Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Ríkisstjórnin

Það muna nánast allir hvar þeir voru staddir 11.9. 2001, en þá var gerð árás á tvíburaturnanna í New York,  nú mun önnur dagsetning festast í hugum íslendinga sem, er 11.10. 2007. en þá féll meirihlutinn í Reykjavík með látum.  Í Kastljósþætti Sjónvarpsins í gærkvöldi voru að ræða þessa nýju stöðu í Reykjavík þau, Bjarni Harðarson alþm. (B), Óli Björn Kárason, blaðamaður (D)  og Sóley Tómasdóttir, varaborgarfulltrúi (VG), ekki ætla ég að fjalla mikið um þessar umræður, en tók þó sérstaklega eftir einu sem Óli Björn sagði um málið en hann sagði;  "Borgarfulltrúar sjálfstæðismanna í Reykjavík þurfa að líta vel á sinn hlut, því ljóst hefði verið a.m.k. þremur dögum áður að þá hefði legið í loftinu að meirihlutinn var við það að springa, en þeir hefðu ekki viljað hlusta á góðra manna ráð og því hefði farið sem fór."   Það er alveg ljóst að þrátt fyrir yfirlýsingar um gott og traust samstarf í núverandi ríkisstjórn og atburðir í Reykjavík hafi þar engin áhrif.  Er sú staða samt komin upp að Sjálfstæðisflokkurinn er orðinn veikari aðilinn í því samstarfi og nú er verið að vara ráðherra flokksins við því að þeir þurfi að fara varlega svo ekki eigi að fara þar eins og í borgarstjórn og Meira að segja Morgunblaðið skrifar í Staksteinum í gær; "Forustumenn Sjálfstæðisflokksins geta auðvita litið svo á, að atburðir í ráðhúsinu, hafi engin áhrif á landstjórnina.  Ekki eru nema tvær vikur liðnar frá því einn af viðmælendum Morgunblaðsins í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins, lýsti samstarfinu við borgarfulltrúar Framsóknarflokks sem frábæru.  Því lauk í gær.  Með eftirminnilegum hætti fyrir Sjálfstæðisflokkinn eða hvað finnst borgarfulltrúunum?  Hér eftir ættu ráðherrar og þingmenn Sjálfstæðisflokks að gæta að sér við hvert fótmál."  En gera þeir það?  Nei aldeilis ekki, hver ráðherrann eftir annann eru með stórar yfirlýsingar um hinn nýja meirihluta í borgarstjórn sem þeir telja að muni ekkert gera gott og varla á vetur setjandi.  Hver er tilgangur ráðherranna með þessum stóru yfirlýsingum sínum?  Ekki eru þeir að taka mark á viðvörum um að fara varlega,heldur eru að feta nánast í fótspor borgarfulltrúanna í Sjálfstæðisflokknum og tefla þar með í hættu núverandi ríkisstjórn.  Það hættulegasta í allri pólitík er að vanmeta andstæðing sinn og það virðist Sjálfstæðisflokkurinn vera að gera núna.  Hann er nánast að leika sér með eldinn og ef hann gengur of langt er næsta öruggt að Samfylkingin tilkynnir honum einn daginn að hún sé búin að mynda ríkisstjórn með þeim flokkum sem nú skipa meirihluta í borgarstjórn og Sjálfstæðismenn sitja eftir eins og náttröll og vita ekkert í sinn haus, frekar en í borgarstjórn.  Það yrði mjög skemmtilegt ef þetta skeði 11.11. 2007 svo allar dagsetningar hljómi saman.

Ekki sama hverjir gera út með leigukvóta

LÍÚ hefur lengi haft horn í síðu þeirra útgerða sem eiga ekki aflaheimildir, heldur þurfa að leigja til sín allt það sem þeirra skip veiða.  Brottkast hefur verið talið fylgja þessari útgerð umfram aðra og eins hafa slíkar útgerðir verið sakaðar um að brjóta samninga á sínum sjómönnum, þótt margoft hafi sannast að uppgjör á þessum skipum eru oft mun hagstæðari og miðað við hærra fiskverð en hjá félagsmönnum LÍÚ, því þau skip sem gera út með leigukvóta landa yfirleitt öllum sínum afla á fiskmarkaði þar sem verð er hæðst á meðan flestir hinir heilögu félagar í LÍÚ eru með sín skip í föstum viðskiptum við eigin vinnslur og miða þá uppgjör við sjómenn við lámarksverð.  Nú kemur allt annað hljóð í strokkinn hjá framkvæmdastjóra LÍÚ, Friðrik J. Arngrímssyni.  Í nýjasta tölublaði Fiskifrétta, segir Friðrik um leiguverð á þorski í rússnesku lögsögunni; "Okkur þykir verðið nokkuð hátt eða kr. 64,- fyrir hvert kg. en vildum láta láta á þetta reyna.  Þá má geta þess að norskar og færeyskar útgerðir sem hafa keypt slíkar veiðiheimildir, geta dregið kostnaðinn frá óskiptum afla.  Við hefðum líka viljað sjá þennan kostnað koma af óskiptu hjá okkur."  Hvað meiga íslenskir útgerðarmenn segja, sem þurfa að leigja veiðiheimildir af félagsmönnum LÍÚ og verða greiða kr. 200-220 fyrir hvert kíló af þorski og hafa fram til þessa ekki þorað að láta það út úr sér að leiguverð væri dregið frá óskiptum afla.  Þeir hafa átt fullt í fangi með að verjast árásum margra aðila um að þeir stunduðu slíkt.  En það er ekki sama Jón og Séra Jón, því þau útgerðarfyrirtæki sem nú eru að fara að leigja kvóta af Rússum eru: Samherji hf. 711 tonn, HB-Grandi hf. 511 tonn, og Brim hf. 200 tonn og allt er þetta miðað við óslægðan fisk.  Nú telur Friðrik J. Arngrímsson ósköp eðlilegt að leiguverð skuli dregið frá óskiptum afla og ætli samtök sjómann séu ekki sammála honum?  Það kæmi mér ekki á óvart.

Gott framtak

Búið er að skrifa undir kaupsamning milli væntanlegs hlutafélags og skiptastjóra rækjuverksmiðjunnar Miðfells á Ísafirð og hófst rækjuvinnsla því á ný á Ísafirði í morgun.  22 starfsmenn mættu til vinnu í morgun og stefnt á að þeir verði rúmlega 30 innan tíðar.

Stofnendur félagsins eru Byggðastofnun og útgerðarfélagið Birnir í Bolungarvík.  Fleiri aðilar koma til með að gerast stofnfélagar næstu daga, en verið er að bíða eftir kennitölu og nýju nafni á fyrirtækið til að svo geti orðið.  Samkvæmt frétt í Bæjarins besta.

Það er kraftur í þeim feðgum sem eiga útgerðarfélagið Birnir, en ekki er langt síðan þeir keyptu nýtt skip sem var áður Framnes ÍS en heitir í dag Gunnbjörn ÍS.


mbl.is Starfsemi hafin á ný hjá Miðfelli á Ísafirði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki einfalt að fara að lögum

Fyrir nokkrum árum var ég vélstjóri á netabát sem gerður var út frá Bíldudal og rérum við frá Ólafsvík, en aflanum var landað á Patreksfirði, þaðan sem honum var ekið til vinnslu á Bíldudal.  Þar sem þetta var saltfiskverkun, vildu þeir aðeins fá þorskinn og lönduðum við því öðrum tegundum á fiskmarkaðinn á Patreksfirði.  Það kom oft fyrir að við fengum bæði höfrunga og hnísur í netin sem fór yfirleitt fyrir borð aftur.  Svo kom fólk og fór að spyrja okkur um hvort við gætum útvegað höfrungakjöt.  Þar sem um borð hjá okkur var Færeyingur sem kunni vel til verka að skera kjötið af þessum skepnum, allt þetta höfrungakjöt gáfum við fólki.  Svo kom að því að þar sem þetta var svo vinsælt að okkur datt í hug að setja 1 höfrung á fiskmarkaðinn og vita hvort hægt væri að fá eitthvað verð á þetta.  Það vildi svo til að þegar við létum höfrunginn á fiskmarkaðinn voru menn frá Fiskistofu staddir á Patreksfirði og ráku augun í þennan höfrung og bönnuðu strax að hann yrði seldur og komu síðan um borð til okkar og tilkynntu skipstjóra að hann mætti ekki veiða höfrung nema hafa tilskilið leyfi til hvalveiða og yrði að taka höfrunginn aftur.  Skipstjórinn benti þeim á ákvæði í lögum um stjórn fiskveiða, þar sem skýrt er tekið fram að ekki mætti henda neinu í hafið aftur sem kæmi í veiðarfærin og skylt að koma með allt í land og það væri útilokað að forðast hvað kæmi í netin.  Við værum fyrst og fremst að veiða þorsk og þessir höfrungar sem kæmu í netin væru bara til vandræða.  Fiskistofumenn fóru þá inn í bíl sinn sem stóð á bryggjunni til að ræða málin og komu svo aftur um borð og sögðu; "Að þetta væri hið mesta vandræðamál" því við hefðum ekki leyfi til að veiða hval og mættum því ekki koma með hann í land og hvorki selja eða gefa höfrunginn.  En hvað varðaði þetta ákvæði í lögum um að koma skyldi með allan afla í land, þá væri átt við fisk en ekki hvali.  Skipstjórinn benti þá á að í lögunum væri ekkert undanskilið hvorki hvalur eða annað og þá kom svarið; "Ja við verðum nú að túlka þetta svona núna og passið þið ykkur bara á því að koma ekki með höfrung í land aftur, það verður bara að hafa það þótt þið hendið þeim í hafið aftur við vitum þá ekkert af því." Urðum við því að taka þennan höfrung aftur um borð og kasta honum í hafið þegar við vorum komnir út á rúmsjó aftur.

Nýr meirihluti í Reykjavík

 

Nú hefur komið fram að höfundar að hinum nýja meirihluta eru Alfreð Þorsteinsson og Ólafur Magnússon, borgarfulltrúi F-lista.  En báðir munu þeir sig eiga harma að hefna gagnvart sjálfstæðismönnum.  Ólafur vegna þess hvað sjálfstæðismenn léku hann grátt við myndun meirihluta í Reykjavík eftir síðustu kosningar.  Alfreð vegna þess að nú nýlega lagði Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra niður stöðu Alfreðs, sem forstöðumanns fyrir byggingu hins nýja sjúkrahús í Reykjavík.  Eru því sjálfstæðismenn ekki öfundsverðir þessa daganna og verða að fara mjög varlega með allar sínar ákvarðanir.  Því annars gæti allt snúist öfugt í höndunum á þeim og verði þeim að góðu.


Rússnesk stjórnsýsla

Núverandi stjórn okkar íslendinga á fiskveiðum, er sífellt að líkjast meir og meir hinum sovéska áætlunarbúskap hinna gömlu Sovétríkjanna og mun Ísland vera nánast eina ríkið í Evrópu sem rekur slíkan áætlunarbúskap, þar sem ekkert er spurt um þjóðarhag, bara halda sig við þá áætlun sem ríkisvaldið setur á hverjum tíma.  Er nú svo komið að Castró gamli á Kúbu verður okkar eina fyrirmynd, þó er nokkur munur á að hjá Sovétríkjunum var verið að hugsa um fólkið en hjá okkur snýst þetta mest um að gefa einkaaðilum ákveðin verðmæti.

Fallinn með 4,9

Sjálfstæðismenn 

 

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokki, segir að ákvörðun Björns Inga Hrafnssonar um að slíta meirihlutasamstarfinu í borgarstjórn hafa verið einhliða og fyrirvaralaus.  Sagði Vilhjálmur ekki hafa mikla trú á þeim meirihluta, sem nú hefur verið myndaður.  Gísli Marteinn Baldursson, borgarfulltrúi, sagðist telja að Björn Ingi hefði sýnt mikil óheilindi. 

 

Aðrir borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins tóku undir að spurningar hlytu að vakna um það hvaða hagsmuni Björn Ingi væri að verja. Hanna Birna Kristjánsdóttir sagði, að Björn Ingi hefði ekki þolað einn snúning og það hefði komið mjög á óvart af hve mikilli hörku hann rak mál REI.

Vilhjálmur sagði, að hann muni starfa áfram á vettvangi borgarstjórnar og veita nýjum meirihluta nauðsynlegt aðhald. Sagðist hann myndi fylgjast náið með því hvernig málefnasamsuða flokkanna fjögurra verði útfærð og hann hlakkaði til að takast á við þennan hóp.

Vilhjálmur sagði, að Svandís Svavarsdóttir hefði á blaðamannafundi síðdegis talað um að handaband dygði til að innsigla samstarfið. „Það dugði ekki handaband hjá okkur þegar við ætluðum að halda meirihlutanum áfram í gærkvöldi," sagði Vilhjálmur og bætti við að þessi niðurstaða væri áfall og það væri áfall að lenda í svona samskiptum. „Ég hefði að minnsta kosti ekki hagað mér svona sjálfur," sagði hann.

Vilhjálmur sagði að seint í gærkvöldi hefði hann átt samtal við Björn Inga þar sem þeir handsöluðu samkomulag um að halda áfram samstarfinu í borgarstjórn. Sagðist Vilhjálmur hafa átt von á Birni Inga á fund klukkan 10:30 í morgun en hann kom ekki þangað og ekki heldur á meirihlutafund í Höfða eftir hádegið. Sagðist Vilhjálmur hafa verið farinn að halda að eitthvað hefði komið fyrir Björn Inga.

Hann sagði, að Björn Ingi hefði síðan hringt í sig í dag og beðið um fund. Þar kom fram, að skömmu eftir að þeir ræddust við símleiðis í morgun hefðu oddvitar hinna flokkanna haft samband við Björn Inga og viljað ræða um samstarf og niðurstaðan orðið sú sem raun bæri vitni.

Vilhjálmur sagði, að síðasta vika hefði verið afar erfið en þeir erfiðleikar hefðu aðeins tengst erfiðleikum í Orkuveitu Reykjavíkur. Engin önnur alvarleg ágreiningsmál hefðu komið upp í þessu meirihlutasamstarfi og þvert á móti hefði ríkt eindrægni innan hópsins.

Vilhjálmur sagði, að ágreiningurinn nú hefði tengst áhættusömum rekstri, sem sjálfstæðismenn hefðu viljað fara varlega í en það væri sannfæring þeirra, að Orkuveita Reykjavíkur eigi ekki að vera í áhættusömum samkeppnisrekstri og ætti að losa sig sem fyrst út úr Reykjavik Energy Innest. Ágreiningurinn tengdist einnig gagnaveitunni, sem væri í samkeppni við ljósleiðarann. það hefði komið á óvart, hvað Björn Ingi vildi fylgja þessu ferli fast eftir þótt augljóst væri, að ekki væri stuðningur fyrir því innan borgarstjórnarmeirihlutans.

Bæði sár og reið
Gísli Margeinn Baldursson, borgarfulltrúi, sagði að innan þeirra raða væri sú skoðun uppi, að Björn Ingi hefði komið fram af miklum óheilindum. „Við erum bæði reið og sár yfir framgöngu hans," sagði Gísli Marteinn.

Hann sagði að samstarf flokkanna tveggja í borgarstjórn hefði gengið afar vel þar til kom að málefnum REI. Ástæðan, sem gefin var upp fyrir samstarfsslitunum væri ótrúverðug og allt tal um að það sé óeining í hópi sjálfstæðismanna væri fyrirsláttur. Því hlyti að búa eitthvað annað að baki þessum gerðum Björns Inga.

Það er alveg sama hvað sjálfstæðismenn væla mikið og ásaka Björn Inga um svik og trúnaðarbrest, þeir bera alla sökina sjálfir og munu jafnvel hafa verið að hugsa um að sparka Birni Inga og fá Margréti Sverrisdóttur í staðinn, það voru nú öll þeirra heilindi.  Vilhjálmur talar um að Svandís Svavarsdóttir hafi talað um að handarband dygði til að innsigla samstarf þeirra flokka sem nú taka við.  Síðan segir Vilhjálmur "Það dugði ekki hjá okkur þegar við Björn Ingi hafi handsalað þeirra samstarf í fyrrakvöld".  Nú hefur komið fram að í fyrrakvöld hittust þeir Vilhjálmur og Björn Ingi ekkert, en töluðu saman í síma, ekki veit ég hvernig síma Vilhjálmur er með. en ég hef aldrei heyrt áður að menn handsali ákveðna hluti í gegnum síma.

En hvað skyldi það nú verið sem varð til þess að Björn Ingi ákvað, að slíta þessum meirihluta:

1.   Vilhjálmur naut ekki lengur fulls trausts hjá sínum borgarstjórnarflokki, enda höfðu þeir farið á fund til Geirs H. Haarde, formanns og Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttir, varaformanns, flokksins í þeim tilgangi að kvarta yfir vinnubrögðum Vilhjálms, borgarstjóra.  Þannig að alger upplausn var í þessu liði.

2.     Til að sætta sína félaga varð samkomulag um að selja hlut OR í REI til einkaaðila fyrir 10 milljarða en samkvæmt mati og hækkunum á bréfum Bjarna Ármannssonar er þessi hlutur um 40-50  milljarðar að virði.  Með sölu nú fyrir 10 milljarðar var nánast verið að gefa einkaaðilum stórfé frá OR, auk þess sem einkaaðilar hefðu þá átt allar virkjanir OR í gegnum félagið REI og alfarið ráðið verði á allri orku, auk þess sem búið var að samþykkja að Bjarni Ármannsson fengi að kaupa fyrir 500 milljónir til viðbótar því sem hann var áður búinn að kaupa og þetta átti hann að fá á sama gengi og áður og væri þá búinn að hagnast um rúman milljarð á fyrirtækinu REI og í staðinn ætlaði Bjarni að gefa reiknitölvur á alla leikskóla borgarinnar.  Vilhjálmi og fleirum er tíðrætt að ekki sé réttlætanlegt að skattfé borgarinnar sé notað í áhætturekstur en borgin í gegnum OR er búinn að leggja fé og eignir til REI en forustu um stofnun þess fyrirtækis hafði Guðlaugur Þór Þórðarson sem var þá stjórnarformaður OR.  Þótt borgin eigi ekki að vera í áhætturekstri er ekki þar með sagt að til að losna úr slíkum rekstri að borgin verði að gefa einhverjum gæðingum sína eign í REI í stað þess að bíða og fá eðlilegt verð.  Svo tala þessir fuglar um að þeir hafi eingöngu hag íbúa Reykjavíkur í huga, en verk þeirra segja okkur allt annað.

3.     Það voru þessi atriði sem Björn Ingi Hrafnsson gat ekki samþykkt, þ.e. að gefa eignir borgarinnar til einkaaðila og þegar við bættist algjör óeining hjá sjálfstæðisflokki var nóg komið og hann yfirgaf samkvæmið.

Ég get alveg skilið gremju sjálfstæðismanna því loksins eftir 12 ára útlegð náðu þeir stjórn borgarinnar en ekki tók það þá nema 17 mánuði að spila öllu af sér í tóma vitleysu og ljóst að pólitískur ferill Vilhjálms lýkur við lok kjördæmisins.  Einnig má telja nokkuð víst að langt mun verða þar til sjálfstæðismönnum verður treyst til að stýra Reykjavíkurborg.  Geir H. Haarde er mjög slegin yfir þessum fréttum en tekur samt fram að þetta hafi engin áhrif á núverandi ríkisstjórnarsamstarf, en Ingibjörg Sólrún Gísladóttir tekur þessum fréttum fagnandi en tekur undir með Geir hvað varðar ríkisstjórnina.  Auðvitað mun þetta hafa mikil áhrif á núverandi ríkisstjórn, því nú verður Samfylkingin ráðandi í þessu samstarfi og sterkari aðilinn, því sjálfstæðismenn er orðnir svo hræddir við að lenda í sömu stöðu og félagar þeirra í borgarstjórn og munu ekki þora að styggja Samfylkinguna neitt og er því breytt staða hjá sjálfstæðisflokknum og víst að núverandi ríkisstjórn mun verða mjög ólík þeim stjórnum sem sjálfstæðisflokkurinn hefur verið í sl. 16-17 ár.
mbl.is Vilhjálmur: Ákvörðun Björns Inga um samstarfsslit fyrirvaralaus
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

R-listinn

Geir h. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði við fréttamann Sjónvarpsins nú síðdegis, að það væri skiljanlegt að menn væri vonsviknir vegna þess að það væri dapurlegt að endurreistur R-listi væri kominn til valda á ný vegna máls, sem auðveldlega hefði átt að vera hægt að leysa á málefnalegum forsendum.  Það er eitthvað annað meira á bak við þetta, sagði Geir og sagði ljóst að fleira en málefni Orkuveitu Reykjavíkur væri í spilunum.  Geir sagði að þau Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, hefðu rætt saman nú síðdegis um þetta mál og þau væru sammála um að það ætti ekki að hafa áhrif á samstarf Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar í ríkisstjórn landsins enda væri það samstarf mjög traust.  Geir sagðist óttast að nýtt meirihlutasamstarf bæri dauðann í sér þótt hann vonaði fyrir hönd borgarbúa að það næði árangri.  sagði hann að Framsóknarflokkurinn hefði þarna leikið herfilega af sér og brugðist því trausti sem borið var til hans.

Ég get létt þeim áhyggjum af Geir H. Haarde, að það er ekkert nýtt að R-listi stjórni borginni og gert það vel og mun gera það aftur vel.  Það er gott að vita að ekkert getur spillt núverandi ríkisstjórnar stjórnarsamstarfi og þar sé ekkert nema traust og aftur traust.  Hann getur einnig sparað sér sínar áhyggjur af Framsóknarflokknum, því það var Sjálfstæðisflokkurinn, sem með sinni vitleysu spillti meirihluta starfi í borgarstjórn og ef sjálfstæðismenn í ríkisstjórn ætla að fara haga sér eins og þeirra flokksfélagar í borgarstjórn, er nokkuð öruggt að þetta mikla traust sem hann talar um verði fljótt að rjúka út í veður og vind.


mbl.is Dapurlegt að endurreistur R-listi sé kominn til valda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fátækt

Lítið bólar á aðgerðum núverandi ríkisstjórnar til að bæta kjör þeirra sem verst eru settir í þjóðfélaginu t.d. aldraðir og öryrkjar, þrátt fyrir fögur loforð fyrir síðustu kosningar.  Reyndar er búið að skipa Pétur H. Blöndal, formann í nefnd til að endurskoða lög um greiðsluþátttöku ríkisins í heilbrigðiskerfinu og gera það einfaldara og Pétur er alltaf samur við sig því nú skal komið í veg fyrir að einhver svindli á kerfinu og enginn fái of mikið af þeirri þjónustu sem ríkið býður þegnum sínum upp á.  Er einhver virkilega svo heimskur að halda að fólk leiki sér af því að vera veikt eða lenda í slysum, bara til að ríkið greiði meira.  Það virðist vera að það er orðið sama hvaða flokkar eru í stjórn á hverjum tíma.  Ekkert er gert til að útrýma fátækt á Íslandi og er þetta farið að minna mig á drottningu Lúðvíks 14. Frakklandskonungs á sínum tíma, þegar drottningunni var ekið um fátækrahverfi í París og sá þar fullt af fólki sem var að drepast úr hungri.  En þá spurði drottningin undrandi;  "Af hverju borðar fólkið ekki brauð til að svelta ekki?"

Ófriðarins vinur

Friðarsúla Yoko Ono 

Flest allir sem hafa tjáð sig opinberlega um friðarsúlu Yoko Ono í Viðey, hafa tekið þessu framtaki fagnandi, nema einn sem auðvitað er Björn Bjarnarson en hann segir á heimasíðu sinni;  "Ljós í þágu friðar boðaði Yoko Ono með sólgleraugu á nefi í myrkri í Viðey, þegar kveikt var á friðarsúlu til minningar um John Lennon.  Orkugjafi friðarsúlunnar er er OR, þar sem allt logar í ófriði."

Nú hefur Birni sennilega ekki verið boðið til þessar athafnar í Viðey og er kannski pínulítið öfundsjúkur.  En auðvitað var honum ekki boðið, þetta er súla sem minna skal á frið í heiminum og Björn, sem ekki er friðarsinni og hefur greinilega ekki náð sér ennþá, að hafa allt í einu hrokkið upp við að kalda stríðinu svokallaða er löngu lokið.  En hvað varðar ófriðinn í OR er hann kominn til af slæmum vinnubrögðum flokksbræðra Björns í Sjálfstæðisflokknum.  Ef Birni Bjarnasyni er annt um frið í OR ætti hann frekar að beina spjótum sínum þangað, en ekki vera að blanda Yoko Ono í það skítamál.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jakob Falur Kristinsson
Jakob Falur Kristinsson

Ég er fyrrverandi vélstjóri og útgerðarmaður en er nú 75% öryrki eftir slys á sjó 2003. Bjó lengst af á Bíldudal en flutti til Sandgerðis haustið 2005.  En er nú aftur fluttur á Bíldudal.  Að svo miklu leyti sem myndir á síðunni eru eftir Mats Wibe Lund, þá liggur fyrir tímabundið samþykki hans um birtingu hjá mér og þakka ég honum sérstaklega fyrir.  Mats á að sjálfsögðu hönundaréttin að öllum sínum myndum.  Vilja menn sjá fleiri myndir þá vísast á www.mats.is  Ég  var flokksbundinn í Frjálslynda flokknum og hef starfað þar, en sagði mig úr flokknum 24. apríl og gekk í Samfylkinguna.  Föðurætt mín er úr Arnarfirði og móðurættin frá Jökulfjörðum og Hornströndum og í báðum tilfellum, langt aftur í aldir.  Er ég því ekta Vestfirðingur.

Undir fyrirsögninni Færsluflokkar er flokkur sem heitir Vefurinn og ef smellt er á hann opnast síður þar sem ég er að skrifa ýmsar frásagnir.  Einnig er undir liðnum spaugilegt smá grín ofl. 

Ég leyfi öllum að skrifa athugasemdir við mín skrif.   En af gefnu tilefni hef ég ákveðið að þeir sem ekki kunna sér hófs í athugasemdum og nýta þær til persónulegra árása á mig og mína persónu, með allskonar skömmum og svívirðingum, mun ég hér eftir loka á slíka aðila.  Einnig mun ég henda út nafnlausum athugasemdum.  Því ég einn ber ábyrgð á því sem skrifað er á mína síðu.

jakobkr@internet.is     

GSM: 823-2954

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband