Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

Að verða ríkur af engu

Nú er mér loksins að takast að verða milljarðamæringur og það var auðvelt.

Ég á einkahlutafélagið Pétursvör ehf. sem er útgerðarfyrirtæki þar sem eigið fé er kr: 500 þúsund (Allt hlutaféð).  Nú lagði ég tölvuna mína inn í félagið fyrir 1 milljón, lyklaborðið fyrir kr 500 þúsund, prentarann fyrir 500 þúsund og varð þá eigið fé orðið 2,5 milljónir.  Síðan stofnaði ég einkahlutafélagið JFK ehf. með hlutafé fyrir 500 þúsund.  Þá seldi Pétursvör JFK ehf. allan tölvubúnaðinn fyrir kr. 4 milljónir og var þá eigið fé þess félags orðið kr. 4.500 þúsund.  Þá keypt ég eignirnar aftur af JFK ehf. fyrir 100 milljónir og seldi skömmu síðar allt aftur í félagið Pétursvör ehf. fyrir 200 milljónir, sem fljótlega seldi þær til JFK ehf. fyrir 500 milljónir.  Þá gaf ég út skuldabréf fyrir einn milljarð og lagði inn í Pétursvör ehf. sem seldi bréfið til JFK ehf. fyrir tvo milljarða.  Bréfið var síðan selt Pétursvör ehf. fyrir 5 milljarða,  JFK ehf. seldi síðan bréfið aftur á 10 milljarða til  félagsins Pétursvör ehf. og er eigið fé hjá Pétursvör orðið rúmir 12,5 milljarður og eigið fé hjá JFK ehf. er kr. rúmir 5 milljarðar.  Síðan sameinaði ég bæði félögin undir nafninu JFK ehf. sem er þá með kr. 14,5 milljarða í eigið fé.  Áður en allir stóru bankarnir hrundu var það algild regla að lána félögum 6 falt eigið fé og ætti því JFK ehf. möguleika á láni að fjárhæð kr. 87 milljarða.  Ég gæfi þá út skuldabréf fyrir 100 milljarða og leggið inn til JFK ehf. sem hefði þá getu til fjárfestinga í hinum ýmsu fyrirtækjum fyrir rúma 200 milljarða.  Það eina sem skyggir á í þessu hjá mér er að ef bankinn færi eitthvað að hræra í þessu.  Þá væri ég í raun í skuld við þessi félög sem nemur skuldabréfunum eða rúma 100 milljarða og bankanum 87 milljarða en samt ætti ég hreina eign að fjárhæð kr: 13 milljarða í félaginu JFK ehf.  Þetta er auðveldur bissness ef rétt er á málum haldið.


mbl.is Sterling-flétta FL Group og Fons
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vitlaus þjóð

Sighvatur Björgvinsson fv. alþingismaður og ráðherra, sikrifaði grein í eitt dagblaðið fyrir stuttu og var þar að fjalla um hin miklu mótmæli sem verið hafa að undanförnu.  Sighvatur segir að hann muni aldrei eftir öðru en að þjóðin hafi alltaf talað um þingmenn og ráðherra sem fífl og bjána og mótmælti öllu sem gert væri, en samt kjósi þjóðin sjálf þessa menn á Alþingi.  Það er rétt hjá Sighvati að þjóðin kýs Alþingi en hún hefur engin áhrif á hvernig ríkisstjórn verður mynduð eða hvernig þingmenn bregðast síðan trausti þeirra sem kjósa þá.  Gott dæmi um þetta er eftirlaunafrumvarpið fræga, sem Sighvatur studdi á sínum tíma og nýtur nú góðs af.  Hann virðist ekki skilja þá reiði sem er í samfélaginu og lokar algerlega augunum fyrir því að fjöldi manns er að missa sína atvinnu og jafnvel sín heimili.  Sighvatur er öruggur í sínu starfi sem forstjóri Þóunnarstofnunar og fær full laun fyrir það starf frá ríkinu og jafnframt fær hann full eftirlaun sem fv.þingmaður og ráðherra.  Ég hélt að það hefðu aðeins verið stjórnendur fjármálafyrirtækja sem hefðu verið siðblindir gagnvart launum en sú siðblinda virðist líka ná til fv. stjórnmálamanna og svo getur þessi sami maður verið að hneykslast á reiði hjá venjulegu launafólki sem er að missa sína vinnu og margir orðnir atvinnulausir.  Er nokkuð skrítið þótt fólk mótmæli öllu þessu óréttlæti og talandi um kosningar þá kaus þjóðin ekki um þetta fræga eftirlaunafrumvarp.  Hinsvergar naut Samfylkingin stuðning í síðustu kosningum þegar hún lofaði að afnema þessi lög ef Samfylkingin færi í ríkisstjórn, sem hún reyndar gerði en ekki er enn búið að afnema þessi lög.

Kannski er þetta rétt hjá Sighvati að þingmenn og ráðherrar geri allt rétt, það er bara íslenska þjóðin sem er svo vitlaus að kjósa þetta fólk á þing.


Ónýtur gjaldmiðill

Þótt íslenska krónan hafi styrkst nokkuð fyrstu daganna eftir að hún var sett á flot aftur, voru viðskiptin með hana svo lítil að það var ekki marktækt.  Nú þegar þó nokkur viðskipti eiga sér stað fellur krónan auðvitað aftur og hún mun halda áfram að falla við óbreyttar aðstæður um allt að 30-40% áður en hún fer að styrkjast á ný ef það þá skeður einhvern tíman.  Hvað þarf til að stjórnvöld skilji að þetta er vonlaus barátta með handónýtan gjaldmiðil.  Á kannski að eyða öllu láninu frá Alþjóða Gjaldeyrissjóðnum í þessa vitleysu og Ísland verði bara verr sett á eftir.  Hvaða tilgangi þjónar öll þessi andskotans vitleysa.  Nú erum við að byrja sama leikinn og áður, verðbólga eykst og síðan verða stýrivextir hækkaðir enn frekar og virka sem olía á verðbólgubálið.  Hafa menn ekkert lært af fyrri tilraunum með þessa aumingja krónu sem enginn vill sjá eða eiga.  Eina gagnið sem krónan getur gert úr þessu er að vera sýningargripur á Þjóðminjasafninu.  Hana á ekki að nota í viðskiptum.
mbl.is Krónan veiktist um 3%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú er lag til að innkalla kvótann

Talsmenn L.ÍÚ hafa fullyrt að ef ætti að innkalla allar veiðiheimildir væri verið að brjóta á fyrirtækjum því yfir 90% af öllum veiðiheimildum hafi núverandi handhafar þeirra þurft að kaupa af öðrum og efast ég ekki um að það sé rétt.  En veiðiheimildirnar voru ekki keyptar fyrir eigið fé heldur er mest allar þessar heimildi keyptar fyrir lánsfé hjá bönkum og eina veðið eru veiðiheimildirnar sjálfar.  Nú þegar þrír stærstu bankarnir eru komnir í eigu ríkisins og þar með öll kvótalánin, þá væri auðvelt fyrir ríkið að innkalla allar veiðiheimildir og afskrifa á móti lánin.  Þannig yrði enginn af núverandi handhöfum kvótans fyrir fjárhagslegu tjóni.  Til að bæta tjón ríkisins vegna afskrifta á lánum yrðu þessar veiðiheimildir leigðar út á hverju ári.  ALDREI  yrði aftur úthlutað varanlegum aflaheimildum á skip og þar sem við erum nú í miklum erfiðleikum með efnahagsmálin þá væri rétt að auka aflakvótann verulega og leigja síðan út þeim sem vildu.  Til að allir stæðu jafnt yrði leigan t.d. 10-20% af aflaverðmæti og skilyrði að allur afli yrði seldur á fiskmörkuðum, einnig yrði frysting út á sjó bönnuð til að skapa sem mesta atvinnu í landinu. Þannig yrði ríkið fljótt að fá til baka hin afskrifuðu lán og síðan yrðu þetta stöðugar tekjur í ríkissjóð á komandi árum sem myndu skipta hundruðum milljarða.  Með þessu yrðum við fljót að greiða niður allar þær lántökur sem við erum nú að taka vegna hruns bankanna og innan fárra ára yrði ríkissjóður skuldlaus á ný.  Með því að hafa leiguna sem hlutfall af aflaverðmæti yrði ekkert brottkast og ávinningur allra á að koma með allan afla að landi.  Einnig hefði Hafrannsóknarstofnun betri upplýsingar í höndunum við ákvörðun á heildarafla.  Þessi auðlynd okkar í hafinu er sameign þjóðarinnar og því á þjóðin að fá að njóta alls arðs af henni sem hún hefur ekki gert hingað til.  Einnig yrði miklu meiri skynsemi í stjórn veiðanna og þær gerðar á sem hagkvæmastan hátt.  Hvaða vit hefur t.d. verið í því að síldveiðiskip sem eru að veiða síld í Breiðafirði sigli alla leið austur á firði með aflann bara vegna þess að þar eiga handhafar síldarkvótans vinnslustöðvar.  En bæði á Snæfellsnesi og á Vestfjörðum eru til fyrirtæki sem geta auðveldlega fryst alla þá síld sem er veidd í Breiðafirði.  Núverandi fyrirkomulag er bara bruðl á olíu.

Hvítþveginn engill

Nú er Fjármálaeftirlitið búið að lýsa því yfir að Birna Einarsdóttir, bankastjóri hins Nýja Glitnis sé algerlega saklaus af því að hafa á sínum tíma keypt hlutabréf í Gamla Glitnir fyrir 180 milljónir í nafni einkahlutafélags sem hún á og fengið til þess lán frá bankanum með veði í bréfunum.  Því engin gögn finnist um þessi kaup og lántöku vega þeirra. 

Það er í sjálfu sér ekkert skrýtið að engin gögn hafi fundist, því strax eftir fall Glitnis og við stofnun Nýja Glitnis var hún ráðin bankastjóri og hafði sem slík aðgang að öllum gögnum gamla bankans og hefur auðveldlega getað látið allt slíkt hverfa áður en Fjármálaeftirlitið fór að skoða hlutina.  Nú ætla ég ekki að fullyrða að slíkt hafi átt sér stað en vafinn er engu að síður mikill.  Þetta sýnir bara hve rangt það var að ráð flesta af æðstu stjórnendur gömlu bankana í svipaðar stöður hjá nýju bönkunum.  Í mínum huga er Birna Einarsdóttir með sín 1,950 þúsund í laun á mánuði, ekki algerlega hvítþvegin af þessu máli þótt Fjármálaeftirlitið segi það.  Ég vil ítreka það að til þess að þessir Nýju ríkisbankar fengju traust í þjóðfélaginu, átti aldrei að ráða einn einasta einstakling til þeirra sem hafði áður starfað hjá gömlu bönkunum.  Það var nóg til af hæfu vel menntuðu ungu fólki til að fá til starfa í þessa banka.  En sú leið sem var farin verður til þess að fólk treystir ekki þessum nýju bönkum fyrir sínum peningum.


Davíð, Davíð, ekki meira

Mikið offramboð virðist nú vera á Davíð Oddsyni, en eftirspurn lítil.  Hann hótar því að fara aftur í stjórnmál ef hann verði hrakinn úr Seðlabankanum.  Er þar komin skýring á því hversvegna Geir H. Haarde, hefur stöðugt sagt styðja hann í embætti Seðlabanka stjóra

Af hverju á ekki bara að reka manninn og leyfa honum að fara aftur í stjórnmál (sem hann hefur að vísu aldrei yfirgefið.)  Hann færi að sjálfsögðu að berjast til valda í Sjálfstæðisflokknum og verði honum að góðu, því þótt Geir H. Haarde hafi verndað hann í Seðlabankanum, mun hann ekki gera það á vettvangi stjórnmálanna.  Davíð mun ALDREI getað komist til áhrifa í Sjálfstæðisflokknum aftur, af þeirri einföldu ástæðu að kjósendur þess flokks eru fyrir löngu búnir að fá yfir sig nóg af honum, nema einhverjir sérvitringar á borð við Björn Bjarnason ofl.  Núverandi stjórnvöld hafa lýst því yfir að ekki sé rétt að kjósa núna á meðan ríkisstjórnin er að vinna sig út úr erfiðleikunum sem hafa dunið yfir.  Þess vegna væri ekki á erfiðleikana bætandi ef Davíð Oddssyni yrði sleppt lausum, eins og óðum tarfi.  Af tvennu illu er þó skárra að geyma hann í Seðlabankanum.


Kjarasamningar á Suðurnesjum

Ég flutti hingað í Sandgerði í desember 2005 og síðan þá hef ég tvisvar farið út á vinnumarkaðinn.  Fyrst haustið 2006 hjá fyrirtæki í Reykjanesbæ.  Þar starfaði ég í þrjá mánuði en var þá sagt upp fyrirvaralaust og þegar ég spurði um uppsagnafrestinn þá var mér sagt að slíkt tíðkaðist ekki í þessu fyrirtæki.  Næst fór ég að vinn hjá útgerðarfélagi í Njarðvík 1. mars 2008 og vann til 11. ágúst sl.  Ég hafði ekki fengið greidd laun fyrir nema mars og apríl og því leitaði ég til míns stéttarfélags, sem er Vélstjórafélag Íslands og lögmaður félagsins útbjó kröfu og tók að sjálfsögðu með samningsbundinn uppsagnarfrest.  Ég fékk fyrir stuttu tölvubréf þar sem framkvæmdastjóri þessa fyrirtækis var stórhneykslaður á þessari frekju að vilja fá uppsagnarfrest greiddan og sagðist aldrei hafa heyrt annað eins í sínu starfi og fann allt til foráttu að mínum störfum hjá þessu fyrirtæki. Það mál bíður nú þess að fara fyrir dómsstóla

Annað sem mér hefur þótt skrýtið er að hér á Suðurnesjum eru starfandi mikið af fólki að erlendum uppruna, pólverjar, lettar ofl.  Margt af þessu fólki er ekki komið með kennitölu eða atvinnuleyfi.  Þetta fólk greiðir því enga opinbera skatta eða gjöld til stéttarfélags og er því nokkurskonar huldufólk sem í raun er ekki til.  Laun þessa fólks eru ákveðin einhliða af vinnuveitanda og því ekki neinn kjarasamningur í gildi.  Ef einhver er óánægður er hann einfaldlega sendur úr landi og nýir koma í staðinn.  Ég get heldur ekki skilið hvernig Vinnumálastofnun ætlar að gefa þessu fólki atvinnuleyfi langt aftur í tímann.  Þegar ég var á sínum tíma að reka fiskvinnslu- og útgerðarfyrirtæki vestur á Bíldudal var oft margt erlent starfsfólk í vinnu.  En þá varð að hafa þann hátt á að sækja um atvinnu og dvalarleyfi áður en fólkið kom til landsins og þegar fólkið var komið til Bíldudals var sendur nafnalisti og ráðningarsamningur til Vinnumálastofnunar og þá fékk fólkið kennitölur og að sjálfsögðu varð að standa í ráðningarsamningum að laun væru eftir gildandi kjarasamningum.  Ef fólk kom hingað til lands á ferðamannapassa mátti ekki ráða það í vinnu.  En kannski er þetta allt orðið breytt með EES-samningnum, sem kveður á frjálst flæði fólks milli landa í atvinnuleit.  En samt finnst mér að þegar erlendur starfsmaður er ráðinn verði strax að fá fyrir hann atvinnu- og dvalarleyfi.

Það getur ekki verið eðlilegt að hér sé starfandi stór hópur af erlendu fólki sem ekki er með kennitölu og greiðir ekki skatt af sínum launum og þiggur laun sem ekki eru í samræmi við kjarasamninga.  Ég nefndi þetta við einn fiskverkanda og hann sagði mér að þetta væri algengt í fiskverkunum hér á Suðurnesjum og sín fiskverkun væri hvorki betri né verri en aðrar hvað þetta varðar.  Hvernig á síðan að vera hægt að fá yfirlit yfir vinnumarkaðinn á Suðunesjum ef hundruð fólks er hér við störf á atvinnu- og dvalarleyfis.  Þetta huldufólk er hvergi á skrá og fær ekki laun í samræmi við kjarasamninga og er þar með algerlega réttlaust hvað varðar almannatryggingar og jafnvel ótryggt við störf sín.


Nýtt nafn

Nún er Þjóðskrá búin að afgreiða erindi mitt um að taka upp millinafn og frá og með 1. desember er ég skráður í Þjóðskrá undir nafninu Jakob Falur Kristinsson.  Mér varð það á sl. sumar að byrja að nota þetta nafn áður en Þjóðskrá hafði breytt því og urðu af því smá leiðindi.  En ég ætla að vona að þótt ég sé kominn með þetta nafn, þá fari fólk ekki að rugla mér sama við frænda minn sem heitir sama nafni en hann er Garðarsson en ég er Kristinsson.

Að fylgja sannfæringu sinni

Það vakti athygli að þegar greidd voru atkvæði á Alþingi um tillögu um vantraust á ríkisstjórnarinnar, þá greiddi Kristinn H. Gunnarsson atkvæði með því að fella þá tillögu og hefur hlotið skammir fyrir hjá þingflokksformanni Frjálslynda flokksins, Jóni Magnússyni og Jón jafnvel gefið í skin að Kristinn væri með þessu orðinn stuðningsmaður stjórnarinnar.

Ég er mjög hissa á þessum viðbrögðum Jóns sem er lögfræðingur að mennt og hlýtur að vita að þegar þingmaður sest fyrst á þing verður hann að sverja eið að halda stjórnarskránna.  En í stjórnarskránni er u skýr ákvæði um að hver þingmaður skuli ávalt fylgja sannfæringu sinni við afgreiðslu mála.  Sem sagt ekki að hlýða í blindni flokksaga og setja eigin flokk ofar fólkinu í landinu.  Kristinn gerði grein fyrir sínu atkvæði og taldi að ekki væri rétt að fara í kosningar nú og studdi því að tillaga var felld.  Hann fór einfaldlega eftir eigin sannfæringu og mættu fleiri þingmenn taka þetta sér til fyrirmyndar.

Jón Magnússon er alinn upp í Sjálfstæðisflokknum og kemur þessi siðblinda hans örugglega þaðan, því ekki er hún komin frá Frjálslynda flokknum.  Flokkurinn var með fund hér í Sandgerði fyrir stuttu og þar mættu Guðjón Arnar Kristjánsson, Grétar Mar Jónsson og Jón Magnússon, en því miður átti ég ekki kost á að sækja þann fund.  En ég hef hitt nokkra sem voru á þessum fundi og hafa stutt flokkinn fram að þessu og flestum bar saman um að Jón Magnússon hefði mest rætt um hvað Kristinn H. Gunnarsson væri slæmur þingmaður fyrir flokkinn.  Þessir aðilar sögðu mér einnig að nú væru þeir búnir að fá nóg og myndu ekki styðja flokkinn framar.  Það er slæmt ef ekki er hægt að halda frið í þinflokki, sem í eru aðeins fjórir menn.  Þessi ágreiningur er að stór skaða flokkinn, því að á meðan þingmennirnir deila fara fleiri og fleiri að hætta stuðningi við flokkinn enda fylgi hans komið niður í 3%.  Þarna sannast að "Sameinaðir stöndum við en sundraðir föllum við."


Höfundur

Jakob Falur Kristinsson
Jakob Falur Kristinsson

Ég er fyrrverandi vélstjóri og útgerðarmaður en er nú 75% öryrki eftir slys á sjó 2003. Bjó lengst af á Bíldudal en flutti til Sandgerðis haustið 2005.  En er nú aftur fluttur á Bíldudal.  Að svo miklu leyti sem myndir á síðunni eru eftir Mats Wibe Lund, þá liggur fyrir tímabundið samþykki hans um birtingu hjá mér og þakka ég honum sérstaklega fyrir.  Mats á að sjálfsögðu hönundaréttin að öllum sínum myndum.  Vilja menn sjá fleiri myndir þá vísast á www.mats.is  Ég  var flokksbundinn í Frjálslynda flokknum og hef starfað þar, en sagði mig úr flokknum 24. apríl og gekk í Samfylkinguna.  Föðurætt mín er úr Arnarfirði og móðurættin frá Jökulfjörðum og Hornströndum og í báðum tilfellum, langt aftur í aldir.  Er ég því ekta Vestfirðingur.

Undir fyrirsögninni Færsluflokkar er flokkur sem heitir Vefurinn og ef smellt er á hann opnast síður þar sem ég er að skrifa ýmsar frásagnir.  Einnig er undir liðnum spaugilegt smá grín ofl. 

Ég leyfi öllum að skrifa athugasemdir við mín skrif.   En af gefnu tilefni hef ég ákveðið að þeir sem ekki kunna sér hófs í athugasemdum og nýta þær til persónulegra árása á mig og mína persónu, með allskonar skömmum og svívirðingum, mun ég hér eftir loka á slíka aðila.  Einnig mun ég henda út nafnlausum athugasemdum.  Því ég einn ber ábyrgð á því sem skrifað er á mína síðu.

jakobkr@internet.is     

GSM: 823-2954

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband