Bloggfærslur mánaðarins, desember 2009

Heyrnalausi þingmaðurinn

Alltaf setur að mér hroll þegar Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknar tekur til máls á Alþingi, bæði er hún mjög skrækróm og hefur vanið sig á að næstum hrópa úr ræðustólnum, eins og hún telji að allir viðstaddir séu heyrnarskertir.  Ég hef ekki hugmynd um hvort þingmaðurinn er heyrnaskertur en þessi skerandi öskur úr ræðustól Alþingis fá hárin til að rísa á flestum sem á eru að hlusta.  Þessu til viðbótar hefur þessi þingmaður aldrei neitt til málanna að leggja, sem vit er í.

Alþingi

Það var fróðlegt að fylgjast með atkvæðagreiðslunni á Alþingi í gær, sem lauk með því að Ivesave-frumvarpið var samþykkt til fjárlaganefndar og þriðju umræðu, með 32 atkvæðum gegn 29.   Margir þingmenn gátu ekki stillt sig um að taka til máls og gera grein fyrir atkvæði sínu og bæta aðeins meira við athugasemdum um þetta frumvarp.  Meira að segja Ögmundur Jónasson, tók til máls og sagðist greiða atkvæði gegn málsmeðferð þessa frumvarps og greiddi atkvæði gegn frumvarpinu.  En sat ekki þessi sami Ögmundur í þeirri ríkisstjórn, sem undirbjó þetta frumvarp.  Lilja Mósesdóttir, sagði að í sumar hefði skuldir þjóðarinnar verið áætlaðar 250% ef væru nú orðnar yfir 360% og greiddi síðan atkvæði gegn frumvarpinu.  En Lilja gleymdi að segja frá því af hvaða upphæð þessar prósentur eru reiknaðar.  Er þetta hlutfall af landsframleiðslu? eða af skuldum Færeyinga?  Hvaða hlutfall er Lilja að tala um?  Það veit enginn eftir þessar upplýsingar Lilju.  Ásmundur Einar Daðason, gerði einnig grein fyrir sínu atkvæði, sem var svona;

"Ég er á móti þessu frumvarpi en núna ætla ég að greiða því mitt atkvæði."

Björn Valur Gíslason benti réttilega á hverjir bæru ábyrgð á að þetta vandræðamál væri komið til, en Sjálfstæðisflokkurinn ber þar auðvitað alla ábyrgð.

Haustið 2008 lagði Ríkisstjórn Geirs H. Haarde fram á Alþingi tillögu um að ríkisstjórnin fengi umboð til að semja við Breta og Hollendinga um Icesave-skuldina.  Dómstólaleiðin væri talin ófær og þessi tillaga var samþykkt og samninganefnd skipuð og sú nefnd kom heim með' samning um að Bretar og Hollendingar lánuðu Íslandi til að greiða þessa skuld.  Sá lánasamningur var til 12 ára með 6,5% föstum vöxtum og afborgunarlaus í þrjú ár.  Þar með var lögð sú lína að semja, frekar en fara með málið fyrir dómstóla.Nú þykjast Sjálfstæðismenn hvergi hafa komið nærri og núverandi samningur, sem er með 5,5% vöxtum og afborgunarlaus í sjö ár sé einn versti milliríkjasamningur, sem Ísland hafi gert og ekkert þýði að vísa til þess sem Alþingi samþykkti haustið 2008.  Meira að segja þeir ráðherrar sem sátu í ríkisstjórn haustið 2008 sverja allt af sér. 

Eins og Ólína Þorvarðardóttir benti réttilega á er Icesave ekki orsök kreppunnar, heldur afleiðing, sem verður að glíma við.  Þetta er bein afleiðin af græðgisvæðinu Sjálfstæðisflokksins undanfarin 18 ár.  Bankar voru gefnir, óveiddur fiskur í sjónum varð að verslunarvöru og allt var gefið frjálst og frjálshyggjan blómstraði sem aldrei fyrr.  En það gleymdist að efla þær eftirlitstofnanir, sem áttu að hafa eftirlit með því að ekkert færi úr böndunum.  Ef einhver benti á að of geyst væri farið var viðkomandi úthrópaður vitleysingur.  Ísland ætlaði að gleypa heiminn.  Þegar erlendur sérfræðingur benti Íslendingum á að allt væri komið út á ystu nöf og ætti ekkert eftir nema að springa framan í ríkistjórnina, þá sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins þessi fleygu orð;

"Ég held að þessi maður ætti að leita sér endurmenntunar, því ljóst er að hann hefur ekki hundsvit á töframætti Íslendinga."

Það er því Sjálfstæðisflokkurinn, sem ber alla ábyrgð á Ivesave-málinu, en er nú að reyna að flýja frá því eins og hundur frá eigin spýju.


Spakmæli dagsins

Glötuð er,

greidd skuld.

(Fjárlaganefnd)


Loksins, loksins

Það hlaut að koma að því að eitthvað vitrænt kæmi út úr öllum þessum ræðum um Icesave á Alþingi og það skeði í gær.  En þá upplýsti Ragnheiður Elín Árnadóttir að hún hefði unnið innan Stjórnaráðs Íslands.  En aðspurð sagðist hún ekki hafa hugmynd um hvað þar færi fram og enn síður vissi hún neitt hvað hún var að gera þarna.  Eftir að þessi orð féllu tók umræðan á sig aðra mynd og nú skildu allir um hvað Icesave-frumvarpið er.

Gott hjá Þér Ragnheiður.


Leynd

Þingmenn Hreyfingarinnar gagnrýna málflutning formanns fjárlaganefndar, Guðbjarts Hannessonar, vegna þeirrar leyndar sem hvílir á gögnum er varða Icesave. Í fréttatilkynningu segjast þeir hafa ítrekað óskað eftir því í ræðustóli Alþingis.

Þessi leynd er mjög skiljanleg, því að oft hefur það komið fyrir að trúnaðarupplýsingum, sem þingmenn fá er lekið í fjölmiðla, sem matreiða síðan eftir smekk hvers og eins.  Slíkt athæfi er einungis til að valda óróa með þjóðinni og er hann þó nægur fyrir.


mbl.is Segjast ítrekað hafa beðið um að leynd yrði aflétt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framtaksjóður Íslands

Stofnfundur Framtakssjóðs Íslands fer fram á Grand hótel í dag en hann hefur verið í undirbúningi á vegum Landssamtaka lífeyrissjóða um nokkra hríð. Hlutverk Framtakssjóðs Íslands verður að taka þátt í og móta fjárhagslega og rekstrarlega endurreisn íslensks atvinnulífs í kjölfar falls fjármálakerfisins.

Þar sem ákveðið hefur verið að veita engar upplýsingar um þennan sjóð fyrr en eftir stofnun hans.  Veit enginn hvað þessi sjóður á að gera.  Það er sennilega líka best að hafa það þannig ef sjóðurinn ætlar ekkert að gera, þá svíkur hann engin loforð.


mbl.is Stofnfundur Framtakssjóðs í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Neyðarlögin

ESA hefur fallist á sjónarmið Íslands í máli lánardrottna íslensku bankanna í bráðabirgðaniðurstöðu sem send hefur verið til forsætisráðuneytisins. Um er að ræða kvörtun hóps kröfuhafa á hendur bönkunum, SPRON og Sparisjóðabankans vegna aðgerða yfirvalda í tengslum við setningu neyðarlaganna.

Þá liggur það fyrir að neyðarlögunum verður ekki hnekkt. ESA, sem er eftirlitsstofnun EES-samningsins, fellst því á rök Íslands.  En þá eigum við eftir að leysa Icesave, sem margir þingmenn halda að sé hægt að kjafta í burt og gera upp með löngum ræðum um allt milli himins og jarðar.  Davíð Oddsson vitnaði oft í ömmu sína við hin ýmsu tækifæri.  Nú notum við visku Davíðs og tilkynnum Bretum og Hollendingu, að amma Davíðs hefði sagt að við ættum ekki að greiða Icesave. 

Þar með er það mál dautt og grafið.


mbl.is Fallist á sjónarmið Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flóttamenn

Alls fengu tíu flóttamenn hæli á Íslandi en 65 sóttu um slíkt hæli á síðasta ári. Ríki Evrópusambandsins veittu 76.320 flóttamönnum hæli á síðasta ári, samkvæmt nýrri skýrslu frá Hagstofu Evrópu. Alls sóttu 281.120 manns um hæli í ríkjum ESB á síðasta ári. Flestir þeirra sem fengu hæli í ríkjum ESB koma frá Írak.

Að veita 10 af 65 flóttamönnum hæli á Íslandi, er okkur til skammar.  Við getum gert miklu betur og ekki veitir af að fjölga fólki á Íslandi nú þegar margir eru að flýja land.  Því búið er að sjá til þess að barneignum mun fara fækkandi og því vantar okkur fleira fólk.  Við gætum fljótlega orðið milljóna þjóð með því að veita öllum flóttamönnum, sem hingað leita hæli.


mbl.is Tíu flóttamenn fengu hæli á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forseti Íslands

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, sagði í ræðu á þingi Iðnþróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna í gær að nýting á jarðhita og vatnsorku hefði styrkt efnahagslíf Íslendinga á undanförnum áratugum. Þessi árangur hefði auðveldað Íslendingum að glíma við efnahagserfiðleikana sem fylgdu falli bankanna og gæti orðið meginstoð þeirrar uppbyggingar sem myndi gera Íslendingum kleift að styrkja efnahagslíf og velferð þjóðarinnar á ný.

Þetta er alveg rétt hjá forsetanum.  En vandamálið er að ákveðinn hópur hér á landi, sem kalla sig umhverfisverndarsinna, munu alltaf reyna að hindra að nýta þessar auðlindir.  Ef einhverstaðar á að virkja vatnsafl, þá er mótmælt á þeim forsendum að verið sé að breyta náttúru Íslands.  Virkjun jarðhita er mótmælt á forsendum þess að þá komi vond lykt, sem berist langar leiðir með andrúmsloftinu.  Öllum framförum er mótmælt og þessir aðilar virðast telja að Ísland eigi að vera eins og við landnám og snerta ekkert í okkar náttúru.

En hvað sem allri náttúruvernd líður munum við ALDREI geta haft allt óbreytt.  Eldfjöll munu halda áfram að gjósa þrátt fyrir öll mótmæli.  Einnig munu stórhvalir, sem eiga að vera heilög dýr, halda áfram að blása eiturefnum út í andrúmsloftið.

Nú er haldin mikil ráðstefna í Kaupmannahöfn, þar sem ríki heimsins ætla að takmarka losun eitruð efni út í andrúmsloftið og draga þar með úr hlýnun jarðar.  En hlýnun jarðar er EKKI af mannavöldum.  Allt frá því að jörðin varð byggileg fyrir milljónum ára hafa skipts á kuldaskeið og hlýnunarskeið.  Sjávarhæð hefur bæði lækkað og hækkað á þessu tímabili og þessu mun enginn mannlegur máttur geta breytt.


mbl.is Forseti Íslands: Nýting orku auðveldar glímu við hrunið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég framdi morð

Ég hef einu sinni á ævinni framið morð og komst upp með það.  En þannig var að við hjónin áttum kött, sem var læða.  Eitt sinn tókum við eftir að hún var hætt að koma og borða matinn sinn og virtist hreinlega gufuð upp.  Við fórum að leita og fundum að lokum köttinn í neðstu hillunni í fataskáp í einu barnaherbergjanna.  Þar lá kisa og hafði eignast fjóra kettlinga, en einum hafði hún hent til hliðar og gaf honum ekki að drekka.  Við fylgdumst með kettinum í skápnum og alltaf var sama sagan að einn kettlingurinn varð alltaf útundan og þótt ég setti hann á spena hjá móðurinni tók hún hann strax og henti til hliðar.  Á meðan hinir kettlingarnir þrír döfnuðu vel, var sá fjórði stöðugt veiklulegri og gat ekki orðið staðið upp eins og hinir, sem móðirin sinnti vel og lék við þá.  Ég sá að með sama áframhaldi myndi þessi aumingja kettlingur drepast úr hungri, sem var augljós ætlun móðurinnar, sem hefur sjálfsagt fundið að eitthvað var að hjá þessum litla ræfilslega kettlingi.  Þá greip ég til minna ráða og tók kettlinginn og setti í poka og fór niður í fjöru og fann stein og setti líka í pokann.  Síðan henti ég pokanum í sjóinn, en eitthvað hafði ég bundið illa fyrir pokann, því að um leið og hann skall í sjóinn, þá byrjaði kettlingurinn að hamast í pokanum og steinninn datt úr og pokinn flaut með mjálmandi kettlingnum í fjöruborðinu.  Ég fékk mikið samviskubit og óð út í sjóinn og náði pokanum og tók hann og flýtti mér heim.  Við hjónin settum kettlinginn á þurrt handklæði og reyndum að nudda lífi í hann aftur.  Eftir talsverðan tíma tók kettlingurinn við sér og fór að hreyfa sig, þá tók ég hann og fór með hann aftur til móður sinnar í skápinn og lét hann hjá hinum kettlingunum og síðan fórum við að sofa.  Mitt fyrsta verk næsta morgun var að fara og athuga með kettlinginn.  En þá blasti við sú sjón að kötturinn hafði hringað sig utan um þrjá kettlinganna en sá fjórði lá dauður á gólfinu.  Þá fyrst áttaði ég mig á að;

Ég var orðinn morðingi.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jakob Falur Kristinsson
Jakob Falur Kristinsson

Ég er fyrrverandi vélstjóri og útgerðarmaður en er nú 75% öryrki eftir slys á sjó 2003. Bjó lengst af á Bíldudal en flutti til Sandgerðis haustið 2005.  En er nú aftur fluttur á Bíldudal.  Að svo miklu leyti sem myndir á síðunni eru eftir Mats Wibe Lund, þá liggur fyrir tímabundið samþykki hans um birtingu hjá mér og þakka ég honum sérstaklega fyrir.  Mats á að sjálfsögðu hönundaréttin að öllum sínum myndum.  Vilja menn sjá fleiri myndir þá vísast á www.mats.is  Ég  var flokksbundinn í Frjálslynda flokknum og hef starfað þar, en sagði mig úr flokknum 24. apríl og gekk í Samfylkinguna.  Föðurætt mín er úr Arnarfirði og móðurættin frá Jökulfjörðum og Hornströndum og í báðum tilfellum, langt aftur í aldir.  Er ég því ekta Vestfirðingur.

Undir fyrirsögninni Færsluflokkar er flokkur sem heitir Vefurinn og ef smellt er á hann opnast síður þar sem ég er að skrifa ýmsar frásagnir.  Einnig er undir liðnum spaugilegt smá grín ofl. 

Ég leyfi öllum að skrifa athugasemdir við mín skrif.   En af gefnu tilefni hef ég ákveðið að þeir sem ekki kunna sér hófs í athugasemdum og nýta þær til persónulegra árása á mig og mína persónu, með allskonar skömmum og svívirðingum, mun ég hér eftir loka á slíka aðila.  Einnig mun ég henda út nafnlausum athugasemdum.  Því ég einn ber ábyrgð á því sem skrifað er á mína síðu.

jakobkr@internet.is     

GSM: 823-2954

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband