Færsluflokkur: Spaugilegt

Að henda engu

Ég skrifaði hér í gær um einbýlishús sem ég byggði á Bíldudal 1975 og þar kom fram að við húsið var bílsskúr.  Fyrstu þrjú börnin mín eru fædd 1970, 1973 og 1976, fyrst  tveir synir og ein dóttir.  Síðasta barnið mitt fæddist ekki fyrr en 1992 og var það stúlka.  Það vita allir að öllum börnum fylgir talsvert dót, það eru leikföng síðan bækur og svo vaxa börnin stöðugt sem kallar alltaf á ný föt, nýja skó, ný stígvél ofl.  Auk þess sem foreldrar eignast talsvert af óþarfa dóti og þeir eins og börnin endurnýja bæði föt sín og skó.  Eftir því sem árin liðu í þessu nýja húsi mínu fóru allir skápar í herbergjunum að fyllast og við hjónin tókum nokkuð reglulega til og pökkuðum niður í kassa því sem ekki var notað.  Ekki kom til greina að kasta þessum hlutum því þeir voru allir heilir og var ég mun haldsamari á það en eiginkonan.  Að henda heilum hlutum fannst mér hreint og klárt bruðl og betra væri þá að gefa þetta öðrum, ekki reyndist það svo auðvelt því víða var sama ástand á heimilum okkar kunningja.  Þegar allir kassarnir voru við það að fylla barnaherbergin og börnin vildu losna við þetta var næsta skref að setja þetta í geymsluna sem var í íbúðinni.  Þegar síðan kom að því að geymslan fylltist tók við næsti áfangi sem var að tæma geymsluna og flytja allt út í bílskúrinn, sem þýddi auðvitað að þá var ekki pláss fyrir bílinn þar inni.  Ég gerði stundum heiðarlega tilraunir til að hreinsa til í bílskúrnum og fór og ætlaði að flokk í sundur hverju ætti að hend og hvað ætti að geyma, en alltaf fór þetta á sama veginn eftir því sem ég skoðaði meira þá stækkaði haugurinn sem ég ætlaði að geyma og litlu var hent og það pláss sem losnaði svona að rétt dugði til að getað losað geymsluna í íbúðinni á hverjum tíma.  Þetta virtist ætla að verða óleysanlegt vandamál og konan mín greip til þess ráðs að pakka fötum sem enginn var að nota og sendi til Rauða krossins en ekki leysti það nú vandamálið nema að litlum hluta.  Þegar synir mínir tveir voru orðnir fullorðnir fékk ég þá til að koma með mér í bílskúrinn og hjálpa mér að flokka allt draslið og gaf ég ströng fyrirmæli um að sem mestu yrði hent.  Þá kom í ljós að þeir höfðu greinilega erft það frá föður sínum að henda ekki heilum hlutum og þarna var ógrynni af barnabókunum, leikföngum ofl.  Og þegar þeir voru að skoða þær komu alltaf upp minningar og ákveðið að geyma viðkomandi hlut og alltaf gaf ég eftir.  Svona gekk þetta í nokkur ár að losað var úr bílskúrnum í eina kerru sem dugði til að tæma geymsluna sem fylltist síðan fljótt aftur.  Eftir að ég var kominn með eigin útgerð hafði ég aðgang að pallbíl og eina helgina var ákveðið að nú skyldi heldur betur hreinsað til og ekkert farið út í að skoða eitt né neitt heldur öllu hent.  Þá var eldri sonur minn fluttur að heiman en hinn bjó enn heima og til að þetta gengi nú nokkuð vel fékk ég föður minn okkur til aðstoðar.  Ekki man ég hvað farnar voru margar ferðir á pallbílnum en þær voru nokkuð margar og minnkaði haugurinn í bílskúrnum nokkuð fljótt.  Eitt af því síðasta sem við tókum út var frystikistan sem geymdi hinn dýrmæta lax og ætluðum við að skoða í hana og athuga hvort fiskurinn væri ekki orðinn ónýtur og opnuðum lokið og þá gaus upp hrikaleg ólykt og vorum við fljótir að loka henni aftur og sá ég þá á veggnum að öryggið var slegið út og var greinilegt að það hafði skeð nokkrum árum áður þvílík var lyktin svo að ekki var um annað að ræða en koma henni á pallbílinn líka og var þetta síðasta ferðin á haugana.  Þannig háttaði til á þessum haugum að hægt var að bakka upp á brúnina og hafa aðeins halla á bílnum til að auðvelda losun á honum.  Ég og sonur minn voru á bílpallinum og ýttum draslinu niður en pabbi stóð aðeins neðar og velti því lengra sem ekki fór nógu langt.  Ég ætla að taka það fram að faðir minn var ekki klígjugarn maður og hafði ég aldrei séð hann æla, en þegar frystikistan kom fljúgandi framhjá honum og skall á einhverju hörðu opnaðist hún og allt gumsið slettist út um allt.  Ég heyrði að faðir minn rak upp vein og kom hlaupandi að bílnum og stóð þar og ældi og ældi og að lokum stundi hann upp "Hvaða andskotans viðbjóð varstu með í þessari frystikistu drengur?  ég er nú um dagana búinn að losa stíflur úr mörgum klósettum og unnið margt óþrifalegt, en aldrei á ævinni hef ég orðið vitni að öðrum eins djöfulsins viðbjóði."  Eftir þetta fórum við heim og þrifum bílskúrinn og fórum síðan í kaffi en pabbi ætlað ekki að klára að getað drukkið kaffið án þess að hann væri við það að æla bara við tilhugsunina eina um frystikistuna.  Hann kvaddi mig síðan með þeim orðum að það væri sjálfsagt að aðstoða mig aftur við hvað sem væri svo framarlega að ekki leyndist aftur svona andskotans viðbjóður í mínu dóti sem þyfti að henda.

Handfæraveiðar

1975 var ég háseti á handfærabátnum Fjólu BA-150 frá Bíldudal vorum við þrír um borð og skipstjóri var Guðmundur Þ. Ásgeirsson sem daglega var kallaður Dubbi.  Við fórum eitt sinn snemma morguns frá Bíldudal og sigldum síðan um 20 mílur NV frá Kóp.  Þar var stoppað og færin látinn fara og lentum við strax í mokveiði af stórufsa og drógum þarna á um tveimur klukkutímum um 2 tonn.  Dubbi dansaði um dekkið af ánægju og í eitt skiptið kastaði hann sér í fiskikösina og tók einn ufsann í fangið og hrópaði upp; "Mikið vildi ég að þetta væru allt konur."  Ég hugsaði með mér í hverjum andskotanum er ég nú lendur, þetta er greinilega kolbrjálaður maður.  Þegar við höfðum gert að aflanum og ísað hann í lest bátsins, sagði Dubbi að nú ætlaði hann niður og laga kaffi og hann myndi kalla á okkur þegar það væri tilbúið.  Skömmu seinna kom hann upp og skipaði okkur að taka færin inn, þegar því var lokið var sett á fulla ferð og þótt ég spyrði Dubba hvert hann væri að fara og af hverju hann keyrði úr svona góðum afla, fékk ég enginn svör, nema að það hefði komið talsvert alvarlegt fyrir og ég skyldi bara fara í koju því þetta yrði 3 4 tíma stím.  Ég leit aðeins á sjókortið sem lá á kortaborðinu og gat ekki betur séð en miðað við stefnu bátsins og áætlaðan siglingartíma værum við á leið út í Víkurál en fór síðan niður og í koju.  Ég heyrði að Dubbi var stöðugt í talstöðinni og eina sem mér datt í hug að einhver bátur væri í miklum vandræðum en sem samt var frekar ótrúlegt því Dubbi var alltaf að reka upp tröllahlátur af og til.  Ég náði nú samt að sofna.  Síðan er ég vakinn upp við mikið öskur frá Dubba, sem skipar mér að koma upp, þegar ég kem upp og lít út um glugga stýrishússins sé ég lítið því komin var talsverð þoka.  Dubbi segir mér að fara í sjógallann og vera tilbúinn að hlaupa fram á stefni þegar á þurfi að halda var nú slegið af ferð bátsins og Dubbi var stöðugt að horfa á radarinn en ég út um gluggann og allt í einu sé ég skip sem virtist vera mjög stórt að sjá í þokunni.  Ég heyri að Dubbi segir í talstöðina "Ég ætla að renna meðfram síðunni hjá ykkur og það verður maður fram á og kastið þið bara pokanum yfir og segir síðan við mig jæja farðu nú fram á stefni og vertu tilbúinn að grípa það sem þeir kasta yfir til okkar.  Ég fór fram í stefni bátsins og eftir því sem við komum nær sá ég að þetta skip var Tungufell BA-326 frá Tálknafirði, sem var þarna á línuveiðum.  Við renndum meðfram bb- hlið Tungufells og allt í einu kemur poki fljúgandi yfir, sem ég næ að grípa og færði Dubba sem var heldur betur ánægður.  Ég spurði hvað þetta væri svona mikilvægt og þá reif hann pokann í sundur og við blasti mjólkurferna og þá bætti hann við að þegar hann hefði verið búinn að laga kaffið áðan hefði hann hvergi fundið mjólk og því ekkert annað að gera en fá hana lánaða.  Nú var bátnum snúið við og sett á fulla ferð til baka en reyndar farið aðeins vestar og dýpra og færin látinn fara og aftur lentum við í góðum afla og fengum við rúm þrjú tonn af góðum þorski það sem eftir var dagsins.  Um miðnætti hættum við og gengum frá aflanum og fórum í kaffi og notuðum mjólkina góðu og fórum síðan allir að sofa.  Um morguninn þegar við vöknum er komin leiðinda bræla og um hádegi vorum við aðeins búnir að fá nokkur hundruð kíló og þá sagði Dubbi að þetta væri vonlaust og hundleiðinlegt í svona veðri og hann ætlaði bara að fara í land og hugsa um sína konu í heitu rúmi í stað þess að standa við færi í skítaveðri.  Var þá farið til Bíldudals þar sem við lönduðum rúmum 5 tonnum af þorski og ufsa.  Þegar Dubbi kom síðan með virktarnótuna til að sína okkur sagði ég við hann við fengum nú aðeins meira en þetta.  Hann horfði undrandi á mig og spurði hvað, lönduðuð þið ekki öllu úr lestinni?  Jú, jú sagði ég en þú gleymir að bæta mjólkurfernunni við.  Hann horfði á mig og steytti hnefann og sagði steinhaltu kjafti helvítis fíflið þitt.

Jón Kristófer Kadett

Jón Kristófer Kadett var mikill heiðursmaður og varð ég þess heiðurs aðnjótandi að kynnast aðeins þessum manni.  Það var á þeim árum sem ég bjó á Patreksfirði og annaðist bókhald og fjármál fyrir skipið Jón Þórðarson BA-180 (þann eldri), að Jón Kristófer kom þar um borð sem matsveinn.  Ég hafði heyrt margar skemmtilegar sögur af þessum manni og taldi að þarna væri nú á ferðinni einn furðufuglinn í viðbót og yrði til vandræða en það var öðru nær.  Á þessum tíma var greidd kauptrygging vikulega en svo lokauppgjör í lok hvers úthalds.  Ekki var greitt beint inná bankareikninga hjá mönnum því fæstir vildu slíkt og var því alltaf borgað með ávísunum á hverjum föstudegi.  Þeir sem voru giftir fengu eiginkonur sínar til að sækja þetta til mín, en aðrir fengu vini eða kunningja, nema Jón Kristófer Kadett, hann vildi fá greitt í peningum og varð ég því að fara alltaf í bankann til að fá peninga fyrir Jón Kristófer, sem hann sótti síðan heim til mín þegar helgarfrí var.  Alltaf mætti Jón Kristófer á mitt heimili spariklæddur til að sækja sín laun og bauð ég honum yfirleitt í kaffi, því mér þótti gaman að spjalla við karlinn og hlusta á nokkrar sögur.   Á þessum tíma áttum við hjónin orðið aðeins elsta son okkar sem heitir Gunnar.  Eftir kaffið og gott spjall kvaddi Jón Kristófer okkur alltaf á sama hátt.  Hann stillti sér upp í eldhúsinu og bað Guð að blessa þetta heimili, tók son okkar upp og bað Guð að blessa hann, kyssti konuna mína og mig og bað Guð að blessa okkur bæði.   Þegar leið á vertíðina og ég sá að talsverður aflahlutur yrði og kæmu því flesti til með að eiga talsverðar inneign í vertíðarlok og fór ég þá að greiða flestum talsvert meira í hverri viku en sem nam kauptryggingu.  Allir tóku þessu auðvitað fagnandi nema Jón Kristófer, hann vildi ekki nema rétta kauptryggingu annað væri brot á kjarasamningum.  Af launagreiðslum þurfti oft að draga frá kröfur um ógreidda skatta og meðlög, því þetta var áður en staðgreiðsla skatta kom til.  Flestir sem í því lentu kvörtuðu og kvörtuðu.  En ekki Jón Kristófer, ég spurði hann eitt sinn út í þetta og sagði hann þá:  "Ég greiði með ánægju það sem keisaranum ber, annars væri ég ekki hamingjusamur maður."  Svona gekk þetta allan tímann sem hann var matsveinn á Jóni Þórðarsyni BA-180.  Karlinn hafði siglt út um allan heim og hafði frá mörgu að segja.  Nafnbótina Kadett hafði hann hlotið vegna starfa sinna í Hjálpræðishernum og hélt henni ætíð síðan.  Hann hafði verið á sínum tíma talsvert háður Bakkusi en var hættur öllu slíku þegar hann var á Patreksfirði og sagði mér að hann hefði sinn Guð til að trúa á og Bakkus hefði verið farinn að ráð of miklu í hans lífi og væru þeir nú skildir að skiptum.  Mér þótti vænt um þegar hann í lok einnar heimsóknar sinnar, en þá var hann að fara frá Patreksfirði, tilkynnti okkur að við værum einu vinirnir sem hann hefði eignast á Patreksfirði meðan hann hefði dvalið þar og sagðist ætla að biðja fyrir okkur við hvert tækifæri.  Ég ætla að láta fara hér á eftir tvær sögur sem hann sagði mér og vona að hann fyrirgefi mér það þar sem hann er núna staddur en hann er löngu látinn:

Jón Kristófer Kadett var alla tíð mjög glysgjarn og hafði mikla ánægju af að ganga um í hinum ýmsu einkenninesbúningum.  Hann átti marga vini sem höfðu verið skipstjórar á millilandaskipum, sem gáfu honum gamla einkennisbúninga.  Eitt sinn er hann á gangi við Reykjavíkurhöfn og sér að stór skúta er á leið til hafnar.  Hann flýtti sér út á Ingólfsgarð, þar sem varðskipin liggja oft núna.  Þar stillti hann sér upp í sínu júníformi og um leið og skútan renndi framhjá heilsaði hann að hermannasið og kallaði hátt og skýrt"La falllllllllllle"."  Um leið og skipverjar heyrðu þetta voru bæði akkeri skútunnar látin falla og stoppaði hún þarna í hafnarmynninu og eftir að hann hafði skoðað skútuna vel veifaði hann til skipverja og kallaði "Hífoppp" og gekk síðan brosandi til baka.  Skútan lenti hinsvegar í hinu mesta basli og varð að fá aðstoð frá dráttarbát til að komast að bryggju.

Eitt sinn var Jón Kristófer Kadett á Vífilstöðum af ástæðum sem mér eru ekki kunnar, en í herbergi með honum var gamall maður sem var mikið veikur.  Gamli maðurinn safnaði öllum smápeningum í krukku og var kominn þó nokkuð í krukkuna, Jón Kristófer Kadett sem oft var blankur, fór nú að spyrja gamla manninn hvað hann ætlaði að gera við krukkuna þegar hann félli frá, því varla færi hann að taka hana með sér í gröfina, því í himnaríki þyrfti hann enga peninga þar væri allt frítt.  Sá gamli hugsaði sig lengi um og sagði síðan við Jón, "Þegar ég dey þá mátt þú eiga þessa krukku og allt sem í henni verður þá."  Þar sem Jón Kristófer var ekki mikið veikur fékk hann oft leyfi til að skreppa til Reykjavíkur og á þeim tíma var starfrækt leigubílastöð Steindórs og þar var hann tíður gestur og fékk kaffi hjá bílstjórunum og sagði þeim sögur.  Bílstjórarnir höfðu svo gaman af þessum heimsóknum Jóns að þeir óku honum oft um bæinn án nokkurrar greiðslu og einnig mjög oft á Vífilstaði.  Einn morguninn þegar Jón Kristófer vaknar er herbergisfélagi hans orðinn mjög veikur og spurning hvað hann myndi lifa lengi.  Að vanda ætlaði Jón að bregða sér til Reykjavíkur en aðgætti þó fyrst hvort krukkan góða væri ekki á sínum stað og var hún þá á náttborði mannsins og orðin nærri full.  Jón fór á Bifreiðarstöð Steindórs og eftir góða stund þar ákveður hann að hringja á Vífilstaði til að fá fréttir af herbergisfélaganum og var honum þá sagt að hann hefði látist um morguninn.  Jón fékk nú einn bílstjórann til að aka sér í einum hvelli á Vífilstaði sem var gert og er Jón kom þangað æddi hann inn í herbergið og sá að krukkan góða var farinn af náttborðinu, en greinilegt var að maður lá í rúminu.  Jón ætlaði ekki að tapa þessum aurum og fór að leita um allt herbergið og í því rís maðurinn í rúminu upp og spyr hvað gangi á?  Jón gaf sér ekki tíma til að virða manninn vel fyrir sér heldur æddi að rúminu og hristi manninn duglega til og hrópaði "Þú átt að vera dauður helvítið þitt og hvar er krukkan?"  Í því kom þar að starfstúlka of sagði Jóni að fyrri herbergisfélagi hans væri dáinn og annar maður kominn í rúmið hinsvegar hefði hún verið beðin um að færa honum svolítið frá fyrrum herbergisfélaga og fór og náði í krukkuna góðu sem var rækilega merkt Jóni Kristófer.  Jón snéri sér þá aftur að manninum í rúminu og sagði; "Farðu bara að sofa aftur þú átt ekki að vera dauður strax."  Fór síðan alsæll út í leigubílinn og til Reykjavíkur með krukkuna.

Mörgum árum seinna þegar ég var fluttur á Bíldudal tól ég að mér sem aukastarf að aka vörubíl hjá Matvælaiðjunni hf. á kvöldin og landa úr rækjubátunum.  Einn báturinn var Kári BA-265 8 tonn að stærð og eigandi hans var einstaklega sérvitur og alltaf í vandræðum að fá mann með sér á bátinn, því bæði var báturinn einn af minnstu rækjubátunum og veiðarfæri af elstu gerð og afli þar af leiðindi lítill.  Eitt kvöldið sé ég að það er kominn nýr háseti á Kára BA-265 og fór út úr bílnum til að athuga með afla hjá þeim.  Þá reyndist aflinn einungis vera tveir kassar af rækju eða um 80-90 kíló og þar sem aflinn var svona lítill ákvað skipstjórinn að rétta þá upp á bryggjuna og hinn nýi háseti átti að taka við þeim og hjálpa mér síðan að lyfta þeim upp á vörubílinn.  Hásetinn reyndist vera Jón Kristófer Kadett og þar sem talsverð hálka var á bryggjunni tókst ekki betur til en svo að þegar Jón ætlaði að taka við seinni kassanum, þá rann hann til og missti hann í sjóinn og fór þar með 50% af aflanum í hafið.  Útgerðarmaðurinn og skipstjórinn brjálaðist af reiði og lauk þar með störfum Jóns Kristófers Kadetts, sem háseta á Kára BA-265.  Síðan hitti ég Jón aldrei áður en hann dó.


Einstakur prestur

Frá 25.11. 1975 til 15.11. 1977 var prestur á Bíldudal, sem heitir Hörður Þ. Ásbjörnsson.  Hann var ógiftur og barnlaus og bjó einn í prestbústaðnum, sem var nokkuð stórt hús, á tveimur hæðum með fjölda herbergja.  Ekki nýtti prestur nema hluta hússins og kvartaði mikið undan því hvað dýrt væri fyrir sig að borga kyndingu fyrir húsið, sem vissulega var rétt.  Honum var einnig tíðrætt um hvað væri mikill munur þar sem væri hitaveita og sagðist ætla að reyna að sækja um hitaveituprestakall.  Auðvitað var þetta erfitt fyrir prestinn fjárhagslega, því ekki voru launin svo há og á svona litlum stað var ekki mikið um aukaverk sem gátu bætt fjárhaginn.  Var þetta því óttalegt basl á prestinum Og svo kom til þessa að skýra átti eitt barna minna og var það gert á mínu heimili, ekki var gestafjöldinn mikill, aðeins nánustu ættingjar og vinir.  Hinsvegar hafði konan mín bakað talsvert mikið af kökum og tertum og því nóg til.  Prestur var nokkuð snöggur að afgreiða skírnina og horfði mikið á veisluborðið og var fljótur að byrja að gæða sér á veislumatnum og borðaði og borðaði.  Ég sagði við hann þú hefur greinilega verið svangur Hörður minn og hann svaraði um hæl "já heldur betur og svo ætla ég að reyna að borð svo mikið að ég þurfi ekki að hafa áhyggjur af kvöldmatnum."  Þegar allir gestir voru farnir sat séra Hörður eftir og spjallaði og var hann að segjast frá öllum sínum raunum og hvað hann hitti fáa og hvað sér leiddist mikið og hvað miklir peningar færu í að kynda prestbústaðinn.  Ég bauð honum þá að hann gæti komið og unnið í frystihúsinu hjá mér og þannig verið innan um fólk og kynnst fleirum, auk sem þetta færði honum auknar tekjur.  Hann lifnaði allur við og spurði hvenær hann mætti mæta og ég sagði honum að hann gæti mín vegna mætt á morgun og ég skildi útvega honum mat í hádeginu hjá konu sem rak slíka þjónustu og var með nokkra menn á mínum vegum í fæði.  Hann kvaddi okkur síðan alsælla með þessa lausn á sínum málum.  Ég hringdi síðan í verkstjórann hjá mér og lét hann vita að presturinn myndi mæta til vinnu næsta morgun ogvar það allt í lagi af hans hálfu.  Mitt fyrsta verk næsta morgun áður en ég mætti á mína skrifstofu fór ég í frystihúsið til að athuga með prestinn og viti menn hann stóð þarna í einu horninu og þvoði frystipönnur í gríð og erg og sá einnig um að koma hreinum pönnum þangað sem pökkunin fór fram og virtist alsæll með lífið.  Verkstjórinn sagði mér að presturinn væri búinn að lát flesta vita að það svæði sem pönnuþvotturinn fór fram, væri hans umráðasvæði og þangað mætti enginn koma nema með hans leyfi.  Gekk þetta nú allt nokkuð vel um stund, en svo fer verkstjórinn að segja mér að presturinn eigi það til að taka sér full langa matartíma og bað mig um að tala við hann, sem ég gerði og spurði prestinn af hverju hann gæti ekki mætta á réttum tíma úr mat eins og aðrir og hannfór að úrskýra málið og sagði" Jú sjáðu til ég get ekki verið að mæta í matinn í vinnufötunum eins og þeir gera sem eru í línubeitningunni og borða þarna líka, ég verð að hraða mér heim í hádeginu og skipta um föt og fara í jakkaföt áður en ég fer í matinn og svo verð ég að skipta aftur um föt áður en ég mæti til vinnu og tíminn er bara full stuttur."  Ég lét þá verkstjórann vita og bað hann að horfa framhjá þessu, sem hann taldi sjálfsagt að gera enda væri prestur hörkuduglegur.  Síðan kemur að því að páskarnir eru að koma og kemur prestur þá til mín og er heldur vandræðalegur og segir mér síðan erindið.  "Sjáðu til Jakob að nú eru að koma páskar og þá verður talsvert um messur og ég þarf tíma til að skrifa nokkrar ræður því ég er búinn að nota allt sem ég átti til og ég er svo þreyttur eftir hvern vinnudag að ég get ekkert skrifað þegar ég kem heim."  Ég sagði honum að það væri allt í lagi, því ekki væri ætlun mín að hann gæti ekki sinnt sínum preststörfum vegna mikillar vinnu og bað hann að láta verkstjórann vita og segja honum að ég hefði gefið honum frí alla páskavikunna.

Síðar þennan vetur þegar steinbítsvertíðin byrjaði fór að berast mikill fiskur að landi til vinnslu því við keyptum allan þann steinbít sem við gátum fengið á sunnanverðum Vestfjörðum og nauðsynlegt þótti að bæta við starfsfólki.  Ég réði 12 stúlkur á aldrinum 18-20 ára víða af landinu til vinnu.  En þá kom upp vandamál um hvar ég ætti að koma öllum þessum stelpum fyrir, því okkar verbúðir voru fullar.  Eftir að hafa hugsað þetta nokkuð lengi fékk ég þá hugmynd að ræða við prestinn sem hafði nægt húsnæði og boðaði hann á minn fund og bauð honum að við skyldum leigja af honum neðri hæð prestbústaðarins og til við bótar leigunni skyldi ég greiða allan kostnað við kyndingu og allt rafmagn fyrir húsið.  Presturinn tók þessu mjög vel og sá fram á verulegan bættan fjárhag.  Síðan fékk ég smiði til að taka í gegn neðri hæð hússins, mála þar allt, dúkleggja, og urðu þarna hinar bestu vistarverur.  Svo komu dömurnar og ég mætti á staðinn þegar þær fluttu inn og prestur tók á móti öllum og heilsaði með handabandi og kynnti sig.  Þegar stelpurnar voru að koma sér fyrir kom í ljós að eitt herbergi vantaði og þá sagði prestur það ekki vera neitt vandamál, hann myndi bara rýma eitt herbergi á efri hæðinni, því sér nægði alveg eitt herbergi og var það gert.

Ef mig hefði grunað að öll þau vandræði sem þetta átti eftir að skapa mér seinna hefði ég aldrei látið mér detta í hug að leysa húsnæðisvandræðin á þennan hátt.  Því þegar koma svona margar ungar og myndarlegar dömur á jafn lítinn stað, sækja ungir menn mjög í félagsskap þeirra og því fylgir síðan partý, ýmis gleðskapur ofl.

Eitt sinn er ég vakinn um miðja nótt við símhringingu og er þá presturinn í símanum og segi að ég verði að koma eins og skot, því það sé allt orðið vitlaust í húsinu, fullt af blindfullu fólki og tónlist spilið af fullum krafti og hann geti ekki náð að sofna.  Ég dreif mig á fætur og mætti á staðinn og það var rétt hjá presti að þarna stóð yfir mikill gleðskapur og presturinn búinn að læsa sig inni í sínu herbergi og þorði varla að koma út og þegar hann loksins kom fram sagði ég við hann að ég skyldi stoppa þetta í hvelli, en þá bað hann mig um að fara varlega því ekki vildi hann missa stelpurnar úr húsinu, því þær væru allar mjög indælar við sig.  Ég fór þá á neðri hæðina og henti öllum út sem ekki bjuggu þarna og hundskammaði stelpurnar og sagði þeim að fara að sofa því þær ættu að mæta í vinnu morguninn eftir.  Færðist nú ró yfir húsið og ég fór upp til að ræða við prestinn og vorum við rétt sestir niður þegar bíll kemur akandi að húsinu og skömmu síðar snarast inn séra Þórarinn Þór prestur á Patreksfirði, sem þá var prófastur í V-Barðastrandarsýslu en presturinn hafði einnig hringt í hann.  Þórarinn Þór sem var hin mesti húmoristi og fór nú að spyrja séra Hörð hvað hefði eiginlega skeð, hann sæi ekki betur en hér væri allt í besta lagi.  Séra Hörður svaraði honum þá því til að hann Jakob væri búinn að stoppa öll lætin en bætti líka við að stelpurnar ættu það til að fara um húsið bara í nærfötum, sem væri mjög óþægilegt fyrir sig að horfa á.   Þá  sagðist Þórarinn að það væri þá best að hann færi bara heim á Patreksfjörð aftur og þar sem ég var að fara líka urðum við samferða að útidyrunum, en þar stoppar Þórarinn og horfir lengi á séra Hörð og segir síðan;  "Séra Hörður, hér býrð þú með 12 ungum dömum og ert að kvarta og segðu mér nú eitt ert þú algerlega náttútlaus?"  Ekki urðu mikil svör hjá séra Herði og kvöddum við hann og fórum.  Ekki man ég hvað oft ég þurfti að vakna oft þennan vetur við símhringingu frá prestinum og fara og stilla til friðar í prestbústaðnum.

Í lok janúar 1976 var fyrirhugað að halda þorrablót á Bíldudal, sem var ein af þeim skemmtunum sem flest allir mættu á.  Seinnipart lagardagsins sem þorrablótið átti að vera hringir séra Hörður og segir mér að nú sé algert neyðarástand í húsinu.  Það flæði vatn út um allt og hann sé við það að gefast upp, ég sagði honum að það væri ekki nokkur leið að fá viðgerðarmann á þessum tíma en hann hélt áfram að biðja mig að koma.  Svo fór að lokum að ég gafst upp of sagðist ætla að koma og fór ég á staðinn og fann prestinn í geymsluherbergi á neðri hæðinni, þar sem hann var á fullu að ausa upp vatni í fötu, en stöðugt lak vatn niður úr loftinu.  Ég spurði hann hvað væri á efri hæðinni fyrir ofan þetta herbergi og sagði hann þá að það væri baðherbergið.  Ég fór þá upp og skoðaði undir baðkarið og sá að þar var plastlögn frá niðurfalli baðsins sem hafði farið úr sambandi, þannig að í hvert skipti sem hleypt var úr baðkarinu flæddi vatnið um allt gólf og lak síðan niður í geymsluna þar sem presturinn var að ausa upp vatninu og spurði hann af hverju væri verið að nota baðið svona mikið og sagði hann þá að það væru allar stelpurnar, því þær væru að fara á þorrablótið.  Ég sagði honum þá að láta þær hætta að nota baðið á meðan ég reyndi að koma þessu í samband.  Nei það gengur ekki sagði prestur, það eiga tvær eftir að fara í bað í viðbót og þær væru að flýta sér og hann myndi bara halda áfram að ausa upp vatninu þar til allar væru búnar.  Ég sagði honum þá að ég væri sjálfur að fara á þetta þorrablót og nennti því ekki að bíða og kvaddi og fór.  Eftir helgina sendi ég viðgerðarmann til að koma þessu í lag.

Eftir því sem tíminn leið batnaði sambúðin í prestbústaðnum  og stelpurnar fór að elda fyrir prestinn, þrífa hjá honum og jafnvel að þvo fyrir hann og horfðu með honum á sjónvarpið á kvöldin.  Var hann nú heldur betur ánægður með lífið.  Svo kom að því að ráðningartíma lauk og  þessar dömur fóru burt af staðnum.  Skömmu síðar hitti ég prestinn á göngu, en þá var hann hættur að vinna í frystihúsinu og ég spurði hvað væri að frétta hjá honum?  "Æ það eru ekkert nema leiðindi og einmannaleiki hjá mér síðan stelpurnar fóru og nú sæti hann einn í þessu stóra húsi og léti sér leiðast, auk þess, sem hann ætti aldrei til neina peninga því kyndingarkostnaðurinn væri svo mikill og nú væri hann alvarlega að hugsa um að segja starfi sínu lausu og vita hvort hann gæti ekki fengið hitaveituprestakall."  Árið eftir flutti svo séra Hörður frá Bíldudal og síðar frétti ég af honum við vinnu í kjötiðnaðarstöð SÍS á Kirkjusandi og greinilegt að hann hafði ekki fengið sitt langþráð hitaveituprestakall.  Sennilega hefur þetta verið ein mesta lífsgleði hans á ævinni þegar hann bjó með öllu þessu kvenfólki og vann við að þvo frystipönnur í frystihúsinu á Bíldudal.

 

 

 


Ekki einfalt að fara að lögum

Fyrir nokkrum árum var ég vélstjóri á netabát sem gerður var út frá Bíldudal og rérum við frá Ólafsvík, en aflanum var landað á Patreksfirði, þaðan sem honum var ekið til vinnslu á Bíldudal.  Þar sem þetta var saltfiskverkun, vildu þeir aðeins fá þorskinn og lönduðum við því öðrum tegundum á fiskmarkaðinn á Patreksfirði.  Það kom oft fyrir að við fengum bæði höfrunga og hnísur í netin sem fór yfirleitt fyrir borð aftur.  Svo kom fólk og fór að spyrja okkur um hvort við gætum útvegað höfrungakjöt.  Þar sem um borð hjá okkur var Færeyingur sem kunni vel til verka að skera kjötið af þessum skepnum, allt þetta höfrungakjöt gáfum við fólki.  Svo kom að því að þar sem þetta var svo vinsælt að okkur datt í hug að setja 1 höfrung á fiskmarkaðinn og vita hvort hægt væri að fá eitthvað verð á þetta.  Það vildi svo til að þegar við létum höfrunginn á fiskmarkaðinn voru menn frá Fiskistofu staddir á Patreksfirði og ráku augun í þennan höfrung og bönnuðu strax að hann yrði seldur og komu síðan um borð til okkar og tilkynntu skipstjóra að hann mætti ekki veiða höfrung nema hafa tilskilið leyfi til hvalveiða og yrði að taka höfrunginn aftur.  Skipstjórinn benti þeim á ákvæði í lögum um stjórn fiskveiða, þar sem skýrt er tekið fram að ekki mætti henda neinu í hafið aftur sem kæmi í veiðarfærin og skylt að koma með allt í land og það væri útilokað að forðast hvað kæmi í netin.  Við værum fyrst og fremst að veiða þorsk og þessir höfrungar sem kæmu í netin væru bara til vandræða.  Fiskistofumenn fóru þá inn í bíl sinn sem stóð á bryggjunni til að ræða málin og komu svo aftur um borð og sögðu; "Að þetta væri hið mesta vandræðamál" því við hefðum ekki leyfi til að veiða hval og mættum því ekki koma með hann í land og hvorki selja eða gefa höfrunginn.  En hvað varðaði þetta ákvæði í lögum um að koma skyldi með allan afla í land, þá væri átt við fisk en ekki hvali.  Skipstjórinn benti þá á að í lögunum væri ekkert undanskilið hvorki hvalur eða annað og þá kom svarið; "Ja við verðum nú að túlka þetta svona núna og passið þið ykkur bara á því að koma ekki með höfrung í land aftur, það verður bara að hafa það þótt þið hendið þeim í hafið aftur við vitum þá ekkert af því." Urðum við því að taka þennan höfrung aftur um borð og kasta honum í hafið þegar við vorum komnir út á rúmsjó aftur.

Vildi heldur drukkna sofandi

Veturinn 1998 vorum ég og sonur minn að róa á bát okkar Sigurbjörg Þorstein BA-165 sem var 38 tonna eikarbátur smíðaður 1948.  Báturinn var því orðin 50 ára gamall og vorum við að róa með línu frá Bíldudal og rérum oftast með 36 til 40 bala.  Þar sem ég var nýkominn úr aðgerð á fæti og var með fótinn í gifsi og gat þar af leiðandi ekki unnið á dekki og höfðum við feðgar þá verkaskiptingu að ég var skráður skipstjóri en hann vélstjóri og auk okkar var á bátnum með okkur ungur maður frá Bíldudal sem átti að verða vélstjóri.  Í einum róðrinum í janúar þegar við vorum að leggja línuna byrjaði að flauta viðvörun um sjó í vélarúmi, ég kallaði strax á son minn sem flýtti sér niður í vélarúm og kom upp aftur og sagði mér að það væri kominn svo mikill sjór í bátinn að við yrðum að hætta að leggja við næsta tengsli en þá yrðum við búnir að leggja 24 bala.  Þegar þar að kom, var settur belgur á endann og sonur minn fór aftur niður í vélarúm og þar sem veður var nokkuð gott NA 5-6 vindstig snéri ég bátnum og lensuðum undan vindinum á hægri ferð svo betra væri að athafna sig við að laga þetta og hinn væntanlegi vélstjóri fór líka til að aðstoða en kom fljótlega upp aftur og sagði við mig að við yrðum að fara strax í land því báturinn væri að sökkva.  Þar sem sonur minn var í raun hinn rétti skipstjóri sagði ég við drenginn að það væri enginn hætta á ferðum og rétt að sjá til hvort ekki tækist að lensa bátinn.  Þannig útbúnaður var í vélarúminu að lítil lensidæla var tengd við aðalvélina og gekk hún alltaf þegar aðalvélin var í gangi og ef enginn sjór var til að lensa var leitt inn á dæluna slef til að hún gengi aldrei þurr, auk þess var stór varadæla en reimin á henni var slitin og engin varareim til um borð en það sem sonur minn var að gera var að loka botnlokanum sem var fyrir dælu sem dældi sjó á dekk og aftengja hana og í stað þess að hún dældi frábotnlokanum  ætlaði  hann að láta hana dæla úr vélarúminu.   Þegar hinn væntanlegi vélstjóri sá að ekki yrði farið í land æddi hann að talstöðinni og sagðist ætla að senda út neyðarkall en ég stoppaði hann og sagði honum að hér sendi enginn út neyðarkall nema skipstjóri og við þyrftum ekki neina aðstoð því ef ekki tækist að þurrka bátinn værum við með tvo björgunarbáta um borð.  Vinurinn brást reiður við og sagðist ekki taka þátt í þessari vitleysu lengur og sagðist ætla að fara að sofa og rauk síðan fram í lúkar.  Svo fór að lokum að sonur minn kallar og biður mig að kveikja á spúldælunni og fór þá stax að dælast sjórinn úr bátnum og þegar þetta var komið klárt kom sonur minn upp úr vélarúminu og spurði um hinn væntanlega vélstjóra.  Ég sagði honum þá að hann hefði farið í koju því hann hefði talið öruggt að báturinn væri að sökkva og fór sonur minn þá að skellihlæja og sagði "Vill hann heldur drukkna sofandi."  Var bátnum snúið við og við sigldum að belgnum þar sem við höfðum hætt að leggja og ákváðum að leggja 10 bala í viðbót og gerðum það bara tveir, því ekki vildum við vekja hinn sofandi mann, sem væri sennilega að dreyma að hann væri dauður.  Þar sem stór hluti af línunni var búinn að fá nokkuð langa legu, var farið í endann þar sem við höfðum byrjað um morguninn og ætluðum að fara að draga.  Ég fór þá fram í lúkar og vakti þann sem var sofandi og þegar hann vaknar og kemur úr kojunni, spyr hann mig hvort við séum að verða komnir í land.  Nei,nei sagði ég við erum við fyrstu baujuna sem við lögðum í morgun og við hefðum einnig lagt 10 bala í viðbót svo það væru 34 balar sem við þyrftum að draga og hann skyldi drífa sig á dekk.  Hann stillti sér upp fyrir framan mig og steytti hnefann framan í mig og öskraði af bræði;  "Þið eruð snarbrjálaðir feðgarnir"   Síðan var byrjað að draga og gekk það allt vel en við vorum frekar seint í landi og lönduðum um 5-6 tonnum af góðum fiski.  Eftir löndun fór hin látni maður heim en við feðgar  gerðum við hina sjálfvirku lensidælu og allt var klárt í næsta róður sem var ákveðið að fara í kl:04 næsta morgun og þá mætti hinn látni maður sem enn virtist á lífi en sagði fátt þegar við sigldum úr höfn á Bíldudal.

Viðhorf til fatlaðra

Ég er fatlaður öryrki eftir alvarlegt slys á sjó, þótt mín fötlun hafi að mörgu leyti lagast eftir þrotlausa endurhæfingu á Reykjalundi.  Ég kom þangað í byrjun september 2003 bundinn í hjólastór og var nánast algerlega lamaður á vinstri hlið og gekk þaðan út á mínum eigin fótum um miðjan desember sama ár.  Meðan ég var bundinn í hjólastólnum kom upp sú staða að ég þyrfti að kaupa mér föt, því ég gat ekki notað buxur eða skyrtur ef það var eitthvað sem þurfti að hneppa.  Eldri dóttir mín sem er hjúkrunarfræðingur og bjó þá í Hafnarfirði kom og bauðst til að fara með mig í verslun og var ákveðið að fara í Hagkaup í Kringlunni þar sem hún taldi að auðvelt væri að fara þar um með hjólastólinn og fórum við þangað.  Það var ekki mikið mál að komast í verslunina, en þegar inn var komið tók hryllingurinn við.  Þar sem við vorum að leita að fötum fórum við auðvitað í fatadeildina og þar var svo þröngt á milli fatarekkanna að að meðan við fórum þar í gegn lamdist stöðugt hin og þessi föt í andlitið á mér og loksins komum við þar að sem föt sem ég hafði áhuga á voru og þar stoppuðum við.  Ekki sáum við neinn afgreiðslumann og biðum og biðum, sem endaði með því að dóttir mín gafst upp og sagðist ætla að fara og ná í einhvern til að aðstoða okkur.  Hún kom svo fljótt aftur og sagði mér að það væri afgreiðslumaður á leiðinni og kom hann skömmu síðar og sagði strax að við værum ekki á réttum stað því föt fyrir konur væru þarna og benti  í átt að kvennadeildinni.  Hún sagðist ekki vera að hugsa um nein fatakaup heldur væri það maðurinn sem sæti í hjólastólnum. Hannnnnn svaraði afgreiðslumaðurinn og varð eitt stórt spurningarmerki í framan og gekk síðan í burtu og var ekki að leyna því hve fáránlegt honum fannst að fatlaður maður þyrfti að nota föt.  Dóttir mín reiddist heiftarlega og öskraði á eftir þessum manni “Hverslags andskotans þjónusta er í þessari helvítis verslun.” Tók sig síðan til og náði í tröppu til að geta náð í föt sem voru upp í hillu og tók til við að sýna mér og þar sem ég var öruggur um stærð fundum við fljótt fötin sem ég var ánægður með og þá var eftir að fara að kassanum og borga því hvorugt okkar hafði áhuga á að dvelja þarna lengur þótt vissulega hefði ég haft áhuga á að skoða fleira og hefði sennilega verslað meira ef ekki hefði komið til þessi dónaskapur.  Þegar við loksins komum að kassanum lét dóttir mín fötin á afgreiðsluborðið og var henni strax bent á að þetta væru föt á karlmann en ekki konu, ég sá að reiðin sauð í dóttur minni sem tilkynnti þeim sem var að afgreiða á kassanum, að þetta væru þau föt sem verið væri að versla og hvort nokkur leið væri að fá að borga þau og rétti manninum mitt debetkort og þegar hún var síðan beðinn að kvitta sagði hún, það er hann og benti á mig sem þarf að kvitta.  Þar sem afgreiðsluborðið var nokkuð hátt sá ég ekki sitjandi í stólnum, afgreiðslumanninn en nú hallaði hann sér fram og leit niður til mín og sagði nú er það hannnnnnn sem er að kaupa fötin, rétti mér kortið og þann snepil sem ég þurfti að kvitta á sem ég með aðstoð dóttur minnar náði að kvitta á.  Þá var sagt takk fyrir viðskiptin, en dóttir mín stoppaði og horfði lengi reiðilega á afgreiðslumanninn og svo kom að því að hann spurði hva er eitthvað?  Hún svaraði nei,nei, ég var bara að velta fyrir mér hvort hér væru eingöngu vitleysingar við vinnu.  Það skal tekið fram að eftir að ég fór að ganga á ný hef ég aldrei farið inní þessa verslun og mun aldrei gera.

Að telja fiska

Eftir að ég lenti í alvarlegu slysi á sjó í september 2003 dvaldist ég á Landspítalanum í Fossvogi í 2 vikur áður en ég var sendur á Reykjalund.  Fyrstu dagana var ég algerlega rúmliggjandi en fór síðan að geta farið allra minna ferða í hjólastól.  Ég fór mjög oft fram í setustofu sem þarna var og hitti aðra sjúklinga og spjallaði við þá um hin ýmsu málefni.  Eitt sinn er ég kem þarna fram og þá eru tveir menn að þrasa um ráðgjöf fiskifræðinga, ég blandaði mér í umræðuna og komst strax að því að annar taldi að allt sem frá þessum fræðingum væri 100% rétt og þeim bæri að hlýða skilyrðislaust en hinn var að malda í móinn og taldi að taka ætti meira tillit til skoðana sjómanna.  Ég fór strax að benda þeim aðila sem lofaði fiskifræðingana, á að þetta væri nú ekki svona einfalt sem hann vildi auðvitað ekki samþykkja.  Þannig vildi til að í setustofunni var lítið fiskabúr með þó nokkrum fjölda fiska í, ég bað manninn að fara og telja fiskana í búrinu og sagði hann það vera lítið mál.  Eftir að hann hafði setið lengi við fiskabúrið og reynt að telja kom hann aftur og sagði að þetta væri ekki hægt því fiskarnir væru alltaf á hreyfingu og vonlaust að telja þá.  Ég spurði hann þá hvernig fiskifræðingar gætu þá talið alla fiska í hafinu og jafnvel greint hvað mikið væri af hverri tegund, þá svaraði hann því að þeir hefðu svo góð tæki og mikla tækni.  Ég benti honum þá á að hann hefði ekki síðri tækni sem væru hans augu og heili og gæti auðveldlega séð fiskana og hann svaraði strax að þessir fiskar væru á svo mikilli hreyfingu að þetta væri ekki hægt.  Ég spurði hann þá hvort hann héldi að fiskarnir í sjónum hættu að synda meðan fisfiskifræðingar væru að telja þá.  Hann sagði að þeir hlytu að taka prufur á ákveðnum svæðum og reikna út frá því og þá bað ég hann að fara að fiskabúrinu aftur og telja í einu horninu og reikna út frá því, sem hann gerði og kom svo aftur og sagði, þeir eru um 20-30 stykki.  Í því kom konan sem sá um kaffi ofl. í setustofunni og ég spurði hana hvort hún vissi hvað væru margir fiskar í búrinu.  Hún hélt það nú því hún hefði sjálf sett þá í búrið og sæi um að gefa þeim fóður og upphaflega hefðu verið settir 75 fiskar í búrið, en nokkrir hefðu drepist og hún myndi að þeir hefðu verið 3-4 svo alla veganna væru 70 fiskar í búrinu.  Ég sagði þá við manninn hvort hann gæti ímyndað sér hvað öll land helgihelgi Íslands væri í raun stórt fiskabúr því að stórum hluta næði það 200 sjómílur frá landi og allt niður á 500-600 faðma dýpi.  Það væri þetta fiskibúr sem fiskifræðingar væru alltaf að reikna út og fullyrtu að skekkjumörk væru mjög lítil.  En hann hefði reynt sjálfur að telja í þessu litla búri og fengið út að þetta væru 20-30 fiskar en nú væri staðfest að í búrinu væru alla veganna 70 stykki, þannig að skekkjumörkin hjá honum væru hátt í 50%.  Ég bað þá konuna að setja smá fóður í búrið sem hún gerði og um leið syntu allir fiskarnir í fóðrið og maðurinn horfði undrandi á og spurði afhverju gera þeir þetta?  Þá benti ég honum á að þetta væri alveg eins í hafinu að fiskurinn þar færi þangað sem hann fengi eitthvað að éta.  Þá var þessum blessaða manni nóg boðið og sagði að ég væri ruglaður og brunaði bálreiður í burt í sínum hjólastól.

Brandarar

Ég heyrði í dag tvo mjög góða brandara og get ekki stillt mig um að láta þá koma hér fram og vil taka fram að það var prestur sem var að segja mér og fleirum þessa tvo brandara svo ég verði ekki ásakaður um guðlast.

Bandarísk hjón voru á ferðalagi í Ísrael nánar tiltekið í Betlehem, þegar konan varð bráðkvödd og í framhaldi af því hafði eiginmaðurinn samband við útfarastofu og spurðist fyrir hvað kostaði að jarðsetja konuna og fékk að vita að það kostaði 150 dollara.  Hann spyrði þá hvað kostaði að flytja líkið til Bandaríkjanna og var sagt að það kostaði 5.000 dollara.  Eftir að hafa hugsað sig aðeins um sagðist hann ætla að láta flytja líkið heim.  Undrandi spurði starfsmaðurinn hjá útfarastofunni afhverju hann ætlaði heldur að eyða 5.000 dollurum í flutning á líkinu en láta jarðsetja það á svona helgum stað fyrir 150 dollara.  Maðurinn stamaði hikstandi út úr sér; "Ja, ég las í einhverri bók um mann sem var einmitt jarðaður hér en ekki tókst betur til en svo að á þriðja degi reis hann upp aftur."

Svo voru gömul hjón og konan andaðist í svefni og var úrskurðuð látinn af læknir og síðan fór gamli maðurinn að undirbúa jarðaför sem tókst nokkuð vel í alla staði nema þegar líkmennirnir eru að bera kistuna og koma að Sálnahliðinu á kirkjugarðinum tókst ekki betur til en svo að þeir ráku kistuna harkalega utan í hliðið og hrökk þá konan upp og við nánari skoðun var hún í fullu fjöri og lifði í 12 ár eftir þetta, en svo kom auðvita að því að hún andaðist og var úrskurðuð látinn af læknir eftir vandlega skoðun.  Gamli maðurinn fór nú að undirbúa jarðarför á ný og allt gekk eins og átti að vera en þegar líkmennirnir sem báru kistuna eru að nálgast Sálnahliðið á kirkjugarðinum, hleypur gamli maðurinn fram fyrir kistuna og segir; "Í Guðs bænum passið að reka nú ekki kistuna utan í hliðið." 


Að haga seglum eftir vindi

Ég hef sagt frá því áður hér í mínum skrifum að á sínum tíma var ég að gera út með syni mínum bát sem hét Sigurbjörg Þorsteins BA-65 og var stálbátur rúmar 100 brl. að stærð og vorum við oft á togveiðum og einn úr skipshöfninni var pólverji.

Eitt sinn erum við að togveiðum við Eldeyjarboða út af Reykjanesi, sonur minn var skipstjóri og ég stýrimaður, veður var frekar leiðinlegt 7-8 vindstig byrjaði sem NV-átt síðan N-átt og endaði í NA-átt.  Við höfðum verið að fiska þokkalega vel þarna en stöðugt var að bæta í veðrið,en þegar við hífum í eitt skiptið er greinilegt að talsvert er af fiski í og vorum við að áætla að þetta gæti sennilega verið hátt í 15-20 tonn.  Við byrjuðum að hífa aflann um borð og var í hverjum poka 2-3 tonn og allt var þetta stór og fallegur ufsi, þar sem veðrið var frekar leiðinlegt og við urðum að láfa bátinn flatreka undan veðrinu og trollið á síðunni lamdist stöðugt utan í bátinn og þegar við erum búnir að hífa 2-3 poka skellur trollið svo harkalega á síðunni með öllum þessum afla í og springur og við horfðum á eftir hátt í 10 tonnum af ufsa fljóta um allt.  Þar sem spáð var vaxandi veðri ákvað skipstjórinn að fara í land, bæði vegna veðurs og svo þurftum við líka að gera við trollið en það var ekki gott við að eiga um borð í ekki stærri bát og sérstaklega þegar veður var slæmt.  Við lönduðum alltaf í Njarðvík og þaðan fór fiskurinn á Fiskmarkað Suðurnesja.  Þegar við vorum búnir að ganga frá aflanum og öllu á dekki var farið í kaffi og síðan fór ég upp í brú og tók við af skipstjóranum, því ég átti að taka landstímið.  Þegar ég tek við stjórn bátsins var vindstaðan þannig að við vorum að sigla beint á móti veðrinu og voru því talsverð högg og læti, því saman fór vindur og talsverður sjór og gekk því ferðin talsvert hægt.  Seint um kvöldið kemur kokkurinn upp í brú til mín og færir mér nýlagað kaffi á brúsa og segir að hann hafi viljað koma með þetta áður en hann fari að sofa en bætir svo hlægjandi við að pólverjinn hafi beðið sig að spyrja mig hvort ekki væri hægt að breyta stefnu skipsins því það sé svo vont að sofa í þessum látum.  Hann sagðist hafa reynt að útskýra fyrir honum að það væri ekki hægt því við værum að sigla ákveðna leið, en pólverjinn segði alltaf, ég ekki skilja, ég ekki skilja.  Ég sagði honum að skila til pólverjans að það væri orðið stutt í Garðskagann og þegar við værum komnir þar fyrir myndi þetta lagast og fór hann þá frammí skipið til að sofa en þar voru þeir saman í klefa.  Þegar ég er búinn að beygja fyrir Garðskaga og set stefnuna inn Stakksfjörðinn byrjar talsverður hliðarveltingur og skömmu sinna sé ég að pólverjinn er á leið aftur eftir skipinu og hann kemur síðan uppí brú til mín og segir; "Kobbi ekki gott núna sofa kannski bara betra hafa sama áðan, allt í lagi aftur breyta"  Síðan lék hann með höndunum hvernig hefði farið um sig í kojunni, ég sýndi honum í siglingartölvunni hvaða leið við værum búnir að sigla og hvað við við ættum eftir.  Þá rak hann upp mikið undrunaróp haaaaaaaaaaaaaa og þar sem annar stóll var bb-megin í brúnni settist hann þar og sagði síðan; "Ég bara hér sitja,kannski bara sofa hjá bryggja".  Ég sagði að það væri allt í lagi þótt hann sæti þarna og sagði honum að það væri nú orðið stutt eftir og þegar við nálguðumst höfnina í Njarðvík ræsti ég skipstjórann og hann tók við.  Pólverjinn fór nú að lýsa fyrir skipstjóranum hvernig ástandið hefði verið hjá sér í kojunni á leiðinni til lands.   Síðan var skipið bundið og þar sem ekki var hægt að landa fyrr en um morguninn fóru allir að sofa og pólverjinn fékk loksins sinn langþráða svefn.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jakob Falur Kristinsson
Jakob Falur Kristinsson

Ég er fyrrverandi vélstjóri og útgerðarmaður en er nú 75% öryrki eftir slys á sjó 2003. Bjó lengst af á Bíldudal en flutti til Sandgerðis haustið 2005.  En er nú aftur fluttur á Bíldudal.  Að svo miklu leyti sem myndir á síðunni eru eftir Mats Wibe Lund, þá liggur fyrir tímabundið samþykki hans um birtingu hjá mér og þakka ég honum sérstaklega fyrir.  Mats á að sjálfsögðu hönundaréttin að öllum sínum myndum.  Vilja menn sjá fleiri myndir þá vísast á www.mats.is  Ég  var flokksbundinn í Frjálslynda flokknum og hef starfað þar, en sagði mig úr flokknum 24. apríl og gekk í Samfylkinguna.  Föðurætt mín er úr Arnarfirði og móðurættin frá Jökulfjörðum og Hornströndum og í báðum tilfellum, langt aftur í aldir.  Er ég því ekta Vestfirðingur.

Undir fyrirsögninni Færsluflokkar er flokkur sem heitir Vefurinn og ef smellt er á hann opnast síður þar sem ég er að skrifa ýmsar frásagnir.  Einnig er undir liðnum spaugilegt smá grín ofl. 

Ég leyfi öllum að skrifa athugasemdir við mín skrif.   En af gefnu tilefni hef ég ákveðið að þeir sem ekki kunna sér hófs í athugasemdum og nýta þær til persónulegra árása á mig og mína persónu, með allskonar skömmum og svívirðingum, mun ég hér eftir loka á slíka aðila.  Einnig mun ég henda út nafnlausum athugasemdum.  Því ég einn ber ábyrgð á því sem skrifað er á mína síðu.

jakobkr@internet.is     

GSM: 823-2954

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband