Bloggfærslur mánaðarins, september 2007

Vímuefnanotkun

 

Gott hjá þeim ef tekst að halda unglingunum frá þessu andskotans eitri a.m.k. því ólöglega, en reykingar hef ég ekki efni á að fordæma þar sem ég hef reykt í rúm 40 ár og ætla aldrei að hætta og þegar ég þurfti að fara á Reykjalund eftir alvarlegt slys var það eitt af því fyrsta sem ég spurði um hvort einhverstaðar væri leyft að reykja og fékk þá þær gleðifréttir að það væri sérstakt reykherbergi.  Þar var líka boðið uppá námskeið til að hætta að reykja og dreif ég mig á það og þegar í ljós kom hvað ég reykti mikið var talið að ég þyrfti að fá sérstakt lyf sem verkar þannig að fólki finnst hreinlega vont að reykja.  Til að ég gæti fengið þetta lyf þurfti samþykki hjá mínum læknir á Reykjalundi og þegar ég ræddi þetta við hana sagði hún mér að ég þyrfti að vera í svo stífum æfingum að hún óttaðist að það yrði of mikið fyrir mig að ætla á sama tíma að hætta að reykja og hætt væri við að ég myndi verða órólegur og missa einbeitinguna við æfingarnar og ráðlagði mér að bíða og voru það miklar gleðifréttir og ég hélt áfram að skrölta á mínum hjólastól í reykaðstöðuna.   Ef ég var spurður afhverju ég hefði hætt á námskeiðinu gat ég sagt með góðri samvisku að ég væri að reykja samkvæmt læknisráði.  Hinsvegar er nú svo komið að hvergi má orðið reykja og við sem það gerum nánast ofsóttir í þjóðfélaginu.   En áfengi misnotaði ég en mér hefur þó tekist að hætt viðskiptum við Bakkus og vonandi verður það varanlegt. 


mbl.is Vímuefnanotkun unglinga á Vestfjörðum minnkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hafið

Það var oft sagt "Lengi tekur sjórinn við"en öll vitum við í dag að of langt hefur verið gengið í þeim efnum og í dag koma flest okkar fiskiskip með allt sorp í land í stað þess að kasta öllu í hafið.  Við höfum komið upp ströngu eftirliti til að draga úr mengun hafsins og víða verið unnið gott starf hvað varðar hreinsun strandlengjunnar.  En hefur okkur yfirsést eitthvað, því eitthverjar breytingar eru að eiga sér stað varðandi vistkerfið í sjónum og sumt getum við ekki ráðið við eða erum orðin of sein að bregðast við.  Má þar nefna krabbakvikindi sem tekið hafa sér bólfestu í Hvalfirði og talið að hafi borist hingað á botnum stórra flutningaskipa sem hafa tíða viðkomu í Hvalfirði vegna þeirrar stóriðju sem þar starfar.  Mér skilst að þetta séu einhver skaðræðiskvikindi og hætta á að þau eigi eftir að ná til fleiri svæða við landið og má benda á að fyrir mörgum árum fóru Rússar að rækta hjá sér einhverja tröllakrabba og misstu svo stjórn á öllu saman og þessir krabbar fór síðan yfir til Noregs og ullu þar miklum skaða.  Mig minnir að Páll Bergþórsson fyrrum veðurfræðingur hafi verið með ákveðna kenningu um samspil milli hrygninu fiska við suðuströndina og hlaupa úr jökulám á sama svæði.  Nú er það að ske við Suðurland að sandsílastofninn er nánast hruninn og sjófuglar koma ekki upp ungum vegna fæðuskorts þótt sandsíli finnist í verulegu magni við Vestfirði og Norðurland.  Ég er ekki neinn sérfræðingur á þessu sviði einungis áhugamaður um hafið og það líf sem þar á að blómstra.  Er hugsanlegt að þetta geti stafað af öllum þeim virkjunum sem byggðar hafa verið á Suðurlandi á undanförnum 40 árum vegna stóriðju?   Hinsvegar tel ég að nú þegar stjórnvöld eru að tilkynna um  rúma 10 milljarða í mótvægisaðgerðum vegna minnkandi þorsksstofns mætti huga aðeins betur að rannsóknum í hafinu til að reyna að finna skýringu á hvað hefur orsakað þessa skekkju sem virðist kominn í vistkerfi hafsins.  Við eigum nóg af vísindamönnum og fullkomin skip til hafrannsókna en þau hafa því miður legið í höfn stóran hluta ársins þar sem ekki eru til fjármunir til að halda þeim í rekstri allt árið.  Er ekki komið nóg af fjáraustri til þess eins að verja núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi?  Gefur nafnið Hafrannsóknarstofnun ekki nokkuð skýrt til kynna hvað sú stofnun á að gera?  Spyr sá sem ekki veit. 

Fundur

 

Geta þessir blessaðir alþingismenn okkar ekki hugsað um neitt nema fundi.  Það kemur varla upp svo lítið mál hér á landi að ekki sé rokið til að óska eftir fundi.  Geta þeir ekki beðið þar til Alþingi kemur saman 1. október það er nú ekki svo langt þangað til.   Annars er þetta ekki eingöngu bundið við þingmenn, heldur er það orðinn árátta í okkar þjóðfélagi að vera á eilífum fundum sem engu skila oftast almennt kjaftæði yfir kaffibolla.  Hver kannast ekki við svarið þegar reynt er að ná í einhvern aðila hvort sem er í einhverri stofnun eða fyrirtæki.  "Nei því miður hann er upptekinn á fundi."


mbl.is Vilja fund vegna frétta af Geysi Green Energy
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að gera grín að trú annarra

Mörgum finnst mjög sniðugt að gera grín að trúuðu fólki og þess vegna ætla ég að koma með smá sögu sem er sönn.

Gömul kona sem bjó ein í blokkaríbúð í Reykjavík var mjög trúuð.  Hún hafði ekki mikla peninga á milli handanna frekar en venjulegt eldra fólk á Íslandi í næstu íbúð fyrir ofan bjuggu nokkrir sjómenn sem voru nýkomnir í land eftir góða veiðiferð  á frystitogara og höfðu þar af leiðandi talsvert mikla peninga.  Þannig háttað til í þessari blokk að hver hæð var dreginn aðeins inn og var því gott útsýni úr hverri efri íbúð á svalir þeirrar neðri.  Sjómennirnir voru með mikinn gleðskap fyrsta kvöldið þegar þeir komu í land og spiluðu tónlist af fullum krafti og eins og eðlilegt er var mikill hávaði langt fram á nótt svo gömlu konunni gekk illa að sofna sem endaði með því að hún fór út á svalirnar hjá sér til að fara með bænirnar sem hún gerði á hverju kvöldi og þegar hún er stödd þarna að ræða við sinn Guð er einn úr partýinu staddur á svölunum fyrir ofan og fylgdist með gömlu konunni og þegar hún breiðir út faðminn í átt til himins og biður Guð um hjálp til að bæta líf sitt, kallar sá á efri svölunum á félaga sína til að fylgjast með, því honum fannst þetta svo sniðugt.  Félagarnir taka sig þá til og fara að láta detta einn og einn fimm þúsund kall niður til konunnar sem hún tíndi upp og þakkaði Guði fyrir í hvert skipti.  Þegar þetta hafði gengið í nokkra stund ráku þeir upp tröllahlátur og kölluðu niður til konunnar "Þetta er nú bara við en ekki Guð sem erum að hjálpa þér og reyna að kenna þér að Guð er ekki til"  Sú gamla lét ekki slá sig út af laginu og svaraði á móti "Jú hann er víst til og meira segja notar hann vitleysinga eins og ykkur til að gera góðverk" síðan fór hún inní sína íbúð með seðlabúntið sem hún var búin að tína upp af svölunum, en á efri svölunum stóðu svekktir brandarakarlar nokkrum tug þúsundunum fátækari og var ekki hlátur í huga þegar þeir fóru aftur inn í sína íbúð.


Brim hf.

Nú er komið í ljós, sem margir óttuðust þegar Guðmundur vinalausi keypti fyrrum ÚA að hann færi burt frá Akureyri með allan aflakvótann og næsta öruggt að síðan kemur að lokun á landvinnslu ÚA og þetta stolt Akureyringa í marga áratugi heyrir brátt sögunni til.  Enda ekki langt síðan að að þessi maður keypti húsnæðið þar sem Jón Ásbjörnsson hefur rekið lengi salfiskverkun í Reykjavík og heyrst hefur að Brim hf. hafi sýnt húsnæði HB-Granda hf. áhuga, en eins og kunnugt er stefnir það fyrirtæki á að flytja sína starfsemi á Akranes.  Þetta virðist vera sami leikur og þessi sami maður lék á Ísafirði fyrir nokkrum árum þegar hann keypti fyrirtækið Básafell hf.  En því miður svona er kvótakerfið.  Þeir sem komast yfir aflakvóta hafa þann rétt að geta ráðstafað honum eins og þeir vilja og þurfa hvorki að hugsa um starfsfólk eða viðkomandi byggðalag.  Þó er rétt að taka það fram til að sanngirni sé gætt að Guðmundur Kristjánsson hefur þurft að kaupa aflakvótann bæði á Akureyri og Ísafirði og vafalaust þurft að taka veruleg lán til þess sem hann þarf að standa skil á.  Og frá því sjónarmiði er ósköp eðlilegt að hann geri þær ráðstafanir sem hann telur koma sínum rekstri best. Það er því mikill munur á Guðmundi sem hefur keypt nánast allan sinn kvóta og mörgum sem eru að braska með kvóta sem þeir fengu að gjöf frá íslenska ríkinu eða keyptu á fyrstu árum kvótakerfisins þegar verðið var mjög lágt og hafa grætt miljarða á sínu braski.  Akureyringar hafa ekki gagnrýnt þetta kerfi, frekar hælt því vegna þess að þeir hafa frá því að þetta kvótakerfi var tekið upp aðeins kynnst annarri hlið þess, það er að kvóti hefur verið að streyma til þeirra frá öðrum byggðalögum en nú fá þeir að kynnast hinni hliðinni sem er öllu verri þegar kvótinn fer í burtu, sem er reynsla sem mörg byggðalög hafa mátt þola, meðal annars þar sem ég bý núna í Sandgerði, héðan fór nánast allur aflakvótinn eða um 10 þúsund tonn til Akranes við sameiningu HB og Miðnes hf.   

Flateyri

 

Af hverju var maðurinn að kaupa þetta fyrirtæki ef þörf er á sértækri aðstoð til að geta hafið rekstur?

Hefði ekki verið skynsamlegra að hugsa málið aðeins betur og gera skynsamlega rekstraráætlun áður en farið var útí þessi kaup.  Annars hefur Kristján Erlingsson verið talsvert í fréttum þar sem hann hefur verið með stórar yfirlýsingar um útflutning á ferskum afurðum með flugi frá Þingeyrarflugvelli og sagt að hann væri búinn að tryggja sér flugvél í verkefnið.  En nú á sem sagt bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar að bjarga málunum.  Var ekki byrjað á öfugum enda?


mbl.is Oddatá óskar eftir sértækri aðstoð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skagaströnd

 

Hárrétt ákvörðun og löngu tímabær.  Ég vissi nú ekki að Höfðahreppur væri til, bara Skagaströnd með Hallbirni kántríkonungi.


mbl.is Nafni Höfðahrepps breytt í Skagaströnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vanskil

 

Það er ekkert skrýtið að fólk geri allt sem það getur til að standa í skilum.  Nóg er nú vaxtaokrið hér á landi þótt fólk reyni eftir bestu getu að forðast dráttarvexti eða jafnvel innheimtukostnað.  Hér fyrir nokkrum árum var verið að dæma menn fyrir okur og voru þeir þó að lána fé á lægri vöxtum en bankarnir gera í dag.  Enda er ævintýralegur hagnaður á bönkunum á Íslandi og stjórnendur þeirra á slíkum ofurlaunum að þeir eru farnir að toppa forstjóra stærstu fyrirtækja á Norðurlöndum sem teljast nú ekki illa haldnir hvað laun varðar.


mbl.is Vanskil í sögulegu lágmarki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugsum betur hafsbotninn

Það er vitað mál að hinar miklu togveiðar hér við land hafa sléttað verulega hafsbotnin og þar af leiðandi minna skjól verið fyrir fiskinn en hann hefur oft safnast saman við rif, hóla og kanta og eins þar sem skipsflök liggja.  Þetta hefur margoft verið myndað neðansjávar þar sem þetta sést mjög vel.  Eins er frægt flak vestur af Látrabjargi sem er stórt skip sem sökk þar á stríðsárunum og þeir skipstjórar sem hafa komist uppá lagið að toga við þetta flak hafa oft lent í ævintýralegum afla.  Mig minnir að þetta flak gangi undir nafninu Blanka.   Nú hefur verið svo hér á landi að bannað hefur verið að farga skipum með því að sökkva þeim og hafa þess vegna skip sem hætt er að gera út safnast saman víða í höfnum landsins þar sem þau grotna niður öllum til ama og leiðinda og eru að lokum seld í brotajárn fyrir lítinn pening.  Við ættum að snúa þessu við og setja sem skilyrði að við förgun skipa verði þeim sökkt víða á veiðislóðum, það ætti auðvitað að ganga þannig frá skipunum að ekki væri hætta á mengun frá þeim.  Eins og tæknin er orðin í dag þegar flest skip og bátar eru komin með tölvubúnað með fullkomnum sjókortum og nákvæmum staðsetningarbúnaði væri auðvelt að merkja inná þau kort hvar hvert og eitt skip liggur.  Væri því auðvelt fyrir fiskiskipin að forðast að festa veiðarfæri í þessum flökum.  Skip sem er á togveiðum getur auðveldlega lyft trollinu uppí sjó á meðan farið er yfir viðkomandi flak eða sveigt framhjá því.  Þau skip sem eru á línu- eða netaveiðum farið til hliðar við flökin og það sama á við um dragnótabáta.  Með þessu sköpuðum við á vissum svæðum ákveðna möguleika fyrir fiskinn til að safnast saman og fá að vera í friði, þetta er sérstaklega mikilvægt þar sem fiskurinn hrygnir því þá þarf hann mest á því að halda að finna eitthvað skjól. 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jakob Falur Kristinsson
Jakob Falur Kristinsson

Ég er fyrrverandi vélstjóri og útgerðarmaður en er nú 75% öryrki eftir slys á sjó 2003. Bjó lengst af á Bíldudal en flutti til Sandgerðis haustið 2005.  En er nú aftur fluttur á Bíldudal.  Að svo miklu leyti sem myndir á síðunni eru eftir Mats Wibe Lund, þá liggur fyrir tímabundið samþykki hans um birtingu hjá mér og þakka ég honum sérstaklega fyrir.  Mats á að sjálfsögðu hönundaréttin að öllum sínum myndum.  Vilja menn sjá fleiri myndir þá vísast á www.mats.is  Ég  var flokksbundinn í Frjálslynda flokknum og hef starfað þar, en sagði mig úr flokknum 24. apríl og gekk í Samfylkinguna.  Föðurætt mín er úr Arnarfirði og móðurættin frá Jökulfjörðum og Hornströndum og í báðum tilfellum, langt aftur í aldir.  Er ég því ekta Vestfirðingur.

Undir fyrirsögninni Færsluflokkar er flokkur sem heitir Vefurinn og ef smellt er á hann opnast síður þar sem ég er að skrifa ýmsar frásagnir.  Einnig er undir liðnum spaugilegt smá grín ofl. 

Ég leyfi öllum að skrifa athugasemdir við mín skrif.   En af gefnu tilefni hef ég ákveðið að þeir sem ekki kunna sér hófs í athugasemdum og nýta þær til persónulegra árása á mig og mína persónu, með allskonar skömmum og svívirðingum, mun ég hér eftir loka á slíka aðila.  Einnig mun ég henda út nafnlausum athugasemdum.  Því ég einn ber ábyrgð á því sem skrifað er á mína síðu.

jakobkr@internet.is     

GSM: 823-2954

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband