Bloggfærslur mánaðarins, september 2007

Smygl

Þetta var eins og ég hélt stórkostlegt magn af fíkniefnum svo skipti tugum kílóa og kemur fram í þessari frétt að hér sé um að ræða mesta magn af fíkniefnum sem fundist hafa hérlendis og teygir anga sína víða um Evrópu.  Einnig kemur fram að skútan hafi verið keypt erlendis en áhöfnin var íslensk og var þetta í fyrsta sinn sem þessi skúta kom til hafnar hér á landi.  Það hefur verið venja hér á landi að taka fagnandi hverju nýju skipi sem kemur til landsins, hvort þau hafa verið lítil eða stór.  Og í þessu tilfelli vantaði ekki móttökunefndina, en því miður fyrir hinn nýja skútueiganda var tilefnið ekki að fagna komu þeirra til landsins, heldur var mætt til að handtaka áhöfnina og fleiri.  Þessi aðgerð lögreglunnar er fagnaðarefni allra þeirra sem eru á móti neyslu  fíkniefna og mun hafa verið marga mánuði í undirbúningi og heppnaðist vel.  Er því full ástæða til að óska hinum nýja lögreglustjóra Stefáni Eiríkssyni og hans mönnum til hamingju með vönduð vinnubrögð sem skila virkilegum árangri.  Ég hugsa til þess með hryllingi ef allt þetta magn hefði komist í neyslu hér á landi.

Ég hélt nú að seint yrði hægt að toppa hið fræga smyglmál þegar m.b. Ásmundur ÓF var leigður til handfæraveiða héra um árið.  En í stað þess að fara á veiðar sigldu skipverjar bátnum til Hollands og fylltu bátinn að áfengi og komu síðan á bátnum drekkhlöðnum til hafnar í Hafnarfirði sem síðan endaði með því að skipverjar komu upp um sig sjálfir fyrir klaufaskap.   En þetta skútumál slær það mál heldur betur út.


mbl.is Tugir kílóa af fíkniefnum í skútu í Fáskrúðsfjarðarhöfn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gjalddagi

 

Ekki get ég borgað þetta í dag því miður, vegna þess að ég er öryrki og fæ ekki næstu greiðslu fyrr en 1. október.  Því verður einhver annar að bjarga þessu í dag. Takk.


mbl.is Krónubréf upp á 60 milljarða á gjalddaga í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stríð

Ætlar Osam bin Laden aldrei að hætta þessu myndbandarugli sínu.  Fjölmiðlar um allan heim ættu að taka sig saman um að birta aldrei neitt sem frá þessum brjálæðing kemur, með því að hunsa hann algerlega myndi þetta hætta og áhrif hans minnka.  Meðan fjölmiðlar keppast við að birta stöðugt fréttir af þessum manni eru þeir að veita honum gífurleg áhrif.

Réttast væri nú samt að ná þessu kvikindi og skjóta.  Hvar er nú sjálfur Bush með allt sitt herveldi og að eigin sögn með sjálfan Guð almáttugan í sínu liði.  Ræður hann ekki við að lát drepa einn brjálaðan mann?  Eða skyldi ástæðan vera sú að Osam bin Laden þjónaðar vel hagsmunum Bush það skyldi þó aldrei vera?


mbl.is Bin Laden lýsir yfir stríði á hendur Pakistan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kamerún

þá erum við komin í stjórnmálasamband við Kamerún svo við getum opnað sendiráð þar og þá fækkar um einn á biðstofubekknum hjá utanríkisráðuneytinu.  En eins og margir vita er búið að skipa svo marga sendiherra í utanríkisþjónustunni að ekki eru laus embætti fyrir þá alla og á meðan sitja þeir og lesa blöðin í utanríkisráðuneytinu við Rauðarárstíg meðan þeir bíði eftir að kallið Klárir kemur eins og tíðkast hjá skipshöfnum nótaveiðiskipa.
mbl.is Rætt um samstarf Íslands og Kamerún á sviði sjávarútvegs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skattstofa

Það kann að virðast í fyrstu að þetta sé eðlileg krafa bæjarstjóra á Blönduósi, en þegar betur er skoðað þá tilheyrir Blönduós í dag Norðvesturkjördæmi og skattstofa þess kjördæmis er á Ísafirði og ef þessi flutningur færi fram væri komnar tvær skattstofur í Norðvesturkjördæmi.  Þetta er aftur á móti enn ein staðfestingin á því hvað núverandi kjördæmaskipan er vitlaust og brýnt að endurskoða og úr því sem komið er ætti landið einfaldlega að vera eitt kjördæmi.
mbl.is Blönduós óskar eftir skattstofu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórmál

 

Þarna er greinilega eitthvað saknæmt á ferðinni og spurning hvað það er.  Ætli hér sé ekki komin ný leið til að smygla eiturlyfjum til landsins?


mbl.is „Greinilega stórmál í gangi á hafnarsvæðinu á Fáskrúðsfirði"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öryrkjar

Einn einu sinn er verið að vega að kjörum öryrkja og nú eru það lífeyrissjóðirnir sem hafa komist að því að á annað þúsund öryrkjar hafa náð því að vera með heildartekjur á bilinu 1.500-1.700 þúsund á ári eða 125-140 þúsund á mánuði og af þessari tölu á síðan eftir að dragast einhver skattur þar sem skattleysismörkin eru miðuð við kr. 90 þúsund á mánuði.   Þetta þykja víst slík ofurlaun að það verði að stoppa sem fyrst, nemur þessi skerðing allt að kr. 40 þúsund á mánuði.  Hvað er eiginlega að ske í þessu þjóðfélagi þar sem Hagstofa Íslands miðar við að framfærslukostnaður einstaklings sé kr. 150 þúsund á mánuði og hvernig á að brúa þennan mismun?  Enginn hefur geta bent á það enda veit það sennilega enginn,Hinsvegar er engin hætta er á því að þessar aðgerðir skerði lífeyrir fv. alþingismanna eða fv.ráðherra, því þeirra lífeyrir skerðist aldrei sama hvað þeir hafa miklar tekjur, jafnvel þótt þær tekjur komi úr ríkissjóði.  Eins og var í fréttum fyrir stuttu bauð Landsbankinn 200 velvöldum viðskiptavinum ásamt mökum til Ítalíu og hefur ekki viljað gefa upp hvað sú ferð kostaði en samkvæmt fréttum á Ríkissjónvarpinu þar sem verið var að reyna að áætla kostnaðinn út frá því sem í boði var var álitið að sú ferð hefði kostað milli 200-300 þúsund á mann og ef við göngum út frá því að allir hafi notað tækifærið og tekið maka sinn með er upphæði 400-600 þúsund á hvern viðskiptavin eða alls 80-120 milljónir, þetta er álíka uppæð og heildartekjur 600-800öryrkja á mánuði.  Annar stór banki bauð álíka stórum hópi sinna viðskiptavina ásamt mökum í mikla veislu og þar fékkst heldur ekki gefið upp neitt varðandi kostnað, en svo ég vitni nú aftur í áðurnefnda frétt kom fram að kostnaður hefði ekki verðið lægri í þessari veislu en í ferð Landsbankans því slík voru flottheitin að meira að segja var flutt inn sérstak borðvín sem hver flaska kostaði hátt í kr. 100 þúsund ef við tökum nú þetta saman bæði ferðina og veisluna hefðu hátt í 2000 öryrkjar þurft að nýta allar sínar ráðstöfunartekjur í mánuð til að greiða fyrir þetta.  Þótt ég sé sjálfur öryrki er ég ekki að öfundast útí fólk og fyrirtæki sem hefur það mjög gott og ætla ekki að vera að hneykslast neitt á því hvað þá fordæma.  Ég og mitt fyrirtæki tilheyrði á sínum tíma einmitt svona hóp og fékk boð um veislur og mikil ferðalög.  Ég er aðeins að nefna þessi dæmi til samanburðar við kjör öryrkja sem eru til skammar og því óréttlæti sem nú á að grípa til og endar örugglega með málaferlum.  Því miður hefur kjarabarátta öryrkja oft þurft að fara fyrir dómstóla, önnur vopn höfum við ekki.  Er nú ekki kominn tími til þess að gera eitthvað í að útrýma fátækt á Íslandi, Jóhanna mín?  
mbl.is ÖBÍ mótmælir skerðingu 9 lífeyrissjóða á örorkulífeyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fótbolti

Alltaf er fótboltinn að taka á sig nýjar myndir.   Það er orðið á mörkum þess að hægt sé að líta á þessa íþrótt sem heiðarlega keppnisgrein í íþróttum.  Það virðist vera orðið sama hver úrslit er í hverjum leikjum, í allof mörgum tilfellum er eftir fótboltaleik verið með stórar yfirlýsingar.  Dómarar eru taldi vitleysingar og viti ekkert hvað þeir eru að gera og eru ásakaðir um að halda með því liði sem sigrar, þjálfarar hreyta ónotum og skítkast sín á milli, sumir knattspyrnumenn eru ásakaðir um að sýna ekki íþróttalega framkomu.  Svo kemur þetta lið sem tapar í landsleik rústar heilum hótelherbergjunum og gengur um hótelið eins og svín, enda svo alla vitleysuna á slagsmálum um borð í farþegaflugvél í almennu millilandaflugi.  Ég hef oft gaman af að horfa á fótboltaleiki og oft blöskrar mér þegar þeir sem eru að lýsa landsleikjum tala um að taka þurfi þennan eða hinn úr liði andstæðingsins úr umferð og tala jafnvel um að nauðsynlegt sé að brjóta á þessum eða hinum og fagna jafnvel því ef einhver úr liði andstæðings er borinn af velli slasaður.  Nú er það orðið þannig að öll áhugamennska er að hverfa úr röðum knattspyrnumanna, heldur er um að ræða menn með mikil laun sem eru að berjast á vellinum.  Mér finnst oft á tíðum þetta minna mig meira á bardaga þjálfaðra hermann er heiðarlega íþrótt.
mbl.is Fótboltamenn gengu um eins og svín á Hótel Sögu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grímseyjarferja

 

Það er sama hvar borið er niður alltaf eru einhver vandræði með þetta skip.

Ætlar þetta aldrei að taka enda.  Ég er nú farinn að vorkenna þeim þarna í Grímsey, sem áttu að vera búnir að fá þessa miklu samgöngubót fyrir mörgum mánuðum en nú tala þeir um að síðast ósk þeirra sé að skipið getið hafið siglingar fyrir jól.  Af því reynt hefur verið að klína á íbúa Grímseyjar klúðrinu með þessa ferju sem hafi sett allar áætlanir úr skorðum og verið með óraunhæfar kröfur, var ég nú að lesa í Morgunblaðinu í dag að ein af þessum óskum Grímseyinga hefði verið sú að hægt væri fyrir vélstjóra skipsins að komast niður í vélarúm skipsins þegar það væri á siglingu og eftir því að dæma hefur ekki verið gert ráð fyrir að það væri mögulegt.  Ég get nú ekki talið þetta neina sérstaka kröfu, því augljóst er að skipið hefði aldrei fengið haffærisskýrteini ef útilokað var fyrir vélstjóra að komast í vélarúm skipsins meðan það væri á siglingu.

Annars held ég að þeir þarna í Grímsey ættu að fara og tala við Árna Johnsen alþm. hvort hann geti ekki reddað einum jarðgöngum út í Grímsey.  Hann myndi örugglega reyna.


mbl.is Fjárlaganefnd ekki sammála um lokaskýrslu Grímseyjarferjumálsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fáránleg fyrirsögn

Í morgun sat ég og las dagblöðin og hrökk heldur betur við þegar ég sá baksíðu Morgunblaðsins, en þar blasti við á miðri síðu með stóru letri:

"Hús leggur land undir fót".

Ég hélt að um eitthvað grín væri að ræða en við nánari lestur kom í ljós að verið var að fjalla um flutning á húsi af Hverfisgötu á Bergstaðarstræti sem tók heilan sólarhring.  Kom einnig fram að þetta væri þriggja hæða hús um 330 fermetrar að stærð og um 55 tonn af þyngd.  Einnig kom fram að þar sem víða hefði verið mjög þröngt og þess vegna hefði þurft að fara svona hægt með húsið en reyndar hefði húsið rekist utan í tvö önnur hús á leiðinni og skemmt þau.  Hverskonar blaðamennska er þetta eiginlega.  Maður sér auðvitað ýmsar villur í skrifum hér á blogginu sem er auðskilið og vel fyrirgefanlegt enda eru flestir þar að skrifa sem áhugamenn, en ekki sem blaðamenn.  Morgunblaðið sem telur sig vera virt og vandað blað ætti nú að sjá sóma sinn í að láta svona lagað ekki birtast.  Það var í sjálfu sér ekkert við fréttina að athuga sem slíka, ósköp eðlilega skrifuð en fyrirsögnin er fyrir neðan allar hellur og ekki bjóðandi lesendum þessa annars ágæta blaðs.  Því þótt viðkomandi blaðamaður hafi ætlað að láta fyrirsögnina vera eitthvað sniðuga er það eina sem út úr því kemur að Morgunblaðið setur verulega niður í áliti hjá mér.  Eru engar hæfnisreglur sem menn þurfa að standast til að verða blaðamenn á þessu blaði.  Þótt ég hafi ekki mikla reynslu sem blaðamaður veit ég þó að hús sama af hvaða stærð það er getur aldrei farið eitt né neitt fótgangandi, því skil ég ekki svona rugl og er Morgunblaðinu til skammar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jakob Falur Kristinsson
Jakob Falur Kristinsson

Ég er fyrrverandi vélstjóri og útgerðarmaður en er nú 75% öryrki eftir slys á sjó 2003. Bjó lengst af á Bíldudal en flutti til Sandgerðis haustið 2005.  En er nú aftur fluttur á Bíldudal.  Að svo miklu leyti sem myndir á síðunni eru eftir Mats Wibe Lund, þá liggur fyrir tímabundið samþykki hans um birtingu hjá mér og þakka ég honum sérstaklega fyrir.  Mats á að sjálfsögðu hönundaréttin að öllum sínum myndum.  Vilja menn sjá fleiri myndir þá vísast á www.mats.is  Ég  var flokksbundinn í Frjálslynda flokknum og hef starfað þar, en sagði mig úr flokknum 24. apríl og gekk í Samfylkinguna.  Föðurætt mín er úr Arnarfirði og móðurættin frá Jökulfjörðum og Hornströndum og í báðum tilfellum, langt aftur í aldir.  Er ég því ekta Vestfirðingur.

Undir fyrirsögninni Færsluflokkar er flokkur sem heitir Vefurinn og ef smellt er á hann opnast síður þar sem ég er að skrifa ýmsar frásagnir.  Einnig er undir liðnum spaugilegt smá grín ofl. 

Ég leyfi öllum að skrifa athugasemdir við mín skrif.   En af gefnu tilefni hef ég ákveðið að þeir sem ekki kunna sér hófs í athugasemdum og nýta þær til persónulegra árása á mig og mína persónu, með allskonar skömmum og svívirðingum, mun ég hér eftir loka á slíka aðila.  Einnig mun ég henda út nafnlausum athugasemdum.  Því ég einn ber ábyrgð á því sem skrifað er á mína síðu.

jakobkr@internet.is     

GSM: 823-2954

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband