Bloggfærslur mánaðarins, september 2007

Síminn hf.

Það er ekkert skrýtið að miklar umræður verði um svona fáránlega auglýsingaherferð sem er í raun Símanum hf. til skammar.  Það getur vel verið að sumum finnist þetta fyndið en ég hef ekki húmor fyrir svona rugl sem í raun er guðlast.  Og ég bara spyr er þessum mönnum ekkert heilagt ef hægt er að græða á því peninga?
mbl.is Miklar umræður á meðal bloggara um nýja auglýsingu Símans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ætlar þessi hörmungasaga aldrei að enda.

Nú er komið í ljós að hin nýja Grímseyjarferja stenst sennilega ekki kröfur um stöðugleika því enginn sem að þessu máli hefur komið er með pappíra um að slíkar prófanir hafi farið fram og ef þetta reynist rétt mun það kosta um 80-90 milljónir að lagfæra það sem munu þá bætast við þær 500 milljónir sem rætt hefur verið um að kaup og endurbætur á þessu fræga skipi muni kosta.  Jón Bjarnason þingmaður Vinstri grænna hefur lagt til að skipið verði selt sem fyrst og byggt nýtt skip sem gæti verið komið í gagnið árið 2010 en nýtt skip mun kosta samkvæmt áætlunum um 600 milljónir það er að segja ef sú áætlun er raunhæf.  Ég held að það væri nú að fara úr öskunni í eldinn að fara núna að huga að smíði á nýju skipi þótt það hefði augljóslega verið besti kosturinn áður en þetta skip var keypt en það er alltaf auðvelt að vera vitur eftir á og óþarfi að einstakir þingmenn séu að hampa sjálfum sér á kostnað ófara annarra það verður einfaldlega úr því sem komið er að klára þetta dæmi sem allra fyrst.  Ég hef áður látið þá skoðun mína í ljós að fáránlegt væri að Vegagerðin væri að brölta í skipakaupum og slíkum rekstri og fyrir stuttu sagði Geir H. Haarde að hann teldi heppilegra sérstök stofnun á vegum ríkisins sæi um slík mál og Vegagerðin einbeitti sér að því að leggja vegi og reisa önnur samgöngumannvirki á landi.  En þar ganga menn aftur á vegg því innan Sjálfstæðisflokksins er mikil andstaða við allt sem er ríkisrekstur og líklegt að þar yrði allt vitlaust ef ríkið færi aftur í skipaútgerð.  Ég skil ekki afhverju Samskip hf. sem á að verða rekstraraðili þessarar ferju var ekki fengið til að yfirtaka kaupsamning um þetta skip á sínum tíma eins og Einar Hermannsson skipaverkfræðingur lagði til og vitað var að Samskip hf. hefði áhuga á slíku en á það var ekki hlustað frekar en annað sem hann benti á í sambandi við þetta skip. Og nú er verið að reyna að gera Einar að blóraböggli í þessu máli en þeir sem í raun bera ábyrgð á öllu klúðrinu þora ekki að viðurkenna sín mistök sem allir sjá að liggja hjá Fjármálaráðuneyti og Viðskiptaráðuneyti.  Ég hef um daganna komið að kaupum og sölum á um 10-15 skipum og alltaf hefur verið gerð sú eðlilega krafa að viðkomandi skip væri tekið í slipp til skoðunar og afhent með nýju viðurkenndu haffærisskýrteini svo vitað væri að allt væri eins og um hefði verið samið og kostnaður vegna athugasemda sem komið hafa í ljós er eðlilega greiddur af seljanda sem sér um að láta framkvæma þær lagfæringar sem krafist er.  En varðandi þessa frægu ferju verður að hafa hraðan á því nú er svo komið að það sem búið var að mála fyrst er ryðið komið í gegn aftur og við skoðun sína á skipinu tók Bjarni Harðarson alþm. svo til orða, að hann væri nú úr sveit og hefði því takmarkað vit á skipum en sagði jafnframt þegar hann sá ryðið vera komið í gegn víða um nýmálað skipið að þetta gæti svo sem verið ágætis ryð af ryði af vera.  Kannski var það ástæða kaupanna að ryðið á skipinu þótti bara nokkuð gott.  

Þjófur

Ansi stórtækur þessi og bíræfinn, Vegagerðin ætti að komast í samband við þennan náunga.


mbl.is Maður handtekinn fyrir að stela brú
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leit að framsóknarmönnum

Bjarni Harðarson nýbakaður alþingismaður skrifaði grein í eitt blaðið nú fyrir stuttu og sagðist vera staddur á bökkum Amaósonsfljótsins og búinn að fara víða um heim í þeim tilgangi að finna framsóknarmenn og taldi að þarna við fljótið væri hægt að finna í röðum frumbyggja marga sem væru í raun framsóknarmenn og kannski er það rétt hjá Bjarna að framsóknarmennirnir eru í stórum hópum í frumskógum Suður Ameríku.  Verst er hvað langt er í næstu kosningar því ef þetta er rétt hjá Bjarna er Framsóknarflokkurinn í raun langstærsti flokkurinn og reyndar óheppilegt að hann skyldi ekki fara þessa ferð fyrr a.m.k. meðan Valgerður Sverrisdóttir var utanríkisráðherra því þá hefði hún örugglega plantað einu sendiráði þarna á bökkum Amason.  Í þættinum Örlagadagurinn á Stöð 2 í gærkvöldi kom fram í lok þáttar að næsti viðmælandi yrði Jónína Bjartmarz og þau orð látin falla að hún væri senn að flytja til Kína en ekki kom fram hvað hún ætlar að fara að gera þar.  Kannski er þar líka að finna framsóknarmenn og kannski á það eftir að koma í ljós að í hinu stóra Kína sem flestir hafa talið að væru eingöngu kommúnistar sé misskilningur og þetta séu eintómir framsóknarmenn.  Framsóknarflokkurinn hefur alltaf haldið því fram að hans sér staða í íslenskum stjórnmálum væri sú að hann byggði á íslenskum hugsjónum en sækti sér ekki fyrirmyndir til annarra landa eins og t.d. Sjálfstæðisflokkurinn, Samfylkingin ofl.   En nú er sem sagt komið á daginn að þótt flokkurinn sæki ekki fyrirmynd til annarra landa eru stórir þjóðfélagshópar víða um heim sem hafa hinn íslenska Framsóknarflokk sem fyrirmynd.

Til hamingju Framsókn.


Grímseyjarferja

Ætli sé loksins búið að finna einhvern til að hengja fyrir þetta mikla klúður allt saman og spennandi að sjá hverjum á nú að fórna.  Ekki hef ég trú á að það verði einhver sem ber raunverulega ábyrgð í málinu heldur eitthvað peð sem ekki skiptir máli.  Gæti þess vegna verið ég eða þú.  Reyndar var ég búinn hér á þessari síðu að bjóðast til að taka á mig alla ábyrgð á þessu máli og stendur það boð áfram.
mbl.is Málefni Grímseyjarferjunnar að skýrast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mánaðarmót

Nú eru komin mánaðarmót, sem eru einn skelfilegasti dagur í lífi öryrkjans en þá fáum við okkar bætur og eru enn einu sinni minnt á hvað kjör okkar eru léleg og allar bjargir bannaðar, því ekki megum við vinna til að bjarga okkur.  Ég hef setið í dag yfir mínum heimabanka en þar hefur maður á einni síðu þá reikninga sem greiða verður í mánuðinum og maður les þetta aftur og aftur og spyr sig í huganum hvort þarna sé eitthvað sem megi bíða eða hvort hugsanlega hægt sé að semja um að fá einhverju skipt niður.  Síðan kemur í ljós að við hvern reikning að niðurstaðan verður sú að ekki er þorandi að fresta greiðslu það má ekki bíða með að greiða af íbúðinni, ekki láta loka símanum eða loka fyrir rafmagnið eða taka áhættu á að þessi eða hinn reikningurinn lendi í innheimtu með tilheyrandi kostnaði og maður smellir á að greiða viðkomandi reikning og eftir því sem fleiri reikningar eru greiddir lækkar stöðugt inneignin á reikningnum.  Alltaf endar þetta á sama veg að þegar búið er að greiða það sem nauðsynlegt er, þorir maður varla að skoða hvað eftir er til að lifa af það sem eftir er mánaðarins sem oftast er um 10-15 þúsund og í huganum deilir maður í þá tölu með 4 til að fá þá upphæð sem óhætt er að eyða í hverri viku.  Síðan lokar maður heimabankanum og reynir að gleyma þessu sem fyrst og lætur sig dreyma um Lottóvinning en áttar sig svo á því að hann kemur aldrei þar sem ekki eru til peningar til að kaupa lottómiða í hverri viku en í staðinn reynir maður að hugsa að kannski verði þetta eitthvað skárra um næstu mánaðarmót þótt undir niðri viti maður að það verður alveg eins því tölurnar breytast ekkert.  En eitt er þó jákvætt að það eru þó hátt í 30 dagar í næstu mánaðarmót og næsta kvíðakast við heimabankann.

Lúmskur áróður

Það er alltaf gott þegar fyrirtæki og félagasamtök taka sig til og kosta stöður við Háskóla Íslands.  En full langt er gengið þegar viðkomandi ætlast síðan til að sá sem í slíka stöðu er ráðinn haldi fram skoðunum kostunaraðilans í skjóli Háskóla Íslands, þá er verið að misnota aðstöðu sína eins og ein samtök eru að gera í dag.  Þarna á ég við LÍÚ sem kosta eina rannsóknarstöðu við HÍ og í þá stöðu var ráðinn Helgi Áss Grétarsson, lögfræðingur en á undanförnum vikum hefur sá ágæti maður farið mikinn á síðum Morgunblaðsins með skrifum um sjávarútvegsmál og þá hagræðingu sem verði að eiga sér stað þar og nauðsyn þess að afnotaréttur að auðlyndum hafsins verði gerðar að eignarrétti.  Öll þessi skrif Helga bera með sér að hann hefur takmarkaða þekkingu á sjávarútveginum og reynir eftir bestu getu að moða úr því sem honum er skammtað frá LÍÚ og hann fagnar núverandi niðurskurði á þorskkvótanum og hælir núverandi veiðiráðgjöf þótt hún feli í sér að áframhald verði á þessum niðurskurði á næstu árum.  Hann telur fiskiskipaflotan alltof stóran og tekur sem dæmi að 1970 hafi aðeins verið tveir skuttogarar skráðir hér á landi en hafi verið orðnir 115 árið 1990 og af því dregur hann síðan þá ályktun að sókn togskipa hafi fimmtugfaldast frá 1970 til 1990.  Hann gleymir því að 1970 voru enn í útgerð þó nokkrir síðutogarar og margir togbátar sem í raun voru litlir síðutogarar því uppúr 1960 þegar mesti uppgangur var í síldveiðum komu nýsmíðuð skip af stærðinni 200-400 tonn í tugatali á hverju ári allt fram til ársins 1968.  Þegar hrun kom í síldveiðarnar þurfti að finna þessum flota ný verkefni og í flestum tilfellum fóru skipin á togveiðar.  T.d. á Vestfjörðum þar sem ég þekkti vel til voru á þessum tíma gerðir út 10-15 togbátar allt árið um hring sem voru 200-300 tonn að stærð og þannig var það víða um land.  Þessi skip voru endurnýjaðir með skuttogurum auk þess voru erlend veiðiskip hér við land 1970 og er talið að þau hafi a.m.k. veitt yfir 200 þúsund tonn af þorski 1971 auk þess sem íslendingar veiddu 250 þúsund tonn.  1983  árið áður en kvótakerfið var tekið upp 1984 veiddu íslendingar 382 þúsund tonn og sátu þá einir að miðunum.  Tilgangurinn með kvótakerfinu var sá að hér yrði hægt að veiða sem jafnstöðuafla 400-500 þúsund tonn af þorski, en eins og kunnugt er eigum við langt í land með að ná því markmiði og höfum í raun farið í öfuga átt því eins og áður sagði er á núverandi fiskveiðiári einungis heimilt að veiða 130 þúsund tonn af þorski og jafnvel minna á næstu árum.   Það er svolítið broslegt að samtök eins og LÍÚ leggi mikið kapp á að fækka sínum meðlimum öfugt við flest önnur samtök.  Það segir sig sjálft að hinn venjulegi lesandi Morgunblaðsins tekur meira mark á skrifum manna eins og Helga Áss Grétarssyni sem er í rannsóknarstöðu í sjávarútvegi hjá Háskóla Íslands, heldur en ef skrifin kæmu beint frá LÍÚ enda er leikurinn sjálfsagt til þess gerður.  Hins vegar ef Háskóli Íslands vill láta taka sig alvarlega ættu stjórnendur hans ekki að heimila að þeir sem eru í stöðum sem kostaðar eru af hinum ýmsu aðilum, geti vaðið um á síðum dagblaða með bull og kjaftæði í þágu kostunaraðilans.

« Fyrri síða

Höfundur

Jakob Falur Kristinsson
Jakob Falur Kristinsson

Ég er fyrrverandi vélstjóri og útgerðarmaður en er nú 75% öryrki eftir slys á sjó 2003. Bjó lengst af á Bíldudal en flutti til Sandgerðis haustið 2005.  En er nú aftur fluttur á Bíldudal.  Að svo miklu leyti sem myndir á síðunni eru eftir Mats Wibe Lund, þá liggur fyrir tímabundið samþykki hans um birtingu hjá mér og þakka ég honum sérstaklega fyrir.  Mats á að sjálfsögðu hönundaréttin að öllum sínum myndum.  Vilja menn sjá fleiri myndir þá vísast á www.mats.is  Ég  var flokksbundinn í Frjálslynda flokknum og hef starfað þar, en sagði mig úr flokknum 24. apríl og gekk í Samfylkinguna.  Föðurætt mín er úr Arnarfirði og móðurættin frá Jökulfjörðum og Hornströndum og í báðum tilfellum, langt aftur í aldir.  Er ég því ekta Vestfirðingur.

Undir fyrirsögninni Færsluflokkar er flokkur sem heitir Vefurinn og ef smellt er á hann opnast síður þar sem ég er að skrifa ýmsar frásagnir.  Einnig er undir liðnum spaugilegt smá grín ofl. 

Ég leyfi öllum að skrifa athugasemdir við mín skrif.   En af gefnu tilefni hef ég ákveðið að þeir sem ekki kunna sér hófs í athugasemdum og nýta þær til persónulegra árása á mig og mína persónu, með allskonar skömmum og svívirðingum, mun ég hér eftir loka á slíka aðila.  Einnig mun ég henda út nafnlausum athugasemdum.  Því ég einn ber ábyrgð á því sem skrifað er á mína síðu.

jakobkr@internet.is     

GSM: 823-2954

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband