Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007

Stýrivextir

Seðlabanki Íslands Bankastjórn Seðlabanka Íslands ákvað á fundi sínum að halda stýrivöxtum óbreyttum í 13,75%. Er þetta í samræmi við spá Greiningardeildar Kaupþings og Greiningar Glitnis en Greiningardeild Landsbankans hafði spáð 0,25% vaxtahækkun.

Bankastjórn mun kynna rök fyrir ákvörðun sinni á sérstökum fundi sem sjónvarpað verður á vef bankans klukkan 11.

Næsta ákvörðun bankastjórnar Seðlabanka Íslands um stýrivexti verður birt fimmtudaginn 14. febrúar 2008.

Seðlabanki Íslands hækkaði stýrivexti um 0,45% þann 1. nóvember sl. en í dag er um auka vaxtaákvörðunardag að ræða. Var þetta fyrsta stýrivaxtahækkun Seðlabankans í ár en þeir höfðu verið óbreyttir frá því í lok síðasta árs, 13,3%. Alls voru vextirnir hækkaðir sjö sinnum á síðasta ári um samtals 3,3 prósentustig. Frá því í maí árið 2004 hafa vextirnir hins vegar verið hækkaðir nítján sinnum.

Hvað er eiginlega að hjá Davíð Oddssyni, hann er bara hættur í bili að hækka vexti.  Er hann kannski kominn í svo gott jólaskap? Eða er hann eitthvað veikur? Þetta er alla veganna mjög skrýtið.


mbl.is Óbreyttir stýrivextir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gjalddagi

Mynd 293401Krónubréf að nafnvirði 3 milljarðar króna falla á gjalddaga í dag að viðbættum vöxtum. Norræni fjárfestingarbankinn (NIB) var útgefandi bréfanna en bankinn hefur alls gefið út krónubréf að nafnvirði 27 milljarða króna.

Heldur dauflegt hefur verið yfir krónubréfaútgáfu undanfarna mánuði þrátt fyrir mikinn vaxtamun við útlönd og hafa einungis verið gefin út krónubréf að nafnvirði 8 milljarða króna á 4. fjórðungi ársins, samkvæmt Morgunkorni Glitnis.

Á sama tíma hafa ríflega 15 milljarða króna krónubréf fallið á gjalddaga að deginum í dag meðtöldum. Nettókrónubréfastaða hefur því minnkað á fjórðungnum en útistandandi krónubréf nema nú 368,5 mö.kr.

 „Órói á alþjóðlegum fjármálamörkuðum, skert aðgengi að lánsfé og aukin áhættufælni fjárfesta undanfarna mánuði virðast því vega þyngra en mikill munur á innlendum og erlendum skammtímavöxtum. Stórir gjalddagar í byrjun næsta árs Krónubréf að nafnvirði 100 ma.kr. auk vaxta falla á gjalddaga á 1. fjórðungi næsta árs, þar af 65 ma.kr. að nafnvirði í janúar.

Enn er óvíst hvort framlengt verði í krónubréfastöðunni að einhverju leyti og teljum við að það muni ráðast af þeim skilyrðum sem verða á erlendum fjármálamörkuðum í byrjun nýs árs. Uppgjör stærstu fjármálafyrirtækja heims fyrir 4. ársfjórðung verða birt upp úr áramótum og munu varpa frekara ljósi á hversu víðfeðm áhrif undirmálslánavanda á bandarískum húsnæðismarkaði eru og ráða miklu um hvort áhættusækni fjárfesta sækir í sig veðrið að nýju," samkvæmt Morgunkorni Glitnis.

Þá vitum við hvaðan allir þessir peningar, sem eru að flæða um þjóðfélagið, eru komnir og nú er komið að gjalddaga.  Því alltaf kemur að því að greiða þurfi til baka það sem hefur verið tekið að láni.  Það þarf engar greiningardeildir til að segja okkur það.  Ég get því miður ekki skilið þetta kjaftæði um einhvern undirmálslánavanda á bandarískum húsnæðismarkaði og sé ekki samhengið á milli þess og gjalddaga á svokölluðum krónubréfum.  Það er kannski einhver sem getur frætt mig um það?


mbl.is Krónubréf fyrir 3 milljarða á gjalddaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leiðinlegir þættir

Leno lofar að hefja upptökur án höfunda eftir áramót.

Jay Leno og Conan O’Brien hafa heitið því að hefja upptökur á spjallþáttum sínum eftir áramót. Þó að höfundar og skríbentar þáttanna verði ennþá í verkfalli. Leno sagði við BBC að honum fyndist hann hafa skyldum að gegna gagnvar þeim 100 starfsmönnum sem starfa hjá honum við annað en skriftir.

 

O’Brien sagði að þátturinn yrði ekki jafn góður og á köflum yrði hann örugglega hræðilegur.

Undanfarið hafa endursýningar komið í stað spjallþáttanna. David Letterman og Craig Ferguson sem einnig eru með spjallþætti seint á kvöldin hafa sóst eftir undanþágu og tímabundnum samningum við Rithöfundasamband Bandaríkjanna.

Mér hefur alltaf þótt þessir þætti hundleiðinlegir og ef þeir eiga nú að versna eftir áramót mun ég ekki reyna að horfa á einn einasta þátt.  Það hefur oft verið sagt;  "Lengi getur vont versnað"  og mun það sannast á þessum þáttum.


mbl.is Lofa slæmum þáttum eftir áramót
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dýrar jólagjafir

„Fjarstýrður Range Rover fyrir þau allra flottustu. Spilar tónlist og er með alls konar flottum ljósum. Alvörukaggi!" Svona er fjarstýrðum Range Rover-jeppa lýst í Hagkaupum í Smáralind.

Samkvæmt upplýsingum frá leikfangadeild Hagkaupa í Smáralind er mikil spenna fyrir fjarstýrðum lúxusbílum, þrátt fyrir að þeir séu ekki mjög hentugir í torfærur, en börn eru jafnan spenntari fyrir hólum og hæðum heldur en hefðbundnum götuakstri.

Lexus- og Ford Mustang-bílar eru einnig fáanlegir í fjarstýrðum útgáfum, en starfsmaður í Hagkaupa sagði að verslunin hefði nýlega tekið inn þessar tegundir af bílum. Sannkallað lúxusbílaæði hefur gripið þjóðina og þar er greinilega ekki spurt um aldur.

Skemmst er að minnast þess þegar Blaðið (nú 24 stundir) sagði frá því að 2007 yrði metár í lúxusbílasölu. Það sem af er ári hafa 127 nýir Range Rover-jeppar selst samkvæmt upplýsingum af vef Umferðarstofu.

Verðið á þeim er frá tæpum 8 milljónum upp í rúmar 17 milljónir. Verðkröfur barnanna eru ögn hógværari, en fjarstýrður Range Rover kostar 6.990 krónur í Hagkaupum. Ef barnið hyggst taka bílalán til 84 mánaða hjá TM fyrir bílnum þyrfti það að punga út rúmum 400 krónum á mánuði, miðað við 20% innborgun. Fjarstýrði bíllinn myndi á endanum kosta rúmar 33.000 krónur.

Sumir eiga greinilega nóg af peningum sem þeir reyna allt hvað þeir geta að eyða.  Það er eitthvað annað hjá okkur aumingjunum, sem erum öryrkjar.  Við fengum að vísu ákveðna viðbót frá Tryggingastofnun (TR) nú í desember og í mínu tilfelli var það kr: 18.482,- og síðan var tekinn skattur 35,72% kr: 6.601,- og þá stóðu eftir kr: 11.881,- sem er sú upphæð sem mér er ætluð frá TR, til jólahalds í ár, bæði að kaupa jólagjafir og jólamatinn.  Ég átti því ekki um annað að ræða en leita til sóknarprestsins hér í Sandgerði og fá hann til að sækja um fátæktaraðstoð hjá Hjálparstofnun kirkjunnar og Rauða-Krossinum, sem hann gerði og fæ ég þetta sent einhverja næstu daga ef ég verð samþykktur, sem fátæklingur.  Þetta eru ekki létt spor að ganga og engin skilur fyrr en hann í því lendir.  Ég verð af þeim sökum að sleppa því fyrir þessi jól að kaupa mér nýjan Range Rover hvort hann er ætlaður barni eða fullorðnum.  Ég get auðvitað keypt mér nýja Ferrari barnabíl en þeir kosta 250 krónur hjá Shell en þá verður líka að kaupa a.m.k. 20 lítra af dýrasta bensíni hjá þeim.  Þessi aukagreiðsla frá TR myndi kannski duga fyrir því. 


mbl.is Börn fá Range Rover í jólagjöf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýfæddur sonur

Játvarður og Sophie, með dóttur sína nýfædda fyrir fjórum árum.   Elísabet Englandsdrottning eignaðist sitt áttunda barnabarn er Játvarður, hertogi af Wessex, yngsti sonur hennar og eiginkona hans Sophie eignuðust son í nótt.

Drengurinn var tekin með keisaraskurði en honum hefur enn ekki verið valið nafn. Fyrir eiga hertogahjónin fjögurra ára dóttur, lafði Louise Windsor. Þetta kemur fram á fréttavef Sky. 

Buckingham-höll tilkynnti um fæðinguna í morgun og sagði drottninguna og eiginmann hennar himinlifandi. Játvarður sagði við blaðamenn fyrir utan sjúkrahúsið I morgun að það hefði verið stórkostlegt að vera viðstaddur fæðinguna og að eiginkonu hans og syni heilsaðist vel.

Bæði hertogaynjan og dóttir hennar voru mjög hætt komnar eftir að Louise var tekin með skyndikeisaraskurði mánuði fyrir tímann.

Játvarður sagði einnig í morgun að þau hjónin telji að foreldrar verði aðeins að kynnast börnum sínum áður en þeir velji þeim nöfn.

Hvar ætli þessi litli drengur komi til með að verða í goggauraröðinni að konungstitlinum.  Annar er fæðing lítils barns alltaf gleðiefni, hvort barnið er konungsborið eða ekki.  Þau hjónin verða sjálfsagt í engum vandræðum að finna nafn á drenginn.  En sú hefð er í konungsfjölskyldum að hvert barn fær nokkuð mörg nöfn.  Hvers vegna veit ég ekki.


mbl.is Englandsdrottning eignast áttunda barnabarnið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gefa kaffi

Ökumenn í útborginni Rancho Cordova í Kaliforníu geta búist við að verða stöðvaðir af lögreglunni og fá afhent gjafakort í kaffihúsakeðjuna Starbucks, það er að segja ef akstur þeirra er óaðfinnanlegur.

Það var lögregluþjónn í borginni sem fékk þá hugmynd að koma ökumönnum í jólaskap með þessum hætti, og bæta samskipti lögreglunnar og ökumanna.

Verslanir í borginni hafa lagt fram fé til að kaupa gjafakortin, og hefur mikið safnast þannig að lögreglumenn þurfa að vera duglegir að stöðva ökumenn og gefa þeim kaffi.

Svona eiga lögreglumenn að vera.  Þetta er gott framtak hjá þeim og til fyrirmyndar.


mbl.is Lögreglan gefur ökumönnum kaffi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Biblían

Á sumum eintökum nýþýddrar Biblíu má finna tákn sem rekja má aftur til bronsaldar, eða um 1800-500 fyrir Krist. Táknið, sem oftast er nefnt sólkrossinn, er einnig þekkt sem kross Óðins úr goðafræðunum, en kristnin hefur einnig tekið táknið upp á sína arma.

Ásatrúarmenn hér og víðar á Norðurlöndum hafa eignað sér þetta tákn. Í kristinni táknfræði táknar kross inni í hring gjarnan alheiminn og fjórar álfur hans og vísar til þess að Kristur er frelsari alls heimsins. Það er  þó ævagamalt í kristninni, þekkist frá fyrstu öldum kristninnar við austanvert Miðjarðarhaf og er einkar algengt í keltneskri skreytilist frá 7. öld. Það er því óhætt að fullyrða að þetta sé fornhelgað kristið tákn sem ásatrúarmenn hafa tekið sér í seinni tíð, tákn sem notað hefur verið óslitið í kirkjulist og tilbeiðslu um allan hinn kristna heim hátt í tvö þúsund ár," segir Karl.

Alltaf má nú finna eitthvað að þessari nýju Biblíu, ég keypti mér eintak af þessari Biblíu og ekki finn ég á henni þetta tákn og þótt svo væri, þá er eins og biskupinn bendir á hefur það verið notað sem tákn í kristnum heimi í um 2000 ár.  Þótt aðrir hafi síðan tekið upp þetta tákn eins og Ásatrúarmenn ofl. verður það  ALDREI  af kristnum mönnum tekið.


mbl.is Heiðið tákn á nýrri Biblíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stormur

Varað er við stormi í kvöld og nótt. Búist er við stormi á vestanverðu landinu og miðhálendinu í kvöld og nótt. Samkvæmt spá Veðurstofu Íslands er vaxandi austlæg átt og rigning eða slydda með morgninum, fyrst sunnantil, en sunnan 15-23 m/s og talsverð rigning vestantil í kvöld og nótt, en hægari og úrkomulítið NA- og austanlands.

Það gat nú verið einn stormurinn í viðbót, fer nú ekki að vera komið nóg af þessum látum, svo við getum fengið venjulega desember.  Er ekki komið nóg í bili.


mbl.is Stormviðvörun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

116 ára

Úkraínumaðurinn Hryhoriy Nestor, sem talinn var elsti maður í heimi, lést í svefni á föstudag 116 ára að í þorpinu Stary Yarytsjev í austurhluta Úkraínu. Nestor lést áður en Heimsmetabók Guinness gat staðfest aldur hans en samkvæmt bókinni er elsta manneskjan sögð vera Edna Parker í Bandaríkjunum, sem varð 114 ára í apríl.

Nestor giftist aldrei og sagðist raunar þakka því langlífið, að sögn frænku hans. Blaðið  Segodnya segir, að aðeins nokkrir nánir ættingjar og vinir hafi verið viðstaddir útförina en Nestor hafði gefið fyrirmæli um að þar skyldi ekki vera grátið og á borðum í erfidrykkjunni yrðu soðnar kartöflur og síld og kálbögglar með heimatilbúnum pylsum, uppáhaldsmaturinn hans.

Blaðið hefur eftir Oksönu, frænku Nesors, að gamli maðurinn hefði verið heilsuhraustur og aðstoðað við húsverkin til síðasta dags. Hann hefði að vísu kvartað yfir höfuðverk síðasta daginn sem hann lifði.

Samkvæmt skjölum, sem eru í fórum fjölskyldunnar, fæddist Nestor 15. mars 1881. Oksana segir að Nestor hafi verið landbúnaðarverkamaður allt sitt lífi. Hann hafi verið mjög lágvaxinn og því ekki fundið sér maka og aldrei átt neina peninga. Hann hafi hins vegar lifað heilbrigðu lífi  og aðeins drukkið vodka í hófi.

Þá hafið þið það, konur, því samkvæmt þessu þakkaði maðurinn sitt langa líf að hann giftist aldrei.  Karlar deyja sem sagt af völdum eiginkvenna sinna.  Ég er því heppinn að vera fráskilinn og ætti þess vegna að verða langlífur, þótt ég vilji ekki verða svona gamall.  En hvað varðar vodkadrykkju mannsins, þá er spurning hvað menn kalla hófdrykkju í þessu landi.  Að drekka 1 lítir af Vodka á dag, hefur ekki þótt mikil drykkja í þessum ríkjum , sem áður tilheyrðu gömlu Sovétríkjunum.  Þeir sem hafa ferðast með hinni svokölluðu Síberíu-hraðlestinni, kannast sjálfsagt við að þar er boðið uppá vodka með morgunmatnum og er hægt að velja á milli vodka, kaffi eða te.  Það var leiðinlegt að ekki skyldi nást að skrá þetta með í heimsmetabók Guinness, en við því verður ekkert gert úr þessu.

Blessuð sé minning Hryhoriy Nestor, landbúnaðarverkamanns frá Úkraníu, sem fæddist 15. mars 1881.


mbl.is Elsti maður heims látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kvóti

 Verð á þorskaflamarki hefur verið í sögulegu hámarki undanfarnar vikur og sveiflast í kringum 235-245 kr/kg. Fiskistofa segir, að hækkandi verð á þorskaflamarki síðustu misseri megi vafalítið fremur rekja til hækkandi verðs þorskafla og afurða og minna framboð aflamarks en til gengisbreytinga.

Fiskistofa birtir á heimasíðu sinni yfirlit yfir verð á þorskaflamarki frá árinu 2001 þar til nú. Þar kemur fram, að í megindráttum hafi verð aflamarks sveiflast framan af í takt við gengi krónunnar með nokkurri tímatöf. Þannig var verð aflamarks í hámarki í kringum 180 kr/kg á tímabilinu mars-maí 2002, en gengi krónunnar var hæst í janúar 2002.

Með lækkandi gengi krónu lækkaði verð aflamarks og var komið í 120 - 130 kr/kg í júní 2003. Síðan var verðið stöðugt, u.þ.b. 120 kr/kg, þar til verðið fór síðan hækkandi frá seinni hluta febrúar á síðasta ári en þá hækkaði gengisvísitalan verulega  og hefur hækkunin haldið jafnt og þétt áfram.

Það hefur alltaf verið, að þegar aflakvótar eru skertir, þá hækkar verðið.  Ástæðan er einföld, en hún er sú að þar sem aflakvótar eru notaðir sem veð fyrir lánum, þá rýrnar veðið við hverja skerðingu.  Þess vegna taka hinir stóru í sjávarútveginum sig sama og búa til nýtt verð.  Verðið er auðvelt að búa til bara með smá viðskiptum milli nokkurra aðila.  T.d. ef A selur B kílóið af óveiddum þorski á krónur 2.500,- og B selur síðan til C á kr. 3.000,- sem aftur selur til A á kr. 4.050,- þá er komið markaðsverð á þorskkílóið kr. 4.050,- sem síðan er staðfest af Fiskistofu.  En í raun hafa engir peningar farið á milli aðila.  Aðeins skipast á pappírum.  Núna þegar þorskkvótinn var skertur um 30% þurfti verðið að hækka til að kvótinn væri jafn verðmætur og áður og jafngott veð fyrir láni.  Það sama er síðan leikið í sambandi við leigu á kvóta.


mbl.is Verð á þorskaflamarki í sögulegu hámarki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jakob Falur Kristinsson
Jakob Falur Kristinsson

Ég er fyrrverandi vélstjóri og útgerðarmaður en er nú 75% öryrki eftir slys á sjó 2003. Bjó lengst af á Bíldudal en flutti til Sandgerðis haustið 2005.  En er nú aftur fluttur á Bíldudal.  Að svo miklu leyti sem myndir á síðunni eru eftir Mats Wibe Lund, þá liggur fyrir tímabundið samþykki hans um birtingu hjá mér og þakka ég honum sérstaklega fyrir.  Mats á að sjálfsögðu hönundaréttin að öllum sínum myndum.  Vilja menn sjá fleiri myndir þá vísast á www.mats.is  Ég  var flokksbundinn í Frjálslynda flokknum og hef starfað þar, en sagði mig úr flokknum 24. apríl og gekk í Samfylkinguna.  Föðurætt mín er úr Arnarfirði og móðurættin frá Jökulfjörðum og Hornströndum og í báðum tilfellum, langt aftur í aldir.  Er ég því ekta Vestfirðingur.

Undir fyrirsögninni Færsluflokkar er flokkur sem heitir Vefurinn og ef smellt er á hann opnast síður þar sem ég er að skrifa ýmsar frásagnir.  Einnig er undir liðnum spaugilegt smá grín ofl. 

Ég leyfi öllum að skrifa athugasemdir við mín skrif.   En af gefnu tilefni hef ég ákveðið að þeir sem ekki kunna sér hófs í athugasemdum og nýta þær til persónulegra árása á mig og mína persónu, með allskonar skömmum og svívirðingum, mun ég hér eftir loka á slíka aðila.  Einnig mun ég henda út nafnlausum athugasemdum.  Því ég einn ber ábyrgð á því sem skrifað er á mína síðu.

jakobkr@internet.is     

GSM: 823-2954

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband