Hreppstjórinn

Á sínu, tíma þegar ég var framkvæmdastjóri fyrir útgerð og fiskvinnslu á Bíldudal var útgerðarstjóri hjá fyrirtækinu sem yfirleitt gekk undir nafninu Hreppstjórinn, en þá stöðu hafði hann fengið á sínum tíma og þótt þá væri búið að leggja þessi embætti um allt land, þá vildi hann samt halda í sinn titil.  Hreppstjórinn var dugnaðar maður og sinnti sínu starfi vel, en kappið var oft svo mikið að stundum var framkvæmt áður en hugsa málið til enda.  Ég ætla að segja hér frá tveimur skrautlegum atvikum sem komu fyrir í fljótfærni;

Annað skipið okkar var línu- og rækjubátur og eitt sinn fór hann til Reykjavíkur áður en byrjað var á rækjunni til að ná í nýtt troll ofl.  En fyrst þurfti að taka gamla trollið í land og voru menn á bátnum að velta því fyrir sér hvernig best væri að ná gamla trollinu í land og var talið að best væri að fá bíl með krana og hífa trollið í land.  Hreppstjórinn var staddur þarna líka og sagði það ekki vera neitt mál og best væri að hann stjórnaði aðgerðum.  Við áttum á þessum tíma Lödu-station bifreið sem var notuð til snúninga í Reykjavík ef einhver frá fyrirtækinu átti þangað erindi og nú var Hreppstjórinn á bílnum.  Hann sagði skipstjóranum að bakka skipinu upp að bryggjukantinum í horninu þar sem er við enda á Faxaskála og á móti olíubryggjunni, en þar er smá steyptur hallandi renna og síðan grjót báðum megin.  Skipstjórinn gerði það, en á skipinu var smá skutrenna.  Hreppstjórinn lét síðan setja enda í bobbingalengjuna og festi svo vel í Löduna, síðan bakkaði hann aðeins og gaf svo allt í botn og trollið flaug loksins úr skipinu en í stað þess að ná inn á steyptu rennuna féll það beint niður og kippti svo mikið i Löduna að litlu munaði að hún færi í sjóinn líka.  Nú kom skipstjórinn og sagði að þetta væri vonlaust og best að fá bíl með krana og hífa þetta upp, því trollið væri svo víða orðið fast í grjótinu, en Hreppstjórinn var ekki á því að gefast upp.  Þetta væri alveg hægt og nú sá hann að við vélarverkstæðið Gjörvi hf. stóð pallbíll og fór hann þangað og fékk bílinn lánaðan og nú átti þetta að koma því þessi bíll var með drif á öllum hjólum.  Það var síðan bundið í þann bíl en þrátt fyrir að allt væri gefið í botn skeði ekkert bíllinn bara spólaði og spólaði og reykjarmökk lagði af dekkjunum.  Þá komu menn hlaupandi frá Gjörva og vildu fá bílinn því þeir vildu ekki láta eyðileggja öll dekkin á bílnum og var honum þá skilað.  En Hreppstjórinn var ekki á því að gefast upp, nú sá hann strætisvagn sem stóð við biðstöð á Grandanum og þangað fór hann og kom þá í ljós að hann kannaðist við bílstjórann og bað hann nú um að strætisvagninn reyndi að draga trollið.  Bílstjórinn sagðist ekki geta það, því hann yrði að halda sinni áætlun og nú þegar væru komnir nokkuð margir farþegar inn í vagninn.  Það er bara betra sagði Hreppstjórinn, því á er vagninn bara þyngri og dregur betur.  Eftir mikið þras féllst vagnstjórinn á að gera eina tilraun, en ekki gat hann hreyft við trollinu og fór síðan sína leið.  Nú voru góð ráð dýr en ekki var Hreppstjórinn á því að gefast upp og fór niður að trollinu og losaði alla möskva, sem fastir voru í grjótinu og að því loknu kemur stór kranabíll akandi.  Hreppstjórinn stoppaði hann og bað manninn um að hífa fyrir sig trollið upp á bryggju.  Kranastjórinn sagðist ekkert mega vera að því hann væri á leið í ákveðið verkefni út á Granda.  En ekki gafst Hreppstjórinn upp og sagði að þetta tæki ekki nokkra stund með svona öflugum kranabíl og að lokum gafst kranastjórinn upp og sagðist ætla að gera þetta og spurði hvort þetta væri mjög þungt.  Nei,nei, svaraði hinn þú þarft ekki einu sinni að setja niður stoðirnar á krananum.  Kranabílinn fór þá á bryggjukantinn og byrjaði að hífa í trollið, en fljótlega fór kraninn að halla talsvert og voru hjólin á kranabílnum sem sneru frá bryggjunni kominn á loft og þegar hann var alveg við það að velta niður í höfnina, stökk kranastjórinn út brjálaður af reiði.  Skipshöfnin fylgdist með spennt hvort að kraninn ylti niður í höfnina, kranastjórinn gat teygt sig inn í kranann og slakað svo bíllinn stóð á öllum hjólum.  Hann hundskammaði Hreppstjórann og sagði að þetta væri miklu þyngra er hann hefði sagt.  Hreppstjórinn svaraði fullum hálsi og sagði að auðvitað hefði hann átt að setja stoðirnar niður.   Hvort hann vissi ekki að það væri stórhættulegt að vera að hífa á svona stórum krana án stoðanna.  Nú setti kranastjórinn stoðirnar niður og hífði allt draslið upp á bryggju og losaði síðan kranann og ætlaði í burtu.  Hreppstjórinn fór og talaði við hann og spurði hvort það ætti ekki að greið honum eitthvað fyrir þessa vinnu.  Nei sagði kranamaðurinn það nægir mér alveg að sleppa lifandi frá þér og ók í burtu.  Hreppstjórinn fór þá um borð og sagði við þá sem þar voru að eitthvað hefði hann nú verið skrýtinn þessi kranastjóri.  Lauk þá þessu ævintýri með rækjutrollið.

Hitt atvikið varð þegar togarinn okkar Sölvi Bjarnason BA-65 fór í slipp í Reykjavík og eftir að skipið var komið á flot, þurfti að fara með björgunarbáta, slökkvitæki ofl. í skoðun.  Hreppstjórinn var að sjálfsögðu viðstaddur til að fylgjast með og sjá til þess að allt væri nú gert rétt.  Honum fannst alveg tilvalið að nýta sunnudagsmorgun til að koma björgunarbátunum upp á bryggju svo þeir væru tilbúnir í skoðun á mánudagsmorgni.  Fékk hann 1. stýrimann  togarans með sér í verkið.  Tveir af gúmmíbátunum voru upp á brúarþaki og notuðu þeir krana á togaranum og var ætlunin að hífa bátana af brúarþakinu og á bryggjuna.  Stýrimaðurinn fór upp á brúarþak og losaði bátana og setti á þá stroffu og síðan var byrjað að hífa þannig bátana í land.  Þar sem togarinn lá með stjórnborðshliðina að bryggjunni, en kraninn var bakborðsmeginn þurfti að kippa í þá til að þeir næðu inn á bryggjuna.  Stýrimaðurinn var við kranann en Hreppstjórinn á bryggjunni.  Allt gekk vel með fyrri bátinn en þegar komið var að seinni bátnum kippti hreppstjórinn óvart í línuna sem var til að blása bátinn upp og skipti það engum togum að báturinn blést upp og skorðaðist fastur á milli borðstokksins og yfirbygginginnar á togaranum.  Það var sama hvað þeir reyndu ekki var nokkur leið að losa bátinn og þar sem þetta var á sunnudegi var talsverð umferð um höfnina af bílum og stoppuðu margir til að fylgjast með þessum tveimur mönnum að glíma við björgunarbátinn og höfðu gaman af.  Hreppstjórinn var orðinn rauður í framan og dró upp vasahníf og vildi skera bátinn lausan en stýrimaðurinn sagði að þá myndu þeir skemma bátinn og var því hætt við það.  Eftir að hafa hugsað málið og hringt í Gúmmíbátaþjónustuna var ákveðið að láta hann vera þar sem hann var og síðan yrði hleypt lofti úr honum á mánudagsmorgni þegar starfsmenn kæmu að sækja bátana.  Var því það sem eftir var dags uppblásinn gúmmíbátur þrælfastur um borð í Sölva Bjarnasyni BA-65 og vakti mikla undrun þeirra sem leið áttu um höfnina þennan dag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Alveg sé ég hann fyrir mér, það hefur verið sláttur á kalli í rækjutrollinu....

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 8.2.2008 kl. 19:20

2 Smámynd: Jakob Falur Kristinsson

Já þú hlýtur að muna eftir vininum , Hafsteinn, hann var alltaf al flýta sér.

Jakob Falur Kristinsson, 9.2.2008 kl. 15:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jakob Falur Kristinsson
Jakob Falur Kristinsson

Ég er fyrrverandi vélstjóri og útgerðarmaður en er nú 75% öryrki eftir slys á sjó 2003. Bjó lengst af á Bíldudal en flutti til Sandgerðis haustið 2005.  En er nú aftur fluttur á Bíldudal.  Að svo miklu leyti sem myndir á síðunni eru eftir Mats Wibe Lund, þá liggur fyrir tímabundið samþykki hans um birtingu hjá mér og þakka ég honum sérstaklega fyrir.  Mats á að sjálfsögðu hönundaréttin að öllum sínum myndum.  Vilja menn sjá fleiri myndir þá vísast á www.mats.is  Ég  var flokksbundinn í Frjálslynda flokknum og hef starfað þar, en sagði mig úr flokknum 24. apríl og gekk í Samfylkinguna.  Föðurætt mín er úr Arnarfirði og móðurættin frá Jökulfjörðum og Hornströndum og í báðum tilfellum, langt aftur í aldir.  Er ég því ekta Vestfirðingur.

Undir fyrirsögninni Færsluflokkar er flokkur sem heitir Vefurinn og ef smellt er á hann opnast síður þar sem ég er að skrifa ýmsar frásagnir.  Einnig er undir liðnum spaugilegt smá grín ofl. 

Ég leyfi öllum að skrifa athugasemdir við mín skrif.   En af gefnu tilefni hef ég ákveðið að þeir sem ekki kunna sér hófs í athugasemdum og nýta þær til persónulegra árása á mig og mína persónu, með allskonar skömmum og svívirðingum, mun ég hér eftir loka á slíka aðila.  Einnig mun ég henda út nafnlausum athugasemdum.  Því ég einn ber ábyrgð á því sem skrifað er á mína síðu.

jakobkr@internet.is     

GSM: 823-2954

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband