Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

Enn tapast störf

Nú hefur Vísir hf. í Grindavík tilkynnt að það ætli að loka fiskvinnslustöðvum sínum á Þingeyri og Húsavík í 5 mánuði í sumar og af þessum 5 mánuðum er einn sumarleyfismánuður en hina 4 verður fólkið að lifa á atvinnuleysisbótum sem eru víst um 100 þúsund á mánuði.  Í viðtölum við starfsfólkið í fréttum í gær kom fram að vissulega væri þetta slæmt en samt væri þó það jákvæða í þessu að það fengi vinnu aftur næsta haust.  Svona er nú komið fyrir atvinnumálum víða á landsbyggðinni að fólk tekur því fangandi þótt það missi vinnuna í 5 mánuði.  Hvar á höfuðborgarsvæðinu myndi fólk láta bjóða sér slíkt?  Svarið er HVERGI enda er stöðugur flótti af landsbyggðinni og þar fækkar stöðugt fólki.  Svo koma stjórnvöld og segja að efla þurfi menntun og stofna fleiri háskóla og halda námskeið fyrir atvinnulaust fólk.  Það er t.d. mikið rætt um að stofna háskóla á Ísafirði en hverju mun það bjarga.  Ég er að sjálfsögðu hlynntur því að fólk mennti sig meira.  En hvað eiga væntanlegir nemendur frá háskóla á Ísafirði að fá vinnu við sitt hæfi.  Það yrði ekki á Vestfjörðum heldur yrði þetta fólk að flytja á höfuðborgarsvæðið til að fá starf við sitt hæfi.  Hvað varðar þessi blessuð námskeið varðar þá spyr ég nú bara hvað á að kenna fólki á þessum námsskeiðum?  Þarf fólk á þessum stöðum að láta kenna sér að vera atvinnulaust.  Nei aldeilis ekki fólk víða um land er alveg þrælvant í því að vera atvinnulaust og hefur margoft þurft að sætta sig við það.  Nú liggur það fyrir að ekki verður bætt við þorskkvótann næstu 3 árin a.m.k. og ekki kæmi það mér á óvart þótt þetta 5 mánaðar sumarstopp á Þingeyri og Húsavík væri bara byrjunin á því að hætta alveg fiskvinnslu á þessum stöðum.  Ég get alveg skilið eigendur Vísis hf. þeir eru að reyna að hagræða í sínum rekstri vegna minnkandi þorskkvóta og það er ekki þeirra hlutverk að sjá til þess að næg atvinna sé á ákveðnum stöðum á landsbyggðinni.  Það er Ríkistjórn Íslands, sem hefur það hlutverk en ekki einstök fyrirtæki.  Það kæmi mér ekki á óvart að margar fréttir kæmu á næstu mánuðum þar sem verið er að tilkynna lokun fiskvinnslufyrirtækja á landsbyggðinni og allsherjar flótti fylgdi í kjölfarið á höfuðborgarsvæðið enda er talið að nú vanti um 20 þúsund íbúa á það svæði til að fylla allar þær íbúðir sem búið er að byggja og standa nú auðar og óseldar.  Þessar íbúðir eru auðvitað allar í skuld hjá bönkum og fjármálafyrirtækjum og nánast þeirra eign.  En þrátt fyrir það er ekkert lát á húsbyggingum.  Á Bíldudal er nú að fara í útboð framkvæmdir við gerð varnagarða til að verja byggðina gegn sjó- og aurflóðum og talið er að muni kosta á milli 2-3 milljarða.  En til hvers þarna er nú engin atvinna og væri nú ekki skynsamlegra að nota þessa fjármuni til að aðstoða íbúa við að flytja þangað sem atvinnu er að hafa.  Fyrir þessa upphæð væri hægt að borga hverjum íbúa 100 milljónir fyrir sínar eignir á staðnum.  Húsin og íbúðirnar mætti síðan nota sem sumarhús, því ekki er hætta á flóðum á sumrin og mikil veðursæld er á Bíldudal.  Þessi framkvæmd er rugl frá upphafi til enda.  Nú ef menn vildu heldur að þarna væri byggð, þá væri nú ekki skynsamlegra að kaupa heldur aflakvóta á staðinn fyrir þessa fjármuni svo fólkið hefði alla veganna einhverja atvinnu.   Hætta á flóðum þarna er mjög lítil og ég er þarna fæddur og uppalinn og bjó þar í 55 ár og man aldrei eftir að fallið hefði flóð nema þá í mjög smáum stíl sem ullu ekki miklum skaða.  Þessi staða sem nú er komin upp á Þingeyri og Húsavík er bara toppurinn á ísjakanum, sem vandi landsbyggðarinnar er í dag.

Utanríkismál

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra sagði á Alþingi fyrir stuttu í svar við fyrirspurn frá Kristni H. Gunnarssyni, að álit Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna um íslenska kvótakerfið væri ekkert skylt við framboð okkar til Öryggisráðs S.Þ.  Þetta væru algerlega tvö aðskilin mál.  Í Öryggistráðinu væri verið að fjalla um stríð og frið í heiminum en ekki mannréttindi.  Nú er það svo að til að komast í öryggisráð S.Þ. þarf Ísland á stuðningi fjölda þjóða að halda og hvaða augum heldur nú Ingibjörg að þær fjölmörgu þjóðir sem hugsanlega hefðu stutt okkar framboð, líti nú á Ísland ef ef við ætlum að hunsa algerlega álit Mannréttindanefndar S.Þ.  Sú þjóð sem ekki tekur fullan þátt í starfi Sameinuðu Þjóðanna og þeirra fjölmörgu nefnda sem þar starfa á ekkert erindi í Öryggisráðið.  Ingibjörg Sólrún getur haft þessa skoðun en hún breytir aldrei því hvaða augum aðrar aðildarþjóðir S.Þ. hafa.  Þau lönd sem eru að keppa við okkur um þetta sæti munu örugglega nota þetta mál gegn okkar framboði og því breytir hvorki Ingibjörg eða Ríkisstjórn Íslands.  Ef við ætlum að halda áfram að reyna að fá sæti í Öryggisráðinu verðum við fyrst að lagfæra það í okkar stjórnsýslu sem þessi nefnd gerði athugasemd við, annars erum við algerlega úr leik og getum gleymt þessu framboðsmáli.  Það verður aldrei kosin þjóð í Öryggisráð Sameinuðu Þjóðanna, sem hefur brotið mannréttindi og hunsað álit einnar nefndar þessara samtaka.  Nú verður Ingibjörg og ríkisstjórnin að vega það og meta hvorir hagsmunir eru okkur betri , að fá sæti í Öryggisráðinu eða gæta hagsmuna kvótabraskara á Íslandi.  Málið er ekki flóknara en það.

HB-Grandi

Nú hefur fyrirtækið HB-Grandi sagt upp öllu starfsfólki sínu á Akranesi frá og með 1. febrúar n.k.  Og rætt er um að hugsanlega verði um 20 endurráðnir og til standi að vinna einungis léttsöltuð lausfryst flök og loðnuhrogn á Akranesi.  Ástæðan er sögð vera hin mikla skerðing á þorskkvóta og fyrirtækið sé að bregðast við því með þessum hætti.  Það má segja að viðbrögð HB-Granda við þessari skerðingu á þorskkvóta séu búin að taka nokkur heljastökk aftur á bak til að bregðast við skerðingunni. Ekki er langt síðan að þetta fyrirtæki tilkynnti að það ætlaði að loka fiskvinnslu sinni í Reykjavík og flytja alla landvinnslu á Akranes og jafnvel byggja nýtt fiskiðjuver þar og var það útskýrt með því að svo miklu hagkvæmara væri að vera með alla vinnsluna á Akranesi og nú yrði Akranes eina fiskihöfnin innan Faxaflóahafna.  Einnig var rætt um að á Akranesi væri svo mikið af góðu og vönu fiskvinnslufólki en í Reykjavík þurfi að manna fiskvinnsluna að stórum hluta með erlendu starfsfólki.  HB-Grandi er það fyrirtæki sem hefur yfir að ráða mestu aflaheimildum fyrirtækja á landinu og ætti því að vera betur undirbúin að taka á sig þessa þorskskerðingu en flest öll önnur fyrirtæki í sjávarútvegi.  Nú er það svo að þetta eru ekki einu uppsagnirnar sem hafa verið að koma fram í fréttum undanfarna mánuði og eru það örugglega nokkur hundruð manns sem nú þegar eru búin að missa atvinnuna í nafni hagræðingar og á eftir að fjölga á næstunni.  Ég er hræddur um að þessar skipulagsbreytingar og hagræðing HB-Granda á Akranesi sé aðeins byrjunin á því ferli að hætta algerlega fiskvinnslu á Akranesi.  HB-Grandi er búinn að mjólka það sem hægt er úr hinu gamla fyrirtæki á Akranesi, hirða þaðan öll fiskiskipin og veiðiheimildir og er þá bara nokkuð eftir nema að loka.  Það ósanngjarna í allri þessari hagræðingu er það að starfsfólkið virðist ekki eiga neinn rétt, því er nánast hent út eins og einhverju ónýtu drasli sem ekki er þörf fyrir lengur.  Og ríkisstjórnin gerir ekki eitt né neitt þótt að fólk sé í hundraða tali að missa sína atvinnu víða um land.  Það er vissulega mikil eftirsjá í þessu fyrirtæki á Akranesi sem stofnað var 1904 af hinum mikla athafnamanni Haraldi Böðvarssyni og var lengi vel leiðandi fyrirtæki í sjávarútvegi á Íslandi.  En svona er víst "Ísland í dag."

Stuðningur við Ólaf F. Magnússon

Félag ungra frjálslyndra lýsir yfir algerum stuðning við Ólaf F. Magnússon, borgarfulltrúa F-listans og segist fagna því að grundvallarmálefni Frjálslynda flokksins séu nú að fá brautargengi í Reykjavík.

Mér finnst þessi ályktun alveg stórfurðulegt að ákveðið félag í stjórnmálaflokki álykti um stuðning við mann sem ekki er í viðkomandi flokki.  Ólafur bauð sig auðvitað fram í nafni Frjálslynda flokksins en er fyrir löngu búinn að segja sig úr flokknum og getur því aldrei verið fulltrúi hans enda segir hann sjálfur að hann sé í borgarstjórn sem óháður borgarfulltrúi.


mbl.is Lýsa stuðningi við Ólaf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ný meirihluti

Ingibjörg Sólrún Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, segist telja það mikið óheillaspor þær breytingar sem kynntar voru á meirihlutasamstarfinu í borginni í gær. Í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins segist hún telja nýjan meirihluta óstarfhæfan og hún hafi ekki trú á því að þetta samstarf muni lifa út kjörtímabilið.

Ætli þetta eigi nú ekki líka eftir að hafa áhrif á ríkisstjórnarsamstarfið og sennilegt að það samstarf lifi ekki heldur úr kjörtímabilið.


mbl.is Ingibjörg Sólrún: telur nýjan meirihluta óstarfhæfan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hlutabréfamarkaðurinn

Hang-Seng-vísitalan í Hong Kong í dag.Fjárfestar um allan heim bíða nú milli vonar og ótta eftir opnun verðbréfamarkaðarins á Wall Street, en hann var lokaður í gær. Mikið verðfall á öllum mörkuðum sem þegar hafa verið opnaðir í dag sýnir að búist er við hinu versta. Fjárfestar óttast efnahagssamdrátt í Bandaríkjunum, en mótvægisaðgerðir stjórnvalda þar við niðursveiflu á markaðinum ollu vonbrigðum.

Ekki snertir það mig á nokkur hátt hvort hlutabréf séu að falla í verði.  Þeir sem eru að taka þátt í þessu lottói verða einfaldlega að sætta sig við að verð hlutabréfa fer bæði upp og niður.  Það er ekki alltaf hægt að græða það verður líka að sætta sig við tap líka.


mbl.is Fjárfestar milli vonar og ótta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt er falt ef vel er boðið

Nú hefur meirihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur fallið og nýr er að taka við.  Ansi er ég nú hræddur um að þessi nýji meirihluti verði ekki lengi við völd.  Þetta er mjög einkennileg staða sem komin er upp í borgarstjórn og leikfléttan kringum þetta nær óskiljanleg.  Verst er að Bobby Fisher er fallinn frá, því hann hefði örugglega geta lesið í þessa stöðu og spáð fyrir hvernig úr muni spilast.  Þessi meirihluti hangir á einum manni Ólafi F. Magnússyni frá F-lista sem nýstaðin er upp úr erfiðum veikindum.  F-listinn var borinn fram í Reykjavík í nafni Frjálslyndaflokksins en nú er sú furðulega staða uppi að efstu menn F-lista hafa sagt sig úr þeim flokki og teljast vera óháðir.  Það liggur fyrir að Margrét Sverrisdóttir sem er varamaður Ólafs ætlar ekki að styðja þennan nýja meirihluta og hún ætlar ekki heldur að gefa eftir sæti sitt sem varamaður Ólafs.  Þannig að ef Ólafur af einhverjum ástæðum getur ekki mætt á borgarstjórnarfund og Margrét kemur inn í hans stað þá er þessi nýi meirihluti fallinn.  Þótt Ólafur hamri á því að hann trúi ekki öðru en að Margrét Sverrisdóttir muni fylgja sér í þessu nýja meirihlutasamstarfi, þá er það Margrét ein sem ræður því og hún er búinn að lýsa því yfir að hún muni ekki styðja þennan meirihluta og því breytir Ólafur ekki.  En hvað skyldi nú hafa valdið þessum vistaskiptum hjá Ólafi Magnússyni.  Í Kastljósi í sjónvarpinu í gær tuðaði hann um að stefnumál F-listans hefðu ekki fengið hljómgrunn hjá fyrri meirihluta en nú væri kominn skriflegur málefnasamningur sem tryggði jafnræði á stefnum beggja flokka og áhrif F-listans á nýja stefnu væru mikil. En það er ekki nóg að hafa skriflega stefnuskrá, það verður þá að fara eftir þeirri stefnuskrá.  Og eitt fannst mér skrýtið að eitt af þeim atriðum sem lesin voru upp á blaðamanna fundinum, en það var að bæta kjör eldri borgara og öryrkja.  Ég veit ekki betur en sá málaflokkur sé alfarið hjá ríkinu og Reykjavíkurborg ráði þar engu og ef öll stefnuskráin er í líkingu við þetta, þá er hún bara bull frá upphafi til enda.  Mér er alveg sama hvernig Ólafur reynir að réttlæta sínar gjörðir nú, ástæðan er svo augljós.  Það er borgarstjórastólinn og ekkert annað þegar sjálfstæðismenn buðu Ólafi að vera borgarstjóri var freistingin svo mikil að hann stóðst það ekki.  Eftir síðustu kosningar voru sjálfstæðismenn í viðræðum við þennan sama Ólaf, en líkaði ekki hans stefna og slitu þeim viðræðum og fór í samvinnu við Björn Inga Hrafnsson þegar sá meirihluti tók við völdum sagði Ólafur að sjálfstæðismenn hefðu rekið hníf í bakið á sér.  Það mætti ætla að flestir borgarfulltrúar gengju um með hnífasett á sér því Ólafur sagði á sínum tíma að sjálfstæðismenn hefðu rekið hníf í bakið á sér eftir kosningar.  Rætt var um að þegar REI-málið kom upp að borgarfulltrúar sjálfstæðismanna hefðu rekið hníf í bakið á sínum foringja Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni og þegar Björn Ingi sleit meirihlutanum og þá var sagt að hann hefði rekið hnífa í bakið á sjálfstæðismönnum.  Ekki skil ég hvaða blessun er að ekki skuli einhverjir liggja í valnum eftir allar þessar hnífsstungur.  Kannski hefur það bjargað málunum að tveir læknar eru í borgarstjórn, þeir Dagur B. Eggertsson og Ólafur F. Magnússon.  Það hefur verið sagt að þessi vistaskipti Ólafs F. Magnússonar séu alveg hliðstæð og þegar Björn Ingi sleit samstarfi við sjálfstæðismenn, en á því er mikill munur.  Björn Ingi tók sína ákvörðun í samráði við sína stuðningsmenn og þá sem voru með honum á B-listanum og fékk þar umboð til að mynda nýjan meirihluta.  En Ólafur tók sína ákvörðun einn og óstuddur og ræddi ekki einu sinni við sinn nánast samstarfsmann, Margréti Sverrisdóttur, sem gagnrýnir Ólaf nú mikið.  Þetta er að verða ein hringavitleysa hjá borginni.  Ef  Margrét kemur inn sem varamaður þá er þessi meirihluti fallin og hinn fyrri tekur við og þegar Ólafur kemur aftur fellur vinstri meirihlutinn við tekur sá sem nú er að taka við.  Svona getur þetta gengið hring eftir hring það sem eftir er af þessu kjörtímabili.  Nú þegar hafa verið þrír borgarstjórar það sem af er þessu kjördæmi og nokkuð öruggt að þeir verða a.n.k. fjórir þegar Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson tekur síðan  við af Ólafi eftir tvö ár, en ef hitt skeður að meirihlutar fara að falla til skiptist þá mun fjöldi borgarstjóra á núverandi kjörtímabili slá öll met.  Mikill kostnaður hlýst af þessu fyrir borgina því hver borgarstjóri fær greidd laun borgarstjóra í einhver tíma eftir að hann lætur af embætti. Hinsvegar tel ég að Vilhjálmur verði aldrei borgarstjóri aftur, því þegar kemur að þeim tíma að sjálfstæðismenn fái borgarstjórastólinn þá munu hinir frægu sexmenningar draga upp hnífana og reka Vilhjálm í bakið því það var á sínum tíma ætlun þeirra að koma Vilhjálmi úr borgarstjórastólnum og kæmi það ekki á óvart að þau Hanna Birna og Gísli Marteinn ætluðu sér þetta sæti og munu örugglega berjast fyrir því með kjafti og klóm.

Annars finnst mér að fulltrúar þeirra flokka sem kosnir eru í borgarstjórn eigi ekki að geta farið í meirihlutasamstarf nema að miðstjórn viðkomandi flokks samþykkti það.  Eins er athugandi hvort ekki væri rétt að breyta sveitarstjórnarlögunum þannig að þegar meirihluti fellur hvort sem er í borg eða bæjum, þá ætti að kjósa aftur, líkt og þekkist á Alþingi.


Aflakvótar

Á sínum tíma þegar byrjað var að leyfa veiðar úr íslenska síldarstofninum, var eingöngu leifðar veiðar með reknet.  Veiðarnar voru nær alfarið stundaðar frá Hornafirði og fljótlega var settur aflakvóti á þessar veiðar og var þá miðað við veiðireynslu síðustu þriggja ára og ekki löngu seinna var einnig settur kvóti á loðnuveiðar og búin til ansi furðuleg regla, sem var þannig að hluti af heildaraflanum var skipt eftir veiðireynslu og hinum hlutanum skipt eftir burðargetu skipa, sem þýddi auðvitað að burðamestu skipin fengu mest.  Við báðar þessar kvótasetningar voru engar heimildir í lögum, heldur gaf sjávarútvegsráðuneytið út reglugerð um þetta án þess að Alþingi hefði neitt um það að segja. 1984 er svo hið umdeildakvótakerfi sett á í eitt ár til reynslu og er síðan fest varanlega í sessi 1991 og þá fyrst var aflakvóti á loðnu og síld orðinn löglegur.  Má það furðu sæta að enginn skyldi fara í mál á sínum tíma hvað varðaði loðnu- og síldveiðar.  Nú hafa nær allir þessir aflakvótar bæði í síld og loðnu skipt um handhafa þessarar heimilda og er nú svo komið að aðeins stærstu skip okkar stunda þessar veiðar.  Eitt er líka furðulegt að eitt árið var sett á loðnuveiði bann og til að bæta þeim skipum sem þær veiðar höfðu stundað upp tekjutap var þeim úthlutað sérstökum viðbótarkvóta í bolfiski og rækju og þegar loðnuveiðar voru leyfðar aftur var ekki gerð krafa um að þær útgerðir sem fengu þessa sérstöku úthlutun, yrðu að skila því aftur.  Nei þeim var heimilt að leigja þær frá sér eða selja og enn í dag eru sum þessara skipa með þessar veiðiheimildir og þar sem þau af eðlilegum ástæðum hafa ekki tök á að nýta sér þær eru þær í flestum tilfellum leigðar á önnur skip.  Nú má spyrja að því fyrst að fyrsta úthlutun á síldar og loðnukvótum voru ekki löglegar, hvort ekki þurfi að endurskoða þær.  Því nokkuð er ljóst að það var vitlaust gefið í upphafi.  Ég er eiginlega mjög hissa á að enginn virðist ætla að mótmæla þessu.


Hvíta-Rússland

Samband ungra sjálfstæðismanna tók í dag þátt í mótmælum Democratic Youth Community of Europe (DEMYC) og sendi sendiherrum Hvíta-Rússlands í Stokkhólmi og Lundúnum bréf, þar sem tilefnislausum handtökum 10 nafngreindra einstaklinga er harðlega mótmælt.

Ætla nú ungir sjálfstæðismenn að fara að segja mönnum fyrir verkum í Hvíta-Rússlandi.  Af hverju mótmæltu þessir menn ekki þegar verið var að handtaka fólk hér á Íslandi, þegar verið var að mótmæla stóriðju og virkjunarframkvæmdum, þá heyrðist ekki orð frá þessum mönnum og ætti það nú að standa þeim nær.  Er kannski allt í lagi að handtaka þá sem mótmæla hér á landi en ekki í öðrum löndum.  Þetta skiptir heldur engu máli því það tekur enginn mark lengur á ályktunum frá SUS.


mbl.is SUS mótmælir handtökum í Hvíta-Rússlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minningargrein

Britney SpearsBandaríska fréttastofan Associated Press er tilbúin með minningargrein um Britneyju Spears, þótt stúlkan sé ekki nema 26 ára, og mun Britney ekki vera eina stjarnan undir þrítugu sem fréttastofan hefur þegar skrifað minningargrein um til að geta birt án tafar ef allt fer á versta veg.

Já allur er varinn góður, þótt ég heldi að þótt þessi kona dytti dauð niður nú í dag væri engin hætta á að þessi furðulega söngkona væri um leið gleymd og grafin.  En kannski vill hún að hennar minningargrein verði eitthvað fegruð til og um leið mokað yfir alla þá vitleysu sem hún hefur gert um ævina.


mbl.is Minningargreinin um Britney tilbúin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jakob Falur Kristinsson
Jakob Falur Kristinsson

Ég er fyrrverandi vélstjóri og útgerðarmaður en er nú 75% öryrki eftir slys á sjó 2003. Bjó lengst af á Bíldudal en flutti til Sandgerðis haustið 2005.  En er nú aftur fluttur á Bíldudal.  Að svo miklu leyti sem myndir á síðunni eru eftir Mats Wibe Lund, þá liggur fyrir tímabundið samþykki hans um birtingu hjá mér og þakka ég honum sérstaklega fyrir.  Mats á að sjálfsögðu hönundaréttin að öllum sínum myndum.  Vilja menn sjá fleiri myndir þá vísast á www.mats.is  Ég  var flokksbundinn í Frjálslynda flokknum og hef starfað þar, en sagði mig úr flokknum 24. apríl og gekk í Samfylkinguna.  Föðurætt mín er úr Arnarfirði og móðurættin frá Jökulfjörðum og Hornströndum og í báðum tilfellum, langt aftur í aldir.  Er ég því ekta Vestfirðingur.

Undir fyrirsögninni Færsluflokkar er flokkur sem heitir Vefurinn og ef smellt er á hann opnast síður þar sem ég er að skrifa ýmsar frásagnir.  Einnig er undir liðnum spaugilegt smá grín ofl. 

Ég leyfi öllum að skrifa athugasemdir við mín skrif.   En af gefnu tilefni hef ég ákveðið að þeir sem ekki kunna sér hófs í athugasemdum og nýta þær til persónulegra árása á mig og mína persónu, með allskonar skömmum og svívirðingum, mun ég hér eftir loka á slíka aðila.  Einnig mun ég henda út nafnlausum athugasemdum.  Því ég einn ber ábyrgð á því sem skrifað er á mína síðu.

jakobkr@internet.is     

GSM: 823-2954

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband