batnaði skapið í honum við þessi orð mín og tilkynnti hann mér að við skyldu fara tafarlaust í land annars léti hann varðskip taka okkur og færa til hafnar því ég veit að þið eruð á veiðum og okkur myndi þá vanta kvóta fyrir því sem við værum að fiska.  Ég svaraði honum því til að ekki kæmi nú mikil veiði í trollið sem lægi á dekki bátsins og ég væri þinglýstur eigandi bátsins og hann væri með fullgilt haffærisskýrteini í lagi og löglega skráð á bátinn og honum kæmi ekkert við hvar við værum staddir á bátnum.  Hann skildi bara kalla á varðskip og gera sig að algeru fífli ef hann langaði til þess og ef hann gerði það myndi ég kæra hann og skellti hann þá símanum á og eftir um hálftíma kom skeyti þar sem veiðileyfissviftingin var afturkölluð þar sem kvótastaða væri komin í lag.  Ef þetta er ekki rússnensk stjórnsýsla þá veit ég ekki hvað á að kalla það.        

Innflytjendur

Það er stöðugt verið að ásaka Frjálslynda Flokkinn um að vera á móti innflytjendum og sumir ganga svo langt að kalla flokkinn rasistaflokk.  Ekkert er fjær sannleikanum, í stefnuskrá flokksins geta menn ekkert fundið sem gæfi mönnum ástæðu til að vera með svona kjaftæði.  Kemur þetta mjög oft fyrir í þáttum í sjónvarpi sem fjalla um þessi mál og  gengur einn maður sérstaklega fram í þessu en það er Egill Helgason sem beinir umræðum sem hann á að stýra sífellt inn á þessa braut.  Eina sem þingmenn flokksins hafa sagt um innflytjendamál er að við verðum að hafa stjórn á flæði þessa fólks til landsins og vera til þess undirbúnin að geta tekið vel á móti því en á það hefur mikið skort hingað til.  Frjálslyndi Flokkurinn er eini flokkurinn sem þorir að ræða þessi mál, hinir þeigja eins og um kvótakerfið, en eitt kom þó út úr þessari umræðu að stjórnvöld bættu verulega í fjárveitingu til íslenskukennslu.   Það er eitt sem innflytjendur gera, þeir halda saman eftir frá hvaða landi þeir koma, vilja jafnvel búa nálægt hvert öðru og eru þar af leiðandi nokkuð lengi að aðlagast íslensku samfélagi.   Ég var nokkuð lengi á sjó með pólverja mjög góðum manni, sem síðar varð góður kunningi minn og skrifaði seinna upp á meðmæli fyrir hann þegar hann sótti um íslenskan ríkisborgararétt.  Hann var farinn að tala sæmilega íslensku en eftir því sem pólverjum fjölgaði á staðnum þar sem báturinn var gerður út, hrakaði stöðugt íslensku kunnáttu hans enda umgengst hann mest pólverja þegar hann var í landi.  Á sínum tíma þegar var ég með marga pólverja í vinnu yfirleitt duglegt og gott fólk, en þeir voru fljótir að læra á kerfið.  Eitt sinn sat ég á biðstofu læknis á Bíldudal næstur var á undan mér pólverji og þegar læknirinn kallaði hann inn lokaði hann ekki hurðinn nógu vel svo ég heyrði ágætlega hvað fram fór.  Læknirinn skildi auðvitað ekkert hvað maðurinn var að tala um en náði því þó að hann væri að biðja um læknisvottorð en ekki vegna hvers.  Konunni í afgreiðslunni datt í hug að hringja í hinn pólska kynningja minn og fá hann til að túlka, hann kom eftir stutta stund og læknirinn útskýrði fyrir honum að hann yrði að fá að vita hvers vegna manninn vantaði læknisvottorð.  Pólski kunningi minn var ekki lengi að afgreiða málið og sagði "Hann ekki veikur, bara latur, ekki nenna að vinna.  Þar sem ég er nú öryrki og varla dreg fram lífið á mínum bótum fer ég oft í Mæðrastyrksnefnd, en þar getur maður fengið matvæli og hreinlætisvörur frítt ef framvísað er örorkuskýrteini.  Ég fór þangað síðast í gær og var þar allt yfirfullt af erlendu fólki og mikið var ég hissa þegar ég sá sumt af þessu fólki draga upp örorkuskýrteini.  Því hefur verið haldið fram að kjör okkar öryrkja væru ekki betri vegna þess að öryrkjum hefði fjölgað óeðlilega mikið og ætti því að vera óþarfi að fá þá erlendis frá.  Það er mikill munur á hvort stjórnmálaflokkur vill hafa stjórn á flæði innflytjenda til að við getum tekið vel á móti því eða hvort stjórnmálaflokkur sé á móti þeim sem hingað vilja flytja og þetta hélt ég að jafn greindur maður og Egill Helgason ætti að skilja.  Vilja hinir flokkarnir að þetta sé allt galopið og við segjum "Komið þið sem koma vilja".  Mér skilst að á sl. ári hafi komið hingað til lands um 10 þúsund  innflytjendur og hefur það bjargast hingað til vegna þess hve eftirspurn eftir vinnuafli hefur verið mikil.  En hvað skeður ef hér verður samdráttur og atvinnuleysi og hingað hafa komið 40-50 þús.    innflytjendur.  Við erum fámenn þjóð aðeins 300 þúsund og er ég hræddur um að okkar velferðarkerfi sé ekki undir það búið að taka við öllum þessum fjölda.  Við höfum sjálfsagt flest heyrt af vandamálum sem hafa skapast í ríkjunum hér nálægt okkur.  Hvað er að því að vilja hafa stjórn á þessum hlutum eins og öðrum.  Viljum við leyfa öllum að koma og nú þegar vændi er orðið löglegt á Íslandi eru þá erlendar vændiskonur velkomnar til starfa eða dópsalar.  Nei um suma hluti má ekki tala.  Egill Helgason hamrar stöðugt á því að Frjálslyndi Flokkurinn sé ekki hæfur til þátttöku í stjórn landsins vegna þess að flokkurinn sé á móti innflytjendum og þetta tuðar hann um, þrátt fyrir að leiðtogar hinna stjórnarandstöðuflokkanna lýsi yfir hinu gagnstæða.   

Ekkert má gera

Sonur minn sem er starfandi sjómaður og býr á Bíldudal fór einn góðviðrisdaginn á sjó með fjórum börnunum sínum á 6 tonna trillu sem hann átti.  Hann ætlaði að sýna þeim hvernig fiskur væri veiddur svo þau skildu betur hans starf.  Hann beitti einn línubala  og fór út á Arnarfjörð og lagði balann og dró hann svo skömmu síðar.  Aflinn var ekki mikill, nokkrir þorskar og ýsur.  Börnin fylgdust spennt með þegar línan var dreginn og ráku upp fagnaðaróp í hvert skipti þegar fiskur kom um borð.  Síðan var gert að aflanum og börnin röðuðu fiskunum í kassa og höfðu skemmt sér vel.  Þá var haldið í land pabbinn lyfti kassanum uppá bryggju en þar beið mamma þeirra á bíl til að taka á móti þeim.  En þegar setja átti kassann í bílinn kom hafnarvörðurinn sem jafnframt var viktarmaður hlaupandi og var greinilega mjög reiður og sagði að samkvæmt skýrum fyrirmælum frá Fiskistofu yrði að vigta aflann og skrá.  Ef það yrði ekki gert yrði málið kært.  Það sem upphaflega átti að vera skemmtiferð fyrir börnin breyttist nú í hálfgerðan harmleik, því nú upphófst mikið rifrildi milli viktarmannsins og pabbans sem hótað að sturta úr kassanum í sjóinn.  En þú verð þá kærður fyrir það sagði viktarmaðurinn.  Var það því úr að ekið var með kassann á hafnarvogina þar sem hann var viktaður og skráður og leigja varð kvóta fyrir þessum fiskum.  Börnin horfðu undrandi á og spurðu í sakleysi sínu "Á ein hver þennan fisk sem við veiddum".  Hvað heldur nú fólk að þessi börn hugsi um starf föður þeirra.

Stóra stundin

Í síðasta tölublaði Fiskifrétta 13. apríl 2007 er viðtal við Guðmund Valgeir Magnússon verksmiðjustjóra hjá Íslenska Kalkþörungafélaginu á Bíldudal, þar sem hann segir frá því að brátt taki verksmiðjan til starfa á næstu vikum.  Nú hefur fréttst að verksmiðjan verði formlega tekin í notkun 28. apríl n.k.   Í viðtalinu segir Guðmundur frá því að í byrjun muni framleiðslan verða 10.000 tonn á ári.  Hann segir jafnframt að starfsleyfi verksmiðjunnar hljóði upp á allt að 57.000 tonnum á ári í 50 ár.  Kalkþörungaverksmiðjan kemur til að selja framleiðslu sína á frjálsum markaði og framleitt magn verði í samræmi við eftirspurn.  Björgun ehf. á 25% hlut í verksmiðjunni og írska félagið Celtic Sea Minerals á 75%.  Þegar fullum afköstum verður náð verði starfsmannafjöldi a.m.k. 10 manns.  Sjálfsagt verður mikið um dýrðir á Bíldudal þann 28. apríl og fjöldi gesta til að fagna stórri verksmiðju inn í miðju bæjarfélaginu.   Nú fer að reyna verulega á Guðmund, því eitt er að byggja og annað að reka.  Þótt ég hafi verið á móti þessari framkvæmd frá byrjun verður því ekki neitað að hún er komin og vonandi verður hún Bíldudal til framdráttar í atvinnumálum.  Ég ætla að bíða með heilla óskir þar til síðar. 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jakob Falur Kristinsson
Jakob Falur Kristinsson

Ég er fyrrverandi vélstjóri og útgerðarmaður en er nú 75% öryrki eftir slys á sjó 2003. Bjó lengst af á Bíldudal en flutti til Sandgerðis haustið 2005.  En er nú aftur fluttur á Bíldudal.  Að svo miklu leyti sem myndir á síðunni eru eftir Mats Wibe Lund, þá liggur fyrir tímabundið samþykki hans um birtingu hjá mér og þakka ég honum sérstaklega fyrir.  Mats á að sjálfsögðu hönundaréttin að öllum sínum myndum.  Vilja menn sjá fleiri myndir þá vísast á www.mats.is  Ég  var flokksbundinn í Frjálslynda flokknum og hef starfað þar, en sagði mig úr flokknum 24. apríl og gekk í Samfylkinguna.  Föðurætt mín er úr Arnarfirði og móðurættin frá Jökulfjörðum og Hornströndum og í báðum tilfellum, langt aftur í aldir.  Er ég því ekta Vestfirðingur.

Undir fyrirsögninni Færsluflokkar er flokkur sem heitir Vefurinn og ef smellt er á hann opnast síður þar sem ég er að skrifa ýmsar frásagnir.  Einnig er undir liðnum spaugilegt smá grín ofl. 

Ég leyfi öllum að skrifa athugasemdir við mín skrif.   En af gefnu tilefni hef ég ákveðið að þeir sem ekki kunna sér hófs í athugasemdum og nýta þær til persónulegra árása á mig og mína persónu, með allskonar skömmum og svívirðingum, mun ég hér eftir loka á slíka aðila.  Einnig mun ég henda út nafnlausum athugasemdum.  Því ég einn ber ábyrgð á því sem skrifað er á mína síðu.

jakobkr@internet.is     

GSM: 823-2954

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband