Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007

Áramót

Þá er stutt í þetta blessað ár sé komið að lokum og verður þetta því síðasta færsla ársins.  Ég vil þakka öllum sem hafa heimsótt þessa síðu mína á árinu sem er orðið yfir 100 þúsund heimsóknir síðan í maí.  Einnig vil ég þakka öllum mínum bloggvinum fyrir vináttu á árinu og ætla enda þetta svona;

Gleðilegt nýtt ár og verði 2008 ykkur farsælt og gott og hittumst hress á nýju ári.    WizardWizardWizardWizardWizard


Meiri jólakveðja

jól 2Þetta er loka jólakveðjan frá Sandgerði

Jakob Kristinsson

3D Santa


Gleðileg Jól

 Þá verður smá hlé á blogginu hjá mér en ég sendi ykkur öllum eftifarandi kveðju;

Gleðileg Jól og eigið öll gleðilega jólahátíð

Gif santa claus Images


Mistök

Stjórnvöld í Tanzaníu hafa komist að þeirri niðurstöðu að stórfelld vanræksla hafi átt sér stað þegar gerð var aðgerð á heila sjúklings, sem þjáðist af hnjámeini. Á sama tíma var skorið í hné á manni sem þjáðist af heilaæxli.

Þann 8. nóvember gekkst Emmanuel Didas undir heilaaðgerð á  Muhimbili háskólasjúkrahúsinu í Dar Es Salaam þar sem fjarlægja átti heilaæxli sem ekki reyndist vera til. Á sama tíma gekkst  Emmanuel Mgaya, sem var með heilaæxli, undir aðgerð á hné.

Í skýrslu, sem heilbrigðisráðuneyti landsins hefur gert um málið, er vanrækslu lækna og hjúkrunarfræðinga kennt um mistökin.

Didas er nú í Indlandi til frekari læknismeðferðar og er hann sagður á batavegi. Mgaya lést fjórum dögum eftir að hann gekkst undir aðra aðgerð.

Þetta er skelfilegt að svona mistök geti átt sér stað.  Að ruglast svona á sjúklingum og í stað þess að fjarlægja heilaæxli er skorið upp hné og svo öfugt hjá hinum sjúklingnum.  Svona vanræksla er ófyrirgefanleg, enda kostaði þetta annan sjúklinginn lífið.


mbl.is Rugluðust á heila og hné
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bjarni Fel

Bjarni Fel. les fréttir. Þeir eru ekki margir eftir eins og Bjarni Felixson íþróttafréttamaður. Áhugi hans á íþróttum og knattspyrnu sérstaklega er slíkur að enn þann dag í dag flytur hann fréttir af líðandi stund þó að kominn sé á eftirlaun. Hann segist fjarri því að vera að missa áhugann hvorki á boltanum né að flytja af honum fréttir og prísar sig sælan að yfirmenn Ríkisútvarpsins hafi gert við hann sérsamning um að halda áfram störfum sínum að hluta.

Bjarni ræðir ferli sinn í viðtali við 24 stundir, boltann hér heima og karlalandsliðið. „Hér heima eru peningamennirnir ekki orðnir jafn áberandi en engu að síður snýst boltinn mikið um peninga og styrki og auglýsingar og boltinn ber keim af því. Hvað landsliðið varðar hefur það staðið sig mjög illa. Ástæðurnar tel ég vera val á leikmönnum og sáran skort á leiðtoga í liðið. Eiður Smári finnst mér ekki valda því hlutverki en einnig finnst mér alltaf undarlegt hvaða áhersla er lögð á að kalla inn í landsliðið stráka sem spila annars staðar á Norðurlöndunum. Fótboltinn þar er ekkert mikið betri en hann er hér heima að mínu viti og ég sakna þess að ekki séu reyndir strákar sem sprikla með liðunum hér í efstu deild."

Bjarni starfar enn hjá RÚV og rödd hans heyrist enn í útvarpinu á morgnana. Hann segist aldrei á ferlinum hafa fengið leiða á starfinu og finni ekkert slíkt enn. „Á venjulegum degi vakna ég sex og fer upp í útvarp þar sem ég er til tíu. Þaðan dríf ég mig í sundleikfimi í Vesturbæjarlauginni og eftir hádegi set ég fréttir inn á netið en geri það heiman frá. Mér finnst þetta gaman og hef aldrei upplifað þreytu eða leiðindi í starfinu."

Það hlýtur að vera óskastaða hjá hverjum manni að fá að vinna við það starf sem er einnig aðal áhugamál viðkomandi.  Þetta á við um Bjarna Felixson, en hvernig getur maður með jafn mikla þekkingu á knattspyrnu og Bjarni hefur, fullyrt að illa sé staðið í vali á landsliðsmönnum og að Eiður Smári valdi ekki forustu hlutverki sínu sem fyrirliði landsliðsins.  Nú held ég að sé eitthvað farið að slá út í fyrir karlinum, því Eiður Smári er okkar allra besti knattspyrnumaður. 

Er Bjarni kannski að bjóða sig fram í að leiða íslenska landsliðið?


mbl.is Bjarni Fel: Eiður veldur ekki leiðtogahlutverkinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þorláksmessa

Mikið lifandis skelfing er ég feginn að Þorláksmessa skuli nú vera á sunnudegi.  Því þá er ekki matur hér í húsinu, heldur verður hver að hugsa um sig.  Í fyrra var þetta á virkum degi og að sjálfsögðu var skata í matinn, en einnig líka saltfiskur.  Þótt ég sé ekta Vestfirðingur langt aftur í aldir get ég ekki borðað kæsta skötu og fékk þá saltfiskinn, sem ég gat varla borðað vegna ólyktar frá skötunni.  Ég borðaði skötu sem barn og fannst það allt í lægi, en eftir að ég varð fullorðinn hef ég ekki getað smakkað hana.  Fyrrverandi eiginkona mín borðaði skötu en hún varð að fara eitthvað annað til þess á Þorláksmessu, því ég gat ekki þolað lyktina þegar hún var elduð og bannaði því slíkt í mínum húsum.  Ég var lengi vel að vona að þetta myndi eldast af mér, en svo er aldeilis ekki, það bara versnar ef eitthvað er.

Hækkun

Póst- og fjarskiptastofnun hefur samþykkt beiðni Íslandspósts hf. um hækkun á gjaldskrá fyrir bréf innan einkaréttar. Bréf í 20 gramma flokki hækka úr 60 krónum í 65 krónur og bréf í 50 gramma flokki hækka úr 70 krónum í 75 krónur. Hækkunin tekur gildi frá og með 1. janúar 2008.

Fyrst Dabbi kóngur hækkað ekki stýrivextina, hlaut að koma hækkun frá einhverjum.  Annars er stað forstjóra Íslandspósts Ingimundar Sigurpálssonar, svolítið skrýtinn þessa daganna.  Hann var á sínum tíma forstjóri hjá Eimskip, sem hefur nú verið sektað um verulegar upphæðir vegna þess að nýta sér markaðsráðandi stöðu sína gegn Samskipum hf.  Í dag er þessi maður sem staðinn var að því að brjóta lög orðinn forstjóri Íslandspósts og sem slíkur er hann formaður í Samtökum atvinnulífsins.  Ég hélt að sá sem bryti lög gæti ekki verið forstjóri hjá ríkisfyrirtæki, sem Íslandspóstur vissulega er, því öll hlutabréfin eru í eigu ríkisins.

Er ekkert lengur til hér á landi að menn þurfi að bera ábyrgð á sínum gjörðum eða a.m.k., skammast sín,  Nú verða nýir eigendur Eimskips að þrífa upp skítinn eftir þennan fyrrverandi forstjóra félagsins, því ekki mun hann gera það sjálfur, enda þrælupptekinn við að hækka verð á frímerkjum.


mbl.is Gjaldskrá fyrir bréf hækkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Slæmt ástand

„Ég veit ekkert hvar sonur minn er núna, en ég veit að hann er í mjög slæmu ástandi og ég óttast að hann geri eitthvað hræðilegt af sér." Þetta segir móðir geðsjúklings sem tvisvar hefur framið ofbeldisverk í geðsturlunarástandi.

Þetta segir móðir geðsjúklings sem tvisvar hefur framið ofbeldisverk í geðsturlunarástandi. Í fyrra skiptið reif hana konu út úr bíl á Hringbraut og ók á brott. Þá réðst hann á gest á hóteli Hjálpræðishersins og gekk í skrokk á honum. Í gær rændi hann veski af vegfaranda, sem hefur kært málið til lögreglu.

„Hann er svo veikur. Hann heldur að allir séu að njósna um sig og ætli að ráða hann af dögum. Hver sem er getur orðið fyrir barðinu á honum þegar hann er í þessu sturlunarástandi," segir móðir hans. Maðurinn hefur ekki hlotið dóm fyrir árásirnar þar sem hann telst ósakhæfur, en hann greindist með geðklofa árið 2005. Hann byrjaði ungur að árum í fíkniefnaneyslu en hann er 26 ára.

Konan hefur um árabil reynt að finna syni sínum stað innan heilbrigðiskerfisins og vill að honum verði tryggð framtíðarlausn. "Ég hef þurft að berjast fyrir því að koma honum inn á geðdeildina hjá Landspítalanum, en þar hafa honum verið gefin lyf og svo sleppt. Hann hefur verið sendur á meðferðarheimili en þar er starfið svo ómarkvisst að eina verslunarmannahelgina var honum hleypt í helgarfrí. Hvernig er hægt að hleypa geðsjúklingi sem er fíkill í helgarfrí?" spyr móðir mannsins.

Er nem að aumingja konan spyrji spurninga.  Því þetta er ljótur blettur á okkar samfélagi og furðulegt að arðstandur fólks í svona tilfellum þurfi að berjast með kjafti og klóm til að fá viðunandi úræðiæði úr heilbrigðiskerfin fyrir svona sjúklinga, er hreinlega til skammar, og að gefa sjúkum fíkli á meðferðarheimili, helgarfrí er nú bara hlutur sem ég ekki skil.  Er ekki nýbúið að halda á lofti að Ísland sé nr. 1. á lista yfir þær þjóðir, sem allt er best og best að búa.  Saga þessarar konu sannar að sú fullyrðing að á Íslandi sé allt best, er röng.  En stundum er sagt "Að betra sé að veifa röngu tré, en öngvu."


mbl.is Óttast hvað sonur minn gerir næst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jólin

Frá Vendome-torgini í París.

Miklar breytingar hafa orðið á jólahaldi Dana á undanförnum árum. Sífellt fleiri Danir velja að halda jól með óhefðbundnum hætti og er ástæðan m.a. sögð sú að jólin séu ekki lengur sá hápunktur hátíðar og veisluhalda sem þau hafi verið áður fyrr. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.

Bent er á að jólahaldið standi nú meira og minna yfir í allan desember og því finnist fólki það ekki missa af jólunum þótt það fari í burtu eða velji að gera eitthvað annað yfir sjálfa hátíðina.

Fram kemur í blaðinu Kristeligt Dagblad að það sé vinsæl nýjung að sækja námskeið yfir jólin. Þá bjóði nú mun fleiri en áður sig fram til sjálfboðaliðastarfa. Aðrir velji hins vegar að endurnæra sig einir með sjálfum sér og enn aðrir sæki í sólina í suðlægum löndum.

Else Marie Kofod, sérfræðingur í jólasiðum þjóðfræðistofnunarinnar Dansk Folkemindesamling, segir aðra ástæðu vera þá að fólk sé farið að endurskoða merkingu jólanna. Nú til dags hafi flestir efni á að kaupa sér og gefa sínum nánustu það sem þeir hafi þörf fyrir og því hafi hefðbundnar gjafir t.d. misst merkingu sína. Fólk leiti því annarra leiða til að finna og túlka anda jólanna

Samkvæmt heimildum blaðsins munu 1.000 Danir sækja námskeið yfir jóladagana. Þá munu 40.000 Danir halda jól á fjarlægum og framandi slóðum en 25% aukning hefur orðið á sölu ævintýraferða um jól frá því fyrir þremur til fjórum árum.

Er þetta ekki líka að ske á Íslandi, því sífellt fleiri íslendingar fara í svokallaðar jólaferðir hjá ferðaskrifstofunum og dveljast erlendis yfir jól of áramót.  Ég er nú svo íhaldssamur að ég tel ekki vera nein jól ef maður er ekki heima hjá sér.  Því heima er jú alltaf best.


mbl.is Andi jólanna endurskoðaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað með Bíldudal?

Þetta er fyrirsögn á grein sem Geir Gestsson varabæjafulltrúi skrifar nýlega og birtist á fréttavefnum Tíðis á Patreksfirði.  Hann er að velta fyrir sér atvinnumálum á Bíldudal. 

Hann gerir meðal annars að umtalsefni nauðsyn þess að fiskvinnsla komist aftur af stað á Bíldudal og greinir frá því að útgerðarmaður og fiskverkandi á Patreksfirði hafi áhuga á að hefja þar vinnslu ef tryggt yrði að hann fengi að vinna úr þeim byggðakvóta sem Stapar ehf. ætluðu að gera.  Hann segir einnig í grein sinni að sér hafi verið létt við þessar fréttir þar sem þessi aðili gæti vonandi verið komin af stað með fiskvinnslu á Bíldudal mjög fljótlega og því óvissu íbúa varðandi atvinnu eytt.  Hann spyr einnig að því, af hverju, stjórnendur sveitarfélagsins velkist í vafa um að taka þessu boði, þar sem sýnt sé að þessi aðili hafi sýnt að fullur hugur fylgi máli. 

Geir ætti því að vera létt núna þegar stjórnendur sveitarfélagsins hafa tekið ákvörðum og úthlutað fyrirtæki þessa manns öllum byggðakvóta sem fara á til Bíldudals. Þ.e. fyrirtækinu Perlufiskur ehf.  Hann ræðir einnig um óttann við að tjaldað sé til einnar nætur með nýrri fiskverkun á Bíldudal.  Um aðrar atvinnugreinar, sem hann ræðir um ætla ég ekki að fjalla hér þ.e. olíuhreinsistöð og aukna starfsemi Kalkþörungaverksmiðjunnar.  Það eru framtíðarsýnir sem ekkert eiga skylt við raunveruleikann í dag.  En ég ætla að fjalla aðeins meira um uppbyggingu atvinnulífs á Bíldudal og þá til framtíðar, því ég óttast að ef Perlufiskur ehf. hefur starfsemi á Bíldudal verði þar um að ræða mjög litla vinnslu og óvíst með framtíð hennar og yfir höfuð hvort hún fer nokkurn tíman af stað.  Því að uppfylla skilyrði um byggðakvóta þarf eftirfarandi að eiga sér stað:

1.   Landa og vinna á Bíldudal tvöföldu því magni sem byggðakvótinn er eða 2x 237.000 þorsígildistonnum sem gera 540 þorskígildistonn þá fyrst fæst byggðkvótinn færður á skip útgerðar og þar sem mér skilst að bátur Perlufisks sé kvótalaus, verður að leigja 540 tonn sem kosta um 40 milljónir króna.

2.   Stapar ehf. eiga frystihúsið og munu víst hafa lagt um 10-11 milljónir í endurbætur á því, sem þeir sjálfsagt  vilja fá til baka.  Hinsvegar á ég ekki von á því að stjórnendur eða eigendur Stapa ehf. muni gera hinum væntanlegum fiskverkanda á Bíldudal, erfitt fyrir, frekar á hinn veginn.

3.   Í frystihúsið á Bíldudal vantar talsvert af ýmsum hlutum, sem er áætlað að kosti 15-20 milljónir.  Auk þess er frystiklefi hússins ónýtur og ekki hægt að frysta þar fisk.  Þessi upphæð sem ég nefndi er eingöngu miðað við að í húsinu verði saltfiskverkun og unnin ferskur fiskur í flug.  Þessir hlutir sem vantar eru m.a. fiskikör, lyftarar,flökunarvél+hausari,flatningsvél+hausari ofl.

4.   Er því ljóst að Perlufiskur þarf að hafa tilbúna fjármuni fyrir um 60-70 milljónir til að hefja rekstur.  Nú hafa bankar ákveðið að hætta lánveitingum til kvótakaupa og kvótaleigu, verður þetta því að vera eigið fé.  Ekki þekki ég fjárhagsstöðu Perlufisks ehf. og vel má vera að þeir eigi til þessa peninga.

5.   Bátur Perlufisks ehf er um 15 tonn að stærð og þótt ævintýralega hafi gengið að fiska á þennan bát á síðustu vertíð er mikill munur á að gera svona lítinn bát út frá Patreksfirði en Bíldudal það þekki ég af eigin reynslu.

6.   Þegar þau fyrirtæki sem ég hafði staðið að uppbyggingu á, þ.e. Fiskvinnslan á Bíldudal hf, Útgerðarfélag Bílddælinga hf, og Sæfrost hf. urðu gjaldþrota árin 1992.1993 og 1994, voru íbúar á Bíldudal um 420 talsins og um 80-90 börn í skólanum + leikskóla, sem segir allt um hvernig aldursskipting íbúanna var.  En í dag eru íbúar um 180-200 manns og börn í skóla + leikskóla 25-30.  Síðan þá hafa nokkuð margir aðilar reynt við þennan rekstur en allt hefur farið á sama veg, gjaldþrot og aftur gjaldþrot, þar sem tapast hafa nokkur hundruð milljónir í hvert sinn.  Nema Stapar ehf. þeir hættu áður en þeir lentu í erfiðleikum. 

Ég og sonur minn vorum með útgerð frá Bíldudal frá 1997 til 2003, en þá lenti ég í slysi á sjónum og hef verið öryrki síðan.  En sem betur fer að þótt blætt hefði inná heilann, missti ég hvorki mál eða hlaut varanlegan heilaskaða og er því öll hugsun í lagi.

7.   Það er því nokkuð ljóst að ein lítil fiskverkun með 15 tonna kvótalausum bát fjölgar ekki íbúum á Bíldudal eða byggir upp til framtíðar.  Nú munu vera á milli 30-40 íbúðir og hús sem stendur autt á staðnum eða eru nýtt sem sumarhús.  Einnig er gistiheimilið lokað og var það selt á nauðungaruppboði 10.12 sl.  Einnig eru mörg herbergi laus hjá gistiheimili Jóns Þórðarsonar.  Enginn verslun er á staðnum aðeins rekinn lítil sjoppa sem einnig selur mat.  Ekki held ég að þessi fyrirhugaða fiskvinnsla breyti þar neinu.  Ég ætla ekki að gera lítið úr áætlunum þessa stórhuga manns og óska honum til hamingju með að hafa fengið þennan margumtalaða byggðakvóta og ætla að ráðast í þetta mikla verkefni og vonandi gengur þetta allt upp hjá honum og verði Bíldudal til heilla. 

Gestur bendir réttilega á í sinni grein að þetta hafi ekki gengið vegna núverandi fiskveiðistjórnunarkerfis, því allt snýst þetta jú allt um aflakvóta sem ekki hefur verið til staðar og ætla nú að byggja upp með 15 tonna kvótalausum bát og byggðakvóta sem er 237 þorskígildistonn, er ekki sú framtíð sem Bíldudal vantar heldur er það verulegur aflakvóti sem vantar sé horft til framtíðar og þá er ekki verið að ræða um nokkra tugi milljóna, heldur milljarða.  Hann bendir einnig á sem er alveg rétt, að hið háa íbúðarverð á höfuðborgarsvæðinu hefur orðið til þess að fólk leitar stöðugt frá því svæði og fram að þessu hefur straumurinn einkum legið á Suðurnesin og austur fyrir fjall og líka austur á firði, þar sem atvinna hefur verið næg.  Ég er viss um að fólk færi líka að horfa til Vestfjarða ef atvinna væri þar næg og traust.

Þegar ljóst varð að Stapar ehf. ætluðu ekki að halda áfram starfsemi á Bíldudal og afsala sér byggðakvótanum, fór ég að vinna í þessum málum og hef eytt í það miklum tíma.  Það sem knýr mig áfram er það að ég er fæddur og uppalinn á Bíldudal og bjó þar í 55 ár og hef sterkar taugar til staðarins.  Hér á Suðurnesjum er fullt af mönnum sem eiga ættir að rekja til Bíldudals og Arnarfjarðar eða tengjast þangað á annan hátt og hafa verið hér áberandi í atvinnumálum og eiga mikla peninga.  Ég fékk nokkra af þessum mönnum til liðs við mig og saman stilltum við upp hugmynd um endurreisn atvinnulífs Bíldudals til framtíðar og fengum sérstakt ráðgjafafyrirtæki til að safna fyrir okkur upplýsingum og vinna úr þeim.  Við byrjuðum á því að tryggja okkur fjármagn og viðskiptabanka.  Hugmyndin var eftirfarandi:

1.   Sameina þrjú útgerðarfélög í eitt og sækja um byggðakvótann.  Þótt byggðakvótinn sem slíkur skipti ekki máli var hann samt aðgöngumiði að fiskvinnslufyrirtæki staðarins.

2.   Þetta nýja félag ætlaði að byrja með 500 milljóna króna í hlutafé, sem komin voru loforð fyrir.  Því auk þessa hóps ætluðu olíufélag, tryggingarfélag ofl. að gerast hluthafar.

3.  Þetta fyrirtæki hefði haft yfir að ráða 4 bátum í krókaaflamarki, þar af þrír nýlegir yfirbyggðir bátar með beitningarvélar.  Einn yfirbyggðan stálbát um 200 tonn útbúinn á net, línu og troll, einn 40-50 tonna stálbát sérhæfðan til dragnótaveiða.

4.  Aflakvóti í krókaaflamarki um 1.700 tonn, þar af þorskur 600 tonn, ýsa 600 tonn, steinbítur 260 tonn, auk annarra tegunda.

5.   Kvóti í aflamarki um 1.800 tonn þar af þorskur 900 tonn ýsa 600 tonn. steinbítur 250 tonn ofl tegundir.

Við ætluðum að vinna í frystihúsinu um 4 til 5 þúsund tonn á ári og starfrækja einnig fiskimjölsverksmiðjuna, auk útgerðar allra bátanna.  Það var talið að þetta gæti skapað um 130 ný störf.  Við gerum okkur auðvitað grein fyrir því að ekki er í dag til fólk á Bíldudal í öll þessi störf.  En aukin atvinna laðar alltaf að fleira fólk.   Nægt er til af lausu húsnæði og til að byrja með var ætlunin að vera með hluta af útgerðinni hér í Sandgerði og flytja síðan bátana vestur eftir því sem fólki fjölgar.  Teljum við að svona öflugt fyrirtæki næði að fjölga íbúum aftur í fyrri stærð og vonandi meira.  Einnig myndi þetta styrkja Vesturbyggð í heild og mörg þjónusta kæmi aftur t.d. verslun, véla- og bílaverkstæði ofl.  Með þessu er verið að hugsa til framtíðar en ekki bara um morgundaginn. Það er búið að eyða í þetta miklum tíma og peningum, því þegar gera á stóra hluti verður að vanda vel allan undirbúning og þetta er gert í fullri alvöru.  Með þessu væri Bíldudalur búinn að endurheimta að stórum hluta þann aflakvóta sem tapaðist í gjaldþrotunum 1992, 1993 og 1994, en þá fóru frá staðnum um 3.000 tonn af kvóta og líklegt að aflakvóti Bíldudals yrði orðin meiri innan fárra ára.

Verðmæti alls þessa kvóta og báta er um 5,5 milljarður og eiginfjárstaða er sterk.  Við erum að funda þessa dagana um hvað skuli gera því nokkuð ljóst er að Perlufiskur fær frystihúsið á staðnum og kemur þar til greina;

1.  Byggja nýtt fiskvinnsluhús á Bíldudal.

2.   Semja við Perlufisk ehf. um að fá að nýta frystihúsið en hann fengi byggðakvótann.

3.  Byggja fiskverkunarhús í Sandgerði.

4.   Nýta húseign sem félagið á í Hafnarfirði.

5.   Hætta við allt saman.

Hver endanleg niðurstaða verður verður ekki ljóst fyrr en eftir áramót.

 

 

Næsta síða »

Höfundur

Jakob Falur Kristinsson
Jakob Falur Kristinsson

Ég er fyrrverandi vélstjóri og útgerðarmaður en er nú 75% öryrki eftir slys á sjó 2003. Bjó lengst af á Bíldudal en flutti til Sandgerðis haustið 2005.  En er nú aftur fluttur á Bíldudal.  Að svo miklu leyti sem myndir á síðunni eru eftir Mats Wibe Lund, þá liggur fyrir tímabundið samþykki hans um birtingu hjá mér og þakka ég honum sérstaklega fyrir.  Mats á að sjálfsögðu hönundaréttin að öllum sínum myndum.  Vilja menn sjá fleiri myndir þá vísast á www.mats.is  Ég  var flokksbundinn í Frjálslynda flokknum og hef starfað þar, en sagði mig úr flokknum 24. apríl og gekk í Samfylkinguna.  Föðurætt mín er úr Arnarfirði og móðurættin frá Jökulfjörðum og Hornströndum og í báðum tilfellum, langt aftur í aldir.  Er ég því ekta Vestfirðingur.

Undir fyrirsögninni Færsluflokkar er flokkur sem heitir Vefurinn og ef smellt er á hann opnast síður þar sem ég er að skrifa ýmsar frásagnir.  Einnig er undir liðnum spaugilegt smá grín ofl. 

Ég leyfi öllum að skrifa athugasemdir við mín skrif.   En af gefnu tilefni hef ég ákveðið að þeir sem ekki kunna sér hófs í athugasemdum og nýta þær til persónulegra árása á mig og mína persónu, með allskonar skömmum og svívirðingum, mun ég hér eftir loka á slíka aðila.  Einnig mun ég henda út nafnlausum athugasemdum.  Því ég einn ber ábyrgð á því sem skrifað er á mína síðu.

jakobkr@internet.is     

GSM: 823-2954

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband