Færsluflokkur: Spaugilegt

Siggi Ben

Þegar ég var að alast upp á Bíldudal, bjó þar maður að nafni Sigurður Benjamínsson og alltaf kallaður Siggi Ben og þótti talsvert gott að fá sér í staupinu.   Kona hans Guðrún Sölvadóttir var kölluð Gunna Sölva.  Siggi Ben var húsasmíðameistari og byggði mikið af húsum á Bíldudal um miðja síðustu öld en seinni árinn vann hann á verkstæði sínu og smíðaði líkkistur.  Gunna Sölva þurfti að tala mikið og kunni alltaf nýjustu kjaftasögur og allar hennar frásagnir voru talsvert ýktar.

Þegar Siggi Ben varð 75 ára ákvað Gunna að halda mikla veislu og fékk margar af sínum vinkonum til að hjálpa sér að baka bæði brauð og kökur.  Gunna Sölva var vön að heimsækja nágrannakonu sína snemma morguns og færa henni nýjustu fréttir.

Daginn eftir afmælið mætti Gunna ekki í morgunkaffið hjá nágrannakonunni en birtist um hádegið og var þá mikið niðri fyrir.  Hóf hún nú að segja frá afmælisveislunni og sagðist aldrei hafa átt von á slíkum fjölda.  Útihurðin var eins og blævangur og féll aldrei að stöfum allan daginn.  Hún sagðist aldrei hafa lent í öðru eins og kökurnar og brauðið hvarf stöðugt ofan í gestina uns allt var orðið tómt, þrátt fyrir að hún hefði verið búinn að úrbeina tvö læri og sjóða til að eiga til vara sem álegg. En það sem bjargaði málunum var að ein vinkona hennar átti til nokkur brauð og fjögur úrbeinuð læri en það var allt borðað líka.  Ekki hafði hún tölu á öllum gestafjöldanum því atið var svo mikið.  Hún sagðist bara ætla að vona að hann Siggi sinn yrði dáinn áður en kæmi að næsta stóraafmæli, en þegar síðasti gesturinn fór og lokaði á eftir sér var ekki hægt að opna útidyrnar, því að í öllum látunum höfðu lamirnar á hurðinni hitnað svo mikið að þegar lokað var síðast bráðnuðu þær fastar.  Þess vegna hefðu þau ekki komist út fyrr en um hádegið.  Ég hefði aldrei trúað sagði Gunna hvað hann Sigurður minn er vinsæll og samt er maðurinn alltaf fullur og síðan dæsti hún yfir öllum þessum ósköpum.

Þegar Siggi Ben var að smíða líkkisturnar þá sópaði hann alltaf öllu saginu í eitt hornið og þar sem ekkert klósett var á verkstæðinu pissaði hann alltaf í hauginn, sem hann notaði síðan til að brenna í ofninum sem þar var til að hafa hita og þegar hann kveikti upp og fór að rjúka upp um skorsteininn þá barst hin hræðilegasta lykt um nágrennið.  Eitt sinn kom Siggi Ben heim með vínflösku en Gunna harðbannaði að honum að snerti á henni inn í húsinu svo hann fór út aftur með flöskuna en kom ekki heim aftur og Gunna var viss um að eitthvað hlyti að hafa komið fyrir manninn og fékk hóp af mönnum til að leita en það var eins og jörðin hefði gleymt hann.  Hann fannst hvergi og engin hafði séð hann.

 Þá datt leitarmönnum í hug að athuga á verkstæðinu en þar sást hann ekki heldur aðeins nokkrar líkkistur í röð.  Þá dettur einum í  að opna kisturnar og viti menn í einni lá Siggi Ben steinsofandi og tóm vínflaska við hlið han og þegar hann var spurðu hvað hann væri að gera þarna svaraði Siggi Ben;

"Nú veit ég hvernig þeim líður sem eru jarðaðir í mínum líkkistum og fara til himna".


Jósafat Arngrímsson

 Jósafat Arngrímsson. Jósafat Arngrímsson varð bráðkvaddur á heimili sínu í Dublin á Írlandi þann 13. júlí síðastliðinn. Hann var fæddur á Mýrum 12. maí árið 1933.

 

Þá er hinn merki maður Jósafat Arngrímsson látinn og blessuð sé minning hans.  Ég þekkti aldrei Jósafat en Það eru til margar sögur um þennan mann sem væri efni í heila bók, bæði satt og logið en ég kann bara lítið af þeim og læt það koma hér á eftir.  Eins og ég sagði þá þekkti ég manninn ekkert svo vel gæti verið að sumt af því sem ég skrifa hér á eftir sé ekki rétt og bið ég ættingja afsökunar á því.  Jósafat var einn af okkar bissnesmönnum sem skildi eftir sig spor hvar sem hann kom við sögu.  Slíkir menn eru að verða fá séðir í dag og margt af því sem hann gerði og var ásakaður fyrir telst löglegt í dag og er stundað af hvítlibba-drengjum með háskólapróf.  Jósafat var umsvifamikill í atvinnurekstri á Suðurnesjum á meðan hann bjó í Keflavík.  Ég held að hann hafi stofnað verslunina Stapafell sem enn er til.

Það fyrsta sem ég heyrði um þennan mann að hann lenti í vandræðum með eitt fyrirtæki sem hann rak og það fyrirtæki sá um þrif ofl. fyrir ameríska herinn á Vellinum.  Hjá þessu fyrirtæki störfuðu fjöldi manna enda verkefnið stórt.  Eitt árið fóru að koma kvartanir til Skattstjóra um að verið væri að leggja skatta á látna menn.  Þegar það mál var rannsakað kom í ljós að hjá þessu hreingerningarfyrirtæki Jósafats var fjöldi látinna mann á launaskrá og herinn borgaði Jósafat fyrir þá eins og aðra.  Mig minnir að þessu hafi lokið með sátt og Jósafat greiddi skattinum en var auðvitað ekkert að leiðrétta það við herinn enda var allt þrifið sem herinn hafði óskað eftir.

Þegar Jósafat var að hefja sinn atvinnurekstur var oft skortur á lánsfé og til að getað alltaf staðið í skilum með laun, fékk hann góða hugmynd og framkvæmdi hana.  Á þessum árum voru ekki til neinar tölvur og ekkert samstarf banka og sjóða og Reykjanesbrautin ekki komin var það því talsvert ferðalag að fara á milli Keflavíkur og Reykjavíkur.  Þá var einnig mjög algengt að símsenda peninga á milli staða um allt land.  Það sem Jósafat gerði var að hann fór á föstudagsmorgnum til Reykjavíkur og þar á pósthús og skrifaði gúmmítékka á tékkareikning sem hann hafði stofnað  einhverstaðar langt frá Keflavík mig minnir að hafi verið norður á Akureyri, sem dugðu fyrir laununum og símsendi til Keflavíkur og ók síðan til baka og fór á pósthúsið í Keflavík og fékk peningana útborgaða og greiddi sínu fólki launin.  Á þessum árum voru allar ávísanir frá sparisjóðum landsins sendir í Seðlabankann sem síðan sendi þá í viðkomandi sparisjóð og ef ekki var til innistæða sendi viðkomandi sparisjóður útgefanda tékkans bréf og tilkynnti að viðkomandi upphæð yrði að greiða fyrir ákveðinn tíma.  Það gátu liðið vikur þar til Jósafat fékk greiðsluáskorun frá sparisjóðnum.  Póstsamgöngurnar voru nú ekki betri þá.  Alltaf passaði Jósafat að eiga peninga sem hann gat símsent í viðkomandi sparisjóð svo ekki hlutust af þessu nein vandræði fyrir hann.  En eins og oft vill verða gerast menn full gráðugir og þar kom að þessi tékkahringur sprakk með látum.  Í framhaldi var gengið að Jósafat og missti hann allt sem hann átti og varð gjaldþrota.  En hann gafst ekki upp heldur flutti til Dublin á Írlandi og hóf að stunda þar ýmis fasteignaviðskipti og efnaðist vel.  Var hann vinsæll meðal sinna viðskiptavina enda maðurinn prúðmenni hið mesta og kom vel fyrir.  Viðskiptavit virtist vera manninum meðfætt.

Um 1980 geisaði borgarastyrjöld í Nígeríu og var stofnað ríkið Biafra og um leið lokaðaðist okkar mikilvægasti markaður fyrir skreiðarafurðir.  Nígería er auðugt land af olíulindum og áður en þessi viðskipti hættu voru Nígeríu menn að greiða hærra verð fyrir skreiðina pr. kg. en fékkst fyrir kílóið af þorski í neytendapakkningum í Bandaríkjunum.  Ég tók þátt í þessu skreiðarævintýri á Bíldudal á sínum tíma og hagnaðurinn af skreiðinni var ævintýralegur.  Hátt verð og kostnaður í lámarki.  En Það voru einmitt héruðin í Biafra sem borðuðu mest af skreið.  En nú var markaðurinn lokaður en þó tókst að selja skreið með því að múta stjórnmála- og embættismönnum í Nígeríu, ég man t.d. eftir að íslenska ríkið aðstoðaði útflytjendur á skreið með greiðslur á mútum og varði til þess nokkur hundruð milljónum.  Múturnar fóru fram í gegnum sendiráð okkar í London.  Þarna sá Jósafat ákveðið viðskiptafæri og kom sér upp góðum samböndum í Nígeríu og seldi skreið meðal annars frá Íslandi.  Norðmenn voru líka í sömu vandræðum og Íslendingar og sátu uppi með mikið magn af skreið, sem ekki seldist og þeir fréttu af Jósafat og höfðu samband við hann og seldi hann fyrir þá talsvert en Norðmennirnir ætluðu að plata Jósafat og sögðu alltaf að greiðslurnar fyrir mútur yrðu greiddar seinna.  Þetta var nærri því búið að rústa fjárhag Jósafats og hann hugsaði Norðmönnum þegjandi þörfina.

Nú hafði Jósafat samband við hina Norsku aðila og bauð þeim að selja fyrir þá alla skreið sem til væri í Noregi en fyrst þyrfti hann að fá afhent nokkur hundruð milljónir í dollurum í mútugreiðslur og bað þá að hitta sig í London.  Norsk yfirvöld höfðu af þessu nokkrar áhyggjur, því það var eins hjá þeim og á Íslandi að ríkið fjármagnaði mútugreiðslurnar.  En eftir mikinn þrýsting frá norskum bönkum sem áttu veð í skreiðinni var þetta samþykkt og þar sem um var að ræða mikla peninga sem átti að afhenda Jósafat voru menn úr utanríkisþjónustu Noregs sendir með seljendum á fund Jósafats.  Jósafat undirbjó þetta vel og setti nánast upp leikrit.  Í Englandi eru fjöldi herragarða sem menn hafa fengið í arf en ekki haft efni á að búa þar eða halda þeim við.  Nú leigði Jósafat einn slíkan og einnig nokkra leikara og leigði sér herbergi á einu dýrasta hóteli sem hann fann í London mútaði dyravörðum og þjónum og útskýrði fyrir þeim þeirra hlutverk.  Síðan beið hann á sínu herbergi eftir sendinefndinni frá Noregi.  Þegar þeir höfðu síðan samband sagði Jósafat þeim að koma á hótelið og spyrja eftir sér og þá kæmi hann niður í lobbýið og ræddi við þá.  Þegar Norðmennirnir koma síðan að hótelinu opnar prúðbúinn dyravörður bifreiðina og þeir spyrja eftir Mr. Arngrímsson og er þá hringt í Jósafat og skömmu seinna kom hann prúðbúinn eins og aðalsmaður og þjónar og dyraverðir hneigðu sig allir fyrir þessum tigna gesti.  Jósafat sagði þeim norsku að það væri siður á Íslandi að þegar menn væru að gera stóra samninga að bjóða mönnum heim og nú ætlaði hann að gera það og bað dyravörðinn að kalla á sinn bílstjóra og biðja hann að koma því ekki vildi hann fara í bílnum sem þeir norsku höfðu komið með, sem var bara venjulegur leigubíll.  Eftir smá stund kemur þessi stærðar limmósía með einkennisklæddum bílstjóra og dyraverðirnir opnuðu bílinn og Jósafat og þeir norsku fóru inn í bílinn.  Jósafat sagði við bílstjórann að hann þyrfti að skreppa aðeins heim og var þá ekið út á flugvöll og þar beið þyrla og einkennisklæddur flugmaður.  Norðmenn tóku efir því að þyrlan var merkt á báðum hliðum Mr. Arngrímsson og hugsuðu með sér að maðurinn hlyti að vera moldríkur.  Síðan var flogið í smástund og lent við þennan líka flotta herragarð, þar tók á móti þeim hópur af þjónum (allt leikarar) sem hneigði sig í bak og fyrir og flestir sögðu Welkome home Mr. Arngrímsson Jósafat bað flugmanninn að koma aftur eftir  3-4 tíma.  Síðan var gengið aðeins til hliðar og þar beið heilt veisluborð og kampavínflöskur í röðum og þjónar á fleygi ferð.  Þegar gestirnir höfðu borðað, sagði Jósafat hvort væri ekki rétt að snúa sér að viðskipunum og smellti fingrum og um leið kom þjónustuliðið og fjarlægði allt og á skömmum tíma var veisluborðið orðið að fundarborði.  Norðmennirnir voru búnir að innbyrða talsvert magn af kampavíni og koníaki af dýrustu gerð og nú treystu þeir Jósafat 100%.  Jósafat dró upp úr skjalatösku sinni sölusamning á allri norskri skreið en áður en hann afhenti þeim samninginn eftir undirskrift þá vildi hann fá peningana fyrir mútunum og fékk þá afhent skjalatösku með nokkrum milljónum dollara.  Hann sagði þeim að útvega stórt flutningaskip til að flytja alla skreiðina til Nígeríu og hann myndi láta þá vita hvenær skipið ætti að fara af stað.  Síðan kom þyrlan og aftur var flogið til London og Jósafat fór á sitt hótel en Norðmennirnir á flugvöllinn til að fara heim og voru nú heldur betur ánægðir að málin væru leyst.  Daginn eftir fór Jósafat til Duflin og þeir Norsku voru komnir heim og biðu eftir símtali um hvenær ætti að senda skreiðina.  En það símtal kom aldrei, ef þessi fjárhæð sem Jósafat fékk væri metinn á verðlagi í dag, væri óhætt að tala um nokkra milljarða.  Nú var Jósafat orðinn moldríkur maður og hóf aftur fasteignaviðskipti.

Næst sem ég frétti af Jósafat var að hann hafði keypt sér flutningaskip og sem skipstjóra fékk hann bróður sinn sem verið hafði prestur í Hrísey.  Skipið sigldi til Kólumbíu og var sagt að þar ætti að lesta kaffi ofl. en þegar skipið kom aftur til Englands var það galtómt og voru þeir bræður settir í varðhald því talið var að um smygl á fíkniefnum væri að ræða en það var sama hvað mikið var leitað og skipið nánast rifið í sundur að ekkert fannst.  Voru þeir bræður þá látnir lausir og fór bróðirinn til Noregs en Jósafat fór í mál við ensk yfirvöld vegna skemmda á skipinu og vann það og fékk talsverðar bætur.  En enn er ekki upplýst hversvegna skipið sigldi til Kólumbíu tómt og aftur til Englands tómt.  Það leyndarmál tóku þeir bræður með sér í gröfina.

Eins og ég segi í inngangi að þessari grein þekkti ég manninn ekkert og hitti hann aldrei þetta er bara byggt að viðtölum og sögum sem ég hef heyrt og sumt í þessu kann að vera ósatt, en í mínum huga var Jósafat Arngrímsson stórhuga og kjarkmikill í viðskiptum og nýtti sér aðstæður hverju sinni og ekki dettur mér í hug að ásaka hann um eitt né neitt.  Íslenskt viðskiptalíf í dag er ekki mjög frábrugðið viðskiptum Jósafats nema að nú eru svona viðskiptahættir löglegir. 


mbl.is Jósafat Arngrímsson látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ást á rauðu ljósi

Ég þurfti að fara til Reykjavíkur sl. föstudag og þá er umferðin slík að það mætti ætla að margir bílstjórar hefðu fengið 100 þúsund flog eins og Bjartmann söng um hérna um árið.  Ég var að aka eftir Bústaðarveginum og þegar ég kem að fyrstu umferðarljósunum er komið gult og ég stoppa.  Byrjar þá ekki bílstjórinn á bílnum fyrir aftan mig að flauta og flauta til að láta óánægju sína í ljós yfir því að ég stoppaði.  Hann ætlaðist til að ég svínaði yfir á gulu ljósi því hann var að flýta sér og þegar ég leit aftur fyrir bílinn sá ég manninn steyta báða hnefanna út í loftið, slík var reiðin.  Ég  fór þá út úr mínum bíl og labbaði til mannsins og spurði kurteislega hvort hann þyrfti að tala eitthvað við mig og flautið og handapatið hefði bent til þess.  "Nei hvæsti maðurinn á mig, þú áttir að fara yfir áðan og þótt komið væri gult ljós hefði ég sloppið líka".  Meðan við vorum að ræða saman skiptust ljósin og maðurinn öskraði á mig "það er komið' grænt og drullaðu þér af stað".  Ég spurði manninn hvort hann væri eitthvað veikur og afhverju honum lægi svona mikið á.  En á meðan við vorum að ræða þessi mál skiptust ljósin aftur og nú var komið rautt.  Maðurinn trylltist og öskraði á mig; "Sjáðu hvað þú ert búinn að geta helvítis asninn þinn og menn eins og þú ættu ekki að hafa bílpróf, helvítis andskotans djöfullulls vandræði"grenjaði maðurinn á eftir mér þegar ég fór aftur inn í minn bíl.  Svo kom auðvitað græna ljósið og ég fór af stað með brjálæðinginn fyrir aftan mig.  Svona er nú Ísland í dag í föstudagsumferðinni í Reykjavík.

Ein í viðbót af Hreppstjóranum

Eitt sinn var Hreppstjórinn að landa fiski úr nokkrum bátum og var á lyftara of auðvitað að flýta sér og allt í botni.  Hann tók fiskikörin við bryggjukantinn og færði þau til hliðar á bryggjunni áður en farið yrði með þau á hafnarvogina. Hafnarvörðurinn sem einnig var vigtarmaður var þarna staddur til að fylgjast með.  Hann talaði við skipverjana á einum bátnum og bað þá að gefa sér nokkrar ýsur í matinn og var það sjálfsagt.  Það var nýbúið að hífa upp þrjú fiskikör og hafnarvörðurinn fór á milli þeirra og bryggjukantsins til að ná í ýsuna, Þá kemur Hreppstjórinn á fullri ferð á lyftaranum til að taka fiskikörin en ferðin var svo mikil að körin runnu áfram og varð hafnarvörðurinn á milli karanna og bryggjukantsins með annan fótinn sem mölbrotnaði.  Eftir þetta þá varð hann að ganga með hækjur og með fótinn í gifsi í nokkra mánuði.  Nokkru síðar var Hreppstjórinn staddur á skrifstofunni hjá mér en þaðan sást vel yfir allt hafnarsvæðið og sáum við hafnarvörðinn koma höktandi á hækjunum og í gifsinu.  Ég spurði þá Hreppstjórann hvort honum þætti ekki leiðinlegt að hafa farið svona með manninn.  Það stóð ekki á svarinu; "Nei það er ekkert að honum, bara tóm uppgerð og ég get sagt þér það að það eru alltaf eintóm vandræði með þennan mann".  Þar með var málið afgreitt af hálfu Hreppstjórans.

Meira um Hreppstjórann

Ég skrifaði fyrir nokkrum dögum grein um Hreppstjórann, sem var lengi útgerðarstjóri hjá mér hann hafði ákveðið orðatiltæki sem hann notaði í sífellu en það var; "Ja það er gaman að þessu" og allir voru orðnir þessu vanir.  En stundum verður að passa sig á þessu.  Eitt sinn var jarðarför frá Bíldudalskirkju og að henni lokinni, var að gömlum og góðum sið boðið til erfidrykkju í félagsheimili staðarins og var þar fjölmennt.  Eins og oft vill verða við slíkar aðstæður er frekar fátt um umræðuefni.  Hreppstjórinn mætti að sjálfsögðu og settist við borð hjá nokkrum hóp af fólki og þar var verið að ræða um þann látna og alla þá sorg sem þessu fylgdi.  Hreppstjórinn var alltaf jafn hress og þegar hann sest við borðið og blandar sér í umræðuna en eftir smá stund fjarar umræðan út og til að koma einhverju af stað aftur segir Hreppstjórinn allhátt "Ja það er gaman að þessu".  Allir í salnum þögnuðu og störðu á manninn og hefði mátt heyra saumnál detta.  Hreppstjórinn lét ekki slá sig út af laginu heldur bætti við "Ja þetta er nú allt í góðu"

Hreppstjórinn

Á sínu, tíma þegar ég var framkvæmdastjóri fyrir útgerð og fiskvinnslu á Bíldudal var útgerðarstjóri hjá fyrirtækinu sem yfirleitt gekk undir nafninu Hreppstjórinn, en þá stöðu hafði hann fengið á sínum tíma og þótt þá væri búið að leggja þessi embætti um allt land, þá vildi hann samt halda í sinn titil.  Hreppstjórinn var dugnaðar maður og sinnti sínu starfi vel, en kappið var oft svo mikið að stundum var framkvæmt áður en hugsa málið til enda.  Ég ætla að segja hér frá tveimur skrautlegum atvikum sem komu fyrir í fljótfærni;

Annað skipið okkar var línu- og rækjubátur og eitt sinn fór hann til Reykjavíkur áður en byrjað var á rækjunni til að ná í nýtt troll ofl.  En fyrst þurfti að taka gamla trollið í land og voru menn á bátnum að velta því fyrir sér hvernig best væri að ná gamla trollinu í land og var talið að best væri að fá bíl með krana og hífa trollið í land.  Hreppstjórinn var staddur þarna líka og sagði það ekki vera neitt mál og best væri að hann stjórnaði aðgerðum.  Við áttum á þessum tíma Lödu-station bifreið sem var notuð til snúninga í Reykjavík ef einhver frá fyrirtækinu átti þangað erindi og nú var Hreppstjórinn á bílnum.  Hann sagði skipstjóranum að bakka skipinu upp að bryggjukantinum í horninu þar sem er við enda á Faxaskála og á móti olíubryggjunni, en þar er smá steyptur hallandi renna og síðan grjót báðum megin.  Skipstjórinn gerði það, en á skipinu var smá skutrenna.  Hreppstjórinn lét síðan setja enda í bobbingalengjuna og festi svo vel í Löduna, síðan bakkaði hann aðeins og gaf svo allt í botn og trollið flaug loksins úr skipinu en í stað þess að ná inn á steyptu rennuna féll það beint niður og kippti svo mikið i Löduna að litlu munaði að hún færi í sjóinn líka.  Nú kom skipstjórinn og sagði að þetta væri vonlaust og best að fá bíl með krana og hífa þetta upp, því trollið væri svo víða orðið fast í grjótinu, en Hreppstjórinn var ekki á því að gefast upp.  Þetta væri alveg hægt og nú sá hann að við vélarverkstæðið Gjörvi hf. stóð pallbíll og fór hann þangað og fékk bílinn lánaðan og nú átti þetta að koma því þessi bíll var með drif á öllum hjólum.  Það var síðan bundið í þann bíl en þrátt fyrir að allt væri gefið í botn skeði ekkert bíllinn bara spólaði og spólaði og reykjarmökk lagði af dekkjunum.  Þá komu menn hlaupandi frá Gjörva og vildu fá bílinn því þeir vildu ekki láta eyðileggja öll dekkin á bílnum og var honum þá skilað.  En Hreppstjórinn var ekki á því að gefast upp, nú sá hann strætisvagn sem stóð við biðstöð á Grandanum og þangað fór hann og kom þá í ljós að hann kannaðist við bílstjórann og bað hann nú um að strætisvagninn reyndi að draga trollið.  Bílstjórinn sagðist ekki geta það, því hann yrði að halda sinni áætlun og nú þegar væru komnir nokkuð margir farþegar inn í vagninn.  Það er bara betra sagði Hreppstjórinn, því á er vagninn bara þyngri og dregur betur.  Eftir mikið þras féllst vagnstjórinn á að gera eina tilraun, en ekki gat hann hreyft við trollinu og fór síðan sína leið.  Nú voru góð ráð dýr en ekki var Hreppstjórinn á því að gefast upp og fór niður að trollinu og losaði alla möskva, sem fastir voru í grjótinu og að því loknu kemur stór kranabíll akandi.  Hreppstjórinn stoppaði hann og bað manninn um að hífa fyrir sig trollið upp á bryggju.  Kranastjórinn sagðist ekkert mega vera að því hann væri á leið í ákveðið verkefni út á Granda.  En ekki gafst Hreppstjórinn upp og sagði að þetta tæki ekki nokkra stund með svona öflugum kranabíl og að lokum gafst kranastjórinn upp og sagðist ætla að gera þetta og spurði hvort þetta væri mjög þungt.  Nei,nei, svaraði hinn þú þarft ekki einu sinni að setja niður stoðirnar á krananum.  Kranabílinn fór þá á bryggjukantinn og byrjaði að hífa í trollið, en fljótlega fór kraninn að halla talsvert og voru hjólin á kranabílnum sem sneru frá bryggjunni kominn á loft og þegar hann var alveg við það að velta niður í höfnina, stökk kranastjórinn út brjálaður af reiði.  Skipshöfnin fylgdist með spennt hvort að kraninn ylti niður í höfnina, kranastjórinn gat teygt sig inn í kranann og slakað svo bíllinn stóð á öllum hjólum.  Hann hundskammaði Hreppstjórann og sagði að þetta væri miklu þyngra er hann hefði sagt.  Hreppstjórinn svaraði fullum hálsi og sagði að auðvitað hefði hann átt að setja stoðirnar niður.   Hvort hann vissi ekki að það væri stórhættulegt að vera að hífa á svona stórum krana án stoðanna.  Nú setti kranastjórinn stoðirnar niður og hífði allt draslið upp á bryggju og losaði síðan kranann og ætlaði í burtu.  Hreppstjórinn fór og talaði við hann og spurði hvort það ætti ekki að greið honum eitthvað fyrir þessa vinnu.  Nei sagði kranamaðurinn það nægir mér alveg að sleppa lifandi frá þér og ók í burtu.  Hreppstjórinn fór þá um borð og sagði við þá sem þar voru að eitthvað hefði hann nú verið skrýtinn þessi kranastjóri.  Lauk þá þessu ævintýri með rækjutrollið.

Hitt atvikið varð þegar togarinn okkar Sölvi Bjarnason BA-65 fór í slipp í Reykjavík og eftir að skipið var komið á flot, þurfti að fara með björgunarbáta, slökkvitæki ofl. í skoðun.  Hreppstjórinn var að sjálfsögðu viðstaddur til að fylgjast með og sjá til þess að allt væri nú gert rétt.  Honum fannst alveg tilvalið að nýta sunnudagsmorgun til að koma björgunarbátunum upp á bryggju svo þeir væru tilbúnir í skoðun á mánudagsmorgni.  Fékk hann 1. stýrimann  togarans með sér í verkið.  Tveir af gúmmíbátunum voru upp á brúarþaki og notuðu þeir krana á togaranum og var ætlunin að hífa bátana af brúarþakinu og á bryggjuna.  Stýrimaðurinn fór upp á brúarþak og losaði bátana og setti á þá stroffu og síðan var byrjað að hífa þannig bátana í land.  Þar sem togarinn lá með stjórnborðshliðina að bryggjunni, en kraninn var bakborðsmeginn þurfti að kippa í þá til að þeir næðu inn á bryggjuna.  Stýrimaðurinn var við kranann en Hreppstjórinn á bryggjunni.  Allt gekk vel með fyrri bátinn en þegar komið var að seinni bátnum kippti hreppstjórinn óvart í línuna sem var til að blása bátinn upp og skipti það engum togum að báturinn blést upp og skorðaðist fastur á milli borðstokksins og yfirbygginginnar á togaranum.  Það var sama hvað þeir reyndu ekki var nokkur leið að losa bátinn og þar sem þetta var á sunnudegi var talsverð umferð um höfnina af bílum og stoppuðu margir til að fylgjast með þessum tveimur mönnum að glíma við björgunarbátinn og höfðu gaman af.  Hreppstjórinn var orðinn rauður í framan og dró upp vasahníf og vildi skera bátinn lausan en stýrimaðurinn sagði að þá myndu þeir skemma bátinn og var því hætt við það.  Eftir að hafa hugsað málið og hringt í Gúmmíbátaþjónustuna var ákveðið að láta hann vera þar sem hann var og síðan yrði hleypt lofti úr honum á mánudagsmorgni þegar starfsmenn kæmu að sækja bátana.  Var því það sem eftir var dags uppblásinn gúmmíbátur þrælfastur um borð í Sölva Bjarnasyni BA-65 og vakti mikla undrun þeirra sem leið áttu um höfnina þennan dag.


Spaugstofan og Ólafur F. Magnússon

Mikið hefur gegnið á varðandi síðasta þátt Spaugstofunnar og þeir gagnrýndir fyrir að ráðast á Ólaf F. Magnússon, borgarstjóra og gera grín af hans veikindum og farið þar langt yfir strikið.  Ég horfði á þennan fræga þátt og fannst hann mjög góður.  Að fara yfir eitthvað strik í grínþætti er eitthvað sem ég ekki skil.  Hvar liggur þetta strik?  Auðvitað hefur fólki mismunandi húmor eins og gengur, en að tala um eitthvað strik sem liggi skýrt á milli þess hvað er húmor og hvað er ekki húmor, held ég að enginn viti hvar er.  Spaugstofan hefur undanfarið skemmt okkur með gríni um atburði liðinna viku og oftast gert það mjög vel og þótt ég hafi ekki hlegið að öllu, þá hefur mér aldrei fundist að verið væri að fara yfir eitthvað strik.  Fólk verður að athuga að Spaugstofan er grínþáttur og þar af leiðandi alltaf í stjórnarandstöðu bæði hjá ríki og borg, ef þeir væru ekki í stjórnarandstöðu væri þetta ekki grínþáttur, heldur áróðursþáttur.  Ekki gat ég séð neitt í þessum þætti þar sem verið væri að gera grín af veikindum Ólafs.  Heldur var grínið um allt fárið sem varð við meirihlutaskipti í borginni.  Það voru Sjálfstæðismenn sem byrjuðu á þessu tali um veikindi Ólafs og vildu ekki mynda með honum meirihluta nema að hann færi í læknisskoðun.  Á hinum fræga blaðamannafundi sem haldin var á Kjarvalstöðum var Ólafur spurður um sín veikindi og svaraði hann því til að slík spurning væri óviðeigandi.  Ef Ólafur hefði nú haft vit á því að segja frá sínum veikindum á Kjarvalstöðum líkt og hann gerði í þættinum Mannamál hjá Sigmundi Ernir Rúnarssyni sl. sunnudagskvöld, hefði málið þar með verið úr sögunni og enginn verið að velta því meira fyrir sér.  En hann valdi að þegja og vera nánast einfari í þessu máli og tók sér stöðu sem fórnarlamb árása og ofsókna.  Bara það eitt að Ólafur vildi ekki svara spurningu um sín veikindi á blaðamannafundinum varð til þess að fólk fékk á tilfinninguna að hann vildi leyna einhverju.  Sumir hafa gengið svo langt að segja þennan þáttur Spaugstofunnar sýna fordóma gagnvart fólki sem er með einhvern geðsjúkdóm.  En ef einhver hefur látið í ljós slíka fordóma, þá er það Ólafur F. Magnússon borgarstjóri með því að vilja ekki ræða um sín veikindi á blaðamannafundinum.  Ég er t.d. þunglyndissjúklingur eftir ýmis áföll í lífinu og þarf að taka reglulega lyf við því og skammast mín ekkert fyrir.

Það er eitt sem Ólafur Magnússon verður að skilja að um leið og hann verður borgarstjóri þá er hann um leið orðinn opinber persóna sem allir telja sig hafa rétt á að gagnrýna eða gera grín að og hann á ekki lengur neitt einkalíf.  Hélt hann kannski að hann gæti bara sest inn á sína borgarstjóraskrifstofu og fengi að vera þar algerlega í friði.  Hann hafði val um hvort hann vildi verða borgarstjóri eða fá að vera í friði með sitt einkalíf.  Svo kemur Ólína Þorvaldsdóttir í sjónvarpinu og vill gera mikið úr því að Ólafur eigi börn sem hafi sennilega ekki verið skemmt yfir þessum Spaugstofuþætti en hún virtist gleyma því að það var gert grín að fleirum í þessum þætti.  T.d. var Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson látinn líta út eins og bjáni sem öllu gleymdi og ekkert fann,  Björn Ingi var líka í þættinum og var að máta ný föt og með fullt af hnífum til að reka í bakið á mönnum.  Eiga þessir menn ekki líka börn.  Ég veit ekki hvað búið er að gera grín að mörgu fólki í þessum þáttum sem öll hafa átt börn.  Ólína stóð líka í miklum slag þegar hún var skólameistari Menntaskólans á Ísafirði og varð fyrir mikilli gagnrýni sem verður alltaf miklu verri á minni stöðunum þar sem návígið er meira.  Hlutu hennar börn skaða af því? Ég vona ekki.  Spaugstofan hefur meira að segja gert grín að sjálfum útvarpsstjóranum, Páli Magnússyni, sem er þó þeirra vinnuveitandi og jafnvel forseta Íslands.  Ég ætla segja að lokum;  "Haldið áfram Spaugstofumenn, Það er enginn stjórnmálamaður svo heilagur að ekki megi gera grín að honum og er þá Ólafur F. Magnússon ekki undanskilin."


Eftirminnilega ferð

Árið 1984 fórum við þrír félagar í ótrúlegt ferðalag sem átti eftir að vera ansi skrautleg og enn í dag skammast ég mín fyrir.  Auk mín voru þetta stjórnarmaður þess fyrirtækis sem ég var framkvæmdastjóri fyrir á Bíldudal og fyrrverandi framkvæmdastjóri Hraðfrystihússins á Patreksfirði sem þá var atvinnulaus.  Ferðin byrjað á því að við flugum frá Bíldudal til Reykjavíkur og gistum þar í nokkrar nætur á Hótel Sögu.  Á þessum tíma stóð yfir verkfall hjá opinberum starfsmönnum og á leið til Keflavíkurflugvallar var okkur sagt að óvíst væri hvort hægt yrði að fljúga en það slapp nú allt sem betur fer og fórum við frá Keflavík til Kaupmannahafnar og var ekki ætlunin að stoppa þar neitt, heldur ætluðum við að fljúga til Hamborgar og fara þaðan til Bremenhaven þar sem togarinn sem ég gerði út var að selja fisk.   En þar sem nokkur bið var á næsta flugi til Hamborgar tékkuðum við okkur inn og okkar farangur en ákváðum síðan að skreppa í miðbæ Kaupmannahafnar á meðan við biðum og tókum leigubíl og settumst síðan inn á pöbb og fengum okkur bjór.  Patreksfirðingurinn fór nú að segja okkur að hann þyrfti að kaupa sér skó, við hinir sögðum honum að skreppa í næstu skóbúð og við myndum bíða þarna á meðan.  En eitthvað varð vinurinn vandræðalegur og sagði að annar hvor okkar yrði að koma með og lána sér fyrir skónum.  Við störðum undrandi á manninn og sögðum "Hvað er þetta maður ertu ekki með neina peninga með þér og nær öll ferðin framundan?"  Hann fór í vasann og dró upp nokkra seðla sem okkur taldist til að væru um 10 þúsund íslenskar krónur og sagðist ekki hafa átt til meiri peninga.  Okkur var farið að líða vel af bjórnum og sögðum honum að það væri ekkert mál að kaupa fyrir hann skó og fórum við nú allir í næstu skóverslun og keyptum skó á manninn.  Ákváðum síðan að drífa okkur aftur út á flugvöll til að missa ekki af fluginu, þegar þangað kom var okkur sagt að bíða því það væri seinkun á fluginu og svo væri búið að bóka alltof marga í þetta flug svo við yrðum að vera nógu snöggir þegar kallað yrði í flugið okkar, en ef við misstum af þessu flugi, væri önnur vél tveimur tímum seinna.  Nú var ekkert annað að gera en að fara á barinn og kaupa sér bjór og koma sér vel fyrir þar sem við sáum vel á skiltið sem sýndi allar brottfarir.  Nokkuð mörgum bjórum seinna með tilheyrandi salernisferðum, kom allt í einu á skiltið flugið til Hamborgar og við heyrðum kallað í hátalarakerfið tilkynningu um brottför.

Patreksfirðingurinn ákvað að bíða eftir næsta flugi því hann nennti ekki að standa lengi í biðröð, en við hinir hlupum við af stað og var þá komin alllöng biðröð sem þokaðist hægt inn í flugvélina, þegar við erum við það að stíga um borð er tilkynnt að aðeins sé pláss fyrir einn farþega í viðbót.  Þar sem ekki var tími til að ræða málið mikið og köstuðum við upp pening um hvor okkar fengi þetta lausa sæti og vann ég og fór um borð í vélina og kom mér vel fyrir, ég var með poka sem var fullur af bjór, víni og sígarettukarton sem ég hafði keypt í fríhöfninni á Kastrup.  Fljótlega eftir að vélin var komin í loftið fór ég að gæða mér á þeim varningi sem var í pokanum og varð fljótt mjög drukkinn.  Þetta var flugvél sem var mjög lík þeim vélum og flugu til Bíldudals fór ég fljótlega að ruglast og fannst um tíma að við værum að fljúga til Bíldudals en fannst þó ég ekkert kannast við neitt þegar ég horfði út um gluggann á flugvélinni.  Þegar við lentum síðan í Hamborg og var ég þá orðinn mjög drukkinn og aðstoðaði flugfreyjan mig að komast út úr flugvélinni og í gegnum tollafgreiðslu og út úr flugstöðinni og náði ég þar í leigubíl.  Þegar ég er sestur inn í bílinn spyr bílstjórinn, hvort ég sé ekki með neinn farangur og áttaði ég mig þá á því að ég hafði steingleymt honum og fórum við saman aftur inn í flugstöðina og þar skröltu 3 ferðatöskur á færibandinu og átti ég eina en ferðafélagar mínir hinar og tókum við þær allar og fórum aftur í leigubílinn.  Síðan var haldið af stað og þegar ég sagði bílstjóranum sem var Tyrki, að aka mér á ákveðið hótel í Bremenhaven, horfði hann lengi undrandi á mig og sagði að það væri nú ansi langt og hvort ég ætti til peninga fyrir bílnum, ég sagði honum að hafa engar áhyggjur af því og spurði hvað þetta myndi kosta og þegar hann sagði mér upphæðina, bað ég hann að fara í næsta hraðbanka, þar sem ég tók út pening út af kreditkorti mínu og lét hann hafa nálægt því sem þetta átti að kosta.  Þar sem komið var kvöld og orðið dimmt þegar við ókum út úr Hamborg var lítið að sjá nema skógur og aftur skógur.  Þegar við höfðum ekið þó nokkuð lengi fannst mér þetta orðið eitthvað skrýtið og fór að spyrja Tyrkjann hvort hann rataði þetta örugglega, ég væri hræddur um að hann væri að fara einhverja vitleysu.  Eitthvað misskildi hann mig og taldi að ég væri að kalla sig vitleysing og reiddist heiftarlega, og við lentum í hörku rifrildi, sem endaði með því að hann stoppaði allt í einu bílinn og skipaði mér út og ég gæti bara gengið.  Það var nú ekki gæfulegt að fara þarna út langt inn í einhverjum skógi og kolsvarta myrkri, ég bað hann að láta ekki svona og sagðist vera búinn að borga honum fyrir að aka mér til Bremenhaven og ég færi ekkert út og hann skyldi bara halda áfram.  Hann rauk þá út úr bílnum og opnaði hurðina mín megin og skipaði mér út og enn neitaði ég og átti nú alveg eins von á að lenda í slagsmálum við hann.  Þar sem hann var orðinn brjálaður af reiði bað ég hann að setjast aftur inn í bílinn og ég skildi gefa honum eitt karton af sígarettum og féllst hann loks á það.  Eftir þennan atburð þorði ég ekki að nefna neitt frekar hvað varðaði aksturinn og svo fór að lokum að við komum til Bremenhaven og þá var eftir að finna hótelið, sem hafðist þó að lokum og bílstjórinn hjálpaði mér með allar töskurnar inn í lobbýið og viti menn situr ekki þar skipstjórinn á togaranum og hef ég sjaldan verið eins feginn að sjá nokkurn mann.  Tyrkinn kvaddi mig og bað mig að fyrirgefa ef hann hefði verið dónalegur og gerði ég það og varð ekki meira mál úr því.  Skömmu síðar er kallað á mig í símann og voru það ferðafélagarnir sem höfðu orðið eftir á Kastrup og sögðust þeir vera komnir til Hamborgar en fyndu ekki töskurnar sínar.  Ég sagði þeim að ég væri með þær og allt væri í lagi, ég væri bara að fá mér bjór með skipstjóranum en skipshöfnin væri vist að skemmta sér á einhverri búllu og við myndum bíða eftir þeim þarna á hótelinu.  Um tveimur tímum síðar komu svo ferðafélagarnir og höfðu þeir lent í því sama og ég, að leigubílstjóri þeirra gekk illa að finna hótelið og sá sem var frá Bíldudal og sat aftur í bílnum og var orðinn nokkuð drukkinn og hafði sofnað, þegar hann síðan vaknaði heldur betur ringlaður spurði hann hvað væri að ske og fékk þá að vita að bílstjórinn fyndi ekki hótelið, leit hann út um gluggann og sagði "Þetta hús er Umferðarmiðstöðin og haltu bara aðeins áfram og þá sést Hótel Saga" síðan steinsofnaði hann aftur.  En á hótelið komust þeir og eftir að við vorum búnir að fá okkar herbergi var ákveðið að fara með skipstjóranum og hitta skipshöfn togarans og taka þátt í gleðskapnum.  Ekki man ég mikið eftir þessari nótt en vaknaði þó morguninn eftir á mínu hótelherbergi, svo kom auðvitað að því að togarinn fór af stað heim og við félagarnir héldum áfram okkar ferðalagi en áður hafði ég farið í verslunarleiðangur og keypt föt á börnin mín og eiginkonu og fékk að setja það um borð í togarann.  Því mér fannst alveg nóg að vera með eina ferðatösku.  Nú var tekin lest frá Bremerhaven til Hamborgar og fórum við þar á gott hótel og eftir að við höfðum fengið okkar herbergi og fengið okkur að borða var ákveðið að kíkja aðeins á næturlífið og fórum við á svokallaðan Rebenhofsbahnen sem er aðal skemmtanahverfi Hamborgar og röltum við þar um og ákváðum síðan að fara inn á einn staðinn.  Fengum þar ágætis borð og pöntuðum okkur bjór, fljótlega komu þrjár dömur og spurðu hvort þær mættu setjast hjá okkur og var það sjálfsagt mál og einnig þegar þær báðu um að fá að panta eina vínflösku á borðið.  Ekki höfðum við mikinn áhuga á þessum dömum og ákváðum að fá reikninginn og fara.  Þegar reikningurinn kom brá okkur heldur betur, því flaskan sem þær höfðu pantað og mér fannst nú bara vera sykurvatn, kostaði 40 þúsund ísl. krónur og við neituðum að borga og ætluðum að ganga út en erum þá stoppaðir af þremur stórum náungum sem skipa okkur aftur að borðinu og borga.  Sáum við þá að ekkert þýddi að þrasa um neitt, við höfðu greinilega verið plataðir herfilega svo við áttum ekkert annað svar en að borga helvítis reikninginn.  Ekki dró þetta neitt úr okkur kjarkinn við að halda ferðalaginu áfram og fórum við á hótelið til að sofa og ætluðum að ræða framhaldið um morguninn eftir.  Í morgunmatnum sátum við allir frekar þreytulegir og lystalausir en þjóninn bjargaði okkur með nokkra bjóra og þótt fólk í kringum okkur væri að horfa eitthvað undarlega á þessa þrjá menn sem fengu sér bjór með morgunmatnum vorum við ekkert að velta því fyrir okkur.  Við hresstustum allir vel af bjórnum og fórum nú að plana næsta áfanga og niðurstaðan varð sú að panta flug frá Hamborg til London og gistingu þar.  Á flugvellinum í London tókum við leigubíl á hótelið og tékkuðum okkur inn og komum dótinu inná herbergin og síðan var ákveðið að fara í miðborgina og skoða lífið og þótti okkur að sjálfsögð kurteisi að koma við á hinum ýmsu pöbbum og fá okkur bjór.  Eftir mikið labb um hinar ýmsu verslunargötur var þreytan farin að segja til sín og því ákveðið að taka leigubíl heim á hótelið og borða þar um kvöldið og fara snemma að sofa.  Vorum við síðan nokkra daga í London á þessu fína hóteli og alltaf sama rútínan, borðaður morgunmatur og drukkinn bjór með og þurftum við nú ekki lengur að hafa fyrir því að biðja sérstaklega um bjórinn, því að um leið og við vorum sestir við eitthvað borð í morgunverðarsalnum kom þjóninn alltaf með bjórinn áður en kaffið og morgunmaturinn kom.  Síðan var farið niður í miðborg og kíkt á krárnar og yfirleitt borðuðum við hádegismat á einhverri þeirra.  Á þessum tíma var sá siður í Englandi að ölkrárnar máttu ekki selja áfenga drykki á milli 12 til 16 en við vorum nokkuð fljótir að finna út úr því að inn í flestum hliðargötunum voru krár sem ekkert mark tóku á þessu banni og stunduðum við þær stíft.  Þarna var auðvitað nokkuð um ansi skuggalegt lið, en við skiptum okkur ekkert af því og vorum alltaf látnir í friði, nema að kannski einn og einn sem bað okkur að hjálpa sér fyrir einum bjór og það þótti okkur nú lítið mál.  Áður en við fórum að heiman hafði elsti sonur minn sem var 14 ára beðið mig að ef ég færi til London að kaupa fyrir sig íþróttagalla og hafði fundið í einhverju blaði heimilisfang þar sem saumaðir voru búningar á liðið Liverpool, sem var hans uppáhaldslið.  Daginn áður en við ætluðum að fara heim var ákveðið að fara og kaupa þennan íþróttagalla og þótt félagar mínir fullyrtu við mig að ég gæti fengið svona galla í íþróttarbúð varð mér ekki haggað, gallinn yrði keyptur á þeim stað sem drengurinn hafði beðið um.  Var það því úr að eftir morgunmatinn pöntuðum við leigubifreið og ég sýndi bílstjóranum miðann með heimilisfanginu.  Hann fór eitthvað að nöldra að þetta væri svo langt að það væri miklu ódýrara fyrir okkur að fara alla þessa leið með neðanjarðarlest.  Ég sagði honum að við mættum ekkert vera að því og hann skyldi bara aka okkur á þennan stað og fá greitt fyrir.  Síðan var haldið af stað og ekið og ekið, þegar hann hafði ekið í rúman klukkutíma spurði ég hann hvort við færum nú ekki að nálgast staðinn og fékk það svar að enn væri um hálftími eftir.  Nú var þynnkan farinn að gera vart við sig auk þess sem mig var farið að langa óstjórnlega í sígarettu, en skömmu síðar stoppar bílinn fyrir framan mjög hrörlegt hús og segir að þetta er hérna og benti á húsið.  Við sáum að það var pöbb hinum megin við götuna og þar sem við töldum að sennilega yrði erfitt að fá leigubíl aftur á þessum stað báðum við bílstjórann að bíða eftir okkur en sögðum að við þyrftum að skreppa inn á pöbbinn fyrst.  Hann fór eitthvað að nöldra að þetta kostaði nú þegar orðið talsverða upphæð og greiddum við honum hana og sömu upphæð til að aka okkur til baka auk þess 50 pund fyrir að bíða eftir okkur.  Var þá sest inná pöbbinn og eftir nokkra bjóra var heilsan komin í nokkuð gott lag og við töldum nú að okkur væru allir vegir færir og ekkert mál að fara ínn í húsið.  Húsið virtist vera nánast að hruni komið og utan á því var mjög hrörlegur járnstigi og þegar við komum inn var þar ekki nokkurn mann að finna en greinilegt að þarna bjuggu útigangsmenn og því nokkuð ljóst að þarna fengist ekki neinn íþróttagalli.  Vorum við því fljótir að forða okkur út og ég bað leigubílstjórann að aka okkur í næstu íþróttarbúð og þar keypti ég loksins íþróttagallann.  Síðan fórum við aftur á hótelið og fórum að huga að því hvernig við kæmumst heim.  Eftir nokkuð mörg símtöl var ljóst að verkfallið á Íslandi hafði sett flestar áætlanir úr skorðum, en samt var möguleiki á að fá far daginn eftir með vél frá Glasgow en við yrðum að fljúga þangað með bresku félagi og taka síðan íslenska vél heim.  Morguninn eftir lögðum við af stað og á flugvellinum í London var okkur sagt að við gætum tékkað allan farangurinn beint til Keflavíkur og þyrftum þar af leiðandi ekkert að hugsa um hann í Glasgow.  Þegar við komum til Glasgow var nokkurra klukkustunda bið eftir fluginu heim og þar sem við vissum að fríhöfnin heima var lokuð vegna verkfallsins og engin fríhöfn á vellinum í Glasgow, ákváðum við að skreppa aðeins í borgina og kaupa bjór ,vín og sígarettur og fengum við leigubíl og báðum hann að aka okkur í slíka verslun.  Þegar þangað kom báðum við um þrjá klassa af sterkasta bjórnum sem til væri í búðinni,  þrjár lítersflöskur af Vodka og þrjú karton af sígarettum. Konan sem þar var við afgreiðslu sagði því miður þá er ekki til bjór í kössum aðeins dósir.  Patreksfirðingurinn brást hinn versti við og sagði við konuna á ensku "Helvítis kjaftæði er þetta, bjórinn hlýtur að koma í þessa verslun í kössum en ekki bara ein og ein dós"  Konan sagði þá "I see you mean a boxes from a stock from lagers."  Þá fengum við loksins það sem okkur vantaði, auk þess sem Patreksfirðingurinn keypti slatta af wisky-pelum sem hann tróð í alla vasa á frakkanum sem hann var í.  Nú var brunað á flugvöllinn aftur og bar þar tími fyrir nokkra bjóra áður en yrði farið að innrita í vélina, en að því kom nokkru síðar og þegar röðin kom að okkar félögum og við beðnir að láta farangurinn á vigtina og þar sem okkar farangur hafði verið innritaður í London vorum við aðeins með bjórkassana en pokana með víninu og tóbakinu ætluðum við að hafa sem handfarangur.  Sú sem var að innrita okkur horfði undrandi á bjórkassana og spurði "Hva eruð þið ekki með neitt annað en þetta?"Nei ,nei aðeins þetta sögðum við og tókum eftir að fólkið í kringum okkur horfði all undarlega á okkur en við fórum síðan um borð um flugvélina.  Eftir eðlilegan flugtíma var lent í Keflavík og töldum við að nú værum við öruggir og komnir heim.  En annað átti nú heldur betur eftir að koma í ljós.  Þegar við erum að fara í gegnum tollskoðun reka tollverðir augun í að bjórinn er mjög sterkur og skoðuðu síðan í pokana og sögðu jæja þetta er allt í lagi þótt bjórinn sé eitthvað yfir mörkunum, en biðja okkur aðeins að bíða og fara að yfirheyra Patreksfirðinginn og spyrja hvort að öruggt sé að hann sé ekki með neitt í vösunum og hann harðneitar og fara þeir þá að leita á honum og tína úr frakkanum hvern wiskypelan eftir annan og segja við okkur hina að fyrst þetta hafi komið upp verði þeir nú að fara algerlega eftir reglunum varðandi bjórinn.  Þeir yrðu að taka eina kippu úr hverjum kassa og nú ætluðum við aldeilis að vera sniðugir og sögðum þeim að þar sem við værum ekki komnir inn í landið ætluðum við að drekka þessa bjór kippu áður en við færum í gegn.  Þá sögðu þeir okkur, þar sem við værum viljandi að valda töfum yrðum við að greiða allan kostnaðinn við að láta þá bíða eftir okkur.  Ákváðum við þá að sætta okkur við orðinn hlut og fórum í gegn.  En Patreksfirðingurinn sem reyndar var fæddur og uppalinn í Keflavík þekkti því flesta þessa tollverði og taldi sig ansi valdamikinn innan ákveðins stjórnmálaflokks, hreytti út úr sér:  "Þið þurfið ekki að mæta í vinnu á morgun, ég fer beint í að láta reka ykkur alla."  Þegar út var komið beið þar enn flugrútan og bílstjórinn hundskammaði okkur og allir voru að spyrja um hvað hefði verið að ske hjá okkur í tollinum.  Við kusum að segja ekki eitt einasta orð á leiðinni til Reykjavíkur og þegar þangað var komið fórum beint á Hótel Sögu.  Daginn eftir flugum við tveir til Bíldudals en hinn þriðji fór heim til sín í Keflavík.   Þar með lauk þessari ferð.  Ég man ekki hvað oft við þurftum að hringja heim til að fá hækkaða heimildir á okkar Visakortum en það var ansi oft auk þess sem að umboðsmaðurinn í Bremenhaven og sá um söluna úr togaranum hafði lánað mér persónulega talsverða peninga.  Þegar heim var komið og kostnaður tekinn samann þá hafði þessi ferð kostað okkur 1,5 milljónir á mann og lenti sá kostnaður að mestu á okkur Bílddælingunum, því sá þriðji átti aldrei til neinn pening.  Ég vildi að ég ætti þann pening í dag.


ÁT.V.R

Mikið hefur verið rætt og deilt um hvort leyfa eigi sölu á léttum vínum og bjór í matvöruverslunum og sitt sýnist hverjum.  Ég er einn af þeim sem er hlynntur því að fleiri en ÁTVR fái að selja áfenga drykki.  Þeir sem ætla sér að dekka áfengi finna alltaf leið til að nálgast það og svartamarkaðurinn fyrir þessa vöru blómstrar, ákveðnir leigubólstjórar stunda slíka sölu í stórum stíl, einnig þeir sem hafa til þess aðstæður að smygla áfengi til landsins.   Þótt ég sé nú hættur að nota áfengi er ég ekki svo fordómafullur að ætlast til þess að aðrir geti ekki náð í þessa vöru.  Ef ég ætla að standa mig í mínu bindindi verð ég að vera það sterkur sjálfur að geta horft upp á aðra njóta þess að drekka áfengi.  Ég get ekki ætlast til að allir aðrir fari í bindindi þótt ég geri það, slíkt væri ekkert nema eigingirni og sjálfselska.  Ég ætla að segja ykkur smá sögu hvaða afleiðingar það getur haft að þurfa að gera sér sérstaka ferð í ákveðna verslun til að kaupa áfenga drykki en þetta skeði þegar ég var mjög virkur alkahólisti og var á árumum milli 1980-1990. 

Einu sinni sem oftar þurfti ég að skreppa á Patreksfjörð eftir vinnu á föstudegi til að fara í apótek að ná mér í lyf, en þá var búið að loka apótekinu á Bíldudal.  Einnig var nýbúið að opna útsölu frá ÁTVR á Patreksfirði.  Þegar ég hafði fengið lyfin afgreidd og ætlaði að fara strax til baka, fór ég að hugsa að kannski væri nú rétt að að líta við í þessari nýju verslun en þangað hafði ég aldrei komið áður.  Það var jú kominn föstudagur og þá var þáverandi eiginkona mín alltaf vön að hafa eitthvað mjög gott í matinn og mikið myndi það nú gleðja hana ef ég kæmi nú með eina rauðvínsflösku til að hafa með matnum og við myndu eiga hnotarlega kvöldstund saman.  Það var ekki að mig langaði í vín því á þessum tíma var ég í bullandi afneitun um að ég væri alkahólisti, ég ætlaði aðeins að gleðja konuna og fór því í verslun ÁTVR og var fljótur að finna rauðvínið og ætlað síðan að fara heim, en þá skaut þeirri hugsun niður í kollinn á mér að ég vissi ekkert hvað yrði í matinn svo það væri líklega best að kaupa líka eina hvítvínsflösku og bætti einni slíkri við í körfuna og síðan hugsaði ég að það væri sennilega best að bæta við einum kassa af bjór, það gengi með öllum mat.  Næst fór ég að hugsa að ef kæmu nú gestir þetta kvöld sem oft skeði, þá væri það nú bölvaður dónaskapur að geta ekki boðið þeim í glas, ég var jú framkvæmdastjóri fyrir stærsta fyrirtæki staðarins og ætti að hafa efni á að bjóða gestum í glas, þá var bætt einum lítra af vodka í körfuna og svona bara til öryggis tók ég tvær.  En það var ekki víst að allir drykkju vodka svo ég tók líka eina flösku af wisky líka og hugsaði með mér að ef enginn kæmi í heimsókn þá myndi ég bara geyma þetta, því engin hætta var á því að þetta skemmdist.  Afgreiðslu stúlkan raðaði þessu öllu fyrir mig í góðan kassa og ég borgaði og fór síðan með allt góssið út í bíl og ók af stað heim.  Á leiðinni var ég að hugsa hvað eiginkonan yrði nú ánægð þegar ég byði upp á léttvín með kvöldmatnum.  Þegar heim var komið og ég kem inn starir konan á mig og segir "Hvað ertu að gera með allt þetta vín maður?"  Mér krossbrá því augnasvipurinn sem ég fékk var slíkur að greinilegt að henni mislíkaði þetta stórlega og setti ég því kassann inn í geymslu og þegar við vorum sest við borði til að borða kvöldmatinn, spurði ég hana hvort hún vildi ekki þiggja smá rauðvín með matnum.  "Jú takk sagði hún en ég ætla að láta þig vita eitt að þú skalt ekki voga þér að fara að drekka allt þetta vín og verða blindfullur alla helgina"  Nei nei elskan sagði ég, ég ætla bara að fá mér rauðvín eins og þú, hitt ætla ég ekki að snerta.   Eftir matinn aðstoðaði ég við uppvaskið og síðan settumst við í sjónvarpsherbergið og fórum að horfa á sjónvarpið.  Eftir smá stund sagði ég mikið væri nú notalegt að fá sér eitt glas af vodka meðan við horfum á sjónvarpið og spurði konuna hvort hún vildi líka en svarið var já takk og fór ég þá og blandaði í tvö glös og spurði konuna hvort henni væri ekki sama þótt ég kæmi bara með aðra vodkaflöskuna og kókflösku til að þurfa ekki alltaf að vera að hlaupa inn í geymslu.  Jú allt í lagi sagði hún.  Ég var fljótur að klára fyrsta glasið og blandaði strax í annað en konan rétt dreypti á sínu glasi.  Síðan man ég ekki meir en vaknaði næsta morgun í sófanum fyrir framan sjónvarpið og alveg að drepast úr þynnku.  Ég læddist inn í svefnherbergis álmuna og sá að konan steinsvaf í hjónarúminu.  Hver andskotinn hugsaði ég með mér ég hef sofnað yfir sjónvarpinu og til að koma heilsunni í lag fór ég í geymsluna og blandaði mér sterkan drykk af vodka og eftir að hafa klárað það fóru nú hlutirnir að lagast.  Ég dreif mig í að laga kaffi til að hafa tilbúið þegar eiginkonan vaknaði og þegar kaffið var tilbúið fékk ég mér rúmlega hálfa könnu og fór svo og fyllti könnuna af vodka og settist við eldhúsborðið og fór að lesa blöðin.  Eftir smá stund kom konan fram og ég sagði við hana ég er nýbúinn að laga kaffi elskan, hún settist á móti mér við borðið með kaffi og sagði ertu enn að drekka.  Nei hvernig dettur þér það virkilega í hug sagði ég, sjáðu það er bara kaffi í könnunni hjá mér.  Og hvenær byrjaðir þú á því að drekka svart kaffi spurði konan, ég fékk mér bara svart kaffi núna til að hressa mig betur upp því ég er hálf slappur.  Það er ekkert skrýtið sagði hún, því í gærkvöldi drakkstu einn lítir af vodka og þegar ég fór að sofa var ekki nokkur leið að vekja þig, þú varst hreinlega steindauður af víndrykkju og nú snertir þú þetta ekki meira í dag.  Það er enginn hætta á því svaraði ég, þótt ég hafi drukkið aðeins of mikið í gærkvöldi þá er ég nú enginn alki.  Nú verður það bara kaffi í dag.  Jæja sagði konan ég ætla að fara og klæða mig og fór aftur inn í svefngerbergið.  Ég var snöggur að skjótast aftur í geymsluna og setti nú könnuna hálfa af vodka og fyllti síðan með svörtu kaffi og sat við að lesa blöðin þegar konan kom fram aftur.  Svona gekk þetta meira og minna allan laugardaginn og um kvöldmatinn var seinni vodkaflaskan búinn líka og ég orðin blindfullur aftur.  Þegar við fórum síðan að borða kvöldmatinn opnaði ég hvítvínsflöskuna en nú vildi konan ekki þiggja eitt glas og sagði að hún vissi að ég hefði verið að drekka meira og minna allan daginn og væri orðinn blindfullur og sagðist ekki hafa áhuga á að drekka vín með mér, ég gæti aldrei hagað mér eins og maður,  Varð því úr að ég drakk hvítvínið einn, en um kvöldið komu svo kunningjahjón okkar í heimsókn.  Þá spurði konan mig í hæðins tón ætlar þú ekki að bjóða gestunum í glas?  Jú auðvitað sagði ég og fór og náði í wiskyflöskuna og nokkra bjóra en hugsaði með mér hvernig er eiginlega með þetta fólk getur það aldrei verið heima hjá sér.  Það varð úr að við drukkum wiskflöskuna og tvær bjórkippur og mikið djöfull sá ég eftir þessu renna niður í gestina en það var þó smá huggun að ég átti enn eftir tvær bjórkippur og hugsaði með mér ef mér hefði dottið þetta í hug að það kæmu gestir, þá hefði ég auðvitað keypt meira af víni.  Þetta kvöld komst ég þó í rúmið og vaknaði á sunnudagsmorgun skelþunnur og áður en konan vaknaði læddist ég fram og fékk mér nokkra bjóra og um hádegi var bjórinn búinn.  Þegar konan kom fram sá hún að ég var með bjór og sagði "Þú ert ekki hættur enn."  Ég er aðeins að laga heilsuna sagði ég og bætti síðan við ég er að hugsa um að leggja mig aðeins og fór í rúmið og steinsofnaði og vaknaði ekki aftur fyrr en kallað var á mig í kvöldmat.  Það var með miklum herkjum að mér tókst að borða smávegis því lystaleysið var algert.  Um kvöldið horfðum við hjónin síðan á sjónvarpið en ég fór fljótlega að sofa því næsti dagur var vinnudagur.  Þegar ég vaknaði á mánudagsmorgun var ég ekki alveg laus við þynnkuna en dreif mig samt í vinnu.  Ef ég hefði getað keypt þessa einu léttvínsflösku í næstu matvöruverslun hefði ekki verið verslað meira áfengi og það sem átti að verða ein notaleg kvöldstund breyttist í fyllirí heila helgi.


Rétt viðbrögð

Ég hef áður skrifað sögur um hinn mæta mann Guðmund Þ. Ásgeirsson, sem lengi bjó á Bíldudal og gekk alltaf undir nafninu "Dubbi"og ætla ég að bæta hér einni við;

Á sínum tíma var nokkuð algengt að Reykjavíkurborg samdi við lítil sveitarfélög á landsbyggðinni um að taka við fólki sem gekk undir nafninu "Vandræðafólk"vegna þess að þetta fólk gat ekki búið innan um venjulegt fólk í félagslegum íbúðum vegna eilífra vandræða.  Þetta skapaði þessum litlu sveitarfélögum talsverða peninga, því Reykjavíkurborg greiddi fyrir að taka við þessu fólki auk þess sem borgin lagði fram fé til framfærslu.  Ekki þýddi að láta þetta fólk hafa peningana beint, því þá var öllu eytt í vín og vitleysu.  Ein slík fjölskylda kom til Bíldudals og voru það ung hjón með tvö lítil börn.  Fulltrúa barnaverndar var falið að sjá um öll innkaup fyrir fólkið því ekki var hægt að treysta þeim fyrir peningum.  Börnin fór síðan í skólann á staðnum og allt virtist í besta lagi en ekki stunduðu foreldrarnir neina vinnu.  En fljótlega fóru kennarar skólans að taka eftir að börnin fóru að mæta í skólann öll blá og marinn, auk þess að þau hættu að koma með nesti í skólann eins og önnur börn og voru greinilega vannærð.  Við viðtöl við kennara sögðust börnin að þau hefðu dottið eitthvað og voru greinilega hrædd og vildu ekkert segja.  Var þá boðaður fundur í barnaverndarnefnd og foreldrar boðaðir á fundinn, en áður hafði sá fulltrúi sem sá um innkaupin fyrir fjölskylduna, kannað hjá verslunum hvort foreldrarnir kæmu þangað og kom þá í ljós að þar voru þau tíðir gesti og alltaf að skila mat og fá endurgreitt í peningum sem þau notuðu síðan til áfengiskaupa.  Foreldrarnir mættu á fundinn en þrættu bæði fyrir að leggja hendur á börnin en neyddust til að viðurkenna að þau hefðu vissulega skilað mat eftir það þeim hafði verið sýnt bréf frá versluninni sem staðfesti það.  Nú lofuðu þau að allt skyldi verða betra og þetta kæmi aldrei fyrir aftur.  En þrátt fyrir þetta sótti fljótlega í sama farið og kennarar létu barnaverndarnefnd vita og hún fundaði á ný með foreldrum.  Þegar kennarar létu síðan barnaverndarnefnd vita í þriðja sinn gafst nefndin upp og samþykkt var að fá Reykjavíkurborg til að taka við þessu fólki aftur.

Dubbi, sem bjó rétt hjá þessu fólki frétti af öllum þessum vandræðagangi og barnaverndarnefnd hefði gefist upp og vissi að það eitt, að senda fólkið aftur í burtu leysti ekki vandamálið, heldur yrði bara níðst á aumingja börnunum á öðrum stað.  Hann tók sig þá til og fór og heimsótti hjónin, kynnti sig og var ekkert nema kurteisin og sagðist nú bara vera kominn sem góður nágranni til að bjóða þau velkomin og ef þau vantaði eitthvað gætu þau alltaf leitað til sín með aðstoð.  Hann sagði síðan hressilega;"Hvernig er það eiginlega á þessu heimili er manni ekki einu sinni boðið upp á kaffi?".  Jú,jú, sagði konan sestu bara við eldhúsborðið meðan ég laga kaffið, sem hún síðan gerði. Dubbi settist við borðið og bað manninn að setjast á móti sér til að spjalla saman á meðan beðið væri eftir kaffinu og gerði maðurinn það.  Hann byrjaði á því að spyrja Dubba, hvort hann gæti lánað þeim pening, en þá rak Dubbi upp sinn fræga tröllahlátur og át upp eftir manninum, ha lána ykkur pening?  Er ekki hægt að fá að vera góður vinur ykkar og bjóða aðstoð nema þurfa að borga ykkur fyrir?  Voruð þið alin upp af eintómum hálfvitum?  Nei vinur ég á ekki neinn pening en ef þú veist það ekki þá er besta leiðin til að fá pening sú að stunda einhverja vinnu og ef þið viljið skal ég hringja strax í hann Kobba vin minn og hann getur örugglega útvegað ykkur næga vinnu og það strax á morgun.  Nei, nei, svaraði manngreyið, okkur vantar enga vinnu því í raun erum við sjúklingar.  Í því kom konan með kaffið og hellti í könnur fyrir þá báða og spurði Dubba hvort hann vildi mjólk út í kaffið?  Nei sagði Dubbi það er best svona, bara svart og nógu heitt.  Síðan horfði Dubbi lengi grafalvarlegur á manninn og sagði síðan mjög hugsi, já svo þið eruð sjúklingar, það er ekki gott og ekki get ég nú gert neitt í því en kannski get ég gert eitthvað til að hjálpa ykkur.  Svo allt í einu tekur Dubbi kaffikönnuna sem hann var að drekka úr og skvetti öllu framan í manninn sem veinaði af sársauka því hann hafði brennst talsvert og loks stundi hann upp hvað ertu að gera maður, ertu algerlega brjálaður?  Þá hló Dubbi aftur sínum tröllahlátri og sagði , já ég er kolbrjálaður.  Síðan lyfti hann sínum stóra hnefa og lamdi af öllu afli í eldhúsborðið og svo fast var  höggið að borðið brotnaði í tvennt.  Síðan óð hann að manninum of þreif í hálsmálið hjá honum og lyfti honum upp með annarri hendi og sagði; "Þið eruð engir helvítis sjúklingar, þið eru ekkert nema andskotans aumingjar og vonandi  skilur þú núna hvernig börnunum þínum líður þegar þið eruð að berja þau."  Síðan henti hann manninum út í horn og sagði við konuna og þú ert sko ekkert skárri og ef ég frétti af því aftur að börnin ykkar sem eru blásaklaus og varnarlaus, koma aftur í skólann blá og marinn, þá kem ég aftur og slít af ykkur hendurnar.  Það er margoft búið að ræða við ykkur en þið virðist ekkert skilja nema sársaukann og hann get ég veitt ykkur án greiðslu.  Síðan rauk hann á dyr og skellti svo harkalega á eftir sér að rúðan í útidyrunum brotnaði.  Eftir þetta atvik fóru börnin að mæta í skólann með sitt nesti eins og önnur börn og aldrei sá neitt á þeim.  Um vorið yfirgáfu svo þessi hjón Bíldudal en alltaf reyndu þau forðast að koma nálægt húsi Dubba eða honum sjálfum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jakob Falur Kristinsson
Jakob Falur Kristinsson

Ég er fyrrverandi vélstjóri og útgerðarmaður en er nú 75% öryrki eftir slys á sjó 2003. Bjó lengst af á Bíldudal en flutti til Sandgerðis haustið 2005.  En er nú aftur fluttur á Bíldudal.  Að svo miklu leyti sem myndir á síðunni eru eftir Mats Wibe Lund, þá liggur fyrir tímabundið samþykki hans um birtingu hjá mér og þakka ég honum sérstaklega fyrir.  Mats á að sjálfsögðu hönundaréttin að öllum sínum myndum.  Vilja menn sjá fleiri myndir þá vísast á www.mats.is  Ég  var flokksbundinn í Frjálslynda flokknum og hef starfað þar, en sagði mig úr flokknum 24. apríl og gekk í Samfylkinguna.  Föðurætt mín er úr Arnarfirði og móðurættin frá Jökulfjörðum og Hornströndum og í báðum tilfellum, langt aftur í aldir.  Er ég því ekta Vestfirðingur.

Undir fyrirsögninni Færsluflokkar er flokkur sem heitir Vefurinn og ef smellt er á hann opnast síður þar sem ég er að skrifa ýmsar frásagnir.  Einnig er undir liðnum spaugilegt smá grín ofl. 

Ég leyfi öllum að skrifa athugasemdir við mín skrif.   En af gefnu tilefni hef ég ákveðið að þeir sem ekki kunna sér hófs í athugasemdum og nýta þær til persónulegra árása á mig og mína persónu, með allskonar skömmum og svívirðingum, mun ég hér eftir loka á slíka aðila.  Einnig mun ég henda út nafnlausum athugasemdum.  Því ég einn ber ábyrgð á því sem skrifað er á mína síðu.

jakobkr@internet.is     

GSM: 823-2954

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband