Bloggfærslur mánaðarins, september 2007

Kópavogur

Íbúasamtökin Betri byggð á Kársnesi í Kópavogi eru nú farin að taka niður mótmælaborða með samstilltu átaki undir yfirskriftinni "Geymt en ekki gleymt" og ætla ekki að farga borðunum svo unnt verði að hengja þá upp aftur ef og þegar þess verður þörf.  Ég verð nú að segja fyrir mig sem áhorfandi að þessu Kársnes-leikriti, skil ég ekkert hvað er að eiga sér stað þarna í Kópavogi.  Eftir öll þessi miklu mótmæli og bæjarstjórn Kópavogs nýbúin að tilkynna breytingar á skipulagi til að koma til móts við óskir íbúa á þessu svæði og Gunnar Birgisson bæjarstjóri nýbúinn að lýsa því yfir að lýðræðið væri vel virkt í Kópavogi, þá geysist fram á ritvöllinn Guðríður Arnardóttir bæjarfulltrúi fyrir Samfylkinguna og fer að þrasa um það, að í raun sé ekki meirihluti bæjarstjórnar sem hafi átt hugmyndina að þessu nýja skipulagi á Kársnesi heldur hafi Samfylkingin fyrir löngu síðan sett fram þessa tillögu.  Og hvað með það?  Ég myndi nú í sporum Guðríðar fagna því ef tillögur frá minnihlutanum komast í framkvæmd en ekki nota tækifærið að skammast út í Gunnar bæjarstjóra.  Einnig hélt ég að þessi samtök "Betri byggð á Kársnesi" væru eðlileg íbúasamtök en ekki skæruliðahreyfing sem væri tilbúin í mótmæli þegar á þyrfti að halda, jafnvel nú þegar búið er að verða við þeirra óskum um breytingu á skipulagi.  En hvað er betri byggð bæði á Kársnesi og annarsstaðar?  Er það að hvergi megi byggja nýtt hús á landinu?   Allt eigi að vera óbreytt jafnvel gamlir húskofar að hruni komnir eru menningarverðmæti og hafa sál eins og oft er verið að fullyrða.  Á hvað trúir þetta fólk er það að verða eins og frumbyggjar í Afríku sem trúa á stokka og steina?  Það mætti halda að sumir hefðu fórnað trú sinni á Guð almáttugan og tilbæði í þess stað gamla húskofa sem hafa sál, það má ekkert gera lengur í þessu landi ef um er að ræða nýjar byggingar nema allt verði vitlaust.  Það getu vel verið að þetta sé fögur hugsjón hjá mörgum en ætli nokkur vilji í raun hoppa langt aftur í tímann og fara að búa í torfkofum eða illa einöngruðum bárujárnsklæddum timburhjöllum, ég er hræddur um ekki.  Ef þessi hugsjón hefði verið ráðandi í þjóðfélaginu alla síðustu öld, væri engin byggð í Kópavogi og ekkert til að rífast um þar í dag.
mbl.is Kársnesingar taka niður mótmælaborða sína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fíkniefni

Nú er aldeilis stuð hjá löggunni.  Fíkniefnasmyglarar fara eins og á færibandi í varðhald.

Gott mál og áfram nú...........................................................


mbl.is Grunaðir um innflutning á kókaíni frá Suður-Ameríku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

O.J. Simpson

Það er ekki nema vona að þessi spurning komi upp þegar í hlut á O.J.Simpson.  Hann slapp frá tveimur  morðákærum á sínum tíma, gaf síðan út bók þar sem hann lýsti nákvæmlega hvernig hann hefði farið að EF hann hefði framið glæpinn og fékk fyrir þau bókarskrif stórfé, enda seldist bókin vel og má segja að í bókinni fari eins nálægt því að játa og hann hefur þorað.  Það er aðeins þetta litla EF, sem skilur á milli skáldsögu og hreinnar játningar.  Svo kemur þetta, aftur í réttarsal ákærður fyrir innbrot og mannrán í spilavíti þar sem hann segist hafa verið að sækja einhverja ættargripi sem hann ætti, án þess þó að vera með í höndum einhverja sönnun þess að þetta væri hans eign.  Eigum við nú kannski von á nýrri bók með einu litlu EF þegar honum tekst að sleppa frá þessu.  Ég held að þessum manni sé ekki viðbjargandi þótt frægur sé.
mbl.is „Hvað er hægt að vera heimskur?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðherra

 

Þar var mikið að samgönguráðherra Kristján L. Möller áttaði sig á því að hann er ráðherra en ekki óbreyttur þingmaður og hefur beðið Einar Hermannsson, skipaverfræðing afsökunar á að hafa ásakað Einar um að vegna hans starfa fyrir Vegagerðina hefði allt farið úrskeiðis varðandi hina nýju Grímseyjarferju.  Ég gef Kristjáni einn + fyrir þetta. 


mbl.is Kristján biðst afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dópsmyglið

Það fór eins og ég hafði vonað að lögreglan stoppaði ekki við það eitt að hafa fundið dópið í skútunni frægu.  Heldur hefur þeim tekist að leysa alla anga þess og er nú allt málið upplýst.  Því komið hefur fram að aðilar í þeim hóp sem handtekin var höfðu áður leikið þennan sama leik þegar þeir komu á annarri skútu til Fáskrúðsfjarðar árið 2005 og náðu þá að sleppa með sitt dóp.  Þess vegna hafa þeir talið sig vera búna að finna örugga leið með smygl á eiturlyfjum og jafnframt skýrir þetta hvaðan fjármagnið kom.  Ég óska lögreglunni enn og aftur til hamingju með þennan frábæra árangur.  Nú er bara að bíða og sjá hvernig dómstólar taka á þessu máli, en samkvæmt lögum er hámarksrefsing í svona málum 12 ára fangelsi, sem að sjálfsögðu ætti að dæma flesta þessara manna til.  Það er auðvitað augljóst að þetta mál eitt og sér verði til þess að fólk hætti að reyna að smygla dópi til landsins, það mun halda áfram.  Við eyðum í dag háum upphæðum í aðgerðir gegn hryðjuverkum og ættum þess vegna að geta bætt verulega í til að stöðva þetta dópsmygl.  Ég dreg það í efa að nokkur aðili komi hingað til lands og fremji hryðjuverk sem væri alvarlegra en sá atburður sem hér er fjallað um, hefði valdið ef allt þetta magn hefði komist í umferð hér á landi, því með réttu má líta á þetta sem tilraun til hryðjuverka.  Í þeirri umræðu sem hefur komið upp í ljósi þessara atburða, hefur vaknað hvernig í ósköpunum, lítið skip getur komið hingað til lands erlendis frá í skjóli næturs án þess að yfirvöld verði þess vör eins og skeði 2005 og kannski oftar.  Við verðum að vakta betur allar skipakomur hingað til lands og sérstaklega hin minni skip og það sjá allir að Landhelgisgæslan með núverandi skipaflota sinn getur ekki sinnt því eftirliti, því það er alltof dýrt að vera með stór varðskip í að fylgjast með ströndum landsins auk þess sem skip Gæslunnar eru ekki nema þrjú svo þau gætu þá engum öðrum verkefnum sinnt ef þau væru öll bundinn við að sigla stöðugt meðfram ströndum landsins.  En hvernig á þá að leysa þetta eftirlit?  Nú er hér á landi öflugt ratsjárkerfi með stöðvum á þremur stöðum á landinu sem eru:  Á Miðnesheiði, á Bolafjalli við Bolunarvík, á Langanesi rétt hjá Þórshöfn og á Stokknesi við Hornarfjörð, með þessu kerfi sem íslendingar tóku við af Bandaríska hernum, getum við fylgst með hverri einustu flugvél sem kemur inní okkar lofthelgi bæði stórar og smáar.  Nú hef ég ekki þekkingu á því hvort hægt er að láta þetta kerfi fylgjast með skipaferðum en ef svo er ekki er til leið í gegnum gervinetti og í því sambandi vil ég benda á að t.d. Norska Veðurstofan hefur sett upp nýtt kerfi sem notast við myndatökur úr gervihnetti og á síðunni yr.no er hægt að slá inn leitarorð um hina ýmsu staði í heiminum og ef t.d. er ritað orðið Reykjavík, Sandgerði, Esja, Fáskrúðsjörður eða nánast hvað sem er kemur strax upp mynd af viðkomandi stað og hægt er að sjá hvernig veðrið er á hverjum stað á þeim tíma sem athugaður er.  Þetta kerfi þeirra er svo nákvæmt að hægt er finna nánast einstök hús og götur.  Svona kerfi er örugglega hægt að hanna til að fylgjast með ströndum landsins, auðvitað myndi þetta kosta mikla peninga en það bara verður að hafa það.  Eins og ég sagði í grein í gær og vitnaði þar í Þórarinn Tyrfingsson hjá Vogi, stöðvum við þetta vandamál ekki nema að hafa áhrif á eftirspurnina eftir dópi og verðum við að taka okkur þar verulega á í sambandi við forvarnir og ekki alltaf að hugsa um hvað hlutirnir kosta, því ef við festustum í þeim hugsunarhætti gerum við aldrei neitt af viti í þessum málum. 

Fróðleg viðtöl

Mikið var fróðlegt og upplýsandi viðtal við Þórarinn Tyrfingsson læknir á Vogi í Kastljósi sjónvarpsins í gærkvöldi.  Þar var meðal annars rætt um hið mikla smyglmál á fíkniefnum sem lögreglan upplýsti í gær.  Þórarinn var að vanda rólegur og yfirvegaður þegar hann var að útskýra stöðu þessara mála í dag, það kom fram í hans máli að nú orðið leituðu milli 700-800 manns sér aðstoðar á Vogi árlega vegna þessa vanda.  Þegar hann var beðinn að áætla fjölda þeirra sem væru virkir í neyslu í dag fór hann mjög varlega í þær sakir og sagði að miðað við fjölda sem leituðu sér aðstoðar á Vogi væri hugsanlegt að margfalda þann fjölda með þremur svo óhætt væri að tala um 2000 virka sprautufíkla á landinu.  Hinsvegar sagði hann að hver aðili sem væri háður þessum efnum þyrfti að selja 10 öðrum sama skammt til að fjármagna eigin neyslu og svo gæti hver reiknað fyrir sig án þess að hann væri að setja fram ákveðna fullyrðingu þar um, en sagði þó að enginn gæti verið í stöðugri neyslu, því það væri takmörk hvað líkami fólks þyldi og þess vegna væri neysla þeirra sem harðastir væru í þessu mjög túrakennd og væri því rétt að áætla neyslu um 1 gramm á dag á hvern fíkil.  Ástæða þess að verið var að ræða sérstaklega um sprautufíkla var sú að í Morgunblaðinu í gær sett landlæknir fram þá hugmynd að slíkir fíklar fengju ókeypis aðgang að nýjum og hreinum nálum þar sem upp hefði komið alnæmistilfelli hjá einum sprautufíkli og landlæknir sagðist óttast hættu á faraldri slíkra mála.  Inní viðtalið við Þórarinn kom innslag þar sem rætt var við fjóra einstaklinga sem allir komu fram undir fullu nafni og leyfðu myndatöku meðan á viðtalinu stóð, enda var þar ekki um að ræða eiturlyfjaneytendur heldur samkynhneigða menn en þeirra samtök hafa barist mikið í forvarnarstarfi vegna alnæmis og voru þeir allir sammála um að þessi hugmynd landlæknis væri mjög góð og væri eitt af því sem þeirra samtök hefðu fyrir löngu síðan lagt til.  Reyndar sagði einn þeirra að hann efaðist um að þeir aðilar sem væru í stöðugri neyslu fíkniefna og þar af leiðandi með brenglaða skynsemi, hefðu vit á að nýta sér að fá sprautunálar frítt og var það sama álit og komið hafði áður fram hjá Þórarinn Tyrfingssyni.  Þegar Þórarinn var síðan spurður út í áhrif á markaðinn þegar lögreglan gerði upptæk svona mikið magn svaraði hann því til að hann fagnaði að sjálfsögðu að þetta magn hefði náðst og áhrif þess yrðu meiri sem forvarnir frekar en miklar breytingar á neyslu þessara efna, því reynslan hefði kennt sér að þegar mikið magn væri gert upptækt af lögreglu þá hækkaði verðið á götunni eitthvað lítilsháttar en síðan leitaði það jafnvægis fljótt aftur.  Hann sagði að fólk yrði að átta sig á því að fíkniefnamarkaðurinn á Íslandi væri orðinn svo þróaður að hann væri ekki lengur háður einstökum sendingum.  Í þættinum var einnig rætt við Mumma í Götusmiðjunni og má segja að hans orð hafi verið nánast samhljóma orðum Þórarins varðandi áhrif þess að svona mikið magn fíkniefna hefði verið gert upptækt.  Í máli Þórarins kom einnig fram að að þótt hann væri hlynntur þessari hugmynd sem landlæknir setti fram hefði ekki fram til þessa fundist slík einkenni hjá sjúklingum á Vogi þá gerðu þeir mikið af því að skima blóð vegna margra sjúklinga sem kæmu á Vog og væru með einkenni lifrabólgu C sem ég hélt að væri ólæknandi en Þórarinn sagði að þrátt fyrir að einstaklingur greindist með lifrabólgu C gæti við komandi lifað ágætis lífi áfram ef hann héldi sig með þau meðferðarúrræði sem í boði væru og væru undir stöðugu eftirliti lækna, en hann sagði að því miður væri þar mikill misbrestur á og tók sem dæmi að af öllum þeim sem greindust með þennan sjúkdóm á Vogi sl. 10 ár væru nú þegar 30 látnir og væri þar um að ræða ungt fólk.   Það kom einnig fram hjá Þórarinn að mikil nauðsyn væri á að auka skimun á blóði til að forðast alnæmishættuna en þar skipti öllum máli að fjármagn væri fyrir hendi og sagði að á Vogi hefði komið fyrir að þurfa hefði að hætta slíkri skimun á blóði vegna fjárskorts enda væri það í raun og veru hlutverk ekki hlutverk sinnar stofnunar að sinna slíku heilbrigðiseftirliti.

Ef maður skoðar betur það sem fram kom í þættinum þá gætu neytendur fíkniefna á Íslandi í dag  og notar viðmiðun Þórarins að hver fíkill þurfi að selja 10 öðrum til að fjármagna eigin neyslu þá fæ ég út úr því dæmi að þeir geti verið allt að 20 þúsund einstaklingar.  En hafa ber í huga að ekki fjármagna ekki allir neyslu með sölu til annarra heldur með allskonar þjófnaði, lánum ofl.  Virðist því nánast ógerlegt að áætla hve stór þessi hópur raunverulega er.  Það kom líka fram að þótt vissulega sé ánægjuefni þegar fíkniefnasalar eru handteknir koma fljótt aðrir í staðinn meðan eftirspurnin er svona mikil.  Þetta virðist því lúta sömu lögmálum og markaðsfræðin kennir, að á meðan eftirspurn er eftir ákveðinni vöru eða þjónustu koma alltaf fram aðilar til að sinna þeim þörfum.  Eins og Þórarinn Tyrfingsson orðaði það "Það er ákveðið tannhjól sem heldur þessari keðju gangandi og meðan ekki tekst að stoppa það heldur þetta áfram"  Við getum að sjálfsögðu engu breytt um það sem liðið er eða bjargað þeim sem nú þegar hafa eyðilagt sitt líf, en á framtíðina getum við haft áhrif.  Ef síðan er til viðbótar yfirvofandi ógn vegna alnæmis og ekki fæst nægjanlegt fé til forvarna í því máli, bið ég hreinlega Guð að hjálpa okkur.


Dópmálið mikla

Þessi frétt segir okkur vel hvað undirbúningur og skipulag hjá lögreglu hér á landi hefur verið gott og hvergi hafa verið gerð nein mistök.  Ég sagði í grein minni í gær að hinn nýi lögreglustjóri Stefán Eiríksson, hefði stjórnað aðgerðum lögreglu í þessu máli, en hið rétta er að allt frá byrjun til enda var það Haraldur Johnnessen ríkislögreglustjóri sem stjórnaði þessum aðgerðum, þótt Stefán hafi vissulega komið þar að eins og svo margir af yfirmönnum lögreglu landsins.  Í fréttinni kemur fram að tveir menn hafa verið handteknir í Færeyjum vegna málsins en ekki hefur verið skýrt frá því enn hvort þar er um að ræða íslendinga.  Sjálfsagt fá flestir þessara manna þunga dóma og skútan sem í fyrstu var talið að hefði verið keypt var leigð erlendis, verður að öllum líkindum gerð upptæk.  Nú vaknar sú stóra spurning hver hefur fjármagnað þetta smygl?  Því þetta hefur kostað verulega mikla peninga, bæði í ferðalög og varla hefur skútan fengist leigð nema gegn einhverri tryggingu og eitthvað hefur kostað að kaupa allt þetta efni og að skipuleggja glæpinn sem tók víst nokkra mánuði.  Ég tel nokkuð ljóst að enginn þessara mann sem hafa verið handteknir hafi getað fjármagnað þetta, því eins og fram hefur komið voru þeir flestir með sakaferil að baki og ekki auðvelt hjá þeim að fá lán í banka eða annars staðar.  Því hlýtur einhver auðugur maður að ganga laus í okkar þjóðfélagi sem ber ábyrgð á öllu saman, þannig að í raun er ekki nema hálfur sigur unninn þótt hann sé vissulega stór.  Ég er hræddur um að það fari í þessu máli líkt og svo mörgum álíka að litlu peðin þurfi að sitja af sér dóma í fangelsi en sjálfur höfuðpaurinn sleppi og geti farið að skipuleggja næsta glæp.  Þó vil ég ekki útiloka þann möguleika miðað við það sem á undan er gengið og hversu vel lögreglan hefur skipulagt sínar aðgerðir að henni takist það ótrúlega að ná höfuðpaurnum í þessu alvarlega máli og yrði það þvílíkt rothögg í þessum fíkniefnaheimi að margur lægi dasaður á eftir og menn þyrðu ekki að reyna svona eða álíka hluti aftur.  Ég vona að það takist hjá lögreglunni.
mbl.is Tvö kíló af hörðum efnum fundust í Færeyjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auglýsingar

Mikið lifandis skelfing er ég orðinn þreyttur á sumum auglýsingum og skipti ég oft um rás þegar ég er að horfa á sjónvarpið á kvöldin og auglýsingarnar byrja.  Ég ætla að nefna hér nokkur dæmi:

1.  Auglýsing Símans um nýja gerð af farsímum.  Ég ætla ekki að gagnrýna auglýsinguna sem slíka eða gerð hennar og fannst bara gaman að horfa á hana fyrst.  En öllu má nú ofgera, að þurfa að horfa á þetta nánast á hverju kvöldi er full mikið af því góða.  Þessi auglýsing hefur verið svo ofnotuð að hafi það einhvern tíma hvarflað að mér að kaupa slíkan síma, get ég ekki hugsað mér það í dag.  Ég er hreinlega komin með ofnæmi fyrir þessum síma.  Þessi auglýsing er farinn að vinna gegn hagsmunum þess sem hana kostar.  Þessi auglýsing er stundum birt í heilu lag eða í nokkrum styttri útgáfu og um leið og þessi auglýsing birtist á skjánum, hættir maður strax að hugsa um síma og fer að velta því fyrir sér hvernig verður auglýsingin núna, kemur hinn frægi sími strax á eftir myndinni af síðustu kvöldmáltíðinni?  Eða segi Júdas brandarann núna?  Þessi auglýsing var góð og allt í lagi að birta hana í heild sinn í nokkur skipt, en svo hefði nægt að birta bara myndina af kvöldmáltíðinni og koma svo strax á eftir með símann.  Það er sú útgáfa sem mér finnst einna best.  Því auðvita muna allir framhaldið um leið og fyrsta myndin birtist.

2.  Auglýsing frá Mjólkursamsölunni um skyr.is, ég get ekki metið hvort hún er vel eða illa unninn en að láta einhverja leika að þér séu staddir í verslun erlendis og marg stama og hiksta við að reyna að bögla út úr sér orðinu skyr.is, ef þetta á að vera einhver brandari er hann illa heppnaður og ekki fyrir minn smekk.  Þarna gleymir maður strax skyr.is heldur fer öll athyglin í að fylgjast með hvort fólkinu tekst að koma þessu rétt út úr sér og jafnvel að maður vorkenni afgreiðslustúlkunni við að reyna að skilja fólkið.

3.  Auglýsing frá Hagkaup, sem öll er á ensku og meðan lesin er einhver texti renna yfir skjáinn hinar ýmsu vörur.  Hagkaup hefur verið með gott slagorð í sínum auglýsingum á íslensku, sem hefur verið stutt og gott og allt í lagi að horfa á það oft í viku og með því hefur hægt og bítandi neytandinn fegið þá tilfinningu að í þessa verslun sé tilefni til að fara.  Hversvegna að eyðileggja þetta með svona amerískri útfærslu á auglýsingu.  Er verið að senda okkur þau skilaboð að þessi verslun sé einungis fyrir enskumælandi fólk?  Þegar þessi auglýsing kemur fer öll hugsun í að reyna að átta sig á hvaða vitleysa sé í gangi og þegar maður loks nær því er auglýsingin búin og ný komin í staðinn.

Ég lærði aðeins í þessum fræðum þegar ég var í Samvinnuskólanum 1969-1971 og síðar í fjarnámi við Viðskiptaháskólann á Bifröst eftir að ég varð öryrki.  Ég tel því að sjónvarpsauglýsing, sem ætlunin er að birta oft í viku verði að vera hröð og hnitmiðuð og minna um leið sterklega á það sem í raun er verið að auglýsa.  Þær auglýsingar sem ég hef hér nefnt bera allar það með sér að athyglin beinist að öðru en til er ætlast.  Einnig finnst mér óþolandi sá háttur sem bæði Ríkissjónvarpið og Stöð 2, hafa tekið upp og ættað er frá Bandaríkjunum, en það er að í miðjum þætti eða mynd er gert auglýsingarhlé.  Það er vel skiljanlegt að Skjár einn noti þessa aðferð enda er sú stöð öllum opin án þess að þurfa að greiða neitt fyrir og hefur sína tekjur eingöngu af auglýsingum.  Út yfir allt tekur svo allir þessir auglýsingabæklingar sem verið er að dreifa og þótt maður merki hjá sér pósthólfið um að maðu vilji ekki slíkan póst, er þessu samt troðið þar niður.  Bara það eitt að neyða upp á mann þessu auglýsingabæklingum sem maður er búinn að óska eftir að fá ekki verðu til þess a.m.k. í mínu tilfelli að þetta fer beinustu leið í ruslið. 


Mótmæli

Nú hafa útvegsbændur í Eyjum sent frá sér mótmæli sem þeir kalla"Mótvægisaðgerðir,dropi í hafið" og á Suðurland.is segir orðrétt "Útvegsbændur í Vestmannaeyjum segja að á undanförnum 6 árum hafi samfélagið í Eyjum fært fórnir uppá 3,1 milljarð í formi byggðakvóta,línuívilnunar og ýmissa bóta, meðal annars vegna brests í rækju og skelveiðum, útflutningsálags (sem nú hefur verið fellt niður) og þróunarsjóðsgjalds sem síðar varð að veiðigjaldi.  Þannig hafi Eyjamenn í raun og veru stutt aðrar sjávarbyggðir árlega með liðlega 500 milljónum króna skerðingu eigin aflaheimilda og með sérstökum gjöldum sem færð hafa verið öðrum byggðalögum í nafni byggðastefnu ("mótvægisaðgerða")Eftir að hafa lesið þetta mætti í fljótu bragði ætla að útgerðin í Eyjum væri í miklum vanda.  Ég vil nú benda þessum ágætu mönnum á að þeir gleymdu einu atriði í allri þessar upptalningu sennilega óviljandi að þeir hafa líka fært miklar fórnir til allra landsmanna með því að taka að sér að kaupa og reka Toyotaumboðið í Kópavogi.  Ég ætla að óska þessum mönnum til hamingju að hafa loksins tekist að berja í gegn að svokallað útflutningsálag sem var sett á til að reyna að draga úr útflutningi á óunnum fiski í gámum, hefur verið fellt niður.  Nú geta þeir ráðstafað afla sínum án skerðingar eins og þeim best hentar, þeir þurfa hvorki að taka tillit til atvinnu fólks í fiskiðnaði hvorki á fasta landinu eða í sinni heimabyggð.  Ef marka má fréttir hafa þeir verið mjög duglegir að endurnýja skipaflota sinn því bara á þessu ári hafa komið eftirtalin nýsmíðuð skip til Eyja: Vestmannaey VE-444  Bergey VE-544 og nýlega var sjósett í Póllandi nýr Dala Rafn VE-508, sem mun koma til Eyja í desember.  Þeir hafa einnig endurnýjað með kaupum á notuðum en samt nýlegum og góðum skipum, og á þessu ári nefni ég nýja Álsey VE-2, sem kom til Eyja fyrir stuttu og nýtt Gullberg VE-292.  Áður voru þeir búnir að kaupa nokkur mjög góð skip og má þar nefna, Smáey VE-144, Brynjólf VE-3 og Bergur VE-44, það getur vel verið að ég gleymi einhverju skipi, en þetta eru þau sem ég man eftir í fljótu bragði.  Það kann vel að vera og mjög líklegt að ákvörðun um smíði þessara nýju skipa hafi verið tekin löngu áður en ljóst var að þorskveiðar yrðu skornar svona mikið niður.  En svo ég vitni nú í útgerðarmanninn og þyrlueigandann Magnús Kristinsson þegar að hann var að taka á móti sínu nýja skipi Bergey VE-544, sem var skip nr. 2 sem hann fékk nýtt á árinu og hann var spurður hvort þetta yrði ekki erfitt hjá honum vegna mikillar skerðingar á þorskkvóta, svaraði hann því að þótt samningar um þessi skip hefðu verið gerðir löngu áður en ljóst var að þessi mikla skerðing á þorskkvóta kom til umræðu kviði hann ekki framtíðinni, sitt fyrirtæki væri svo vel sett með veiðiheimildir og stæði á sterkum grunni  og útgerðir í Eyjum stæðu almennt vel og þeir hefðu alla burði til að standa þetta af sér.   Vestamannaeyingar hafa verið þeirrar gæfu aðnjótandi, að þótt sumir útgerðarmenn hafi kosið að draga sig út úr uppsjávarveiðum, hafa samt þau skip sem þær veiðar stunduðu ekki verið seld burt frá Eyjum, heldur hafa þau skipt um eigendur í Eyjum og verið þar áfram ásamt sínum aflakvótum  og þessu til viðbótar má benda á að ekki er langt síðan Ísfélagið í Eyjum keypti allt hlutafé í Hraðfrystistöð Þórshafnar hf. og eignaðist þar tvö góð skip með talsverðan kvóta.  Í 34. tbl. Fiskifrétta föstudaginn 14. september 2007 er verið að skýra frá kvótaúthlutun fyrir fiskveiðiárið 2007/2008.  Þar kemur fram að á lista yfir 20 kvótahæstu útgerðum er Vinnslustöðin hf. í 6. sæti og Ísfélagið í 11. sæti en þegar kvóta Þórshafnar er bætt við fer Ísfélagið í 6. sæti og Vinnslustöðin færist í 7. sæti listans.  Ef skoðaður er listi eftir heimahöfnum skipa eru Vestmannaeyjar í 2. sæti næst á eftir Reykjavík sem er í 1. sæti en þegar kvóta Þórshafnar er bætt við fara Vestmannaeyjar í 1. sæti en Reykjavík verður í 2.  sæti.  Það skal tekið fram að þessar upplýsingar Fiskifrétta voru unnar áður en gefinn var út rúmlega 380 þúsund tonna byrjunarkvóti í loðnu en þar eiga útgerðir í Eyjum góðan kvóta því þeir hafa alla tíð verið mjög sterkir í uppsjávarveiðum, t.d. eru 11 af 32 uppsjávarveiðiskipunum í þeirra eigu.  Ég ætla ekki að gera lítið úr vanda í Eyjum vegna niðurskurðar í þorski en eins og ég hef bent á eru útgerðir í Eyjum sterkar í uppsjávarveiðum og þar hefur heldur verið bætt við í kvóta t.d. í síld og loðnu og einnig eru þeir mjög sterkir í humarveiðum og ekki er skerðing þar.  Þannig að Vestamanneyingar hafa mun meiri burði til að taka á sig skerðing er mörg önnur byggðalög og má benda á viðtal við einn helsta talsmann Vestmannaeyja, Árna Johnsen alþm. þegar hann var að mótmæla þessum "Mótvægisaðgerðum" í viðtal í sjónvarpinu sagði Árni, "Í mínu kjördæmi eru einkum þrír staðir sem verða fyrir mikilli skerðingu og það eru Grindavík, Vestmannaeyjar og Hornafjörður"  Síðan fjallaði hann mest um Grindavík og vandamál þar og síðan sagði Árni, "Ég vil taka það skýrt fram að með þessum mótmælum mínum er ég ekki að gagnrýna þótt Vestfjörðum sé rétt hjálparhönd nú, ég hef fullan skilning á þeirra vanda og er ekki talsmaður þess að tekið sé af þeim nú til að færa öðrum, það þarf bara að bæta við þessar aðgerðir."   Miðað við það sem ég hef rætt hér að ofan er enginn hætta á miklu atvinnuleysi í Eyjum á næstunni eins og þegar er orðið víða á Vestfjörðum.

Hvað varðar yfirlýsingu þeirra útvegsbænda í Eyjum um mikinn fórnarkostnað þeirra sl. 6 ár sem þeir reikna út að sé upphæð sem nemi alls 3,1 milljarði eða rúmar 500 milljónir á ári í þessi 6 ár. og kalla að þeir hafi í raun þurft að aðstoða önnur byggðalög,ekki hef ég tök á að reikna þetta út og tek því þeirra upphæð sem rétta.   Þá er það nú svo að oft man kýrin ekki að hún var eitt sinn kálfur.  Ég man ekki betur en þeim Eyjamönnum hafi á sínum tíma nánast verður færður Meitillinn í Þorlákshöfn með öllum hans aflaheimildum, nánast á silfurfati.  Ef þær aflaheimildir væru reiknaðar út á verði aflaheimilda í dag, er ég hræddur um að útkoma í því dæmi dekkaði fyllilega það sem þeir telja sig hafa fórnað til að stoðar öðrum byggðalögum.  Eins og ég sagði áðan er ekkert sem bendir til að hætta sé á atvinnuleysi í Eyjum, ef það verður væri ástæðan sú að útgerðarmenn gengju of langt í sínum mikla útflutningi á óunnum fiski í gámum.

Af því ég að skrifa hér um Vestmannaeyjar, vil ég nota tækifærið og óska þeim til hamingju að hafa staðið vel saman í að hindra að Guðmundur, vinalausi næði að komast yfir eitt af stæðstu fyrirtækum ykkar og ég óska ykkur alls góðs í framtíðinni.

                                                                                                                                                             


Davíð Oddsson

Nú hefur Árna Johnsen bæst liðsauki í gagnrýni sinni á hinar svokölluðu Mótvægisaðgerðir sem ríkisstjórnin hefur verið að kynna.  Sá sem núna tekur sig að styðja Árna er sjálfur Davíð Oddson sem kallar þessar aðgerðir "fáránlegar".  Þótt mér finnist margt í þessum aðgerðum gagnrýnisvert er langt í frá að ég geti kallað þær fáránlegar.  Mér finnst Davíð oft gleyma því að hann er hættur í stjórnmálum og maður myndi nú ætla að hann frekar styddi sína gömlu félaga í stað þess að vera með svona skítkast.  Davíð Oddson hefur alltaf verið þeirrar skoðunar að allt ætti að vera frjálst og ríkið ætti einungis að setja þann ramma sem atvinnulífið ætti síðan að fá starfa frjálst í og ríkið ætti aldrei að vera með neinar aðgerðir til hjálpar einum né neinum.  Gott og vel, Davíð Oddsson má auðvita hafa sína skoðun á hverju máli en hinu má hann heldur aldrei gleyma að hann er starfandi Seðlabankastjóri og hefur verið talsmaður hans og þegar hann lætur svona lagað út úr sér er auðvitað litið á að hann sé að túlka sjónarmið bankans.  En talandi um frelsi þá vill persónan Davíð Oddsson að allt sé sem mest frjálst og þess vegna megi leggja landsbyggðina í rúst og þúsundir fólks missi vinnuna.  Aftur á móti Seðlabankastjórinn Davíð Oddsson vill takmarka frelsi eins og þegar hann lýsti því yfir að óheppilegt væri að Straumur-Burðarás ætlaði að færa hlutafé sitt í evrum og þegar hann sá að hann hefði enginn tök á að stoppa það mál, þá varaði hann sterklega aðrar fjármálastofnanir við að gera slíkt hið sama.  Sem frelsisunnandi var forsætisráðherrann Davíð Oddsson t.d. harður andstæðingur þeirra Bónusfeðga og er jafnvel talinn höfundur af hinum stórundarlegu málaferlum sem hefur gengið undir nafninu "Baugsmálið" og ekki má gleyma tilraun hans til að reyna að hindra frjálsa fjölmiðla í landinu.  Nei Hr. Davíð Oddsson, ég held að þú ættir að hætta að blanda þér í umræður um mál sem þér koma hreint ekkert við miðað við þína stöðu í dag.  Þér væri nær að vinna þá vinnu sem þú þiggur laun fyrir sem er að stýra Seðlabanka Íslands sem ekki hefur tekist betur til en svo að reglulega kemur þú fram og tilkynnir vaxtahækkun.  Er Davíð kannski með þessum ummælum sínum að óska eftir fjölda-atvinnuleysi á Íslandi, sem allir vita að eitt og sér slær á þenslu og verðbólgu, en yrði samt til þess að breiða yfir árangurslitla stjórnun Davíðs í Seðlabankanum varðandi stjórn efnahagsmála á Íslandi.  

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jakob Falur Kristinsson
Jakob Falur Kristinsson

Ég er fyrrverandi vélstjóri og útgerðarmaður en er nú 75% öryrki eftir slys á sjó 2003. Bjó lengst af á Bíldudal en flutti til Sandgerðis haustið 2005.  En er nú aftur fluttur á Bíldudal.  Að svo miklu leyti sem myndir á síðunni eru eftir Mats Wibe Lund, þá liggur fyrir tímabundið samþykki hans um birtingu hjá mér og þakka ég honum sérstaklega fyrir.  Mats á að sjálfsögðu hönundaréttin að öllum sínum myndum.  Vilja menn sjá fleiri myndir þá vísast á www.mats.is  Ég  var flokksbundinn í Frjálslynda flokknum og hef starfað þar, en sagði mig úr flokknum 24. apríl og gekk í Samfylkinguna.  Föðurætt mín er úr Arnarfirði og móðurættin frá Jökulfjörðum og Hornströndum og í báðum tilfellum, langt aftur í aldir.  Er ég því ekta Vestfirðingur.

Undir fyrirsögninni Færsluflokkar er flokkur sem heitir Vefurinn og ef smellt er á hann opnast síður þar sem ég er að skrifa ýmsar frásagnir.  Einnig er undir liðnum spaugilegt smá grín ofl. 

Ég leyfi öllum að skrifa athugasemdir við mín skrif.   En af gefnu tilefni hef ég ákveðið að þeir sem ekki kunna sér hófs í athugasemdum og nýta þær til persónulegra árása á mig og mína persónu, með allskonar skömmum og svívirðingum, mun ég hér eftir loka á slíka aðila.  Einnig mun ég henda út nafnlausum athugasemdum.  Því ég einn ber ábyrgð á því sem skrifað er á mína síðu.

jakobkr@internet.is     

GSM: 823-2954

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband