Bloggfærslur mánaðarins, október 2009

Hvað á þetta að ganga lengi?

 Það fer ekki fram hjá nokkrum manni að íslensku útrásarvíkingarnir og lélegir bankastjórar, settu allt á hvolf í efnahagslífi Íslands.  En þrátt fyrir það halda þessir sömu menn áfram að reka sín gjaldþrota fyrirtæki eins og ekkert hafi í skorist.  Í dag eru þetta einu fyrirtækin sem fá enn lán í íslenskum bönkum.  Einnig er komin upp sú staða að bankarnir geta ekki gengið að sínum veðum.  Ég ætla að telja hér upp nokkur fyrirtæki sem eru gjörsamlega gjaldþrota en eru rekinn af sínum fyrri eigendum.

1.   Fyrirtæki í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar.  Öll gjaldþrota en ekkert er hægt að gera svo hann rekur þau bara áfram með lánum frá íslenskum bönkum.

2.   Fyrirtæki Magnúsar Kristinssonar í Vestmannaeyjum.  Öll gjaldþrota en a.m.k. Toyota-umboðið þarf ekki að greiða af sínum lánum, er verndað af Toyota.

3.   Fyrirtæki í eigu Pálma Haraldssonar eins og Iceland Express eru rekin í óbreyttri mynd.

4.   Hekla hf.  Gjaldþrota en sömu menn stjórna því áfram.

5.   Skeljungur hf.  Gjaldþrota, en rekið af sömu eigendum

6.   Ingvar Helgason hf.  Gjaldþrota en rekstur óbreyttur

7.   Húsasmiðjan hf.  Gjaldþrota en óbreyttur rekstur.

8.   BYKO  Gjaldþrota en óbreyttur rekstur.

9.   N1  Rambar á barmi gjaldþrots en er bakkað upp af bönkunum.

10.  EXISTA,   Gjaldþrota en eigendur neita að afhenda kröfuhöfum fyrirtækið og komast upp með það.

11.  Actavis.  Gjaldþrota en eignarhaldið er í gegnum 7-8 félög bæði hér á landi og erlendis og er svo flókið að jafnvel eigandinn veit ekki alveg hvernig þetta er, en sá er Björgólfur Thor Björgólfsson.

Svona mætti telja upp á margar blaðsíður.  Það furðulega við þetta er að stjórnvöld horfa á það aðgerðarlaust, að eigendur þessara fyrirtækja mergsjúga út úr þeim allt sem hægt er að ná og flytja fjármuni til hliðar.  Þessir menn eiga örugglega mörg hundruð milljarða erlendis og hvernig væri nú að stjórnvöld næðu í þá peninga og minnkuðu aðeins skattpíningu almennings.


Kominn heim

Ég ætla að biðja ykkur kæru bloggvinir mínir og aðra sem lesa þessa síðu hjá mér afsökunar á færslu sem ég setti inn um Davíð Oddsson.  Þetta var bara í gríni gert og ég vona að sem flestir hafi beðið eftir myndbandinu, sem aldrei kom og mun aldrei koma, því það er ekki til.  Þetta var síðasta færslan sem ég skrifaði í Sandgerði, sem ég hef nú kvatt fyrir fullt og allt.

Ég var búinn að biðja konu í Sandgerði að aðstoða mig við að pakka niður, en hún komst aldrei vegna þess að hún fékk ekki barnapössun.  Því varð ég að basla við þetta einn með eina hendi virka og kláraði að pakka niður öllu mínu dóti, sem ég réði við.  En að skrúfa í sundur og taka saman borð, hillur, stóla og tölvubúnaðinn gat ég ekki og varð það að bíða eftir syni mínum.

Á Sunnudaginn 3. október kom sonur minn til Reykjavíkur og ég leigði stóran sendiferðabíl til að flytja mína búslóð.  Bílinn var ekki svo dýr hann kostaði kr: 15.000,- á sólahring og leigði ég hann í tvo sólahringa.  Við fórum strax suður í Sandgerði og byrjuðum að lesta bílinn og ætluðum við að aka síðan alla leið vestur.  Konan sem ætlaði að hjálpa mér við að pakka niður kom og bróðir hennar og vorum við um 3-4 klukkutíma að fylla bílinn.  Eins var troðið eins og hægt var í minn bíl, síðan var öllu lokað og við ætluðum að fara af stað en þá kom í ljós að sendiferðabíllinn var alltof þungur.  Fjaðurgormarnir voru nær lagstir saman og því ekkert vit að aka alla leið á Bíldudal með bílinn svona þungan.  Ég hringdi í bílaleiguna og sagði hvernig komið væri og var mér þá boðið að fá stærri bíl morguninn eftir Kl: 08,00.  Sonur minn gat fengið að gista hjá fólk sem hann er tengdur í Garði en ég fékk gistingu á farfuglaheimili í Njarðvík. Morguninn eftir fórum við á bílaleiguna og ætluðum að skipta um bíl, en þá kom í ljós að stærri bíllinn var á sléttum sumardekkjum. en hinn var á nýjum vetrardekkjum.  Þá var ekkert um annað að ræða en létta bílinn og fórum við á Flytjanda og settum þar á 3 bretti, sem síðan áttu að fara með flutningabíl vestur.Þetta létti bílinn mikið og var nú allt í lagi að fara af stað.  Ég ákvað að við skyldum taka ferjuna Baldur yfir Breiðafjörð, því þá gætum við ekið á bundnu slitlagi alla leiðina.  Við fórum úr Reykjavík um klukkan 13,oo og vorum komnir í Stykkishólm um kl: 14,30.  Vegurinn var nær auður alla leið, smá snjór á Hálfdán, sem er síðasta heiðin á leiðinni til Bíldudals og komum við þangað um kl: 19,oo.  Þegar við komum til Bíldudals var ég svo þreyttur að ég komst varla út úr bílnum.  Þá var eftir að bera allt dótið inn og enga aðstoð að fá.  Þá náði sonur minn í börnin sín 4 og síðan kom einn maður og bauð okkur aðstoð og gekk nokkuð vel að losa báða bílana.  En þá var dótið komið inn í íbúðina og eftir að ganga frá öllu.  En samt var sett upp eitt rúm svo ég gæti sofið í íbúðinni.  Á þriðjudagsmorgun kom kunningi minn fljúgandi hingað vestur og ók sendiferðabílnum til baka og kostaði það mig um 30 þúsund.  Ég hef síðustu daga verið að basla við þetta einn.  En í gær kom sonur minn og hans börn og gekk þá vel að skrúfa allt saman, einnig kom tölvumaður og gekk frá tölvunni, tengdi símann og sjónvarpið.  Eftir hádegi í dag ætlar sonur minn að koma aftur og klára það sem eftir er.  En ég verð örugglega næstu daga að ganga endanlega frá öllu og ætla að vona að ég þurfi ekki að flytja aftur á næstunni.  Þetta er allt svo erfitt þegar maður er svona lamaður og þreytist fljótt.

En eitt furðulegt kom þó í ljós í sambandi við Búmenn, sem ég keypti búseturéttinn af í Sandgerði í desember 2005.  Þá greiddi ég fyrir búseturéttinn tæpar1,1 milljón og þá var greiðsla á mánuði rúm 50 þúsund og var hvoru tveggja bundið við lánskjaravísitölu og í lokin voru mánaðargjöldin komin í rúm 90 þúsund.  Höfðu sem sagt hækkað um 80% og ég taldi því að minn eignarhluti myndi hækka um sömu prósentu.  Nei málið var ekki svona einfalt minn hluti hækkaði um 20% og var því 1,3 milljón og uppgjörið yrði eftir 6 mánuði, einnig töldu þau að mála þyrfti alla íbúðina og smá för í gólfdúk eftir stóla yrði að laga líka.  Ekkert tillit var tekið til þess að ég hafði verið þarna í tæp 4 ár og því hlaut að fylgja eðlilegt slit á ýmsu.  Þannig að ég fæ minni ávöxtun að þeim peningum sem ég lagði í þessa íbúð í byrjun en ef þeir hefðu verið inná bankabók.  Bæði minn hluti og Búmanna voru bundnar við sömu vísitölu, tel ég því þetta vera ein verstu kostir sem eru í boði á húsnæðismarkaði á Íslandi og fólk ætti að varast að eiga viðskipti við svona glæpafyrirtæki. Þá er leigumarkaðurinn mun betri kostur.  Ég tel augljóst að Búmenn hafi lækkað minn hlut í samræmi við lækkandi fasteignaverð, en ég varð að greiða þeim að fullu hækkun á lánskjaravísitölunni.  Íbúðin sem ég leigi núna er mjög svipuð að stærð og hin var og hér greiði ég um 50 þúsund í leigu á mánuði og fæ tæpar 20 þúsund í húsaleigubætur á mánuði.  Þannig að þótt rafmagn sé dýrra hér þá er þetta mun ódýrara fyrir mig.  Ég mun á næstunni setja hér inn myndir bæði af húsnæðinu og ýmsu hér á  Bíldudal.


Davíð Oddsson

Augnablik, Ef  þið bíðið í nokkrar mínútur, þá á að birtast hér myndband, sem tekið var á falda myndavél á skrifstofu Davíðs þegar hann gerðist ritsstjóri Morgunblaðsins og er Davíð að ræða við sína klíkubræður í Sjálfstæðisflokknum um hvernig verði hægt að nota Morgunblaðið fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Ef myndbandið fer ekki sjálfkrafa af stað innan 3 mín.  Smellið þá Hér.


Spakmæli dagsins

Látum svo mikið að okkur kveða í,

lífinu að þegar við deyjum,

verði meira að segja útfarastjórinn

Sorgbitinn.

(Mark Twain)


Tvö þúsund milljarðar

Nýjasta útspil hjá Framsókn verður flokknum erfitt.  Þegar Höskuldur Þórhallsson þingmaður flokksins fullyrti að Ísland gæti fengið tvö þúsund milljarða að láni frá Noregi og Sigmundur Davíð tók undir, má segja að þjóðin hafi staðið á öndinni yfir þessum stórtíðindum.  Þeir félagar fullyrtu að ríkisstjórnin þyrfti einungis að óska eftir láninu og þá yrði það afgreitt strax á nokkurra skilyrða.  Þeir gengu meira að segja svo langt í vitleysunni, að þeir fóru á fund Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra og skýrðu málið fyrir henni.

Þegar farið var að kanna þetta betur þá var ekkert lán í boði frá Noregi, heldur hafði óbreyttur norskur þingmaður sagt Höskuldi Þórhallssyni frá því í einkasamtali að hann vildi að Noregur gerði þetta og ennfremur að hann myndi greiða slíku máli sitt atkvæði í Norska Stór-Þinginu.

Þannig að þeir félagar sitja eftir og skammast sín.


Fjárlög

Áður en fjárlagafrumvarpið og greinargerðin með því voru lögð fram á Alþingi hafði Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra aldrei heyrt minnst á að gert væri ráð fyrir 16 milljarða tekjum af umhverfis-, orku- og auðlindasköttum.

Auðvitað var ekki verið að láta Katrínu Jakobsdóttur vita af þessu ákvæði í fjárlögunum.  Því VG vissu að hún væri á móti þessu gjaldi og því laumuðu VG þessu inn á síðustu stundu.  En fjárlögin hafa ekki verið samþykkt enn svo Katrín hefur tíma til að fá þessu breytt.  Hún segist ALDREI samþykkja þetta verði lagt á stóriðjufyrirtækin í landinu, því þá fari þau öll í tap á sínum rekstri auk þess sem þetta mun fæla erlenda aðila frá fjárfestingum hér á landi.


mbl.is Ráðherra ókunnugt um skatta á þungaiðnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mótmæli

Tuttugu og sex Evrópuþjóðir hafa sent frá sér formleg mótmæli vegna hvalveiða Íslendinga. Bretar, Bandaríkjamenn, Frakkar, Þjóðverjar og Spánverjar eru á meðal þeirra þjóða sem fordæma hvalveiðarnar.

Það á ekki að taka mark á svona yfirlýsingum þótt þær komi frá 26 þjóðum.  Ég held að þessar þjóðir ættu að líta sér nær og skoða hvað þeir hafa gert í mörg ár.  Það vill nú svo til að Bandaríkin eru mesta hvalveiði þjóð í heimi og útskýrir þær með svokölluðum frumbyggjarétti.  Hinar þjóðirnar eins og Spánn, Frakkland og Bretland eru búnir að eyðileggja sín heimamið og nú er allur þeirra floti að moka upp öllum fiski við strendur Afríku og þar verður ekki hætt fyrr en auðn er eftir.


mbl.is 26 þjóðir fordæma hvalveiðar Íslendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hraðakstur

Bensínfætur nokkurra ökumanna á Reykjanesbraut reyndust þungir í nótt. Lögreglan á Suðurnesjum stóð tvo ökumenn að því að aka allt of hratt en annar ók á 127 km hraða og hinn á 130 þar sem hámarkshraði er 90 km á klukkustund.

Þetta kalla ég nú ekki alvarlegt því á Reykjanesbrautinni aka fáir undir 100 km. hraða.  Þar sem á Reykjanesbrautinni er komið tvær aðskildar akreinar í báðar áttir væri rétt að hafa hámarkshraða þarna 120 km. á klst.  Þá er mjög líklegt að flestir ækju á þeim hraða.  Það sýna alla veganna sýna kannanir frá Danmörku slíkt.  90 km. á klst. er sami hraði og leyfður er á snarbröttum fjöllum Vestfjarða.  Þarna er ekkert samræmi og því brjóta menn margoft löginn.  Það sýnir hvað lítið samræmi er á þessum hámarkshraða hér á landi.


mbl.is Þungir bensínfætur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hótuðu fólki

Lögreglan hafði afskipti af tveimur ungum mönnum í miðborg Reykjavíkur í nótt, en mennirnir eru sakaðir um að hafa ógnað fólki í efri byggðum borgarinnar með skammbyssu og hótað því lífláti. Nokkrar slíkar tilkynningar bárust lögreglu.

Þetta mun nú ekki hafa verið alvöru skammbyssa, heldur leikfangabyssa úr plasti.  En nóg til að blekkja lögregluna, enda eru þessar byssur orðnar svo líkar raunverulegum byssum að það þarf vandlega skoðun til að sjá muninn.

En hver tilgangur mannanna með þessum fíflaskap er ekki vitað.


mbl.is Hótuðu fólki lífláti með plastbyssu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Írar

Skoðanakannanir og óformlegar útgönguspár benda til þess að Írar hafi samþykkt Lissabon-sáttmálann í þjóðaratkvæði í gær. Talning atkvæða er að hefjast og búist er við úrslitum síðar í dag.

Auðvitað samþykktu Írar Lissabonsáttmálann og það eigum við Íslendingar eftir að gera líka þegar við göngum í ESB, sem vonandi verður sem allra fyrst.  Því þá batna okkar lífskjör verulega.  Þeir ókostir sem andstæðingar ESB er svo léttvægir miðað við alla kostina.  Því munu Íslendingar í Þjóðaratkvæðagreiðslu samþykkja aðildarsamning að ESB.


mbl.is Talið að Írar hafi samþykkt Lissabon-sáttmálann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jakob Falur Kristinsson
Jakob Falur Kristinsson

Ég er fyrrverandi vélstjóri og útgerðarmaður en er nú 75% öryrki eftir slys á sjó 2003. Bjó lengst af á Bíldudal en flutti til Sandgerðis haustið 2005.  En er nú aftur fluttur á Bíldudal.  Að svo miklu leyti sem myndir á síðunni eru eftir Mats Wibe Lund, þá liggur fyrir tímabundið samþykki hans um birtingu hjá mér og þakka ég honum sérstaklega fyrir.  Mats á að sjálfsögðu hönundaréttin að öllum sínum myndum.  Vilja menn sjá fleiri myndir þá vísast á www.mats.is  Ég  var flokksbundinn í Frjálslynda flokknum og hef starfað þar, en sagði mig úr flokknum 24. apríl og gekk í Samfylkinguna.  Föðurætt mín er úr Arnarfirði og móðurættin frá Jökulfjörðum og Hornströndum og í báðum tilfellum, langt aftur í aldir.  Er ég því ekta Vestfirðingur.

Undir fyrirsögninni Færsluflokkar er flokkur sem heitir Vefurinn og ef smellt er á hann opnast síður þar sem ég er að skrifa ýmsar frásagnir.  Einnig er undir liðnum spaugilegt smá grín ofl. 

Ég leyfi öllum að skrifa athugasemdir við mín skrif.   En af gefnu tilefni hef ég ákveðið að þeir sem ekki kunna sér hófs í athugasemdum og nýta þær til persónulegra árása á mig og mína persónu, með allskonar skömmum og svívirðingum, mun ég hér eftir loka á slíka aðila.  Einnig mun ég henda út nafnlausum athugasemdum.  Því ég einn ber ábyrgð á því sem skrifað er á mína síðu.

jakobkr@internet.is     

GSM: 823-2954

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband