Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009

Húsnæðislán

Til hvers á að vera að lengja húsnæðislánin úr 40 árum í 80 ár ef fólk getur ekki borgað af lánum sínum.  Þetta mun þýða að núverandi skuldarar greiða aldrei þessi lán heldur er verið að færa þau á næstu kynslóð, sem verið er að skuldsetja af hálfu ríkisins í botn.  Hvert barn sem fæðist í dag skuldar við fæðingu nokkur hundruð þúsund.  Það mætti alveg eins hugsa sér að hafa þessi lán í 500 ár og vona að þá verði eitthvað farið að rofa til hjá íslensku þjóðinni.  Það er alla veganna öruggt að eftir 500 ár verða íslendingar orðnir miklu fleiri en eru nú og því fleiri aðilar til að borga og hreins upp óreiðuna eftir Sjálfstæðisflokkinn sl. 18 ár.
mbl.is Vilja að lánstími verði tvöfaldaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að vera rændur erlendis

Ég hef gert mikið af því um daganna að ferðast um heiminn og heimsótt margar heimsborgir.  Aldrei hefur mér þótt gaman að fara í skoðunarferðir og vera leiddur áfram af einhverjum fararstjóra.  Mér hefur þótt mest spennandi að fara sjálfur í hin ýmsu hverfi, þótt skuggaleg væru og kynnast hinu raunverulega mannlífi.  Aldrei hafði ég orðið fyrir neinu áreiti á þessum ferðum mínum, frekar verið vel tekið af heimamönnum.  Eitt sinn vorum við hjónin stödd í New York og höfðum verið að skoða hús Sameinuðu Þjóðanna og ætluðum síðan að ganga upp á hótel sem átti ekki að vera svo langt.  Við gengum upp 42. stræti og þegar við komum þar gekk mikið á, fjöldi lögreglumanna og verið að handtaka fólk.  Við héldum bara ferð okkar áfram og þegar við komum á hótelið var okkur sagt að við þessa götu væru einar mestu fíkniefnabúllur í New York.  Ég var eitt sinn staddur í Bergen í Noregi og ferðafélagi minn vildi fara að skoða eitthvað merkilegt, en ég nennti því ekki, heldur notaði ég tímann til að skoða mig um við höfnina og fiskmarkaðinn sem þar var.  Síðan settist ég inn á pöbb sem var yfirfullur af sjómönnum.  Þegar ég kom inn og það heyrðist að ég væri íslendingur var strax kallað á mig og mér boðið sæti hjá nokkrum sjómönnum og þeir buðu uppá ótakmarkað af bjór.  Þarna átti ég ánægjulegt spjall við þessa kalla góða stund en fór síðan á hótelið mitt.  En einu sinn varð ég verulega hræddur en þá var ég í Grimsby þar sem togarinn sem ég gerði út var að selja fisk.  Við fórum þrír saman út á lífið, ég 2. stýrimaður á togaranum sem jafnframt var mágur minn og útgerðarstjóri fyrirtækisins sem ávallt var kallaður Hreppstjórinn.  Okkur þótti heldur dauflegt næturlífið í Grimsby og fengum okkur leigubíl og báðum bílstjórann að keyra okkur á mestu drullubúllu sem hann fyndi í Hull.  Hann var frekar tregur til og varaði okkur eindregið við að fara þetta, við gætum verið drepnir.  En við gáfum ekkert eftir og fórum á staðinn vel hífaðir.  Þegar inn var komið leyst mér nú ekki á liðið sem þarna var sem var vægast sagt skuggalegt.  Við fengum okkur borð og pöntuðum bjór.  Eftir smá stund komu tveir menn að borðinu og spurðu hvort þeir mættu setjast hjá okkur og var það velkomið.  Skömmu síðar dregur annar mannanna upp poka og tekur úr honum samanbrotið bréf og leggur á borðið og spyr hvort við hefðum áhuga.  Þetta var eitthvað hvítt duft og greinilega eiturlyf.  Við höfðum engan áhuga á þessu og þá gerðust mennirnir stöðugt ágengnari og annar var kominn með hníf á loft.  Ég var orðinn hundleiður á þessum fuglum og sagði við þá að fara frá borðinu en þeir neituðu.  Þá reiddist ég og sparkaði undir borðplötuna og allt efnið fór á gólfið.  Mennirnir stukku báðir á mig og síðan var slegist og slegist.  Barst leikurinn að einhverri bakhurð og þar var stigi niður og rúlluðum við allir þrír niður stigann.  Ég var orðinn sannfærður að ég yrði drepinn en þá verður mér litið upp stigann og sé að stýrimaðurinn er kominn hálfaleið niður og þá stekkur hann á kösina.  nú vorum við tveir á móti tveimur og barst leikurinn út í port þar fyrir utan og þá er Hreppstjórinn allt í einu mættur á svæðið og tók heldur betur til hendinni.  Skömmu síðar kemur lögreglubíll með blikkandi ljósum og við allir handteknir og farið með okkur á lögreglustöðina.  Þar var Hreppstjórinn tilbúinn að sýna vald sitt og hrópaði stöðugt að hann væri police-officer frá Bíldudal Ísland og heimtaði að við yrðum látnir lausir í hvelli og veifaði skýrteini, sem ég held að hafi verið ökuskírteinið hans.  En lögreglan tók hann trúarlegan að hann væri háttsettur lögreglumaður frá Íslandi og sleppti okkur en dópsalarnir voru læstir inni.  Eftir þessa reynslu vorum við búnir að fá nóg í bili og tókum leigubíl á hótelið okkar í Grimsby.

Hinsvegar þegar ég var framleiðslustjóri hjá Trostan ehf. á Bíldudal 1996 þá var ég sendur til Barcelona á vegum fyrirtækisins Seifs hf. sem seldi mikið af okkar afurðum.  Við vorum 5 sem fórum í þessa ferð einn frá Seif hf. ég og saltfiskverkendur frá Tálknafirði og Patreksfirði.  Það sem ég átti að gera var að hitta okkar kaupanda og reyna að fá að vinna meira af fiskinum hér heima og sátum við um heilan dag á fundi þar sem farið var yfir pakkningar og merkingar og hvernig við ættum að skera flökin niður í neytendapakkningar.  Við skoðuðum líka fiskmarkaðinn í Barcelona og var gaman að sjá karlana snyrta saltfiskinn með stórum sveðjum.  Þegar sá dagur kom að við áttum að fara heim urðum við að fara af hótelinu um hádegi en mæting í flugið var ekki fyrr en kl: 18,00.  Fengum við að geyma farangurinn á hótelinu og ákváðum að fara á baðströndina meðan við biðum.  Fengum við okkur allir sólbekki og sátum hlið við hlið.  Ég var með passann minn og kreditkort í brjóstvasa á skyrtunni minni og síðan sofnaði ég á bekknum og þegar ég vaknaði var búið að stela bæði passanum og kreditkortinu.  Enginn af okkur 5 hafði orðið var við neinar mannaferðir nálægt okkur en vasaþjónaður er mjög mikill í Barcelona.   Sem betur fer var maðurinn frá Seif hf. með farsíma svo hægt var að hringja strax og láta loka kreditkortinu en hann geymdi einnig farmiðana okkar.  En það var verra með passann nú var brunað á næstu lögreglustöð til að reyna að fá bráðarbirgðapassa svo ég kæmist úr landi.  Eftir mikið þjark á lögreglustöðinni fékk ég eitthvað skjal sem þeir sögðu að dygði kannski til að ég kæmist úr landi en það væri ekki öruggt.  Ég var sem betur fer með í veskinu ökuskírteinið svo hægt væri að sanna hver ég væri.  Þeir sögðu að ef þessi pappír tyggði ekki þá yrði ég bara að vera eftir og hitta íslenska ræðismanninn í Barcelona daginn eftir.  Síðan var farið á flugvöllinn og 4 félagar mínir gátu auðveldlega bókað sig inn, en mér var sagt að bíða.  Það var ekki hnotarleg tilfinning að horfa á eftir þeim félögum og þurfa kannski að vera eftir algerlega peningalaus.  Eftir þó nokkra stund var kallað á mig og mér hleypt í gegn líka og var það mikill léttir.  En þrátt fyrir þessa reynslu gleymdi ég því fljótt en hef ekki farið erlendis síðan.  En ef ég á eftir að fara eitthvað erlendis í framtíðinni mun ég ekki breyta mínum ferðastíl.  Nú er búið að bjóða mér í ferð til Shettlandeyja í apríl og bíð ég spenntur eftir þeirri ferð.  Það verður víst flogið til Glaskow og tekin ferja þaðan til eyjanna.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Íslandsbanki

Mynd 491024Á hluthafafundi Glitnis hf., nú Íslandsbanka hf. í dag, var kosið í stjórn félagsins í stað stjórnarmanna, sem nýverið hafa látið af störfum. Aðalmenn eru Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, Martha Eiríksdóttir, Ólafur Ísleifsson, Katrín Ólafsdóttir og Guðmundur R. Jónsson.

Nú er Glitnir hf. allt í einu aftur orðinn Íslandsbanki hf.  Á virkilega að gera eina tilraun enn með Íslandsbanka hf.  Það væri fróðlegt ef upplýst væri hvað þessir stjórnarmenn fá í laun.  Birna Einarsdóttir bankastjóri sagði í viðtali að það væru enginn ofurlaun í bankanum í dag en seinn var upplýst að hún fengi í laun kr. 1.950 þúsund á mánuði eða 15 föld verkamannalaun.  Birna virðist því vera svo veruleikafyrt að hún telji þetta enginn ofurlaun.  Svo fær hún að auki bíl til afnota sem bankinn rekur.

Annars skil ég ekki til hvers ríkið er að reka 3 banka.  Mætti ekki sameina eitthvað af þessu í sparnaðarskini.


mbl.is Stjórn Íslandsbanka hf. kjörin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

72 milljarðar

Icesave-netreikningur LandsbankansLárus Finnbogason, formaður skilanefndar Landsbankans, sagði á fundi með kröfuhöfum bankans í dag að samkvæmt útreikningum nefndarinnar myndu um 72 milljarðar króna lenda á íslenska ríkinu, og þar með skattborgurum, vegna Icesave-reikninganna.

Það munaði ekki um það 72 milljarðar sem skattgreiðendur eiga að greiða.  Núverandi kynslóð verður öll kominn undir græna torfu áður en búið verður að borga þetta allt og sennilega næsta kynslóð líka.  Hvernig dettur þessum mönnum í hug að vera að semja um greiðslur á svona skuldum sem vita vonlaust er að standa við.  Þau rök eru sett fram að þetta verði að borga til að Ísland fái trúverðugleika á ný á erlendum fjármálamörkuðum.  En þurfum við nokkuð á því að halda eða er ætlunin að halda áfram í erlendum lántökum.  Ég hefði haldið að komið væri nóg í bili.


mbl.is Segja Icesave kosta ríkið 72 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað með Davíð?

Hvernig er þetta eiginlega með aumingja kallinn hann Davíð Oddsson, er ekki nokkur leið að losna við hann úr Seðlabankanum.  Nýtt frumvarp ríkisstjórnarinnar gerir ekki ráð fyrir að hans staða verði lögð niður.  Ég held að besta ráðið væri eins og þeir sýndu í Spaugstofunni síðast að læsa hann bara inni í bankanum.  Þá er nokkuð víst að hann vildi komast út þegar hann yrði svangur og gæti þá Heilög Jóhanna pínt kallinn í nokkra daga og neitað að hleypa honum út.  Ef það yrði gert er nokkuð víst að Davíð þyrði aldrei að koma nálægt Seðlabankanum meira.

Allt að hrynja

Hlutabréfavísitölur um heim allan hafa lækkað mikið í dag og maður fer að velta því fyrir sér hvar þetta endi allt saman.  Á Íslandi eru nær annað hvert fyrirtæki tæknilega gjaldþrota og stefnir í algert hrun.  Atvinnuleysi mun halda áfram að aukast og svo kemur að því að Atvinnuleysistryggingarsjóður tæmist og þá þarf að taka lán honum til bjargar.  Það vill til að það sem við Íslendingar kunnum best er að taka lán og aftur lán.  Hinsvegar er öllu verra þegar kemur að því að borga lánin það er hlutur sem við kunnum ekki og þurfum að fá erlenda sérfræðinga til að aðstoða okkur við slíkt.
mbl.is Miklar lækkanir á mörkuðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Björgunaraðgerðir

Ísland er í dag í raun gjaldþrota og þjóðfélaginu haldið gangandi með lánum.  Nú þarf að bretta upp ermar og snúa þessu við.  Það sem gera þarf er eftirfarandi;

1.  Virkja allt sem hægt er að virkja og neita að selja álverum rafmagn, nema þau kaupi af okkur virkjanirnar.

2.  Stórauka fiskveiðar, hrefnu og hvalveiðar.

3.  Fækka þingmönnum úr 63 í 33 og ráðherrar verði aldrei fleiri en 6

4.  Fækka sendiráðum um helming.

5.  Spara á öllum sviðum og auka útflutning.

6.  Ganga í ESB sem fyrst

7.  Stöðva allar aðgerðir gegn Bónus, sem hefur fært launafólki meiri kjarabætur en nokkrir kjarasamningar.

Þannig verðum við fljót að vinna okkur úr þessari kreppu og lækka erlendar skuldir.  Svo væri líka leið að biðja Dani að taka við okkur aftur, þar sem við kunnum ekki að vera sjálfstæð þjóð.   


Jón Magnússon

Ég skrifaði nokkrar greinar um Jón Magnússon alþm. og taldi að hann hefði gengið í Frjálslynda flokkinn til að rústa honum.  Ég fékk miklar skammir víða að vegna þessara skrifa sem nú er komið á daginn að voru réttar.  Þegar Jón og hans félagar úr Nýju Afli gengju til liðs við Frjálslynda varaði Margrét Sverrisdóttir eindregið við því að þessi hópur kæmi í flokkinn.  Það hefði verið betra að hlusta þá á Margréti og stoppa þetta í byrjun.  Margrét Sverrisdóttir fór ekki úr flokknum vegna taps í kjöri varaformanns, heldur var ástæðan Jón Magnússon og hans lið.  Nú er Jón kom inn í Sjálfstæðisflokkinn og verði honum að góðu og ég segi sem flokksmaður í Frjálslynda flokknum að farið hefur fé betra.  Það er enginn eftirsjá af Jóni Magnússyni.  Ef hlustað hefði verið á Margréti Sverrisdóttur á sínum tíma og hún ekki gengið úr flokknum hefði flokkurinn fengið a.m.k. 7-8 þingmenn en fékk aðeins 4 og nú eru þeir orðnir 3.  Eins finnst mér miður að flokkurinn skyldi ekki lýsa yfir stuðningi við núverandi ríkisstjórn og haft þannig tækifæri á að móta nýja stefnu og jafnvel fá ráðherrasæti.  Það var að mínu mati mikill afleikur.

Bjartsýn kona

Arnheiður Hjörleifsdóttir Arnheiður Hjörleifsdóttir hefur tekið þá ákvörðun að ganga til liðs við Framsóknarflokkinn. Samhliða þeirri ákvörðun sækist hún eftir öðru sæti á lista flokksins í Norðvesturkjördæmi fyrir komandi alþingiskosningar.

Hún er bjartsýn þessi kona að halda að hún komist á þing með því að ganga í Framsóknarflokkinn.  En kannski er ég of dómharður því flokkurinn virðist allur vera að lifna við með nýjum formanni Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, sem virðist höfða til mjög margra enda maðurinn afburða snjall og hæfileikaríkur og sennilega tekst honum að rífa flokkinn upp og hreinsa af honum spillingarstimpilinn.


mbl.is Gengur í Framsóknarflokkinn og boðar framboð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Furðuleg hugsun

Ég var að horfa á sjónvarpið frá Alþingi fyrir stuttu síðan og þar var verið að ræða frumvarp frá Frjálslynda flokknum um breytingu á kvótakerfinu.  Átti breytingin að vera sú að handfæraveiðar yrðu frjálsar á bátum allt að 30 tonnum að stærð.  Þetta átti að vera til þess að auka nýliðun í sjávarútvegi.  Einn af þeim sem tóku til máls var Sigurður Kári Kristjánsson alþm. og auðvitað var hann á móti en eitt af því sem hann sagði vakti undrun mína en hann sagði;  "Ég get ómögulega skilið afhverju sumir eru alltaf að tala um að nýliðun sé nauðsynleg í sjávarútvegi, ég veit ekki betur en að þeir sem þar eru fyrir hafi bara staðið sig nokkuð vel."  Þvílík þröngsýni hjá ungum alþm. í öllum atvinnugreinum er ákveðin nýliðun nauðsynleg.  Við gætum alveg heimfært þetta uppá sjálft Alþingi og ákveðið að þeir þingmenn sem kosnir verða kosningunum í vor sitji á þingi þar til þeir verða dauðir og þá erfist þingsætið og ættingjar geti annað hvort selt þinsætið eða leigt það.  En hafa núverandi útgerðarmenn staðið sig eins vel og Sigurður Kári heldur.  Ég veit ekki betur en að sjávarútvegurinn sé skuldsettur langt upp fyrir möstur skipanna sem þeir teljast eiga.  Sjávarútvegurinn með allri sinni hagræðingu skuldar um 5 faldar árstekjur sínar.  Ef við horfum á loðnuflotann þá eru þar skipstjórar sem byrjuðu skipstjórn fyrir 30-40 árum og auðvitað eru þeir ekki ódauðlegir frekar en aðrir menn og hverjir eiga þá að taka við?  Þessi mikla skuldsetning er ekki öll tilkomin vegna kaupa á aflaheimildum eins og oft er haldið fram.  Heldur hefur kvótinn verið notaður sem veð til að taka þátt í hlutabréfabraskinu.  Er nú svo komið að stór hluti veiðiheimilda við Ísland er veðsettur þýskum og breskum bönkum.  Svo eru útgerðarmenn á móti aðild að ESB því þá komist þessar veiðiheimildir í erlendar hendur, en þær eru í dag komnar í erlendar hendur.  Svo eru útgerðarmenn að væla um að fá felldar niður stóran hluta skulda sinna.  Nei það má ekki ske heldur á ríkið núna að innkalla allar veiðiheimildir og leigja þær út fyrir um 10% af aflaverðmæti sem færi í sérstakan sjóð til að greiða niður erlendar skuldir sjávarútvegsins.  Þannig kæmu nýir aðilar auðveldlega inn í greinina og mikil nýliðun yrði og því yrði forðað að erlendir bankar hirtu af okkur auðlindina.  Í dag eru mörg stór fyrirtæki í sjávarútvegi tæknilega gjaldþrota.  Má þar nefna Granda hf. Ramma hf. Ísfélag Vestmanneyja hf., Vinnslustöðina hf., Hraðfrystihúsið-Gunnvör hf. Þorbjörninn hf., Vísir hf. ofl.  Í einu fyrirtæki á Snæfellsnesi mun ástandið vera þannig að eigendur ræðast ekki við nema í gegnum lögfræðinga.  Þannig að það er tímabært að stokka þetta allt upp áður en fyrirtækin fara að rúlla á hausinn hvert á fætur öðru.  Mér er kunnugt að þegar Skinney-Þinganes hf. keypti togbátinn Helgu RE-49, sem nú heitir Steinunn SF-10 með öllum kvóta þá var greitt fyrir það tveir milljarðar.  Skipið hefur náð að fiska fyrir um 200 milljónir á ári og þótt allt aflaverðmætið væri notað þá dygði það varla fyrir vöxtum af þeim lánum sem voru tekinn og eru þá afborganir og allur útgerðarkostnaður eftir.  Samt er þetta fyrirtæki að bæta við sig tveimur hliðstæðum skipum (nýsmíði) eru það svona vinnubrögð sem Sigurður Kári kallar að standa sig vel.  Þegar ég var í útgerð þá var yfirleitt við það miðað að skuldir á einu skipi máttu ekki vera hærri en sem nam aflaverðmæti skipsins á einu ári og ég held að það hafi ekki breyst mikið síðan.  Sama gildir um þjóðarbúið Ísland það getur ekki greitt af hærri lánum en sem nemur landsframleiðslu, þess vegna er brýnt að að auka allar veiðiheimildir og gefa strax út 300-500 þúsund tonna loðnukvóta til að auka tekjur þjóðarbúsins.  Það er tilgangslaust að vera alltaf að leita að einhverjum 400 þúsund tonnum af loðnu, því bara á meðan á slíkri leit stendur er hvalurinn búinn að éta álíka magn.  Meira að segja framkvæmdastjórar þeirra fyrirtækja sem mest stóla á loðnuveiðar vilja ekki að gefinn verði út loðnukvóti fyrr en búið sé að finna þessi 400 þúsund tonn.  Hverskonar jólasveinar stjórna þessum fyrirtækjum?  Nú er loðnan á fullri ferð meðfram suðurströndinni og hluti hennar kominn fyrir Reykjanes og stefnir í Breiðafjörð og hluti hennar búinn að hrygna og eftir hrygningu drepst hún.  Það eina jákvæða við alla þessa vitleysu er að nú nýtur þorskurinn fæðunnar og ætti því að vera óhætt að bæta 100 þúsund tonnum við þorskkvótann.  Svo langt er gengið í þessum vísindum að farið er að nota einhverja kellingu í Vestmannaeyjum til að spá fyrir um loðnuveiðar í vetur.

Ísland þarf stór auknar tekjur í dag.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jakob Falur Kristinsson
Jakob Falur Kristinsson

Ég er fyrrverandi vélstjóri og útgerðarmaður en er nú 75% öryrki eftir slys á sjó 2003. Bjó lengst af á Bíldudal en flutti til Sandgerðis haustið 2005.  En er nú aftur fluttur á Bíldudal.  Að svo miklu leyti sem myndir á síðunni eru eftir Mats Wibe Lund, þá liggur fyrir tímabundið samþykki hans um birtingu hjá mér og þakka ég honum sérstaklega fyrir.  Mats á að sjálfsögðu hönundaréttin að öllum sínum myndum.  Vilja menn sjá fleiri myndir þá vísast á www.mats.is  Ég  var flokksbundinn í Frjálslynda flokknum og hef starfað þar, en sagði mig úr flokknum 24. apríl og gekk í Samfylkinguna.  Föðurætt mín er úr Arnarfirði og móðurættin frá Jökulfjörðum og Hornströndum og í báðum tilfellum, langt aftur í aldir.  Er ég því ekta Vestfirðingur.

Undir fyrirsögninni Færsluflokkar er flokkur sem heitir Vefurinn og ef smellt er á hann opnast síður þar sem ég er að skrifa ýmsar frásagnir.  Einnig er undir liðnum spaugilegt smá grín ofl. 

Ég leyfi öllum að skrifa athugasemdir við mín skrif.   En af gefnu tilefni hef ég ákveðið að þeir sem ekki kunna sér hófs í athugasemdum og nýta þær til persónulegra árása á mig og mína persónu, með allskonar skömmum og svívirðingum, mun ég hér eftir loka á slíka aðila.  Einnig mun ég henda út nafnlausum athugasemdum.  Því ég einn ber ábyrgð á því sem skrifað er á mína síðu.

jakobkr@internet.is     

GSM: 823-2954

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband