Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Einstakur prestur

Frá 25.11. 1975 til 15.11. 1977 var prestur á Bíldudal, sem heitir Hörður Þ. Ásbjörnsson.  Hann var ógiftur og barnlaus og bjó einn í prestbústaðnum, sem var nokkuð stórt hús, á tveimur hæðum með fjölda herbergja.  Ekki nýtti prestur nema hluta hússins og kvartaði mikið undan því hvað dýrt væri fyrir sig að borga kyndingu fyrir húsið, sem vissulega var rétt.  Honum var einnig tíðrætt um hvað væri mikill munur þar sem væri hitaveita og sagðist ætla að reyna að sækja um hitaveituprestakall.  Auðvitað var þetta erfitt fyrir prestinn fjárhagslega, því ekki voru launin svo há og á svona litlum stað var ekki mikið um aukaverk sem gátu bætt fjárhaginn.  Var þetta því óttalegt basl á prestinum Og svo kom til þessa að skýra átti eitt barna minna og var það gert á mínu heimili, ekki var gestafjöldinn mikill, aðeins nánustu ættingjar og vinir.  Hinsvegar hafði konan mín bakað talsvert mikið af kökum og tertum og því nóg til.  Prestur var nokkuð snöggur að afgreiða skírnina og horfði mikið á veisluborðið og var fljótur að byrja að gæða sér á veislumatnum og borðaði og borðaði.  Ég sagði við hann þú hefur greinilega verið svangur Hörður minn og hann svaraði um hæl "já heldur betur og svo ætla ég að reyna að borð svo mikið að ég þurfi ekki að hafa áhyggjur af kvöldmatnum."  Þegar allir gestir voru farnir sat séra Hörður eftir og spjallaði og var hann að segjast frá öllum sínum raunum og hvað hann hitti fáa og hvað sér leiddist mikið og hvað miklir peningar færu í að kynda prestbústaðinn.  Ég bauð honum þá að hann gæti komið og unnið í frystihúsinu hjá mér og þannig verið innan um fólk og kynnst fleirum, auk sem þetta færði honum auknar tekjur.  Hann lifnaði allur við og spurði hvenær hann mætti mæta og ég sagði honum að hann gæti mín vegna mætt á morgun og ég skildi útvega honum mat í hádeginu hjá konu sem rak slíka þjónustu og var með nokkra menn á mínum vegum í fæði.  Hann kvaddi okkur síðan alsælla með þessa lausn á sínum málum.  Ég hringdi síðan í verkstjórann hjá mér og lét hann vita að presturinn myndi mæta til vinnu næsta morgun ogvar það allt í lagi af hans hálfu.  Mitt fyrsta verk næsta morgun áður en ég mætti á mína skrifstofu fór ég í frystihúsið til að athuga með prestinn og viti menn hann stóð þarna í einu horninu og þvoði frystipönnur í gríð og erg og sá einnig um að koma hreinum pönnum þangað sem pökkunin fór fram og virtist alsæll með lífið.  Verkstjórinn sagði mér að presturinn væri búinn að lát flesta vita að það svæði sem pönnuþvotturinn fór fram, væri hans umráðasvæði og þangað mætti enginn koma nema með hans leyfi.  Gekk þetta nú allt nokkuð vel um stund, en svo fer verkstjórinn að segja mér að presturinn eigi það til að taka sér full langa matartíma og bað mig um að tala við hann, sem ég gerði og spurði prestinn af hverju hann gæti ekki mætta á réttum tíma úr mat eins og aðrir og hannfór að úrskýra málið og sagði" Jú sjáðu til ég get ekki verið að mæta í matinn í vinnufötunum eins og þeir gera sem eru í línubeitningunni og borða þarna líka, ég verð að hraða mér heim í hádeginu og skipta um föt og fara í jakkaföt áður en ég fer í matinn og svo verð ég að skipta aftur um föt áður en ég mæti til vinnu og tíminn er bara full stuttur."  Ég lét þá verkstjórann vita og bað hann að horfa framhjá þessu, sem hann taldi sjálfsagt að gera enda væri prestur hörkuduglegur.  Síðan kemur að því að páskarnir eru að koma og kemur prestur þá til mín og er heldur vandræðalegur og segir mér síðan erindið.  "Sjáðu til Jakob að nú eru að koma páskar og þá verður talsvert um messur og ég þarf tíma til að skrifa nokkrar ræður því ég er búinn að nota allt sem ég átti til og ég er svo þreyttur eftir hvern vinnudag að ég get ekkert skrifað þegar ég kem heim."  Ég sagði honum að það væri allt í lagi, því ekki væri ætlun mín að hann gæti ekki sinnt sínum preststörfum vegna mikillar vinnu og bað hann að láta verkstjórann vita og segja honum að ég hefði gefið honum frí alla páskavikunna.

Síðar þennan vetur þegar steinbítsvertíðin byrjaði fór að berast mikill fiskur að landi til vinnslu því við keyptum allan þann steinbít sem við gátum fengið á sunnanverðum Vestfjörðum og nauðsynlegt þótti að bæta við starfsfólki.  Ég réði 12 stúlkur á aldrinum 18-20 ára víða af landinu til vinnu.  En þá kom upp vandamál um hvar ég ætti að koma öllum þessum stelpum fyrir, því okkar verbúðir voru fullar.  Eftir að hafa hugsað þetta nokkuð lengi fékk ég þá hugmynd að ræða við prestinn sem hafði nægt húsnæði og boðaði hann á minn fund og bauð honum að við skyldum leigja af honum neðri hæð prestbústaðarins og til við bótar leigunni skyldi ég greiða allan kostnað við kyndingu og allt rafmagn fyrir húsið.  Presturinn tók þessu mjög vel og sá fram á verulegan bættan fjárhag.  Síðan fékk ég smiði til að taka í gegn neðri hæð hússins, mála þar allt, dúkleggja, og urðu þarna hinar bestu vistarverur.  Svo komu dömurnar og ég mætti á staðinn þegar þær fluttu inn og prestur tók á móti öllum og heilsaði með handabandi og kynnti sig.  Þegar stelpurnar voru að koma sér fyrir kom í ljós að eitt herbergi vantaði og þá sagði prestur það ekki vera neitt vandamál, hann myndi bara rýma eitt herbergi á efri hæðinni, því sér nægði alveg eitt herbergi og var það gert.

Ef mig hefði grunað að öll þau vandræði sem þetta átti eftir að skapa mér seinna hefði ég aldrei látið mér detta í hug að leysa húsnæðisvandræðin á þennan hátt.  Því þegar koma svona margar ungar og myndarlegar dömur á jafn lítinn stað, sækja ungir menn mjög í félagsskap þeirra og því fylgir síðan partý, ýmis gleðskapur ofl.

Eitt sinn er ég vakinn um miðja nótt við símhringingu og er þá presturinn í símanum og segi að ég verði að koma eins og skot, því það sé allt orðið vitlaust í húsinu, fullt af blindfullu fólki og tónlist spilið af fullum krafti og hann geti ekki náð að sofna.  Ég dreif mig á fætur og mætti á staðinn og það var rétt hjá presti að þarna stóð yfir mikill gleðskapur og presturinn búinn að læsa sig inni í sínu herbergi og þorði varla að koma út og þegar hann loksins kom fram sagði ég við hann að ég skyldi stoppa þetta í hvelli, en þá bað hann mig um að fara varlega því ekki vildi hann missa stelpurnar úr húsinu, því þær væru allar mjög indælar við sig.  Ég fór þá á neðri hæðina og henti öllum út sem ekki bjuggu þarna og hundskammaði stelpurnar og sagði þeim að fara að sofa því þær ættu að mæta í vinnu morguninn eftir.  Færðist nú ró yfir húsið og ég fór upp til að ræða við prestinn og vorum við rétt sestir niður þegar bíll kemur akandi að húsinu og skömmu síðar snarast inn séra Þórarinn Þór prestur á Patreksfirði, sem þá var prófastur í V-Barðastrandarsýslu en presturinn hafði einnig hringt í hann.  Þórarinn Þór sem var hin mesti húmoristi og fór nú að spyrja séra Hörð hvað hefði eiginlega skeð, hann sæi ekki betur en hér væri allt í besta lagi.  Séra Hörður svaraði honum þá því til að hann Jakob væri búinn að stoppa öll lætin en bætti líka við að stelpurnar ættu það til að fara um húsið bara í nærfötum, sem væri mjög óþægilegt fyrir sig að horfa á.   Þá  sagðist Þórarinn að það væri þá best að hann færi bara heim á Patreksfjörð aftur og þar sem ég var að fara líka urðum við samferða að útidyrunum, en þar stoppar Þórarinn og horfir lengi á séra Hörð og segir síðan;  "Séra Hörður, hér býrð þú með 12 ungum dömum og ert að kvarta og segðu mér nú eitt ert þú algerlega náttútlaus?"  Ekki urðu mikil svör hjá séra Herði og kvöddum við hann og fórum.  Ekki man ég hvað oft ég þurfti að vakna oft þennan vetur við símhringingu frá prestinum og fara og stilla til friðar í prestbústaðnum.

Í lok janúar 1976 var fyrirhugað að halda þorrablót á Bíldudal, sem var ein af þeim skemmtunum sem flest allir mættu á.  Seinnipart lagardagsins sem þorrablótið átti að vera hringir séra Hörður og segir mér að nú sé algert neyðarástand í húsinu.  Það flæði vatn út um allt og hann sé við það að gefast upp, ég sagði honum að það væri ekki nokkur leið að fá viðgerðarmann á þessum tíma en hann hélt áfram að biðja mig að koma.  Svo fór að lokum að ég gafst upp of sagðist ætla að koma og fór ég á staðinn og fann prestinn í geymsluherbergi á neðri hæðinni, þar sem hann var á fullu að ausa upp vatni í fötu, en stöðugt lak vatn niður úr loftinu.  Ég spurði hann hvað væri á efri hæðinni fyrir ofan þetta herbergi og sagði hann þá að það væri baðherbergið.  Ég fór þá upp og skoðaði undir baðkarið og sá að þar var plastlögn frá niðurfalli baðsins sem hafði farið úr sambandi, þannig að í hvert skipti sem hleypt var úr baðkarinu flæddi vatnið um allt gólf og lak síðan niður í geymsluna þar sem presturinn var að ausa upp vatninu og spurði hann af hverju væri verið að nota baðið svona mikið og sagði hann þá að það væru allar stelpurnar, því þær væru að fara á þorrablótið.  Ég sagði honum þá að láta þær hætta að nota baðið á meðan ég reyndi að koma þessu í samband.  Nei það gengur ekki sagði prestur, það eiga tvær eftir að fara í bað í viðbót og þær væru að flýta sér og hann myndi bara halda áfram að ausa upp vatninu þar til allar væru búnar.  Ég sagði honum þá að ég væri sjálfur að fara á þetta þorrablót og nennti því ekki að bíða og kvaddi og fór.  Eftir helgina sendi ég viðgerðarmann til að koma þessu í lag.

Eftir því sem tíminn leið batnaði sambúðin í prestbústaðnum  og stelpurnar fór að elda fyrir prestinn, þrífa hjá honum og jafnvel að þvo fyrir hann og horfðu með honum á sjónvarpið á kvöldin.  Var hann nú heldur betur ánægður með lífið.  Svo kom að því að ráðningartíma lauk og  þessar dömur fóru burt af staðnum.  Skömmu síðar hitti ég prestinn á göngu, en þá var hann hættur að vinna í frystihúsinu og ég spurði hvað væri að frétta hjá honum?  "Æ það eru ekkert nema leiðindi og einmannaleiki hjá mér síðan stelpurnar fóru og nú sæti hann einn í þessu stóra húsi og léti sér leiðast, auk þess, sem hann ætti aldrei til neina peninga því kyndingarkostnaðurinn væri svo mikill og nú væri hann alvarlega að hugsa um að segja starfi sínu lausu og vita hvort hann gæti ekki fengið hitaveituprestakall."  Árið eftir flutti svo séra Hörður frá Bíldudal og síðar frétti ég af honum við vinnu í kjötiðnaðarstöð SÍS á Kirkjusandi og greinilegt að hann hafði ekki fengið sitt langþráð hitaveituprestakall.  Sennilega hefur þetta verið ein mesta lífsgleði hans á ævinni þegar hann bjó með öllu þessu kvenfólki og vann við að þvo frystipönnur í frystihúsinu á Bíldudal.

 

 

 


Ætlar að hitta páfann

Nú mun Geir H. Haarde vera á leið til að heimsækja páfann og með biblíuna í hendi áritaða af biskup Íslands.  Ekki hefur verið gefið upp hvað erindi Geir á við páfann, kannski er hann að leita eftir syndaaflausn fyrir sjálfstæðismenn í borgarstjórn Reykjavíkur og sig sjálfan. 

Eða kannski ætlar Geir bara að tefla við páfann, eins og svo margir hafa gert.


Aftaka

Þrátt fyrir að flest ríki Bandaríkjanna hafi frestað aftökum fanga þar til Hæstiréttur kemst að niðurstöðu um hvort aftaka með bannvænni sprautu brjóti í bága við stjórnarskrá landsins þá hafa yfirvöld í Alabama ákveðið að slíkt gildi ekki um aftöku Daniels Siebert þar sem hann er dauðvona krabbameinssjúklingur.

Ekki er öll vitleysan eins, að þurfa að flýta aftöku manns vegna þess að hann var dauðvona krabbameinssjúklingur.  Skipti nokkru máli hvernig þessi maður myndi deyja fyrst hann átti að deyja á annað borð.   Jú dómur yfir þessum manni hljóðaði upp á að hann skyldi vera tekinn af lífi og því skyldi framfylgt, það átti sko ekki að líða það að manngreyið dræpist bara úr krabbameini.  Eru yfirvöld í Alabama virkilega svo heimsk að halda að aumingja maðurinn hefi bara pantað krabbameinið til þess að storka yfirvöldum.


mbl.is Drifið í aftöku áður en fangi deyr úr krabbameini
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Formúla 1

Nú hefur frétts að Sýn hafi náð að kaupa réttinn til að sýna Formúlu 1 á næsta ári.  Þetta hefur hingað til verið sýnt á RÚV en eitthvað virðast þeir vera blankir þessa daganna og ekki haft efni á að keppa við Sýn.  Páll Magnússon forstjóri RÚV hefur sagt um hin miklu laun sem hann hefur nú fengið (1,5 milljón á mánuði) og afnot af 9 milljón króna jeppa, að hann yrði að sjálfsögðu að vera á svipuðum launum og kjörum og væru hjá hliðstæðum fyrirtækjum.  Er þá nokkuð óeðlilega krafa að Páll Magnússon standi sig í sínu starfi, það er ekki nóg að heimta bara laun eins og eru hjá öðrum fyrirtækjum, það verður líka að vinna fyrir þeim launum og taka því að menn eru yfirleitt reknir ef þeir standa sig ekki.

Þetta er eini íþróttarviðburðurinn sem ég hef fylgst með og þykir ansi hart að útvarpstjóri sé svo slappur í viðskiptum að hann geti ekki keppt við aðrar sjónvarpsstöðvar um efni.  Ef ég ætla að fylgjast með Formúlu 1 á næsta ári, verð ég að kaupa áskrift að Sýn sem mun kosta hátt í 5 þúsund á mánuði bara til að geta fylgst með þessari einu keppni.  Er það virkilega svo að laun Páls Magnússonar hafa algeran forgang og dagskráin verði síðan aukaatriði?  Ég fer að halda það og krefst þess að þeir sem sitja í stjórn hjá RÚV reki Pál Magnússon sem fyrst.  A.m.k. verði hann látinn hætta að lesa fréttir svo maður þurfi ekki að horfa á þennan monthana á næstum því, hverju kvöldi.


Svanir ofl.

Á netsíðu bresku náttúruverndarsamtakanna WWT er hægt að fylgjast með ferðum sjö svana, sem verptu á Íslandi í sumar. Sendar hafa verið festir við svanina og er hægt að fylgjast með þeim gegnum gervihnött. Fimm af svönunum eru enn á Íslandi en tveir eru komnir til Skotlands.

Það verðu áhugavert að fylgjast með þessum svönum.  Nú er einnig komin tæki sem sett er í fiska og svo er hægt að fylgjast með þeirra ferðum í gegnum gervihnött og væri áhugavert ef Hafró nýtti sér þá tækni.  Ég hef mikið verið að velta fyrir mér að kaupa mér einn stóran fisk t.d. 10-15 kíló og láta setja svona tæki í hann og fylgjast svo með í tölvunni hjá mér, hvar minn fiskur er alltaf staddur og hvert hann fer og fá síðan að vita ef hann verður veiddur, hvar hann var þá.


mbl.is Hægt að fylgjast með ferð svana á netinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svona eignuðust sumir mikinn kvóta

Þegar kvótakerfið var fyrst sett á 1984 var eingöngu kvóti í fáum tegundum t.d. þorski.  Allir fengu í byrjun úthlutað miðað við veiðireynslu sl. 3 ár.  Þeir sem vildu og fengu að vita að fljótlega yrðu aðrar tegundir kvótasettar, fóru nú að landa miklu magni af þorski, sem skráður var sem ýsa og hjá mörgum var þetta um að ræða nokkur hundruð tonn á hverju ári.  Svo kom að því að ýsan var kvótasett og fengu þá allir úthlutað kvóta miðað við veiðireynslu sl. 3 ár, nú var þorski landað sem steinbít, sem var utan kvóta, svo kom að því að steinbítur var settur í kvóta og fengu þá allir úthlutað kvóta miðað við veiði reynslu sl. 3 ár, alltaf skilaði svindlið sínu, veiðireynslan var alltaf fyrir hendi.  Svona gat útgerðarmaður sem fékk í byrjun ekki mjög mikinn kvóta unnið sig upp með svindli og bætt reglulega við sinn kvóta í öðrum tegundum.  Á þessum tíma var eftirlit mjög lítið og meira að segja Fiskistofa var ekki stærri en svo að öll hennar starfsemi komst fyrir í einni skúffu í sjávarútvegsráðuneytinu.  Í dag er þessum sagt að þessir útgerðmenn hefðu kunnað að vinna með kerfinu og væru því vel settir í dag.  Einnig var á sínum tíma í gangi svokölluð línutvöföldum sem virkaði þannig að sá fiskur sem veiddur var á línu var ekki skráður nema að hálfu til kvóta til að veiða 2 tonn af þorski þurfti ekki nema 1 tonn af þorskkvóta.  Síðan barði LÍÚ það í gegn að þessi línutvöföldun yrði lögð niður og sem bætur fyrir þetta fengu línubátarnir aukinn kvóta sem nam 50% af Því magni sem viðkomandi skip hafði veitt sl. 3 ár og mörg dæmi voru um að skip höfðu skipt um eigendur og kvóti þeirra fluttur á önnur skip og fengu jafnvel sumir togarar þessar bætur vegna línuveiða vegna þess að á þá höfðu verið fluttur af kvóti af línuskipum.   Ég veit dæmi um skip þar sem nær allur aflakvótinn varð til með þessum hætti: línubætur+svindl=góður kvóti=góður útgerðamaður. 

Munntóbak

Samkvæmt nýjustu tölum frá Capacent neyta um 3700 Íslendingar munntóbaks daglega hvort sem það er hið ólöglega snus eða hið löglega íslenska neftóbak. Í nýju átaki Lýðheilsustöðvar er reynt að sporna við útbreiðslu munntóbaks segir Viðar Jensson, verkefnisstjóri í tóbaksvörnum hjá Lýðheilsustöð.

Í þessari frétt er fjallað um aukningu á notkun munntóbaks og það merkilega er að aukningin er mest hjá körlum á aldrinum 18-34 ára.  Ég hélt að það væru bara nokkrir eldgamlir karlar sem enn notuðu munntóbak en staðreyndin er víst önnur eins og fram kemur í fréttinni.  Þessari munntóbaksnotkun fylgir mikill sóðaskapur, menn eru hrækjandi og skyrpandi út um allt.  Svo er allstaðar orðið bannað að reykja og ætti þá ekki að taka á þessu líka og banna það?


mbl.is 3700 Íslendingar taka daglega í vörina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mugison

"Þetta er blóð sem hann mallaði hann Jónas Val. Þetta var reyndar helvíti gott á bragðið - unnið úr sírópi og matarlit og einhverju dóti. Mjög mikið sælgæti," segir Örn Elías Guðmundsson, betur þekktur sem Mugison, um blóðið sem þekur hann á nýjum myndum á vefsíðu hans. "Á myndunum sést Mugison ýmist limlestur eða með kontrabassagervifót. Þá er mynd af honum með hljóðnema í stað handar og á flestum myndunum er hann þakinn blóði." Nýjasta breiðskífa Mugisons, Mugiboogie, kemur út á fimmtudag, en myndirnar má finna á Mugison.com

Flest gera menn nú fyrir frægðina ef þetta á að vera auglýsing fyrir nýjustu plötu Mugisons, þá er hún greinilega alveg misheppnuð.   Annars er mér sama um Mugison og hans plötur, því mér finnst öll hans tónlist hundleiðinleg, þótt hann sé vestfirðingur eins og ég.


mbl.is Mugison limlestur og blóðugur á Vestfjörðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lúxus

„Margir eiga tvo til þrjá síma og nota þá eftir því hvað þeir eru að gera og hvernig þeir klæðast," segir Þorsteinn Þorsteinsson, vörustjóri hjá Hátækni, sem er með umboð fyrir Nokia-farsíma. „Lúxussímar seljast nú sem aldrei fyrr, en Hátækni hefur á árinu flutt inn upp undir 100 Nokia 8800 Sirocco Gold-síma sem kosta um 170 þúsund krónur stykkið.

Allur andskotinn er nú til og ef marka má fréttina um að margir eigi 2-3 síma, hefur viðkomandi fjárfest fyrir 300 til 500 þúsund krónur bara í farsímum.  Nú er farið að kaupa þessa síma eftir því hvernig viðkomandi ætlar að klæðast.  Það var í fréttum í gær að nú er verið að byggja lúxusíbúðir í hinu nýja Skuggahverfi í Reykjavík og kostar hver íbúð á bilinu 200 til 300 milljónir, sem eru 200 til 300 fermetrar að stærð og hverri íbúð fylgir bílastæði í kjallara húsanna og þar á að vera starfsmaður sem tekur við bílum eigenda og sér um að leggja honum í stæði.  Allar þessar íbúðir sem hafa verið byggðar eru seldar og nú ætlar verktakinn að byrja á áfanga númer 2 og 3 sem verða svipaðar íbúðir og er strax byrjaður að selja íbúðir í þeim áföngum.  Nú þykir ekki lengur nógu gott að eiga risastórt einbýlishús, þar búa bara fátæklingar og aumingjar, lúxus íbúðir í háhýsum er það sem koma skal, ef fólk vill vera einhvers metið.

Ekki ætla ég að öfundast út í þetta fólk í lúxusíbúðunum og með alla sína gullskreyttu farsíma, en finnst ekki ósanngjarnt að slíkt fólk borgi eðlileg gjöld til samfélagsins, því eins og einn aðili sagði þegar hann var spurður hvort ekki væri hætta á að þetta hryndi eins og spilaborg ef kreppa kæmi í atvinnulíf á Íslandi.  Hann svarði því þannig;  "Það kemur enginn kreppa og þótt svo yrði, væri ríkissjóður svo sterkur að hann gæti auðveldlega leyst það vandamál með öllum sínum   peningum"  En sterk staða ríkissjóðs byggir auðvitað á hans tekjum og vitað er að margir auðmenn sem lifa eingöngu á fjármagnstekjum og greiða aðeins 10% skatt.  þeir þurfa ekki að reika sér hið svokallaða endurgjald fyrir þá vinnu að kaupa og selja hlutabréf ofl.  Þannig að ef kreppa kemur og ríkissjóði er ætlað að leysa hana þá verður það gert með skattfé hins venjulega launamanns en ekki með skattfé frá auðmönnum.  En það eru ekki aðeins byggðar þessar lúxusíbúðir, heldur spretta upp eins og gorkúlur heilu verslunarmiðstöðvarnar út um allt og þetta fyllist af verslunum um leið og húsnæðið er tilbúið.  Nýlega var opnuð risastór leikfangaverslun og er víst fullt þar út úr dyrum alla daga og til stendur að byggja aðra ennþá stærri fljótlega.  Risavaxnar byggingarvöru verslanir spretta upp, sem er auðvitað í samræmi við hvað mikið er byggt og allt blómstrar þetta og dafnar.  Gamla góða Kringlan er bara orðin eins og ein lítil sjoppa við hliðina á öllu hinum nýju verslunarmiðstöðvunum.  Á meðan öll þessi hús eru byggð ganga nokkur hundruð fjölskyldur um götur Reykjavíkur að leita sér að svefnstað fyrir næstu nótt.  Þetta fólk hefur ekkert húsnæði og á þar af leiðandi ekkert heimili og verður að láta sér nægja að leggjast upp á ættingja og vini eða jafnvel láta það duga að sofa með börnum sínum í gömlum bílum.  Er ekki kominn ansi mikill slagsíða á okkar þjóðfélag?


mbl.is Íslenskir auðmenn tala í 170 þúsund króna gullsíma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sama þvælan aftur og aftur

Það er fráleit túlkun á samþykkt stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá í gær að stjórn fyrirtækisins hyggist hefja sjálfstæða rannsókn á málefnum Reykjavik Energy Invest, svo sem haft var eftir einum stjórnarmanna í kvöldfréttum útvarps, segir í yfirlýsingu frá Bryndísi Hlöðversdóttur, stjórnarformanni Orkuveitu Reykjavíkur.

Ætla Sjálfstæðismenn aldrei að skilja að þeir eru orðnir í minnihluta í borgarstjórn Reykjavíkur og dótturfyrirtækjum borgarinnar.  Hvaða tilgangi á svona barnalegt blaður hjá manni eins og Júlíusi Ingvarssyni að þýða?  Fá þeir aldrei nóg þessir menn að velta sér upp úr skítnum sem þeir skildu eftir sig?  Ég held að þeir ættu að hafa vit á því að steinhalda kjafti og skammast sín og leyfa nýju fólki að fá frið til að þrífa upp eftir þeirra klúður og spillingu.


mbl.is Yfirlýsing stjórnarformanns OR: Túlkun Júlíusar Vífils fráleit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jakob Falur Kristinsson
Jakob Falur Kristinsson

Ég er fyrrverandi vélstjóri og útgerðarmaður en er nú 75% öryrki eftir slys á sjó 2003. Bjó lengst af á Bíldudal en flutti til Sandgerðis haustið 2005.  En er nú aftur fluttur á Bíldudal.  Að svo miklu leyti sem myndir á síðunni eru eftir Mats Wibe Lund, þá liggur fyrir tímabundið samþykki hans um birtingu hjá mér og þakka ég honum sérstaklega fyrir.  Mats á að sjálfsögðu hönundaréttin að öllum sínum myndum.  Vilja menn sjá fleiri myndir þá vísast á www.mats.is  Ég  var flokksbundinn í Frjálslynda flokknum og hef starfað þar, en sagði mig úr flokknum 24. apríl og gekk í Samfylkinguna.  Föðurætt mín er úr Arnarfirði og móðurættin frá Jökulfjörðum og Hornströndum og í báðum tilfellum, langt aftur í aldir.  Er ég því ekta Vestfirðingur.

Undir fyrirsögninni Færsluflokkar er flokkur sem heitir Vefurinn og ef smellt er á hann opnast síður þar sem ég er að skrifa ýmsar frásagnir.  Einnig er undir liðnum spaugilegt smá grín ofl. 

Ég leyfi öllum að skrifa athugasemdir við mín skrif.   En af gefnu tilefni hef ég ákveðið að þeir sem ekki kunna sér hófs í athugasemdum og nýta þær til persónulegra árása á mig og mína persónu, með allskonar skömmum og svívirðingum, mun ég hér eftir loka á slíka aðila.  Einnig mun ég henda út nafnlausum athugasemdum.  Því ég einn ber ábyrgð á því sem skrifað er á mína síðu.

jakobkr@internet.is     

GSM: 823-2954

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband