Bloggfærslur mánaðarins, september 2007

Forseti í heimsókn

Nú mun Sturla Böðvarsson forseti Alþingis ásamt öðrum forsetum þjóðþinga Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna heimsækja Georgíu daganna 23.-25. september n.k.  Í för með forseta verður Helgi Bernódusson, skrifstjóri Alþingis.  Hvað ætlar Sturla að gera þarna?  Samkvæmt fréttinni er ætlunin að styðja við lýðræðisþróunina í Georgíu.  Ekki er hægt að segja að Sturla sé kjarklítill maður, hann rétt slapp fyrir horn varðandi sukk og svínarí varðandi hina frægu Grímseyjarferju og nú á að fara að kenna Georgíumönnum hvernig lýðræði á að virka.  Í því máli vaknar sú spurning hvort Sturla viti í raun hvað er lýðræði, því ef hann veit það þá ætti hann að hafa sagt af sér sem forseti Alþingis og jafnvel þingmennsku.  Því í lýðræðisþjóðfélagi segja menn af sér þegar þeir bera ábyrgð á miklum mistökum, jafnvel þótt þau mistök séu gerð af öðrum, sem féllu á sínum tíma undir hans ráðuneyti en slíkt þekkist ekki á Íslandi.  Ég vona að Sturla fari ekki að kenna þeim í Georgíu hvernig lýðræðið á íslandi virkar í raun.  Því þá er betur heima setið en af stað farið.
mbl.is Þingforsetar Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna í heimsókn til Georgíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Olíverð

Þegar ég las þessa frétt var ég alvarlega að hugsa mig um í morgun og senda öllum olíufélögunum tölvupóst og benda þeim á að olíuverð hefði lækkað í morgun eftir að ljóst var að óveður sem spáð hafði verið í Mexíkóflóa gekk yfir án teljandi tjóns.  Ástæða þess að ég var að hugsa um þetta er sú að þegar olíuverð hækkar er eins og viðvörunarbjöllur hringi hjá öllum olíufélögum og verðið hækkar nánast strax, en ef verðið lækkar virðast engar bjöllur hringja og beðið og beðið er með að lækka verðið hjá þessum fyrirtækjum.  Ef þeir eru spurðir hvort ekki eigi að lækka verðið er alltaf sama svarið hjá öllum;  "Við verðum að fylgjast betur með hvernig verðið á heimsmarkaði þróast næstu daga áður en hægt er að taka ákvörðun um lækkun."  Svo þykjast þessir menn fylgjast vel með heimsmarkaði á olíu, en í raun á það bara við um hækkanir.  Ég er löngu hættur að eiga viðskipti við stóru olíufélögin ég kaupi eingöngu mitt bensín hjá einyrkjanum á þessum markaði sem er Atlandsolía bara til að styðja við það fyrirtæki sem sannarlega verðleggur sínar olíuvörur í samræmi við heimsmarkaðsverð á hverjum tíma og hvet alla til að gera slíkt hið sama.
mbl.is Olíuverð lækkar á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samherji hf.

Nú hefur Samherji hf. tilkynnt um viðbrögð sín við kvótaskerðingu í þorski og auðvitað var ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur, því tilkynnt hefur verið um lokun á skreiðarvinnslu fyrirtækisins á Hjalteyri sem er stærsti vinnuveitandinn í Arnarneshreppi.  Þarna munu 8 til 10 manns missa vinnuna og sveitarfélagið verður af verulegum tekjum bæði af gjöldum þessa fólks og húsaleigu sem það hefur haft af þessari starfsemi en starfsemin hefur farið fram í gömlu síldarverksmiðjunni sem er í eigu sveitarfélagsins.  Reyndar hefur öllu starfsfólkinu verið boðin vinna í frystihúsi Samherja hf. á Dalvík í vetur og akstur þar á milli.  Það er nú einu sinni svo á þessum litlu stöðum að þótt geti starfað í sinni heimabyggð getur verið erfitt fyrir suma að fara í starf sem kostar það fjarveru frá sínu heimili frá morgni til kvölds.  Það kemur til af því að fólk þarf að hugsa um börn sín og á þessum litlu stöðum fer fólk heim í mat og er fljótt að bregðast við ef eitthvað kemur uppá og börnin eiga í flestum tilfellum greiðan aðgang að sínum foreldrum á þeirra vinnustað.  Þannig að þótt Samherji hf. bjóði uppá þennan möguleika á starfi er ekki víst að allir geti nýtt sér það.  Þetta boð virðist í fyrstu vera mjög gott fyrst á litið, en er það kannski ekki ef betur er skoðað.  Í fréttinni kemur einnig fram að ekki hafi verið hægt að ná tali af neinum yfirmann hjá Samherja hf. því þeir hafi allir verið á fundi erlendis.  Ég hélt að þessi litla starfsemi Samherja hf. á Hjalteyri skipti ekki miklu í allri hans starfsemi bæði hér á landi og erlendis.  En auðvita stýra þeir sínu fyrirtæki eins vel og þeir geta og ef þarf að hagræða í rekstrinum, gera þeir það.  Ef þetta er brýnasta verkefnið eru ekki mikil vandamál í þeirra rekstri þótt þorskkvótinn hafi verið skorin niður um rúm 30%.
mbl.is Samherji lokar vinnslustöð á Hjalteyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íran

Ætla allir að vera vondir við aumingja Írani, bara af því Bush langar svo í stríð gegn þeim.  Því eins og kemur fram í fréttinni höfðu tveir íranskir farþegar ekki skilað sér í vélina þrátt fyrir að ferðatöskur þeirra væru um borð og lenti vélin því í Keflavík til að losna við töskurnar en flugvélin var á leið frá Amsterdam til Toronto í Kanada.  Ekkert óeðlilegt fannst í töskunum og kom fram að um mistök hefði verið að ræða hjá flugfélaginu KLM við brottför frá Amsterdam.  Ætli þeir hafi ekki bara óvart misst af vélinni, aumingja mennirnir.
mbl.is Töskur fjarlægðar úr KLM-vél á Keflavíkurflugvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fidel Castro

 

Nú hefur sá gamli heldur betur komið á óvart, þegar margir voru búnir að fullyrða að hann væri löngu dauður.  En birtist ekki vinurinn öllum að óvöru í sjónvarpinu á Kúbu og heldur þrumandi ræðu yfir lýðnum og greinilega nokkuð vel inn í flestum málum.  En í stað þess að vera að sammast útí allt og alla er hann nú að biðja alla þá sem hafa smíðað hin hræðilegu vopn að slasa sig nú ekki á þeim og þurrka ekki út allt líf á jörðinni og greinilegt að hann er ekkert á leiðinni að kveðja þetta líf.  Ótrúlegur maður.


Evra

 

Auðvitað eigum við að taka upp evru eins og helstu fjármálamenn Íslands vilja.  Ég hef miklu meiri trú á skoðunum þeirra aðilum sem lifa og hrærast í fjármálaheiminum alla daga.  Það verður bara að hafa það þótt að Sjálfstæðisflokkurinn verði aðeins kyngja því að skoðun flokksins eru gömul trúarbrögð kominn frá Davíð Oddssyni sem allt þykist vita og geta betur en allir aðrir, en er samt með allt niðrum sig í hagstjórn Seðlabankans.  Ef Davíð heldur áfram á sömu línu og áður eins og að kalla umræður um evru hlægilega, þá hlær Davíð bara í sínu horni á meðan þeir sem hafa verið til þess kjörnir að stjórna þessu landi, halda áfram að ræða um evru.


mbl.is Beinn ávinningur 70 milljarðar á ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dómsmálaráðherra

 

Ég benti á þennan möguleika í grein sem ég skrifaði hér á síðunni í gær og kallaði Dópsmyglið.  Það er ánægjulegt ef Björn Bjarnason er einn af mínum lesendum og fer að mínu ráðum, ég get alla veganna leyft mér að lifa í þeim draumi, að ég sé bara nokkuð valdamikill þegar á reynir er það ekki?.


mbl.is Dómsmálaráðherra: Athugunarefni að nýta búnað ratsjárstofnunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Með Titanic í stofunni

Góður kunningi minn hér í Sandgerði, Jónatan Jóhann Stefánsson á mjög merkilegt safn af sjaldgæfum skipslíkönum eins og myndirnar hér á eftir sína en þær eru fengnar úr blaðinu Víkurfréttum en með þessum myndum segir í blaðinu:  "Fyrir um þrjátíu árum eignaðist Jónatan Jóhann Stefánsson stórt líkan af áttæringi, mikla listasmíð eftir Hinrik í Merkinesi.  Við það kviknaði áhugi Jónatans á að safna slíkum gripum, bæði skipslíkönum og ýmsum munum tengdum sjómennsku en hann er sjálfur gamall sægarpur sem eyddi stórum hluta starfsævinnar á sjó.  Að koma inn í stofu á heimili Jónatans í Sandgerði er eins og að koma inn á minjasafn.  Þar gefur á að líta tilkomumikil líkön af sögufrægum skipum m.a. Titanic og gullskipinu fræga sem menn leituðu lengi að á Skeiðarársandi en höfðu ekki erindi sem erfiði.  Í stofunni er einnig að finna eitt líkan eftir Grím Karlsson af Garðari BA-64, sem var mikið aflaskip en Jónatan var lengi til sjós á því skipi, sem nú er varðveitt sem safngripur fyrir vestan, eftir 70 ár á sjó."

attaeringur.jpg  Hér heldur Jónatan á líkani af Ingjaldi, sögufrægum bát, sem var sögusvið mikils harmleiks 1899 þegar Hannes Þ. Hafstein sýslumaður Ísfirðinga ætlaði um borð í enskan botnvörpung er staðinn var að ólöglegum veiðum á Dýrafirði.  Þeir ensku sökktu bátnum með því að láta vírtrossu falla ofan í hann.  Þrír menn drukknuðu en Hannes slapp naumlega lífs úr klóm varganna.  Segja má að Ingjaldur hafi verið fyrsta varðskip íslendinga eða fyrsti báturinn sem notaður var í þeim tilgangi.

gullskipi.jpg  Hér situr Jónatan við líkanið af hinu fræga gullskipi sem á að vera grafið á Skeiðarársandi með mikinn fjársjóð innanborðs.  Mikil og kostnaðarsöm leit var gerð að skipinu á sínum tíma.  Líkanið hafði verið pantað af safni einu, sem síðan vildi það ekki vegna skemmda sem urðu á því við flutninga.  Jónatan keypti líkanið, gerði við skemmdir og nú sómir það sér vel í stofunni.

horft_yfir_safni.jpg Hér stendur Jónatan og horfir yfir safnið.  Fremst á myndinni er hin mikla smíði Hinriks í Merkinesi á áttærings-líkani.  Við veggin fjær er líkanaði af Garðari BA-64 sem Grímur Karlsson smíðaði.  Á veggnum hanga svo munir og myndir tengdar sjómennsku.

Titanick

 Hér er svo líkanið af Titanic en það er mjög stórt og í því eru ljós sem hægt er að kveikja á og er það mjög fögur sjón þegar öll ljós hafa verið kveikt og dimmt er orðið.

 

 

Að lokum er svo síðan í heild sinni eins og hún birtist í Víkurfréttum.  Þar sem ekki er gott að lesa það sem stendur á síðunni vitna ég í það sem ritað er hér að ofan.  Það skal tekið fram að ekki hefur verið leitað leyfis hjá Víkurfréttum um birtingu þessa mynda en vonandi fyrirgefa þeir mér það.

Bátasafnið


Lítið barn

Mikið var átakanlegt að lesa grein í Morgunblaðinu sem birtist þann 21. sept. sl.  Þessa grein skrifar móðir barnsins Birna Sigurðardóttir en þessi litla stúlka Védís Edda sem aðeins er tveggja ára og þegar greinin er skrifuð, nánast búið á barnaspítalanum í 2 mánuði til að hugsa um sitt barn  Það var vitað skömmu fyrir fæðingu þessarar stúlku að eitthvað óeðlilegt var að en hún fæddist í þennan heim 17. júní 2005 og hófust þá miklar rannsóknir um hvað væri að og miðað við skrif Birnu var nánast allar þær niðurstöður foreldrum mikið áfall en beðið áfram í stöðugri óvissu.  Þótt komið hafi fram í þessum rannsóknum að veruleg seinkun var á andlegum þroska sem var á við 2 mánaðar gamalt barn en á þeim tíma, er Védís Edda var 8 mánaða þegar þessi niðurstaða kom í maí en þá var barnið í skoðun í kjölfar lungnabólgu.   Blóðprufur voru sendar erlendis í byrjun febrúar 2006 og kom niðurstaða kom 24. maí sl. og var foreldrum barnsins þá sagt frá því að barnið væri með efnaskiptasjúkdóminn GM-1, sem er ólæknandi hrörnunarsjúkdómur var þeim síðan leyft að fara heim með barn sitt því ekkert var hægt að gera.  Þau gátu með mikilli aðstoð haft barnið heima til 17 júlí en þá var barnið orðið svo veikt að nauðsynlegt var að flytja það á spítala aftur.  Það hafa verið þung spor fyrir Birnu að bera þessa litlu stúlku út í sjúkrabíl og vita að hún var að fara á spítala til að deyja.  Í þessari grein Birnu er hún ekki að sækjast eftir vorkunnsemi, því hún tekur skýrt fram að allir hafi reynst þeim vel og margt verið gert til að safna peningum fyrir þau hjónin en hún varð að hætta sinni vinnu 1. mars og eiginmaður hennar fór að taka út öll uppsöfnuð leyfi í sinni vinnu.  Hún er einungis að vekja athygli á málefnum langveikra barna.  Í grein Ástu kemur fram góð lýsing á hvernig heilsu barnsins hrakaði stöðugt og eins og hún segir "Í byrjun nóvember hætti hún að bærast um munn, hætti að brosa og hætti að geta hreyft sig en hún hafði verið tengd við öndunarvél frá því í maí"   Hún getur einnig um að þessi mikli viðskilaður foreldra frá systkinum Védísar Eddu hafi verið farin að setja veruleg áhrif á þau en þar er um að ræða 7 og 8 ára gömul börn.  Í grein sinni talar Birna sérstaklega um þátt ríkisins og launagreiðslur sem greiddar eru foreldrum langveikra barna og segir;. "Þessi lög komu til framkvæmda hinn 1. janúar 2006 og eru meingölluð.  Bara foreldrar barna sem hlutu greiningu eftir þann dag áttu rétt á þessum greiðslum, ekki foreldrar barna sem þegar höfðu hlotið sinn dóm og voru að heyja sína baráttu.  Enginn í þessum aðstæðum er það vegna þess að hann hafi valið það.  Við eignumst börnin okkar og óskum þeim heilbrigði og hamingju.  Í einstaka tilfellum verður okkur ekki alltaf að ósk okkar og í þeim tilfellum er ekkert annað að gera en bretta upp ermarnar, spýta í lófana og gera sitt allra besta.  Börnin okkar elskum við hvort þau eru heilbrigð eða ekki.  Ég tel að ríkið ætti að sjá sóma sinn í því að gera öllum foreldrum langveikra barna kleift að sinna þeim af allri þeirri alúð og ást sem þeim er unnt að veita, án þess að foreldrarnir þurfi jafnframt að hafa áhyggjur af peningum og jafnvel hræðast það að missa heimili fjölskyldunnar."  Hér skrifar kjarkmikil kona sem hefur gengið í gegnum ótrúlega og sára lífreynslu.  En hvað skyldu nú þessi lög og rausnarskapur stjórnvalda þýða?  Í fyrsta lagi eru þau þrepaskipt, foreldrar langveikra barna og greinast eftir 1. janúar 2006 fá heilar 90 þúsund á mánuði í 3 þrjá mánuði fyrir báða foreldra en þetta er skilyrt því fyrst þurfa foreldrar að sýna fram á að þeir hafi fullnýtt annan rétt sinn svo sem sjúkrasjóði.  Í öðru lagi fá foreldrar barna sem greinast eftir 1. janúar 2007 kr. 90 þúsund í 6 mánuði, foreldrar barna sem greinast síðan eftir 1. janúar 2008 eiga rétt á kr. 90 þúsund í heila 12 mánuði.  Síðan í þriðja lagi eins og Birna bendir á fá foreldrar barna sem greindust fyrir 1. janúar 2006  EKKERT.  Þessar aðgerðir munu hafa verið áætlaðar að kosti ríkissjóð 170 milljónir í heild sinni.  Ég hlýt að spyrja hvaða vitleysingar sömdu þetta frumvarp og hvað voru þeir þingmenn að hugsa þegar þeir samþykktu þetta?  það skal tekið fram að þótt grein Birnu hafi verið birt 21. sl. var hún skrifuð 17. september en því miður lést Védís Edda þann 20. september sl.  Það liggur við að maður sitji lamaður eftir að hafa lesið þessa grein og spyr sig sjálfan hvað er eiginlega að skeð í okkar auðuga þjóðfélagi?  Það er augljóst að ekki var hægt að bjarga lífi Vigdísar Eddu, sama þótt nægjanlegt fjármagn hefði verið til þess.   En það ættu að vera sjálfsögð mannréttindi að foreldrar langveikra barna hafi tækifæri til að sinna þeim börnum sem allra best og veita þeim, þá ást og umhyggju sem foreldrar geta.   Nú vill hins vegar svo til að þegar þetta ruglfrumvarp var til afgreiðslu á Alþingi kom fram breytingartillaga frá Jóhönnu Sigurðardóttur sem þá var í stjórnarandstöðu, og að venju var sú tillaga felld, en nú er Jóhanna orðin félagsmálaráðherra og hefur nú tækifæri til að bæta þar úr og það virðist hún sannarlega ætla að gera og hefur nú þegar boðað nýtt frumvarp um þessi mál sem hún mun leggja fram á haustþingi og fær vonandi samþykkt, því ekki ætla ég að trúa því að Sjálfstæðisflokkurinn fari að þvælast fyrir Jóhönnu í þessu máli, því þá mun virkilega rísa upp stór mótmælaalda sem ég er ekki viss um að sá flokkur myndi standa af sér.  Það þarf mikið hugrekki að skrifa svona grein eins og Birna Sigurðardóttir gerði og þótt það bæti ekki hennar stöðu mun hún gera mikið í að bæta öðrum foreldrum það misrétti sem þeir hafa verið beittir.   Við þá þingmenn sem stóðu að gerð og samþykkt þessa ruglfrumvarps, vil ég segja;  Þið ættuð að skammast ykkar og í mínum huga ekkert nema aumingjar.

 Ég get ekki sett mig í spor foreldra og systkina Vigdísar Eddu, en ég votta þeim samúð mína vegna fráfalls hennar. 


Pólsk skúta

 

Það er nú orðið þannig með mig að um leið og ég heyri eða sé orðið skúta kemur strax upp í hugann smygl á dópi.  En það átti nú ekki við í þessu tilfelli, því hér er um að ræða pólska skútu sem hvarf á leið sinni til Aberdeen í Skotlandi frá Íslandi og fannst við Orkneyjar en skútan hafði bilað og um var að ræða sjö saklausa pólverja sem um borð voru.


mbl.is Skútan Syrenka á leið til hafnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jakob Falur Kristinsson
Jakob Falur Kristinsson

Ég er fyrrverandi vélstjóri og útgerðarmaður en er nú 75% öryrki eftir slys á sjó 2003. Bjó lengst af á Bíldudal en flutti til Sandgerðis haustið 2005.  En er nú aftur fluttur á Bíldudal.  Að svo miklu leyti sem myndir á síðunni eru eftir Mats Wibe Lund, þá liggur fyrir tímabundið samþykki hans um birtingu hjá mér og þakka ég honum sérstaklega fyrir.  Mats á að sjálfsögðu hönundaréttin að öllum sínum myndum.  Vilja menn sjá fleiri myndir þá vísast á www.mats.is  Ég  var flokksbundinn í Frjálslynda flokknum og hef starfað þar, en sagði mig úr flokknum 24. apríl og gekk í Samfylkinguna.  Föðurætt mín er úr Arnarfirði og móðurættin frá Jökulfjörðum og Hornströndum og í báðum tilfellum, langt aftur í aldir.  Er ég því ekta Vestfirðingur.

Undir fyrirsögninni Færsluflokkar er flokkur sem heitir Vefurinn og ef smellt er á hann opnast síður þar sem ég er að skrifa ýmsar frásagnir.  Einnig er undir liðnum spaugilegt smá grín ofl. 

Ég leyfi öllum að skrifa athugasemdir við mín skrif.   En af gefnu tilefni hef ég ákveðið að þeir sem ekki kunna sér hófs í athugasemdum og nýta þær til persónulegra árása á mig og mína persónu, með allskonar skömmum og svívirðingum, mun ég hér eftir loka á slíka aðila.  Einnig mun ég henda út nafnlausum athugasemdum.  Því ég einn ber ábyrgð á því sem skrifað er á mína síðu.

jakobkr@internet.is     

GSM: 823-2954

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband