Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Nýr stuðningur

Nú hefur þeim sem hafa verið að gagnrýna kvótakerfið og L.Í.Ú. bæst góður stuðningur og það frá sjálfu Morgunblaðinu.  En hér fer á eftir forustugrein Morgunblaðsins í morgun:
Í ræðu sinni á aðalfundi LÍÚ í gær sagði Björgólfur Jóhannsson, formaður samtakanna m.a.:

"Á íslenzkan sjávarútveg er lagður sérstakur skattur, svokallað auðlindagjald. Þessi "snilldar"-uppfinning var af fræðimönnum rökstudd sem gjald á umframhagnað í sjávarútvegi – þ.e. hagnað umfram það, sem gerist í öðrum atvinnugreinum. En hvar er þessi umframhagnaður? – Við sem störfum í greininni höfum að minnsta kosti ekki orðið vör við hann. Það sem við sjáum er sérstakur landsbyggðarskattur, sem dregur máttinn úr sjávarútvegsfyrirtækjum og landsbyggðinni í samkeppni við annan atvinnurekstur. Til hvers? Hvaða rök eru fyrir því að skattleggja þann litla hagnað, sem er í greininni, um tugi prósenta umfram skattlagningu hagnaðar í öðrum atvinnugreinum? Spyr sá, sem hvorki veit né skilur."

Er þetta ekki stórkostlegur málflutningur hjá þeim, sem telja sig sérstaka verndara landsbyggðarinnar?!

Hverjir voru það, sem keyptu kvótann frá Bolungarvík og Ísafirði? Voru það ekki félagsmenn í LÍÚ? Hverjir eru það, sem hafa rústað sjávarþorp um land allt með því að kaupa kvóta og flytja hann á brott? Hafa það ekki verið félagsmenn í LÍÚ?

Talsmaður hverra er Björgólfur Jóhannsson? Hann er talsmaður þeirra, sem hafa lagt þungar byrðar á lítil sjávarþorp um land allt með því að láta greipar sópa um þorpin, hirða kvótann og fara með hann á brott.

Svo koma þessir sömu menn og tala um það sem sérstakan skatt á landsbyggðina að fólkið í landinu, eigendur auðlindarinnar í hafinu, ætlist til þess að þeir sem vilja nýta hana borgi gjald fyrir aðganginn að henni.

Það hafa verið lagðar þungar byrðar á sjávarþorpin um Ísland allt. En þeir sem það hafa gert eru félagsmenn í LÍÚ, sem hafa ýmist selt kvótann í burtu eða keypt og flutt hann í burtu. Þessir menn eiga sízt af öllum að tala um landsbyggðarskatt, þegar rætt er um auðlindagjald.

Útgerðarmenn eru augljóslega að skera upp herör gegn auðlindagjaldinu. Sumir í þeirra röðum hafa hagnazt um milljarðatugi ef ekki hundruð milljarða á því að selja kvóta og flytja peningana til útlanda í mörgum tilvikum og jafnvel skattlausa á meðan þau vitlausu ákvæði voru í íslenzkum skattalögum.

Aðrir hafa safnað til sín kvóta og flutt hann úr byggðarlögum jafnvel þótt þeir hafi lofað því opinberlega að það mundu þeir aldrei gera.

Útgerðarmenn eiga ekki að tala jafn gáleysislega og Björgólfur Jóhannsson gerði á aðalfundi LÍÚ í gær. Slíkt tal hittir þá sjálfa fyrir. Það er sjálfsagt að rifja upp kvótaflutningana úr sjávarþorpunum hafi þeir áhuga á.

Svo mörg voru þau orð hjá ritstjóra Morgunblaðsins föstudaginn 26. október 2007 og hætt er við að sumum af félagsmönnum L.Í.Ú. svelgist á vínglösunum í hófi í kvöld, sem sjávarútvegsráðherra býður alltaf til við lok aðalfundar L.Í.Ú.


Frjálslyndi flokkurinn

Það er mikið fagnaðarefni að forusta flokksins skuli hafa ákveðið að setja af stað starfshóp undir forustu Valdimars Leós Friðrikssonar fv. alþingismanna, sem á að vinna að undirbúningi fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar sem verða 2010.   Það kann að vera að sumum finnist langt í næstu kosningar.  En tíminn er fljótur að líða og rétt að vanda vel allan undirbúning.  Við eigum að stilla saman strengi og koma okkar fulltrúum í sveitarstjórnir sem víðast um land og forðast að reikna með að það komi af sjálfu sér.  Við verðum að berjast um allt land og vanda val á okkar fulltrúum, því sterk staða í sveitar- og bæjarstjórnum styrkir flokkinn í heild á landsvísu og verður sá grunnur sem allt starf flokksins verður síðan byggt á og mun síðan skila sér í alþingiskosningum og festa flokkinn varanlega í sessi.  Ég er þess fullviss að ef ekki hefði komið til þetta upphlaup hjá Margréti Sverrisdóttur með sína Íslandshreyfingu, ættum við a.m.k. þremur þingmönnum fleiri á Alþingi en er í dag.  Ég vil nota tækifærið til að hvetja alla flokksmenn til þáttöku í þessum nýja starfshóp og taka þannig þátt í að efla flokkinn og allt hans starf.  Við megum aldrei láta það ske aftur eins og staðan er nú í borgarstjórn Reykjavíkur þ.e. að fulltrúi flokksins sé búinn að yfirgefa hann, en haldi samt sínu sæti sem kjósendur Frjálslynda flokksins höfðu stutt.

Allt tal um að ungt fólk skorti reynslu og eigi þar af leiðandi ekki að blanda sér of mikið í sveitarstjórnarmál er einfaldlega bull og kjaftæði.  Það er einmitt mestur krafturinn hjá unga fólkinu.  Ég get nefnt dæmi um mig sjálfan, en 1970 tókst Pétri Bjarnasyni sem þá bjó á Bíldudal að fella íhaldið, sem verið hafði við völd á staðnum í nær 20 ár.  Í næstu kosningum 1974 tók ég efsta sæti á þessum lista og Pétur var nr. 2, við fengum 3 af 5 sveitarstjórnarmönnum og ég varð oddviti aðeins 24 ára gamall.  Í næstu kosningum 1978 fengum við 4 af 5 fulltrúum og var ég í sveitarstjórn í 16 ár, en vék þá fyrir mér yngri manni.

Áfram XF


Dómur

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað tvo fyrrverandi ritstjóra DV af kröfu framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja um að ummæli í fyrirsögnum og frétt, sem birtust í blaðinu, yrðu dæmd dauð og ómerk.

Alfrei hef ég getað skilið þegar einhver aðili er að fara í málferli til að fá einhver ummæli dæmd dauð og ómerk.  Þegar dómur loksins kemur er flest allir búnir að gleyma viðkomandi máli og dómur sem dæmir einhver ummæli dauð og ómerk og það eina sem dómurinn geri er að fólk fer að rifja málið upp aftur.  Dómur sem dæmir einhver ummæli dauð og ómerk virkar alveg öfugt, þ.e. að ummælin lifna við aftur og verða virk á ný.  Þetta er rugl og vitleysa á hæsta stigi.


mbl.is Fyrrum ritstjórar DV sýknaðir í meiðyrðamáli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðalfundur LÍÚ

Nú stendur yfir aðalfundur LÍÚ og er þar fjölmennt að vanda og allt gengur eins og vel smurð vél.  Stjórnin leggur fram þær tillögur sem samþykkja skal og samkvæmt venju lyfta allir upp hendi og samþykkja.  Aldrei fara fram neinar raunverulegar umræður um þessar tillögur og aldrei er gengið skriflega til atkvæðagreiðslu.  Ég hef oft furðað mig á því hvað margir einyrkjar í útgerð sækja þessa fundi og taka þátt í að samþykkja tillögur sem jafnvel fela í sér að þeirra eigin útgerð er dauðadæmd.  Svona er nú lýðræðið á þessum fundum LÍÚ, allt er samþykkt og enginn hefur kjark til að vera á móti.  Enginn þorir að leggja fram neinar sjálfstæðar tillögur, bara að samþykkja allt sem forustan vill á hverjum tíma.  Ég held að það mætti hreinlega sleppa þessu leikriti sem aðalfundur LÍÚ er og láta bara stjórnina um að túlka skoðun þessara samtaka og bjóða heldur félagsmönnum á fyllirí á einhverjum góðum stað, því stór hluti fundarmanna er ekki að mæta á þessa fundi til að taka þar þátt í einhverjum störfum fundarins eða hafa áhrif á stefnu LÍÚ á hinum ýmsu málum.  Nei það er fyllirísveislan sem er í lokinn sem fær svona marga til að mæta og sjávarútvegsráðuneytið borgar kostnaðinn.

Síldveiðar

Á fundi strandríkja um stjórnun síldveiða úr norsk-íslenska síldarstofninum, sem lauk í Lundúnum í gær, náðist samkomulag um að heildaraflamark verði 1.266.000 tonn árið 2008. Samkvæmt samkomulaginu verður íslenskum skipum heimilað að veiða 183.697 tonn.

Það var í stíl við annað, á meðan þorskstofninn við Ísland er að hruni kominn af hungri, ætlum við að halda áfram að veiða frá honum allt æti svo hægt verði að þjarma meira að hinum minni útgerðum sem byggja afkomu sína á að veiða þorsk.  Svo öruggt verði að þær fari allar á hausinn. 


mbl.is Íslenskum heimilt að veiða tæp 184 þúsund tonn af síld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Borgarráð Reykjavíkur

BorgarráðBorgarráð hélt 5.000 fund sinn í gær og í tilefni tímamótanna fór hann fram í Höfða. Björn Ingi Hrafnsson, formaður borgarráðs, segir að hefðbundnar umræður hafi farið fram á fundinum sjálfum og í móttökunni á eftir hafi ýmsar skemmtilegar tengingar komið í ljós. Í því sambandi nefnir hann að Hermann Jónasson, fyrrverandi forsætisráðherra, hafi setið fyrsta fund bæjarráðs 6. ágúst 1932 og barnabarn hans, Guðmundur Steingrímsson, hafi verið á fundinum í gær sem aðstoðarmaður Dags B. Eggertssonar, borgarstjóra.

Ganga virkilega þessar stöður í erfðir og hvað finnst Birni Inga svona skemmtilegt við það?  Það er kannski það eina sem hefur verið skemmtilegt á þessum 5.000 fundum borgarráðs og allir hinir 4.999 fundirnir verið hundleiðinlegir. 


mbl.is Óvæntar tengingar komu í ljós á hátíðarfundi borgarráðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Norðmenn

Ný skoðanakönnun í Noregi leiðir í ljós að rétt rúmlega helmingur landsmanna, eða 51,6%, segist trúa á Guð. Ríflega 40 af hundraði segjast trúa því að Kristur hafi dáið á krossinum fyrir syndir mannanna, samkvæmt könnuninni, sem gerð var fyrir norska dagblaðið Klassekampen.

Er virkilega svona komið fyrir frændum okkar norðmönnum að nær helmingur þjóðarinnar eru heiðingjar.  Þá er ekkert skrýtið að hinn norskættaði Geir H. Haarde, forsætisráðherra skuli ætla að fara á fund páfans í Róm, með biblíuna í hendinni.


mbl.is Annar hver Norðmaður trúir á Guð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kindur

Ljóst er að tugir fjár drápust þegar fjárflutningabíll valt á heimreiðinni að Arnarstöðum í Helgafellssveit um kl. 14 í dag. Í bílnum voru um 200 kindur en bíllinn var að safna sláturfé í Helgafellsveit á vegum Sláturfélags Suðurlands og hafði náð í fé af fimm bæjum þegar slysið varð.

Átti ekki að fara að slátra þessum rollum hvort sem var og þótt þetta sé auðvitað slæm meðferð á dýrum væru þessar rollur örugglega dauðar núna.  Þetta vekur aftur á móti upp þá spurningu hvort hægt sé að réttlæta allan þann mikla flutning á sauðfé landshorna á milli bara í nafni hagræðingar.  En eins og margir vita eru aðeins eftir örfá sláturhús í landinu í dag slík er hagræðingin.  Það er vitað að kjöt af lömbum sem þurfa að þola langan akstur í flutningabílum er ekki eins gott og þegar féð er flutt styttri vegalengdir.  Ég held að það sé kominn tími til að endurskoða alla þessa fækkun á sláturhúsum sem hefur átt sér stað á undanförnum árum.  Ef við ætlum að framleiða úrvals-lambakjöt, verður það ekki gert með núverandi kerfi hvað varðar slátrun.


mbl.is Tugir fjár drápust þegar flutningabíll valt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nakið fólk

Ein stærsta hótelkeðjan á Bretlandseyjum, sem sérhæfir sig í ódýrri gistingu, hefur þurft að þjálfa starfsmenn sína sérstaklega til þess að taka á óvanalegu vandamáli, en mikil aukning hefur orðið á því að gestir hótelkeðjunnar gangi naktir um ganga hótelanna í svefni.

Ja mörg eru þau vandamálin sem glíma verður við í hótelrekstri.  Alsnakið steinsofandi fólk gangandi um allar nætur.  Það er eins gott að þetta fólk fari ekki út af hótelunum.


mbl.is Naktir svefngenglar til vandræða á hótelum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ný verslun

Ný Bónusverslun verður opnuð í Garðabæ á laugardag klukkan 10. Er verslunin er í sama húsi og Max á sama svæði og verslun IKEA. Er þetta fyrsta Bónusverslunin í Garðabæ en verslanir Bónus eru nú 25 talsins. Tveimur litlum verslunum var lokað í sumar.

Eru virkilega enginn takmörk fyrir hvað hægt er að opna margar verslanir á höfuðborgarsvæðinu.  Stöðugt koma fréttir um nýjar verslanir og allar eru þær fullar af fólki alla daga sem verslar og verslar.  Hvar í ósköpunum verslaði allt þetta fólk áður?


mbl.is Ný Bónusverslun opnuð í Garðabæ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jakob Falur Kristinsson
Jakob Falur Kristinsson

Ég er fyrrverandi vélstjóri og útgerðarmaður en er nú 75% öryrki eftir slys á sjó 2003. Bjó lengst af á Bíldudal en flutti til Sandgerðis haustið 2005.  En er nú aftur fluttur á Bíldudal.  Að svo miklu leyti sem myndir á síðunni eru eftir Mats Wibe Lund, þá liggur fyrir tímabundið samþykki hans um birtingu hjá mér og þakka ég honum sérstaklega fyrir.  Mats á að sjálfsögðu hönundaréttin að öllum sínum myndum.  Vilja menn sjá fleiri myndir þá vísast á www.mats.is  Ég  var flokksbundinn í Frjálslynda flokknum og hef starfað þar, en sagði mig úr flokknum 24. apríl og gekk í Samfylkinguna.  Föðurætt mín er úr Arnarfirði og móðurættin frá Jökulfjörðum og Hornströndum og í báðum tilfellum, langt aftur í aldir.  Er ég því ekta Vestfirðingur.

Undir fyrirsögninni Færsluflokkar er flokkur sem heitir Vefurinn og ef smellt er á hann opnast síður þar sem ég er að skrifa ýmsar frásagnir.  Einnig er undir liðnum spaugilegt smá grín ofl. 

Ég leyfi öllum að skrifa athugasemdir við mín skrif.   En af gefnu tilefni hef ég ákveðið að þeir sem ekki kunna sér hófs í athugasemdum og nýta þær til persónulegra árása á mig og mína persónu, með allskonar skömmum og svívirðingum, mun ég hér eftir loka á slíka aðila.  Einnig mun ég henda út nafnlausum athugasemdum.  Því ég einn ber ábyrgð á því sem skrifað er á mína síðu.

jakobkr@internet.is     

GSM: 823-2954

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband