Bloggfærslur mánaðarins, október 2009

Jón Bjarnason, sjávarútvegsráðherra

Alveg er það furðulegt hvað LÍÚ nær fljótt tökum á öllum sjávarútvegsráðherrum, sama í hvaða flokki þeir eru.  Nú er Jón Bjarnason fallinn í sömu gryfju og allir hans forverar og gott betur, því Jón ætlar að hunsa stjórnarsáttmálann.  Þegar núverandi ríkistjórn var mynduð var um það samið að innköllun allra veiðiheimilda hæfist 1. september 2010.  Nú hefur Jón lýst því yfir að það verði ekki gert því LÍÚ vilji það ekki.  Er maðurinn ekki heill á geði, ég efast um það, því Jón er greindur maður.  Það var vitað við stofnun ríkisstjórnarinnar að LÍÚ yrði á móti þessu.  Samt tekur Jón Bjarnason að sér embætti sjávarútvegsráðherra til að fylgja eftir stefnu ríkisstjórnarinnar.  En tekur svo upp á sitt einsdæmi að breyta stefnuninni í sjávarútvegsmálum.  Það sama á við um ESB þar segir Jón að hann sem ráðherra ætli að vinna að því máli af heilum hug en persónan Jón Bjarnason segist ætla að berjast af öllu afli gegn málinu.  Hvernig getur ráðherra leyft sér svona málflutning og ætlast til að einhver trúi honum.  Heldur Jón Bjarnason að hann komist framhjá samstarfsflokknum í þeim málum eins og honum hentar og fái að sitja óáreyttur í sínum ráðherrastól.  Það má þó segja flokksbróðir Jóns, Ögmundi Jónassyni til hróss að hann hafði þó þann manndóm til að bera að segja af sér.  En Jón leggst í algeran aumingjaskap, enda algerlega vanhæfur ráðherra og gerir sig að athlægi hvað eftir annað með sínar furðulegu skoðanir, sem engan hljómgrunn hafa hjá þjóðinni.  Nú þurfum við ráðherra, sem hafa kjark og þora að gera hlutina rétt.  Aumingjar, eins og Jón Bjarnason eru óþarfir í ríkisstjórn þessa lands, það er nóg framboð af þeim til annarra verka.

Jón segðu af þér strax.


Makríllinn

Makríllinn hefur reynst íslenskum útgerðum mikil búbót í ár. Alls hafa veiðst rúm 116 þúsund tonn af makríl það, sem af er árinu og er aflaverðmætið áætlað hátt í 12 milljarðar króna.

Nú verður þetta örugglega sett inn í kvótakerfið og úthlutað sægreyfunum á jafn ósanngjarnan hátt og er með allar aðrar fisktegundir, ein viðbót í spillt kvótakerfi.  Þær útgerðir sem veiddu makrílinn á þessu ári gerðu það á mjög óábyrgan hátt.  Þetta voru svokallaðar ólimpínskar veiðar, sem LÍÚ talar svo mikið gegn.  Það var veitt úr sameiginlegum potti og fiskinum mokað upp og fór nær allur í bræðslu.  Ef makrílinn hefði verið unnin til manneldis, sem góður makaður er fyrir, hefði útflutningsverðmæti orðið margfallt miðað við verðmæti mjöls og lýsis frá bræðslum.  Það kom í ljós að þennan fisk er mjög auðvelt að veiða á króka og sá fiskur fer allur til manneldis.  Þess vegna verður að taka tillit til smábátaflotans við kvótaúthlutun.


mbl.is Makríllinn hefur reynst útgerðinni mikil búbót
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Varðskipið Óðinn

Hugsanlega verður varðskipið Óðinn ekki opið almenningi á næsta ári. Samkvæmt frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2010 er gert ráð fyrir algerri niðurfellingu á framlagi til Hollvinasamtaka varðskipsins Óðins, en það var fimm milljónir króna í ár.

Ekki er það gott ef ekki er hægt að láta þessi samtök hafa 5 milljónir til að fólk geti skoðað þetta sögufræga skip.  Hvernig væri nú að láta þessi Hollvinasamtök hafa 25 tonna þorskkvóta árlega, sem félagið gæti látið veiða fyrir sig eða leigt útgerðum, þá væri kominn fastur tekjustofn á hverju ári.  Annað eins hefur nú þetta skip verið notað til að auka veiðiheimildir á Íslandsmiðum, með þátttöku í öllum þorskastríðum, sem háð voru hér við land.

Ef ekki fæst fjármagn þá er hætt við að þessa skips bíði sömu örlög og varðskipsins Þórs, sem er að grotna niður við bryggju í Gufunesi.  Ég væri tilbúinn til að kaupa Óðinn og fara svo í verktöku hjá Gæslunni.  Kunningi minn keypti hafrannsóknarskipið Dröfn RE og hefur síðan verið í nær stöðugri vinnu fyrir Hafró.  Óðinn væri líka mjög hentugt aðstoðarskip, þegar olíuleit hefst á Drekasvæðinu.  Ég yrði ekki í nokkrum vandræðum með að finna verkefni fyrir skipið og get staðgreitt það.


mbl.is Óvissa með Óðin vegna fjárskorts
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bónus

Verð á innkaupapokum í Bónus hefur verið hækkað um þriðjung, úr fimmtán krónum í tuttugu. Verðið er hins vegar óbreytt í Krónunni og er enn fimmtán krónur.

Mér finnst að pokar með merki verslana ættu að vera ókeypis og jafnvel að greiða fólki fyrir að nota þessa poka.  Því sá sem gengur um með merktan poka er gangandi auglýsing fyrir viðkomandi verslun og samkvæmt markaðsfræðinni sem ég lærði í háskólanum að Bifröst er þetta ódýrasta og besta auglýsing sem nokkuð fyrirtæki getur fengið.  Í Bandaríkjunum er þetta bannað og þar eru aðeins notaðir ómerktir bréfpokar.  Þessi hækkun á plastpokunum er líka vegna þess að þeir eru merktir.  Ómertir pokar kosta mun minna.  En kannski er Jón Ásgeir blankur og langar í eina Diet-coke, en síðustu fréttir af hans fjárhag voru þær að hann ætti fyrir einni slíkri flösku.


mbl.is Hærra verð á plastpokunum í Bónus
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flensa

Fimmtíu nemendur hafa tilkynnt veikindi í grunnskólanum á Fáskrúðsfirði en talið er að svínaflensa hafi komið upp í skólanum. Skólastjórinn liggur einnig veikur heima en að sögn aðstoðarskólameistara stendur til að taka sýni hjá veikum nemendum til að ganga úr skugga um eðli veikindanna. 

Svipað ástand mun hafa verið í skólum á Akureyri og víðar.  Þetta þarf ekki að vera svínaflensa, því flensur hafa alltaf verið algengar á haustin.  Aftur á móti er búið að ræða svo mikið um þessa svínaflensu, að það er búið að kjafta hana í stóran hluta landsmanna.


mbl.is Mikið um flensu í grunnskólum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vesturbærinn

Bilun varð á aðveituæð heitavatnsins sem fæðir vesturhluta Reykjavíkur. Samkvæmt tilkynningu frá Orkuveitu Reykjavíkur verður lítill þrýstingur á heita vatninu í Reykjavík vestan Öskjuhlíðar fram eftir morgni, eða á meðan viðgerð stendur. Ekki reyndist þörf á að loka alveg fyrir rennsli og því á ekki verða alveg vatnslaust.

Þeir hafa vonandi komist í sturtu í morgun í Vesturbænum, þótt þrýstingurinn væri lítill.  Slæmt en þó betra en ekkert vatn.


mbl.is Lítill vatnsþrýstingur í vesturbæ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áfengi

Sala áfengis minnkaði um 11,5% í september miðað við sama mánuð í fyrra á föstu verðlagi og jókst um 20,3% á breytilegu verðlagi. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum nam samdráttur í veltu áfengis í september 14%. Verð á áfengi var 36% hærra í september síðastliðnum en í sama mánuð í fyrra.

Líklegasta skýringin á þessu er hærra verð, drykkjan er ekkert minni, heldur er nú bruggað út um allt. Þannig að þessi mikla verðhækkun skilar sennilega minna í ríkissjóð en var áður Til að bjarga þessu er til eitt gott ráð, sem er að stjórnvöld taki hækkunina til baka og hvetji til aukinnar drykkju.  Til að framkvæma þetta ætti að veita ákveðin skattaafslátt t.d. 5% afslátt hjá þeim sem kaupa áfengi fyrir meira en 50 þúsund á mánuði 10% afslátt hjá þeim sem kaupa fyrir yfir 100 þúsund á mánuði. 20% afslátt hjá þeim sem kaupa fyrir meira en 200 þúsund á mánuði og halda þannig áfram að hækka skattaafslátt eftir því sem meira er keypt af áfengi.

Þar sem mikill hluti drykkjunnar fer fram á hinum ýmsu börum landsins yrði að gefa út sérstök drykkjukort, sem stimplað væri í við hvert keypt glas.  Drykkjukortin yrðu síðan tengd rafrænt við skattstofur landsins og þar safnaðist afslátturinn upp.  Þetta myndi skila ríkissjóði mun meiri tekjum en verðhækkunin.  Auk þess væri fólk að drekka gott vín en ekki einkvað brugg, sem gæti skaðað heilsu fólks.  Ríkisstjórnin yrði að ganga á undan með góðu fordæmi og hafa áfenga drykki á borðum á ríkisstjórnarfundum.  Einnig væri upplagt að hafa bar opinn á Alþingi, því þingmenn myndu ekki bulla meiri vitleysu fullir eða ófullir.

Allir á fyllirí strax


mbl.is Sala á áfengi minnkar um 14%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spakmæli dagsins

Þar sem ég er ekki búinn að taka upp úr öllum bókakössunum eftir flutninginn vestur finn ég ekki bókina góðu, sem ég notaði alltaf við þessi spakmæli.  Verð ég því að nota það sem hendi er næst og er það um hinn mikla athafna- og alþingismann Gísla Jónsson, sem var með mikinn rekstur hér á Bíldudal á sínum tíma eða frá 1930-1955, og eins og oft vill verða um þá sem standa fyrir miklum atvinnurekstri er alltaf stutt í andskotans öfundina og eftirfarandi vísa segir hug margra á Bíldudal til Gísla;

Við eigum bíl og bragga

og bryggju sem er ný

og fabrikkurnar frægu

sem framleiða reyk og ský

en Maron hann á okkur

og aftur Gísli hann.

Hann er nú hjá Hitler,

að hylla foringjann.

Það er rétt að geta þess að fyrirtæki Gísla hét Maron hf.  Eins var Gísli mikið í Þýskalandi til að kynna sér niðursuðuverksmiðjur ofl.  En á Bíldudal stofnaði hann niðursuðuverksmiðju, fiskimjölsverksmiðju og byggði nýja hafskipabryggju og rafvæddi þorpið og lagði einnig vatnsveitu í flest hús.


Flug til USA

Flugmálastjórn hyggst senda Iceland Express bréf til að spyrjast fyrir um flug félagsins til New York í Bandaríkjunum, en skv. upplýsingum frá Flugmálastjórn hefur Astraeus, sem Iceland Express leigir vélar af, ekki leyfi til til að fljúga vestur um haf frá Íslandi. Matthías Imsland, forstjóri Iceland Express, segir hins vegar að öll leyfi séu fyrir hendi.

Í fréttinni kemur skýrt fram að flugfélagið Astraeus, sem flýgur fyrir Iceland Express hefur fullt leyfi til að fljúga frá hvaða stað í Evrópu til allra þeirra borga í Bandaríkjunum sem það vill.  Því er þessi afstaða Flumálastjórnar óskiljanleg, en þó ekki því þetta er ekki í fyrsta sinn sem fulltrúar Icelandair í Flugmálastjórn nota þessa stofnun til að hindra samkeppni á sínum flugleiðum.  Þeir reyndu að stoppa að Iceland Express færi að fljúga innanlandsflug í samkeppni við dótturfélag sitt Flugfélag Íslands, með því að neita að veita þeim aðstöðu á Reykjavíkurflugvelli, en Iceland Express ætlar að koma sér sjálft upp sinni eigin aðstöðu á Reykjavíkurflugvelli og mun hefja innanlandsflug eftir nokkur ár.  Ef Icelandair getur ekki verið heiðarlegri samkeppni þá er eitthvað mikið að hjá því félagi og ættu þeir frekar að nota sína krafta til að laga eigin rekstur, frekar en leggja ávalt stein í götu annarra.


mbl.is Segjast hafa öll leyfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

11 börn

Áströlsk kona, sem hefur eignast fjórbura í tvígang, eignaðist nýverið tvíbura. Konan, hin 31 árs gamla Dale Chalk, og Darren eiginmaður hennar eiga nú 11 börn sem eru öll yngri en sjö ára.

Fer þetta ekki að vera orðið nokkuð gott hjá þessum hjónum.  Það er mikil vinna að ala upp 11 ung börn og kostar mikið.


mbl.is Fjórburar, fjórburar og svo tvíburar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jakob Falur Kristinsson
Jakob Falur Kristinsson

Ég er fyrrverandi vélstjóri og útgerðarmaður en er nú 75% öryrki eftir slys á sjó 2003. Bjó lengst af á Bíldudal en flutti til Sandgerðis haustið 2005.  En er nú aftur fluttur á Bíldudal.  Að svo miklu leyti sem myndir á síðunni eru eftir Mats Wibe Lund, þá liggur fyrir tímabundið samþykki hans um birtingu hjá mér og þakka ég honum sérstaklega fyrir.  Mats á að sjálfsögðu hönundaréttin að öllum sínum myndum.  Vilja menn sjá fleiri myndir þá vísast á www.mats.is  Ég  var flokksbundinn í Frjálslynda flokknum og hef starfað þar, en sagði mig úr flokknum 24. apríl og gekk í Samfylkinguna.  Föðurætt mín er úr Arnarfirði og móðurættin frá Jökulfjörðum og Hornströndum og í báðum tilfellum, langt aftur í aldir.  Er ég því ekta Vestfirðingur.

Undir fyrirsögninni Færsluflokkar er flokkur sem heitir Vefurinn og ef smellt er á hann opnast síður þar sem ég er að skrifa ýmsar frásagnir.  Einnig er undir liðnum spaugilegt smá grín ofl. 

Ég leyfi öllum að skrifa athugasemdir við mín skrif.   En af gefnu tilefni hef ég ákveðið að þeir sem ekki kunna sér hófs í athugasemdum og nýta þær til persónulegra árása á mig og mína persónu, með allskonar skömmum og svívirðingum, mun ég hér eftir loka á slíka aðila.  Einnig mun ég henda út nafnlausum athugasemdum.  Því ég einn ber ábyrgð á því sem skrifað er á mína síðu.

jakobkr@internet.is     

GSM: 823-2954

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband