Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

Húsafriðun

Helsti munur á meirihluta Sjálfstæðisflokks og F-lista og meirihluta sem Sjálfstæðisflokkurinn myndaði með Framsóknarflokknum er sá að nýi meirihlutinn leggur meiri áherslu á umhverfismál og húsverndarmál en sá sem fór frá völdum í október.

Verður nú hver einasti kofi í Reykjavík friðaður og hætt að byggja ný hús.  Ekki finnst mér það til fyrirmyndar að Reykjavíkurborg skuli núna vera búinn að kaupa ónýtt spýtnadrasl við Laugaveg fyrir 500 milljónir og ætli að eyða svipaðri upphæð í að byggja þessa kofa upp fyrir svipaða upphæð.  Er Reykjavík svo menningarsnauð að öll menning felist í gömlum ónýtum húskofum.  Hvað þá með hina miklu tónlistar- og ráðstefnuhöll sem er að rísa við Reykjavíkurhöfn verður það kannski stoppað?   Ef menning getur ekki þrifist nema í gömlum húsum er illa fyrir Reykjavíkurborg komið og verður þá ekki að fara að rífa mörg hús, t.d. Borgarleikhúsið, Þjóðarbókhlöðuna ofl. nýlegar byggingar því þessi hús munu víst ekki hafa sál, sem nært getur menningarlífið.


mbl.is Áhersla á umhverfis- og húsverndarmál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kunna menn ekki orðið íslensku ?

Þá hefur Guðjóni Ólafi Jónssyni tekist það sem hann ætlaði sér, það er að hefna sín á Birni Inga Hrafnssyni.  Ekki held ég að það verði þessum aumingja manni neitt til framdráttar innan Framsóknarflokksins, það sem Guðjón Ólafur gerði.  Enda skil ég ekki hvað mönnum langar svona mikið til að komast til áhrifa í þessum flokki sem er deyjandi smáflokkur og algerlega áhrifalaus.  En það er eitt atriði sem vakti mig til umhugsunar, en það er hvernig stjórnmálamenn eru farnir að tala hver um annan.  Mikið hefur veri rætt um undanfarið að þessi eða hinn hafi rekið hníf í bakið á einhverjum og Guðjón Ólafur sagði í Silfri Egils að hann væri með heilt hnífasett í bakinu eftir Björn Inga.  Skilja þessir menn ekki orðið íslensku og vita þeir ekki lengur merkingu íslenskra orða.  Það er mjög alvarleg ásökun hjá Guðjóni Ólafi að lýsa því yfir í sjónvarpi allra landsmanna, að Björn Ingi hafi rekið heilt hnífasett í bakið á sér.  Hann er í raun og veru að segja að Björn Ingi hafi verið að reyna að drepa sig og við því liggur þungur fangelsisdómur.  Þótt Guðjón Ólafur hafi sennilega verið að meina allt annað voru þetta samt hans orð, sem hann hefur ekki dregið dregið til baka.  Fleiri álíka dæmi mætti nefna um álíka misnotkun á íslensku máli, sem auðvelt er að misskilja.  Ég veit ekki hvaða hugsun liggur þarna á bak við.  Eru menn að reyna að vera eitthvað gáfulegri með svona tali eða eru þeir að fela heimsku sína.  Ekki veit ég það en hvet íslenska stjórnmálamenn að vanda betur orðaval sitt svo hægt sé með augljósum hætti að skilja hvað þeir eru að meina, nógu erfitt er það nú samt í öllum þeim orðaflaumi sem getur oltið út úr þessu fólki, þótt þeir séu ekki að gera sér leik að því að rugla fólk meira en gert er og er nú ansi margt skrýtið sem er sagt.  Í sumum tilefnum eru um að ræða hrein mismæli sem alla getur hent.   Eins og þegar Guðni Ágústsson sagði að stað konunnar væri á bak við eldavélina og þegar Halldór Blöndal sem þá var forseti Alþingis og var að kynna næsta ræðumann í ræðustól og var þar um að ræða Ástu Ragnheiði Jóhannsdóttur en Halldór ruglaðist og sagði Ragnheiður Ásta og svo Ásta Ragnheiður og aftur Ragnheiður Ásta, en fékk að lokum aðstoð við að koma þessu rétt út úr sér. 

Furðuleg fiskveiðstjórnun

Í janúar 2000 fóru þrír bátar á sjó frá Bíldudal og allir með línu.  Tveir voru í aflamarkskerfinu (Stóra kerfinu) en einn var í krókaaflamarkskerfinu (Litla kerfinu)  Annar bátanna í Stóra kerfinu átti aflaheimildir, en hinir tveir voru kvótalausir.  Ég og sonur minn vorum á minnsta bátnum sem var sex tonn að stærð sem við vorum með á leigu en þurftum að leigja veiðiheimildir af eiganda bátsins.  Hinir bátarnir voru 30 tonn og 27 tonn að stærð.   Allir bátarnir voru með svipað langa línu og lögðum við allir á svipuðu svæði og veiddum þorsk.  Þegar í land var komið var afli nokkuð jafn hjá bátunum og við fengum allir mjög svipað verð fyrir þorskinn sem fór á fiskmarkað.  Þegar þessi veiðiferð var síðan gerð upp, kom upp svolítið skrýtin staða.  Sá bátur sem hafði aflaheimildir fékk sinn fisk greiddan að fullu. Útgerð  kvótalausa aflamarksbátsins varð að sætta sig við að þurfa að greiða af sínu aflaverðmæti kr. 150,- fyrir hvert kíló í leigu, en við á krókaaflamarksbátnum urðum að greiða kr. 60,- fyrir hvert kíló.  Nánast sami útgerðarkostnaður var á öllum bátunum, sama verð á beitunni og sama varð að greiða fyrir beitningu, en einhver lítilsháttar munur mun hafa verið á olíu, tryggingum ofl.  Finnst fólki nokkuð skrýtið að erfitt sé að vinna í þessu kerfi og hinum venjulega sjómann sé það nánast óskiljanlegt.  Það þarf vissa sérfræðiþekkingu til að klóra sig áfram í gegnum allan þann lagabálk sem er um þetta kerfi og allan þann fjölda reglugerða sem gefnar hafa verið út til að halda því gangandi.  Enda er orðið til risavaxið bákn sem heitir Fiskistofa sem hefur það hlutverk að sjá til þess að þetta geti gengið eðlilega og yfir 100 starfsmenn með tilheyrandi bílaflota.  Þetta var í byrjun aðeins hluti af starfsemi í sjávarútvegsráðuneytinu en síðan gerð að sérstakri stofnun sem ekki átti að verða stór í sniðum, en fljótlega stækkaði þessi stofnun að hún sprengdi utan af sér húsnæðið við Ingólfsgötu í húsi Fiskifélags Íslands og er nú kominn í stóra höll í Hafnarfirði og er orðin stærri en flest ráðuneytin og heldur áfram að stækka.  Er nú svo komið að það sem átti að vera lítil ríkisstofnun með fáum starfsmönnum er orðinn einn stærst atvinnuveitandinn í Hafnarfirði og með mikil völd.  Starfsmenn fjalla um ágreinisefni og rannsaka og fella síðan sjálfir úrskurð um eigin verk og álit.  Ég hefði haldið að svona nokkuð gæti hvergi skeð nema í hinum gömlu Sovétríkjunum.  Ætlar þessi vitleysa engan enda að taka?


Borgarstjórastóll

SkopmyndSvona sér skopteiknarinn Halldór fyrir sér baráttuna um borgarstjórastólinn.  En eins og flestir vita hefur hún verið ansi skrautleg undanfarið og líti hægt að gera annað en gera bara grín að þessu öllu.  Það er sjálfsagt algjört einsdæmi að maður eins og Ólafur F. Magnússon verði borgarstjóri og aðeins studdur af 2,9% borgarbúa og er ekki einu sinni studdur af eigin samherjum.  Svo leiðir hann meirihluta sem nýtur ekki nema 25% fylgi.  Ef hægt er að kalla þetta lýðræði þá er búið að snúa algerlega við merkingu þess orðs.  Þetta er greinilega mikilmenni því að eigin sögn er 70% af stefnuskrá  þessa nýja meirihluta stefna Ólafs F. Magnússonar og að sama skapi hefur Sjálfstæðisflokkurinn ýtt til hliðar nánast öllum sínum stefnumálum í sinni valdagræðgi.  Þannig að bæði Sjálfstæðisflokkur og Ólafur F, Magnússon hafa algerlega svikið sína kjósendur og fá örugglega að finna fyrir því í næstu kosningum.  Ég hef þá trú að þessi meirihluti verði ekki langlífur og borgarfulltrúar Sjálfstæðismanna gefist upp á einræðistilburðum Vilhjálms Þ. og trúi því ekki að það unga fólk sem er á lista með Vilhjálmi og ætlar sér að vera áfram í pólitík láti bjóða sér að nær öllum þeirra stefnumálum sé kastað í ruslafötuna.  Vilhjálmi er andskotans sama því hann ætlar ekki að vera í pólitík öllu lengur.

Ný nefnd

Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, hefur skipað í samstarfsnefnd um málefni aldraðra í kjölfar flutnings málefna aldraðra frá heilbrigðisráðuneytinu til félags- og tryggingamálaráðuneytisins um áramótin. Formaður nefndarinnar er Ágúst Ólafur Ágústsson, alþingismaður.

Jæja þar kom að því að Jóhanna er aðeins að taka við sér en eitt finnst mér skrýtið að þessi nefnd á aðeins að fjalla um málefni aldraðra. 

Hvað með okkur öryrkjana á að gleyma okkur einu sinni enn?


mbl.is Nefnd skipuð um málefni aldraðra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Handbolti

Þótt ég hafi margoft viðurkennt að ég hafi ekki hundsvit á handbolta, þá virðist nú samt mín kenning sem ég hef sett fram tvisvar á þessari síðu standast algerlega.  Liðið sem slíkt skiptir engu máli, heldur eru það búningarnir.  Þegar ég settist við sjónvarpið í gær til að horfa á landsleikinn og sá að nú var liðið komið í bláu búningana var ég alveg rólegur því ég vissi að við myndum vinna.  Við höfum tapað öllum leikjunum sem við höfum spilað í rauðu búningunum en unnið þá sem við spilum í þeim bláu og nú spyr ég enn og aftur af hverju er liðið ekki alltaf í bláu búningunum?

Kvótaruglið

Með niðurskurði þorskkvótans og einstaklega þrálátum brælum frá því í haust hefur samkeppnin um hráefnið harðnað. Það kemur bæði fram á fiskmörkuðum og í beinum viðskiptum.

Þetta þarf ekki að koma neinum á óvart vegna hins mikla niðurskurðar á þorskkvóta og ástandi á eftir að versna enn meira.  Nú er komin upp sú grafalvarlega staða að okkar þorskafurðir á mörkuðum erlendis eru orðnar svo dýrar að sífellt fleiri kaupendur snúa sér að öðrum fiski og hinar mikilvægu afurðir sem sendar er út ferskar með flugi eru að víkja fyrir öðrum fiski.  Bæði er það að verið er orðið svo hátt að kauptregðu er farið að gæta og að framleiðendur hér heima eiga sífellt erfiðara með að standa við afhendingartíma.  Erlendar verslunarkeðjur sem hafa verið okkur mjög dýrmætir viðskiptavinir snúa sér nú að öðru, ekki bara að öðrum fiski heldur líka að ódýrari matvælum t.d. kjúklingum og öðru kjöti.  Nú liggur það fyrir að ekki verða leyfðar meiri þorskveiðar a.m.k. næstu þrjú ár og gæti þá orðið erfitt fyrir okkur að ná til okkar aftur þeim viðskiptum sem við erum að glata í dag.  Svokallað hillupláss í stórverslunum er mjög dýrmætt og í þessum verslunum þekkist ekki að segja við viðskiptavininn;  "Því miður þá eru þorskafurðir ekki til í dag en koma vonandi fljótlega"  þetta getur kannski gengið í verslunum hér á Íslandi en í hinni hörðu samkeppni erlendis þekkist þetta ekki.  Þegar við aukum okkar þorskveiðar aftur gæti blasað við okkur sú staða, að allt það mikla markaðsstarf sem unnið hefur verið væri glatað og við yrðum að byrja nánast upp á nýtt.  Það virðist líka vera svo að þetta ástand á okkar þorskstofni sé komið til að vera.  Við þykjumst vera að byggja upp þorskstofn með alls konar tilraunastarfsemi, við minnkum veiðar á þorski og aukum veiðar á loðnu sem er ein mikilvægasta fæða þorsksins.  Við þorum ekki að hefja hvalveiðar þótt vitað sé að hvalir éti miklu meira af þorski en við veiðum.  Því hefur verið haldið fram af sjávarútvegsráðherra að ekki sé hægt að stunda hvalveiðar fyrr en við finnum markað fyrir hvalafurðir.  Hvílíkt andskotans kjaftæði, sjávarútvegsráðherra kemur það ekkert við hvað verður gert við afurðirnar og þótt við getu ekkert selt væru hvalirnir betur geymdir dauðir á hafsbotni en syndandi um allan sjó að éta þorsk og fæðu frá þorskinum.  Dauður hvalur yrði mikið æti fyrir margar lífverur sem lifa í hafinu sem aftur myndu skapa æti fyrir þorskinn.  Nú að undanförnu hafa streymt til landsins skip sem eru ekki lengri en tæpir 29 metrar og geta því stundað veiðar nánast upp í fjöru við Suðurströndina og víðar.  Þótt þessi skip séu flokkuð sem bátar eru þetta í raun mjög öflugir togarar.  Maður bíður bara eftir fréttum að þessi skip fari að toga upp í árnar og veiða lax, þessi skip stunda algera rányrkju víða við landið og allt haustið eru þessi skip að veiða steinbít vestur af Látrabjargi einmitt á þeim tíma þegar sá fiskur er að ganga upp á grunnslóð til hrygningar.  Ekki er ástandið skárra hjá hinum svokölluðu beitningarvélabátum sem nú verða að leggja sig eftir því að veiða ýsu, þeir eru farnir að leggja línuna inná fjörðum og flóum og nánast upp í fjöru eða eins grunnt og þorandi er að fara á þessum skipum sem flest eru 300-400 tonn af stærð.  Þar sem þessi skip eru að eltast við ýsuna er mikið af smáfiski bæði ýsu og þorski og þar sem ekki má koma með þorskinn í land, því útgerðarmenn tíma auðvita ekki að eyða rándýrum veiðiheimildum sínum í smáfisk er öllum þessum smáfiski hent fyrir borð aftur og sama er einnig með smáýsuna.  Með núverandi fiskiveiðistjórnun hefur brottkast aukist gríðarlega og sennilega klárum við líka að eyðileggja ýsustofninn.  Nú er ekki lengur hægt að kenna kvótalausum skipum um brottkastið, því enginn slík skip eru gerð út lengur og ef svo er þá eru þau mjög fá, því enginn óbrjálaður maður fer að gera út skip sem þarf að leigja til sín þorskkílóið á kr. 250-260 krónur og fá síðan 200 kr. fyrir hvert kíló þegar það er selt, auk þess sem framboð á leigukvóta er nánast ekkert.  Að líkja síðan þessari rányrkju eins og við göngum um fiskimiðin og þykjast vera að byggja upp öfluga fiskistofna er slít öfugmæli að jafnvel lygnustu menn létu slíkt aldrei út úr sér.


mbl.is Baráttan um fiskinn harðnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðeins 25,9% stuðningur

Nýr meirihluti D-lista og F-lista í borgarstjórn kynntur. 25,9% Reykvíkinga styðja nýjan meirihluta borgarstjórnar, samkvæmt nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins. Stuðningur við meirihlutann er meiri meðal karla en kvenna en 34,8% karla segjast styðja hann en 16,6% kvenna. 88,5% aðspurðra tóku afstöðu til spurningarinnar. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

Miðað við þessa könnun er það ekki sterkur meirihluti sem nú er að taka við völdum í Reykjavík í dag.  Þannig að þessi meirihluti starfar í skjóli minnihluta kjósenda.  Þetta sýnir betur en margt annað nauðsyn þess að breyta lögum um sveitarstjórnarkosningar á þann veg að þegar meirihluti fellur verði að kjósa aftur.  Þessi meirihluti er því ekki fulltrúar fyrir meirihluta kjósenda og þar af leiðandi virkar ekki lýðræðið.


mbl.is 25,9% Reykvíkinga styðja nýjan meirihluta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Björn Ingi hættur

Björn Ingi Hrafnsson.   Björn Ingi Hrafnsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins í Reykjavík hefur ákveðið að óska eftir lausn frá störfum sem borgarfulltrúi í Reykjavík. Óskar Bergsson, varaborgarfulltrúi, mun taka sæti hans.

Þá hefur Guðjóni Ólafi Jónssyni tekist ætlunarverk sitt með heilt hnífasett í bakinu að hrekja Björn Inga Hrafnsson úr borgarstjórn með sínum gróusögum.  En ætli hann haldi bara ekki áfram þar til honum hefur tekist að hrekja Björn Inga úr Framsóknarflokknum.  Ég spyr nú bara hvers vegna eru menn eins og Guðjón Ólafur Jónsson yfir höfuð að taka þátt í stjórnmálum ef þeir þola alls ekki að tapa í kosningum og kenna öllum öðrum, en sjálfum sér um tapið.  Það voru kjósendur í Reykjavík sem höfnuðu Guðjóni Ólafi en ekki Björn Ingi.  Kjósendur í Reykjavík vildu ekki fá Guðjón Ólaf Jónsson inn á Alþingi enda ekkert skrýtið því maðurinn var einn sá leiðinlegasti sem sat á Alþingi á síðasta þingi og gerði ekkert af viti.  Bullaði bar einhverja steypu sem engin skildi og fáir höfðu áhuga á.


mbl.is Björn Ingi hættir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson verður aldrei borgarstóri í Reykjavík

Nú var ég að heyra frá hinum svokölluðum sexmenningum sem skipa borgarstjórnarflokk Sjálfstæðismanna í Reykjavík, að þeir vildu losna við Vilhjálm og fá í staðinn fyrsta varaborgarfulltrúa D-lista, sem er Sif Sigfúsdóttir.  Þetta mun hafa komið upp þegar fyrri meirihluti sprakk út af REI-málinu.  Mun Geir H. Haarde hafa reynt allt til að fá Ingibjörgu Sólrúnu til að skipa Vilhjálm í sendiherrastöðu en ekki tekist.  Nú munu sexmenningarnir farnir á fulla ferð aftur og finnst nú að Vilhjálmur hafi gefið alltof mikið eftir í samningum sínum við Ólaf F. Magnússon sérstaklega hvað varðar flugvallarmálið og nú er Ingibjörg tilbúin að verða við þessari ósk Geirs og mun sennilega skipa Vilhjálm sendiherra á næstu vikum eða mánuðum.  Eins sagði Friðrik Sófusson, forstjóri Landsvirkjunar í sjónvarpsviðtali sl. sunnudag að nú væri svo komið hjá sér að þau hjónin hann og Sigríður Dúna Kristmundsdóttir byggju í sitt hvoru landinu en Sigríður Dúna er sendiherra Íslands í Suður-Afríku og sagði að það gæti auðvitað ekki gengið lengi og gaf í skin að hann gæti alveg hugsað sér að láta af störfum sem forstjóri Landsvirkjunar og flytja til konu sinnar.  Þar myndi losna góður stóll fyrir Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson og þá byrjar slagurinn á milli þeirra Gísla Marteins Baldurssonar, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og Júlíusar Vífils Ingvarssonar um borgarstjórastólinn.  Ef Vilhjálmur fer úr borgarstjórn, eins og allt bendir til munu Sjálfstæðismenn gjörbreyta stefnuskrá hins nýja meirihluta, sem í raun er aðeins samningur á milli tveggja manna, þ.e. Vilhjálms og Ólafs F. Magnússonar og hætt er við að fátt af baráttumálum Ólafs verði þar á blaði eða nái fram að ganga.  Verður Ólafur því eins og náttröll í borgarstjórn og algerlega valdalaus og hætt við að í næstu kosningum muni fáir styðja F-listann a.m.k. ekki 6.722 kjósendur sem Ólafi er svo tíðrætt um þessa daganna.  Mun Ólafs því verða minnst úr borgarmálunum sem manninum er lét plata sig upp úr skónum og kom Sjálfstæðisflokknum aftur til valda í Reykjavík.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jakob Falur Kristinsson
Jakob Falur Kristinsson

Ég er fyrrverandi vélstjóri og útgerðarmaður en er nú 75% öryrki eftir slys á sjó 2003. Bjó lengst af á Bíldudal en flutti til Sandgerðis haustið 2005.  En er nú aftur fluttur á Bíldudal.  Að svo miklu leyti sem myndir á síðunni eru eftir Mats Wibe Lund, þá liggur fyrir tímabundið samþykki hans um birtingu hjá mér og þakka ég honum sérstaklega fyrir.  Mats á að sjálfsögðu hönundaréttin að öllum sínum myndum.  Vilja menn sjá fleiri myndir þá vísast á www.mats.is  Ég  var flokksbundinn í Frjálslynda flokknum og hef starfað þar, en sagði mig úr flokknum 24. apríl og gekk í Samfylkinguna.  Föðurætt mín er úr Arnarfirði og móðurættin frá Jökulfjörðum og Hornströndum og í báðum tilfellum, langt aftur í aldir.  Er ég því ekta Vestfirðingur.

Undir fyrirsögninni Færsluflokkar er flokkur sem heitir Vefurinn og ef smellt er á hann opnast síður þar sem ég er að skrifa ýmsar frásagnir.  Einnig er undir liðnum spaugilegt smá grín ofl. 

Ég leyfi öllum að skrifa athugasemdir við mín skrif.   En af gefnu tilefni hef ég ákveðið að þeir sem ekki kunna sér hófs í athugasemdum og nýta þær til persónulegra árása á mig og mína persónu, með allskonar skömmum og svívirðingum, mun ég hér eftir loka á slíka aðila.  Einnig mun ég henda út nafnlausum athugasemdum.  Því ég einn ber ábyrgð á því sem skrifað er á mína síðu.

jakobkr@internet.is     

GSM: 823-2954

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband